Nýbakaðar morgunverðarbollur

Hvað er betra en að vakna við ilminn af nýbökuðum bollum?

Þegar tími gefst til þess þá finnst mér dásamlegt að hafa nýbakað brauð í morgunverð um helgar. Vandamálið er því miður oft að ná að leyfa deiginu að lyfta sér og svo þarf að baka og bíða eftir að brauðið verði nógu kalt til þess að hægt sé að borða það. Það tekur of langan tíma og klukkan er orðin alltof margt þegar það er loksins hægt að setjast við morgunverðarborðið.

Hér er lausn við þessu vandamáli; morgunverðarbollum sem lyfta sér í ísskápnum yfir nótt og eru síðan bakaðar strax þegar þær eru teknar út úr ísskápnum. Þær þurfa s.s. ekkert að standa áður en þær fara inn í ofn, eru einfaldar og ofboðslega bragðgóðar! Þær eru kannski ekki fallegar en skorpan er stökk og miðjan mjúk.

Ca. 8 bollur: 500 gr. hveiti (það er hægt að blanda eins og maður vill, t.d. venjulegt hveiti og smá heilhveiti út í), 10 gr. ferskt pressuger, 1 tsk. salt og 4 dl. vatn.

Vatn og ger í skál og hrærið vel. Síðan salt og hveiti og hnoðið í u.þ.b. 10 min. Deigið á að vera eins og seigur grautur og má alls ekki vera þurrt! Látið plast eða lok á skálina og geymið í ísskáp í a.m.k. 8 klukkutíma.

Hitið ofninn í 225 – 250°C. Bökunarpappír á ofnskúffu og mótið 8 klatta úr deiginu með skeið. Bakið í ca. 10 min. eða þar til bollurnar eru orðnar fallegar á litinn.

Njótið með góðu smjöri og evt. osti eða öðru áleggi og góðum kaffibolla.

Pista Kulfi – Indverskur ís með pistasíuhnetum

Eftir eina indversku máltíðina um daginn ákváðum við að prófa indverskan eftirrétt og Pista Kulfi varð fyrir valinu. Pista Kulfi er indverskur ís með pistasíuhnetum og er borinn fram mjög frosinn. Við vorum mjög sátt með ísinn enda er hann ótrúlega freskur og fulkominn endir á indverskri veislu!

Hráefnin í ís fyrir 4: 500 ml. mjólk. 50 gr. sykur, 2 msk. pistasíuhnetur (ósaltaðar og malaðar), 70 gr. rjómi, 1/2 msk. rósavatn (má sleppa) og 1/4 tsk. kardimommur (duft).

Hitið mjólkina að suðu og leyfið að malla í ca. 25 min. Þetta er gert til þess að ná fram sætuna í mjólkinni. Hellið sykur út í mjólkina og hrærið vel. Hitið við lágan hita þar til mjólkin fer að þykkna örlítið. Látið pistasíuhnetur út í mjólkina og leyfið að kólna.

Þeytið rjómann aðeins (léttþeyttur) og hrærið út í mjólkina. Síðan rósavatn (ef það er notað) og kardimommum. Hellið ísnum í form og látið í frost.

Berið fram á meðan ísinn er enn mjög frosinn!

Indverskt lamb

Eins og við höfum nefnt hér áður erum við mjög hrifin af indverskum mat. Fyrir 1 1/2 ári síðan eignuðumst við bókina India Cookbook eftir Pushpesh Pant – 816 bls. af indverskum uppskriftum og leiðbeiningum! Uppskriftirnar eru þó sumar ansi tímafrekar og því eldum við oftast indverskt um helgar þegar við höfum nægan tíma.

Síðustu helgi elduðum við indverskt lamb í karrí sem heppnaðist mjög vel. Mildur en bragðgóður réttur! Enn og aftur þarf að hafa í huga að „karrí“ er kryddblanda og er því ekki alltaf eins og karríið sem flestir Íslendingar þekkja.

Hráefnin í réttinn eru: 500 g. lambakjöt, 70 ml. olía, 2 litlir laukar (skornir í sneiðar), 1 msk. engifer (maukaður í matvinnsluvél eða með fínu rifjárni), 1/2 msk. hvítlaukur (maukaður eða kraminn), 1 tsk. ferskur grænn chillí (saxaður), 250 ml. jógúrt, 1 tsk. chillí duft, 1/2 tsk. túrmerik. 1 1/2 tsk. sykur, 1 tsk. svartar kardimommur (malaðar í mortéli) og salt.

Hráefnin í kryddlög fyrir lambið: 125 ml. jógúrt, 1 msk. olía, 1/2 tsk. chillí duft, 1/4 tsk. túrmerik og 1/2 tsk. sykur.

Það er ofboðslega gott að byrja á því að finna öll hráefnin til. Þá lendir maður ekki í því að vera með kryddbauka út um allt og þurfa eyða heilu kvöldi í að þrífa eldhúsið eftir matreiðsluna.

