Hvað er betra en að vakna við ilminn af nýbökuðum bollum?
Þegar tími gefst til þess þá finnst mér dásamlegt að hafa nýbakað brauð í morgunverð um helgar. Vandamálið er því miður oft að ná að leyfa deiginu að lyfta sér og svo þarf að baka og bíða eftir að brauðið verði nógu kalt til þess að hægt sé að borða það. Það tekur of langan tíma og klukkan er orðin alltof margt þegar það er loksins hægt að setjast við morgunverðarborðið.
Hér er lausn við þessu vandamáli; morgunverðarbollum sem lyfta sér í ísskápnum yfir nótt og eru síðan bakaðar strax þegar þær eru teknar út úr ísskápnum. Þær þurfa s.s. ekkert að standa áður en þær fara inn í ofn, eru einfaldar og ofboðslega bragðgóðar! Þær eru kannski ekki fallegar en skorpan er stökk og miðjan mjúk.
Ca. 8 bollur: 500 gr. hveiti (það er hægt að blanda eins og maður vill, t.d. venjulegt hveiti og smá heilhveiti út í), 10 gr. ferskt pressuger, 1 tsk. salt og 4 dl. vatn.
Vatn og ger í skál og hrærið vel. Síðan salt og hveiti og hnoðið í u.þ.b. 10 min. Deigið á að vera eins og seigur grautur og má alls ekki vera þurrt! Látið plast eða lok á skálina og geymið í ísskáp í a.m.k. 8 klukkutíma.
Hitið ofninn í 225 – 250°C. Bökunarpappír á ofnskúffu og mótið 8 klatta úr deiginu með skeið. Bakið í ca. 10 min. eða þar til bollurnar eru orðnar fallegar á litinn.
Njótið með góðu smjöri og evt. osti eða öðru áleggi og góðum kaffibolla.