Gorm´s Pizza vol. 2

Eins og kom fram í færslunni um Gorm´s pitsur finnst okkur gaman að versla í Torvehallerne. Grænmetið þar er oftast ótrúlega fallegt og vel hægt að gera góð kaup. Um daginn keyptum við risa basilíkuplöntu í leirpotti á 35 kr. danskar – það voru góð kaup! Í sömu ferð keyptum við eldrauða og fallega tómata.

Um kvöldið gerðum við okkur enn eina Gorm´s pitsuna – pitsa með hálfþurrkuðum tómötum, mozzarella og basilíkupestói.

Í basilíkupestó þarf: 100 g fersk basilíka (án stilka), 3 msk. ristaðar furuhnetur, 8 msk. ólífuolía, 2 saxaðir hvítlauksgeirar, 60 g rifinn parmesan, 45 g mjúkt smjör (má sleppa og nota olíu í staðinn) og salt.

Setjið basilíku, ólífuolíu, fururhnetur, hvítlauk og salt í matvinnsluvél og maukið þar til blandan er slétt.

Setjið í skál og hrærið nú parmesanostinum og smjörinu út í. Smjörið er ekki nauðsynlegt en mér finnst áferðin á pestóinu verða fallegri með smjörinu, sérstaklega ef það á að nota pestóið með heitum mat því þá bráðnar smjörið.

Uppskriftin að hálfþurrkuðu tómötunum er úr bókinni Góður matur – gott líf í takt við árstíðirnar sem við fengum í jólagjöf. Bókin er æðisleg, ótrúlega falleg og full af spennandi uppskriftum. Á móti 1 kg af tómötum þarf 3 hvítlauksgeira, 70 ml. ólífuolíu, 2 1/2 msk. balsamediki, 1 tsk. salt og 1/2 msk. sykur.

Klæðið ofnskúffu að innan með álpappír. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að vökvinn snerti ofnskúffuna og brenni við hana (það gerðist í fyrstu tilraun hjá mér – ekki góð skemmtun að þrífa ofnskúffuna eftir á!!). Skerið tómatana í tvennt, þvert í gegn svo það sjáist stjörnulaga mynstur á skurðfletinum. Raðið tómötunum þétt á ofnskúffuna. Skerið hvítlaukinn í þunnar sneiðar og stingið í tómatana. Hrærið saman ólífuolíu, ediki, salt og sykur og hellið jafnt yfir tómatana.

Látið tómatana í 140-150°C ofn á blástur og stingið trésleif (eða slíkt) á milli stafs og hurðar svo rakinn komist út úr ofninum. Þurrkið tómatana í u.þ.b. 2 klukkutíma (það er þó mjög misjafnt eftir stærð á tómötum) eða þar til litur þeirra hefur dökknað töluvert.

Pitsudeigið er það sama og í færslunni um Gorm´s pitsu með kartöflum og geitaosti. Smyrjið pitsusósu yfir botninn og tætið niður ferskan mozzarella ost. Bakið pitsuna þar til osturinn er byrjaður að bráðna en dreifið þá hálfþurrkuðum tómötum yfir pitsuna. Látið pitsuna aftur inn í ofn og bakið þar til osturinn er orðinn gylltur. Basilíkupestó og klettasalat eftir smekk!

Verði ykkur að góðu!

Gorm´s Pizza með kartöflum og geitaosti

Torvehallerne er einn af uppáhalds stöðum okkar hér í Kaupmannahöfn. Það er yfirbyggt markaðstorg sem var opnað hér í Kaupmannahöfn í september á síðasta ári. Þangað förum við oft um helgar, verslum í matinn eða skoðum girnilegan mat – enda er úrvalið ansi skemmtilegt þar: súkkulaðibúðir, bakarí, kjöt og fiski mangara, kaffihús, matsölustaðir og margt annað skemmtilegt.