Hrærið saman hráefnum í kryddlöginn, skerið lambakjötið í bita (u.þ.b. 2,5 cm á stærð) og látið í kryddlöginn. Geymið í ísskáp í klukkutíma.

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn í 5 min. eða þar til hann er orðinn gylltur. Bætið hvítlauki, engifer og grænum chillí út í og steikið í 2-3 min. Hækkið hitann undir pönnunni og látið jógúrt, chillí duft, túrmerik og sykur ásamt lambakjöti og kryddlegi út í og steikið í 5-10 min. Salt eftir smekk.

Hellið nú 500 ml. af vatni á pönnuna og lækkið hitann undir pönnunni. Lok á pönnuna og leyfið að malla í 1 – 1 1/2 klukkutíma eða þar til kjötið er orðið vel meyrt (það tekur alveg sinn tíma) og sósan þykk. Malaðar kardimommur út í að lokum og salt eftir smekk.

Berið fram með hrísgrjónum og naanbrauði.

Taílenskur kjúklingur í Massaman karrí

Kristín og Steinar fóru til Taílands í fyrra og fóru þá meðal annars á námskeið í taílenskri matargerð. Þegar þau komu heim gáfu þau mér hefti með taílenskum uppskriftum en það hefur verið notað töluvert á þessu heimili síðan!

Hér er uppskrift að kjúklingi í Massaman karrí með kartöflum, lauki og hnetum. Rétturinn getur verið frekar sterkur en er ofboðslega bragðgóður!

Fyrst þarf að búa til kryddblönduna/karríið: 1/4 tsk. kóríanderfræ, 1/4 tsk. cuminfræ, 1 1/4 tsk. svört piparkorn, 1/4 tsk. negull, 1/2 þurrkaður chillí (fjarlægja fræin), 1/4 msk. sítrónugras (saxað), 1/4 msk. engiferrót (söxuð), 1/4 msk. hvítlaukur (saxaður), 1 shallot laukur (saxaður) og 1/4 tsk. salt.

Látið hráefnin í kryddkvörn eða mortél og maukið vel.

Hráefni í réttinn eru: 300 gr. kjúklingabringur skornar í bita, 1 dós kókósmjólk (ath. EKKI hrista áður en dósin er opnuð!!), 200 gr. kartöflur, 1 stór laukur skorinn í bita, 2 msk. jarðhnetum (má líka nota kasjúhnetur), 5 heilar karimommur, 2 kanilstangir (5 cm. á lengd), 3 lárviðarlauf, 1 msk. fiskisósa, 2 tsk. sykur og 3 msk. tamarindsafi (tamarindmauk og vatn).

Kryddblanda / Tamarind

Skrælið og skerið kartöflurnar í bita og sjóðið þar til þær eru mjúkar. Takið efsta lagið af kókósmjólkinni (sem er alveg hvítt og þykkt – eiginlega eins og rjómi) með skeið og látið í skál til hliðar. Hellið restinni af kókósmjólkinni í pott og látið suðu koma upp. Látið kjúklinginn út í kókósmjólkina og látið malla í smá stund. Hitið kókósrjómann (efsta lagið af kókósmjólkinni sem þið settuð til hliðar) og látið síðan út í kókósmjólkina og kjúklinginn ásamt kryddblöndunni, kardimommum, lárviðarlaufi, kanilstöngum, jarðhnetum og lauknum. Fiskisósa, sykur og tamarindsafi út í og leyfið þessu að malla þar til kjúklingurinn er eldaður.

Berið fram með hrísgrjónum og einföldu salati.

Rabarbaramulningur

Ég elska rabarbara og verð alltaf jafn spennt þegar sumarið hefst og það er hægt að taka upp fyrsta rabarbarann. Á Íslandi hef ég greiðan aðgang að ferskum rabarbara í garðinum hjá fjölskyldunni. Ég hef þá skorið hann niður og fryst og notað hann yfir veturinn. Í Kaupmannahöfn verð ég að kaupa hann úti í búð því rabarbara verð ég að fá!

Hér er uppskrift að rabarbara með möndlumulningi sem ég gerði fyrir okkur skötuhjúin í eftirrétt eitt kvöldið.

Rabarbarafylling: Ca. 700 gr. rabarbari, 70 gr. sykur (eða eftir smekk – það er misjafnt hversu súr rabarbarinn er), 1 vanillustöng og evt. smá vatn.

Skerið rabarbarann í bita. Látið hráefnin í pott og sjóðið þar til rabarbarinn er orðin mjúkur.

Mulningur: 100 gr. hveiti, 50 gr. haframjöl, 50 gr. möndlur, 150 gr. smjör (mjúkt), 150 gr. púðursykur og korn úr vanillustöng.

Setjið möndlur í matvinnsluvél og hakkið vel. Látið púðursykur, haframjöl og hveiti út í og hakkið í 2 sek. Hrærið síðan smjöri og vanillu út í.

Hellið fyllingunni í smurt form og mulningur ofan á. Bakið í ca. 25 min. (eða þar til mulningurinn er orðinn fallegur á litinn) við 200 °C og berið fram með góðum vanilluís.

Verði ykkur að góðu!