Gestir frá Íslandi færðu okkur fallegan reyktan lax. Fyrstu sneiðarnar fóru auðvitað á ristað brauð með smjöri og graflaxasósu en síðan ákváðum við að prófa nýja rétti. Þessi réttur er mjög einfaldur og ofboðslega sumarlegur. Hann verður án efa gerður aftur.
Á móti 200 gr. af reyktum laxi þarf: 300 gr. af nýjum kartöflum, safi og börkur af 1/2 sítrónu, rauðvínsedik og ólífuolía eftir smekk, 1 msk. kapers (saxað smá), 1 1/2 cm. fersk piparrót (líka hægt að nota duft/þurrkað), 1 dl. sýrður rjómi og fersk sólselja (dill) eftir smekk.
Sjóðið kartöflurnar í söltu vatni og leyfið síðan að kólna í smá stund. Látið sítrónubörk, edik og helming af sítrónusafanum í skál. Hellið ólífuolíu út í, síðan kapers og salt og pipar eftir smekk. Kartöflur út í og velt vel upp úr sósunni.
Næst er það piparrótarsósan. Hrærið saman rifinni piparrót og sýrðum rjóma, restin af sítrónusafanum út í og salt og pipar eftir smekk.
Sólselja yfir kartöflurnar sem eru nú orðnar kaldar. Raðið laxinum á disk, kartöflur yfir ásamt piparrótarsósu.
Berið fram með góðu brauði og jafnvel ísköldu hvítvíni!