Í bás G1, H1 fást ofboðslega góðar eldbakaðar pitsur, Gorm’s pitsur. Um daginn fór ég á bókasafnið og fékk þar bókina hans Gorm’s, Pizza, að láni. Við biðum því ekki lengi að gera fyrstu tilraun að Gorm´s pitsum hérna heima! Pitsan Dennis Special varð fyrir valinu en á henni er geitaostur, kartöflur, rósmarín og mozzarella – skemmileg samsetning sem kemur virkilega á óvart (á jákvæðan hátt)!

Það tekur sinn tíma að búa til pitsudeigið en kvöldið áður, eða jafnvel 2 kvöldum áður, þarf að setja í fordeig.  Gorm notar tipo ’00’ hveiti (og ég gerði það líka) en það er svosem hægt að nota hvaða hveiti sem er. Í fordeigið þarf: 1/2 dl. vatn, 3 g ferskt pressuger, smá sykur og ’00’ hveiti þar til deigið er orðið mátulega fast (samt án þess að vera hart eða þurrt). Hrærið hráefnunum saman, deigið í skál og látið standa yfir nótt í ísskápnum.

Tipo '00' hveiti

Í pitsudeigið þarf: ca. 1 dl. vatn, 5 g pressuger, fordeigið, 1/2 tsk. sykur, 150 g. tipo ’00’ hveiti, 65 g gróft durumhveiti (líka kallað semolina), 1/2 tsk. salt og 1/2 msk. ólífuolía.

Hrærið vatn, ger, fordeig og sykur saman. 75 g ’00’ hveiti og 65 g durumhveiti út í deigið og hnoðið í smá stund. Síðan olíu og salti bætt út í og að lokum 75 g ’00’ hveiti (látið smá hveiti út í deigið í einu þar til deigið er mátulega blautt – það á ekki að vera þurrt en heldur ekki of blautt). Nú þarf að hnoða deigið vel, helst í 8 – 10 min. í hrærivél, eða þar til áferðin er slétt og  teygjanleg. Deigið er látið lyfta sér í ísskápnum þar til það hefur tvöfaldast. Best er að leyfa deiginu að lyfta sér í ísskápnum yfir nótt en það er þó ekki nauðsynlegt!

Skiptið pitsudeiginu í tvo jafna hluta og fletjið út eins þunnt og hægt er.

Pitsudeig - Kartöflur

Áleggið á pitsuna er einfalt. 1 stór kartafla skorin í örþunnar sneiðar (geymið sneiðarnar í köldu vatni svo þær verða ekki brúnar), ferskur mozzarellaostur, geitaostur eftir smekk, ferskt rósmarín, salt og pipar.

Geitaostur og rósmarín - Mozzarella

Dreifið kartöflusneiðum jafnt yfir pitsunbotninn. Síðan geitaostur, mozzarella og rósmarín. Smá ólífuolía yfir og inn í 275 °C heitan ofn (eða eins heitur og hægt/skynsamlegt er).

Salt og pipar á pitsuna þegar hún er tilbúin. Klettasalat eftir smekk.

Pitsan tilbúin!

Verði ykkur að góðu!

30. afmæli og marengstertur

Þriðjudaginn 13. mars héldum við hjónakornin upp á 30. afmæli bóndans! Ég spurði afmælis’barnið’ nokkrum dögum fyrr hvernig köku ég ætti að baka fyrir afmælisdaginn. Svarið kom nokkuð skjótt en bóndinn vildi helst alvöru marengstertu með karamellu – og já, helst með íslenskum súkkulaðirúsínum líka!

Afmælisstrákur nývaknaður og kominn með afmælispakka

Ég skellti því í eina fína marengstertu sem breytust síðan í tvær litlar. Súkkulaðirúsínur eru þó ekki auðfáanlegar hér í Köben – ef þær fást hér yfirhöfuð, en ég keypti Snickers í staðinn og það kom ágætlega út. Uppskriftina hef ég frá henni mömmu og botnarnir hafa tekist ótrúlega vel í hvert skipti!

Í eina tertu af hefðbundinni stærð (s.s. tveir botnar) þarf: 6 eggjahvítur, 300 g. sykur, 1 1/2 tsk. lyftiduft og sirka 3 bollar af kornflexi (mylja smá). Ég minnkaði þessa uppskrift um helming og gerði fjóra litla marengsbotna því við vorum bara tvö.

