Reyktur lax með nýjum kartöflum og piparrótarsósu

Gestir frá Íslandi færðu okkur fallegan reyktan lax. Fyrstu sneiðarnar fóru auðvitað á ristað brauð með smjöri og graflaxasósu en síðan ákváðum við að prófa nýja rétti. Þessi réttur er mjög einfaldur og ofboðslega sumarlegur. Hann verður án efa gerður aftur.

Á móti 200 gr. af reyktum laxi þarf: 300 gr. af nýjum kartöflum, safi og börkur af 1/2 sítrónu, rauðvínsedik og ólífuolía eftir smekk, 1 msk. kapers (saxað smá), 1 1/2 cm. fersk piparrót (líka hægt að nota duft/þurrkað), 1 dl. sýrður rjómi og fersk sólselja (dill) eftir smekk.

Sjóðið kartöflurnar í söltu vatni og leyfið síðan að kólna í smá stund. Látið sítrónubörk, edik og helming af sítrónusafanum í skál. Hellið ólífuolíu út í, síðan kapers og salt og pipar eftir smekk. Kartöflur út í og velt vel upp úr sósunni.

Næst er það piparrótarsósan. Hrærið saman rifinni piparrót og sýrðum rjóma, restin af sítrónusafanum út í og salt og pipar eftir smekk.

Sólselja yfir kartöflurnar sem eru nú orðnar kaldar. Raðið laxinum á disk, kartöflur yfir ásamt piparrótarsósu.

Berið fram með góðu brauði og jafnvel ísköldu hvítvíni!

Illgresi með Spiseklubben

Við vorum heppin að eignast 2 miða á matarkvöld í Spiseklubben #3 hjá NACL þar sem þemað var illgresi.

Atburðurinn var haldinn á Odd Fellow Palæ og fljótlega eftir komu var okkur boðið freyðivínsglas og vísað til borðs.

Kaldir lystaukar: Kartafla með ostrukremi, grafinn økolax í Baldursbrá með brenninetlumajó og Aspas & hyldeblomstedik. 

Heitir lystaukar: Kræklingur með spydmælde og hélunjóla, Brenninetlusúpu með rækjubrauði, Jurtakróketta 2012 (lavender, svín og sólber).

Forrétturinn var hvítur aspas frá Søren Wiuff með kanínusalati og myrkli.

Síðan varð pása áður en aðalrétturinn var borinn fram. Í aðalrétt var nauta ribeye með grænu salati og 3 tegundir af sauce.

Eftir aðalréttinn fengum við ost frá Høgelundgaard, myntuhunang og maltkrökkbrauð.

Þegar eftirrétturinn kom varð þögn í salnum. Rétturinn var hápunktur kvöldsins: Anganmörðuís, skyrmousse, „mold“ og sósa úr karamellu, timian og snaps – þvílík samsetning!

Eftir þessa veislu var síðan bíðið upp á súkkulaðikarmellu með sjávarsalti og jurtate.

Að því loknu gengum sæl og södd út og hjóluðum heim.

Bastard í Malmö

Við skelltum okkur til Malmö síðust helgi og vorum þar túristar í heilan dag. Það var einstaklega afslappandi og notalegt og eftir heilmikið labb um bæinn fengum við okkur kvöldverð á veitingastaðnum Bastard.

Staðurinn er mátulega hrár með hvítum flísum á veggjunum og opið eldhús sem maður sér beint inn í. Þjónustan er hlý og heimilisleg þar sem þjóninn sestist hjá okkur við borðið þegar hann tók niður pöntunina.

Við pöntuðum okkar einn forrétt sem við borðuðum saman. Grillað brauð með ferskum geitaosti, hvítlauks- og ólífumauki varð fyrir valinu og var virkilega gott!

Í aðalrétt fengum við Linderödssvín með bökuðum gulrótum, súrsætum lauk, spínati og pólentu.

Hinn aðalrétturinn var franskur maískjúklingur og blóðmör með hvítum baunum og chillí. Ég verð að viðurkenna að þegar ég las orðið „blóðmör“ með maískjúklingnum þá var ég ekki alveg viss. Rétturinn kom hins vegar ótrúlega skemmtilega á óvart og blóðmörinn var það besta á disknum! Mig langar enn í annan skammt af blóðmörnum….

Þegar við vorum búin með aðalréttina vorum við orðin ansi södd. Við ákváðum þó samt að panta okkur einn eftirrétt sem við borðuðum saman í rólegheitum. Eftirrétturinn var Eton Mess og var sérlega ljúffengur!

Eftir þennan glæsilega kvöldverð röltum við aftur að lestarstöðunni og tókum lest til Kaupmannahafnar – alsæl og sátt með daginn í Malmö!

Humarpasta og tiramisu

Í síðustu viku kláraði Ásta rannsóknarverkefnið sitt og því bar að fagna. Lausnin var Alfreðs humarpasta (e. lobbster alfredo) og tiramisu í eftirrétt.

Kvöldið áður hófst undirbúningur en þá gerði Pétur frumraun sína í tiramisugerð. Á meðan sat eiginkonan sveitt á lokametrum ritgerðarsmíðar.

Aðalrétturinn var humarpasta. Fyrst þarf að hnoða í pastadeig. Það er verulega einfalt; eitt stórt egg á móti 100gr hveiti hnoðað saman og síðan leyft að standa í kæli í u.þ.b. klukkutíma. Aðal matreiðslan felst í því að undirbúa humarinn og sósuna sem hann er eldaður í en þökk sé mægðunum Ástu og Siggu áttum við íslenskan humar í fyrstinum sem við notuðum í réttinn.

Á móti pasta úr 200 gr. af hveiti fer: 1 1/2 dl af humarkjöti skorið í bita, 60gr smjör, 2 tsk saxaður hvítlaukur, 2 1/2 dl af rjóma, 1 1/2 dl af rifnum parmesan, 3 tsk graslaukur skorinn smátt.

Bræðið smjörið og steikið humarinn á heitri pönnu, lækkið svo í miðlungs hita og bætið hvítlauk og rjóma út í og leyfið að malla í smá stund. Loks er ostinum og graslauk bætt út í. Um leið og osturinn er bráðnaður er sósan tilbúin. Bætið þá pasta (soðið) út í. Með þessu var borið fram einfalt salat, bleytt í olíu og balsamik ediki.

Verði ykkur að góðu!