Gorm´s Pizza vol. 2

Eins og kom fram í færslunni um Gorm´s pitsur finnst okkur gaman að versla í Torvehallerne. Grænmetið þar er oftast ótrúlega fallegt og vel hægt að gera góð kaup. Um daginn keyptum við risa basilíkuplöntu í leirpotti á 35 kr. danskar – það voru góð kaup! Í sömu ferð keyptum við eldrauða og fallega tómata.

Um kvöldið gerðum við okkur enn eina Gorm´s pitsuna – pitsa með hálfþurrkuðum tómötum, mozzarella og basilíkupestói.

Í basilíkupestó þarf: 100 g fersk basilíka (án stilka), 3 msk. ristaðar furuhnetur, 8 msk. ólífuolía, 2 saxaðir hvítlauksgeirar, 60 g rifinn parmesan, 45 g mjúkt smjör (má sleppa og nota olíu í staðinn) og salt.

Setjið basilíku, ólífuolíu, fururhnetur, hvítlauk og salt í matvinnsluvél og maukið þar til blandan er slétt.

Setjið í skál og hrærið nú parmesanostinum og smjörinu út í. Smjörið er ekki nauðsynlegt en mér finnst áferðin á pestóinu verða fallegri með smjörinu, sérstaklega ef það á að nota pestóið með heitum mat því þá bráðnar smjörið.

Uppskriftin að hálfþurrkuðu tómötunum er úr bókinni Góður matur – gott líf í takt við árstíðirnar sem við fengum í jólagjöf. Bókin er æðisleg, ótrúlega falleg og full af spennandi uppskriftum. Á móti 1 kg af tómötum þarf 3 hvítlauksgeira, 70 ml. ólífuolíu, 2 1/2 msk. balsamediki, 1 tsk. salt og 1/2 msk. sykur.

Klæðið ofnskúffu að innan með álpappír. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að vökvinn snerti ofnskúffuna og brenni við hana (það gerðist í fyrstu tilraun hjá mér – ekki góð skemmtun að þrífa ofnskúffuna eftir á!!). Skerið tómatana í tvennt, þvert í gegn svo það sjáist stjörnulaga mynstur á skurðfletinum. Raðið tómötunum þétt á ofnskúffuna. Skerið hvítlaukinn í þunnar sneiðar og stingið í tómatana. Hrærið saman ólífuolíu, ediki, salt og sykur og hellið jafnt yfir tómatana.

Látið tómatana í 140-150°C ofn á blástur og stingið trésleif (eða slíkt) á milli stafs og hurðar svo rakinn komist út úr ofninum. Þurrkið tómatana í u.þ.b. 2 klukkutíma (það er þó mjög misjafnt eftir stærð á tómötum) eða þar til litur þeirra hefur dökknað töluvert.

Pitsudeigið er það sama og í færslunni um Gorm´s pitsu með kartöflum og geitaosti. Smyrjið pitsusósu yfir botninn og tætið niður ferskan mozzarella ost. Bakið pitsuna þar til osturinn er byrjaður að bráðna en dreifið þá hálfþurrkuðum tómötum yfir pitsuna. Látið pitsuna aftur inn í ofn og bakið þar til osturinn er orðinn gylltur. Basilíkupestó og klettasalat eftir smekk!

Verði ykkur að góðu!

3 hugrenningar um “Gorm´s Pizza vol. 2

  1. Bakvísun: Sterk paprikusúpa og pestóbrauð | Matur og með því

  2. Bakvísun: Ítölsk veisla | Matur og með því

Skildu eftir svar við Kristín Hætta við svar