Íslenski og danski fáninn

Fyrst þarf að stífþeyta eggjahvítur og sykur. Gott ráð er að þrífa skálina sem á að þeyta í að innan með sítrónusafa áður en eggjahvíturnar og sykur fara í skálina. Með sítrónusafanum nær maður að þrífa burt fitu sem gæti mögulega verið í skálinni fyrir og auðveldara er að þeyta eggjahvíturnar.

Þegar eggjahvítur og sykur er orðið að stífum marengs er lyftiduft hrært út í (varlega þó) og svo að lokum kornflex. Bökunarpappír í tvö bökunarform og marengs látinn í formin. Marengsbotnana þarf svo að baka í 60 min. við 125°C (án blásturs). Þegar 60 min. eru liðnar er best að slökkva bara á ofninum og láta marengsbotnana vera áfram í ofninum þar til hann er orðinn kaldur – eða jafnvel yfir nótt.

Karamellan er frekar einföld. 70 gr. smjör, 100 g. púðursykyr, 3/4 dl. rjómi, 1 stk. Snickers (niðurskorið) og vanilludropar eftir smekk í pott og látið malla þar til karamellan er orðin mátulega þykk. Best er að kæla karamelluna aðeins áður en hún fer á tertuna. Á milli botnanna var ég með banana, þeyttan rjóma og niðurskorið Snickers sem ég setti síðan út í rjómann.

Fínar og litlar marengstertur

Afmælisstrákur að blása á kertin

Afmælisstrákurinn var ofboðslega sáttur með marengstertuna enda var hún ansi góð!

Noma

Eitt af markmiðum okkar hér í Kaupmannahöfn er að prófa sem mest af mismunandi mat og spennandi matsölustaði. Meðal draumastaðanna til þess að borða á er að sjálfsögðu Noma. Við vorum það heppinn að fá borð á Noma núna þessa helgi, eða laugardaginn þann 10. mars, og því fórum við þangað að borða. Vert er að nefna að ferðin á Noma var í tilefni þrítugsafmæli Péturs, en hann verður þrítugur þann 13. mars næstkomandi.

Til að undirbúa okkur fyrir veisluna miklu vöknuðum við snemma og fengum okkur léttan morgunverð. Síðan hjóluðum við í sundlaugina góðu, böðuðum okkur og unnum þannig upp matarlyst. Að því loknu hjóluðum við yfir í Christianshavn og vorum komin inn á Noma eina mínútu yfir eitt. Þar tók hópur þjóna á móti okkur og þegar við vorum sest einni mínútu seinna voru 7 þjónar búnir að sinna okkur. Stemmingin var góð og þegar við litum yfir staðinn voru þjónar á hverju borði að útskýrandi rétti og berandi mat. Þetta stefndi allt í góða máltíð.

Noma keyrðir einn matseðill hverju sinni, s.s. sami matseðill að hádegi og kvöldi. Því var spurning þjónsins mjög einföld: „Má færa ykkur kampavín og eru þið með ofnæmi fyrir einhverju?” Okkar svör voru enn einfaldari, eða „já“ og „nei”.

Fínu smjörhnífarnir

Næst útskýrði þjónninn fyrir okkur hvernig þetta allt yrði; Við myndum byrja á ýmiss konar litlum réttum, oftast einn eða tveir munnbitar í einu, sem borðaðir yrðu með fingrunum og síðan tæki við hefðbundinn matseðill. Okkur leist stórvel á þetta allt saman og ekki leið langur tími fyrr en fyrsti rétturinn var borinn fram – blómaskreytingin á borðinu okkar. Fyrsti réttur setti línuna fyrir hina sem á eftir komu en þetta endaði í 12 mismunandi litlum réttum á borðinu hjá okkur. Með þessum réttum var borið fram ofboðslega fínt en létt kampavín sem hreinsaði vel bragðlaukana á milli rétta.

Litlu réttirnir voru eftirfarandi:

Malt hrökkbrauð og einiber

Mosi og Karl-Jóhann sveppir

Svínapurra og sólber

Bláskel og sellerí

Ostasmákökur og kryddjurtastönglar

Kartafla og kjúklingalifur - Rúgbrauð, kjúklingaskinn og steinbíts hrogn

Þurrkuð gulrót og brennt hey - Mjólk og frosin þorskalifur

Sultuð og reykt fasanaegg (da. vagtelæg)

Radísur, gulrætur, mold og gras

Jurtir og reykt þorskahrogn

Hér varð síðan smá pása áður en farið var í hefðbundna matseðilinn, sem betur fer. Með matseðlinum var borið fram sérvalið vín sem á einn eða annan máta átti að passa vel með hverjum rétti. Réttirnir voru samtals 10 en það skemmtilega við þá var að ekki nema einn þeirra var úr spenndýraheimi – 7. réttur sem var beinmergur. Restin var ýmist sjávar, fiðurfé eða grænmeti. Því var einungis borðið fram ein tegund af rauðvíni á móti nokkuð mörgum hvítvínum.

Brauð, þeytt smjör og svínafeiti

Réttirnir voru:

Sellerírót, óþroskuð slåenbær, hvít rifsber og greni

Töskukrabi, eggjarauður og jurtir

Þurrkaður hörpudiskur, grjón og vætukarsi

Límfjarðar ostrur, þang, stikkilsber og kærnemælk

Blómkál, greni, rjómi og piparrót

Sandart, stönglar, græn hyldebær og sellerírót

Sultað rótargrænmeti, beinmergur, brúnað smjör og steinselja

 Hér var örstutt pása og fengum við þá þessa skemmtilegu dálka:

Gráönd, rauðrófur, birki og malt

Síðan koma tveir eftirréttir:

Gammel Dansk ís

Perutré

Nærmynd af perunni

Þegar við vorum búin með perutréið var okkur boðið í betri stofuna en þar beið okkur kaffi og með því.

Kósí í betri stofunni

Kaffið var ansi fín uppáhelling og til viðbótar var boðið upp á bjór. Bjórinn brugga þeir sjálfir á Noma og er merkilegur að því leiti að ekki er notað vatn við gerð hans heldur safi úr birkitréi, sem gerir bjórinn ansi sætan en síðan er hann kryddaður með brenninetlulaufum.

Pétur slakur með kaffi og bjór í betri stofunni

Svaka fínt kaffiborð

Með drykkjunum borðuðum við síðan síðustu 3 réttina:

Súkkulaðihúðaðar kartöfluflögur kryddaðar með fenneli

Heimagerðar flødeboller

Beinmergskarmella (karmella úr beinmerg í stað smjörs)

Þegar síðasti sopinn var tekinn var klukkan orðin 5 og á þessum 4 klukkutímum sem við vorum á Noma borðuðum við allt í allt 25 mismunandi rétti og vorum því tilbúin að yfirgefa staðinn alsæl og glöð. Á leiðinni út var okkur hinsvegar “boðið” í skoðunarferð um eldhúsin (já, í fleirtölu!) og tilraunaaðstöðu þeirra sem við þáðum með þökkum og fengum því að sjá hvar þessi ævintýralega máltíð varð til með eigin augum.

Allt búið

Það má svo sannalega segja að 30. afmælismáltíð Péturs hafi alls ekki verið leiðinleg upplifun!

Hamborgarabrauð

Heimagert brauð er best! Ég baka nánast allt brauð sem við borðum sjálf og á yfirleitt alltaf til brauð í frystinum. Um helgina grilluðum við hamborgara, The Seattle, og ég bjó til hamborgarabrauðið sjálf. Uppskriftin að hamborgarabrauðinu er úr brauðbók Claus Meyers en þessi uppskrift verður að 3 stórum (eða 4 litlum) hamborgarabrauðum. Ég nota alltaf ferskt pressuger – brauðið verður stærra og betra ef maður notar ferskt pressuger og svo er það líka til alls staðar hér.

Ferskt pressuger

Látið 1 ¼ dl. volgt vatn og 10 g. ferskt pressuger í skál og hrærið saman. U.þ.b. 20 g. sykur (má minnka ef maður vill ekki hafa brauðið sætt, ég gerði það), 7 g. salt, 230 g. hveiti og 20 g. mjúkt smjör út í og hnoða í 8 min. (það er mikilvægt að hnoða vel til þess að fá góða áferð. Ég nota alltaf hrærivélina því annars er þetta mikil vinna!). Rakt stykki yfir og láta síðan deigið standa á hlýjum stað í u.þ.b. klukkutíma. Hér er allt í lagi að leyfa deiginu að standa lengur.

Deigið - Ég notaði líka heilhveiti en það má sleppa því

Síðan þarf að móta brauðin. Skiptið deiginu í 3 (eða) 4 jafnstóra bita, mótið kúlur og dreifið sesamfræjum á brauðin. Brauðin þurfa standa á hlýjum stað undir röku stykki í sirka 30 min.

Mótuð hamborgarabrauð með sesamfræjum

Eftir 30 min. þarf að þrýsta plötu eða slíku niður á brauðin til þess að fá rétt lag á þau (svo þau verða ekki of há). Brauðin þurfa svo standa í allt að klukkutíma og baka síðan við 220 °C í 12-14 min. – eða þar til brauðin eru tilbúin.

Fín og svakalega góð hamborgarabrauð!

Indversk matargerð

Fyrir þónokkru síðan fann annað okkar umfjöllun um mjög spennandi indverska matreiðlsubók, India Cookbook eftir Pushpesh Pant. Þetta er sannkölluð alfræðiorðabók í indverskri matargerð sem fer um öll héruð í Indlandi. 

Við eldum oftast indverskt um helgar því uppskriftirnar eru oft þannig að rétturinn þarf að malla í dágóðan tíma. Á miðvikudaginn í síðustu viku gerðum við okkur þó dagamun og elduðum þennan ljúffenga grænmetisrétt sem við borðuðum með hrísgrjónum og nýbökuðu naanbrauði.

Rétturinn er kallaður Uralaikizhan Sagu eða ‘Potato Curry with Coconut’ og er upprunninn frá Tamil Nadu í Indlandi. Uppskriftin er skipt í nokkur skref og að fenginni reynslu er best að byrja á því að finna öll hráefnin til áður en matreiðslan sjálf hefst.

Fyrst þarf að huga að aðalhráefni réttsins, þ.e. kartöflunum. 7 kartöflur eru afhýddar og soðnar í söltu vatni. Þegar þær eru orðnar mjúkar eru þær kældar og skornar niður í hæfilega stóra bita.

Öll hráefnin

Í indverskri matargerð eru krydd oft hituð í olíu áður en maður bætir við öðrum hráefnum til þess að framkalla brögðin enn betur. Þetta á einnig við í þessum rétti en 6 msk. olíu er hituð og eftirfarandi sett út í: 1 tsk. sinnepsfræ, 1 tsk. cuminfræ, 1 tsk. rauðar linsubaunir (leggja í bleyti í smá tíma fyrst), 1 tsk. grænar linsubaunir (leggja í bleyti í smá tíma fyrst) og 10 karrílauf.

Krydd og olía á pönnunni

Kryddin eru hituð í dágóða stund eða þar til sinnepsfræin byrja að ‘poppa’. 3 saxaðir laukar (það virkar mikið en er það alls ekki!) eru þá settir út í og steiktir þar til þeir eru orðnir vel mjúkir. Á meðan er gott að taka til hráefnin í kryddmaukið: 2 þurrkuð rauð chilli, 1 msk. rauðar linsubaunir (þurrristaðar á pönnu), 1 msk. kóríanderfræ, ½ tsk. fennilfræ og 1 cm. kanilstöng.

Kryddin eru sett í kryddkvörn ásamt smá vatni og möluð þar til verður að mjúku mauki. Geymið maukið.

Krydd í kvörninni

1 saxaður rauður chilli, 1 cm. bútur af engifer, 4 niðurskornir tómatar og ½ tsk. túrmerik er bætt við á pönnuna og látið brúnast í 2 mín. U.þ.b. 1 ½ dl. af vatni er sett út í, lok á pönnuna og látið malla í 5 mín. Kartöflur og kryddmauk er bætt við að lokum ásamt 1 dós af kókósmjólk og látið malla í smá stund (eða þar til linsubaunirnar eru tilbúnar). Ferskt kóríander til skrauts.

Rétturinn tilbúinn!

Rétturinn er ótrúlega bragðgóður, fallega gulur á litinn og áferðin silkimjúk!


Steak and Guinness Pie á konudegi

Konudagurinn var á sunnudaginn og því var heldur betur dekrað við eiginkonuna, enda fyrsti alvöru Konudags dagur okkar. Matreiðslan hófst á laugardagskvöldi og stóð fram að kvöldmat á sunnudag. Á meðan sat frúin í sófanum með tærnar upp í loftið! Útkoman var dýrindis Steak and Guinness Pie og með henni drukkum við sérlega gott pinot noir rauðvín.

Bakan var gerð eftir uppskrift Jamie Oliver og má sjá uppskriftina hér. Ekkert var til sparað við gerð bökunnar og því hjólað um allan bæ eftir hráefnum. Ég prófaði því í fyrsta skipti að nota ‘brisket’ sem er ‘spisebryst’ á dönsku. Það var virkilega skemmtilegt hráefni, gróft en mjög bragðmikið og að sjálfsögðu augnlokameyrt eftir rúmlega 4 tíma eldun!

Til að vinna sér inn matarlyst fyrir þessa veislu var farið í sundferð í Ørebrohallen sem er orðin hefðbundin ferð á tveggja vikna fresti – mikið saknaðar maður nú potts númer 4 í Laugardalslauginni…

Annars má sjá hér the pie in the making:

Nautabrjóst

Allt orðið klárt!

Áður en bökunni var lokað

Bakan, grænar baunir og rauðvín

 Verði ykkur að góðu!

Vetur í Kaupmannahöfn

Veturinn kom til Kaupmannahafnar í síðustu viku og um helgina kom svo fyrsti snjórinn. Á sunnudaginn fórum við snemma á fætur, klæddum okkur vel og skelltum okkur í hjólaferð í Øbro-hallen (Østerbro svømmehal) en þar komumst við í heitan pott og góða gufu.

Í kuldanum og snjónum var alveg upplagt að elda eitthvað vetrarlegt, þ.e. eldað í hægum takti. Á leiðinni heim stoppuðum við í Torvehallerne og keyptum þessar fínu svínakinnar sem við hægelduðum í dökku öli (dark ale) í nýja Le Creuset pottinum okkar sem við fengum í brúðkaupsgjöf frá Deloitte. Með svínakinnunum höfðum við hvítlaukskartöflumús eftir hana Julia Child og ferskt salat. Uppskriftin að svínakinnunum var fengin úr bókinni hans Claus Meyers, Almanak, sem er í miklu uppáhaldi þessa stundina. Hráefni í réttin eru: 500 gr. svínakinnar, ½ gulrót (eða ein lítil), ½ laukur, 1 hvítlauksgeiri, 3 greinar ferskt timjan, 1 dl. dökkt öl (dark ale), salt og pipar, 500 ml. kjúklingasoð, 5 gr. smjör og 1 msk. edik.

Kinnarnar eru snyrtar eins og til þarf og síðan brúnaðar í pottinum og grænmetið skorið niður. Grænmetið er síðan sett út í pottinn og brúnað í smá stund. Svo timjan, bjór og salt og pipar og það soðið niður um helming. Loks er soðinu bætt út í og herlegheitin sett í 150 °C heitan ofn og leyft að malla þar í 1 ½ – 2 tíma, eða þar til kinnarnar næstum því detta í sundur! Kinnarnar eru veiddar upp úr soðinu og það sigtað og soðið niður þangað til það er orðið hálf klístrað og síðan smakkað til með smjéri og ediki.

Hér má sjá myndir af þessu öllu saman:

Hráefni

Kinnar, dark ale og grænmeti

Rétturinn tilbúinn!

Kveðjum við í bili með ódauðlegum orðum Juliu Child, Bon appétit!