Søllerød Kro á Copenhagen Cooking – Nordens madfestival

Copenhagen Cooking – Nordens madfestival fór af stað á föstudaginn og dagskráin fyrir vikuna er full af áhugaverðum viðburðum sem eru allir tengdir mat eða matreiðslu á einhvern hátt. Við ætlum svo sannarlega að nýta okkur tækifærið og taka þátt en á föstudaginn borðuðum við Tapas frá Cofoco í bíósal á frönsku myndinni The Kitchen og á laugardaginn smökkuðum við fjölda rétta á Nordic Taste.

Í gær tókum við lestina til Holte station og hjóluðum síðan að Søllerød Kro en þar beið okkur 7 rétta hádegisverður í verulega huggulegu og fallegu umhverfi.

Með kampavínsglasinu fengum við smakk dagsins, tómat sorbet og rósmarín, góð og fersk byrjun á hádegisverði.

Fyrsti forréttur var saltaður þorskur með sultuðum aspas og sólselju. Annar réttur var hörpudiskur með steinselju og lauk.

Þriðji réttur var sólkoli (d. rødtunge) með blómkáli, parmesan og sumartrufflu. Fjórði réttur var maís með foie gras og bouillon.

Aðalréttur og fimmti réttur dagsins var kálfalund með brisi og kantarellum. Eftir aðalréttinn fengum við ostaplatta með rúgbrauði og hunangi sem við nutum í rólegheitum áður en eftirrétturinn var borinn fram.

Síðasti réttur dagsins var eftirréttur, ferskjur, hindber og marsípan. Ljúffengur og sætur endir á frábærum hádegisverði á Søllerød Kro.

Beikonvafin svínalund með plómuchutneyi

Nýtt blað af „Verði þér að góðu“ kom í hús um daginn. Í blaðinu er mikið fjallað um ávexti og grænmeti árstíðarinnar en núna er tíminn fyrir steinaldin hér í DK og því völdum við eitt kvöldið að elda bæði aðal- og eftirrétt með plómum.

Aðalrétturinn:

Aðalrétturinn var beikonvafin svínalund. Hér er um mjög einfalda matreiðslu að ræða en fyrst er svínalundin himnu-hreinsuð og sett í fat. Síðan er hún smurð með kryddjurtablöndu og loks vafinn í panchettu (panchetta er ítalskt óreykt beikon sem er mjög þunnt skorið). Kryddjurtablandan samanstendur af: 2 tsk ólífu olíu, 1 msk skorinn ferskt rósmarín og 2 tsk herbes de Provence (blanda af ítölskum grænkryddum). Síðan er svínalundin vafin með sláturgarni þannig að beikonið haldist á sínum stað.

Grillið svínalundina fyrstu 8 mín á háum hita og færið síðan yfir á lægri hita og leyfið henni að klára sig þannig u.þ.b. 15 mín eða þanngað til hún er kominn í 61°C í kjarnhita. Svo þarf að leyfa svínalundinni að standa vel, allveg 10 mín áður en hún er skorinn í þunnar sniðar (munið samt að taka spottan af áður)

Chutney
  • 4 plómur
  • 1 msk ólífu olía
  • 1 shallotlaukur, sneiddur á lengdina
  • 1 dl púðursykur
  • 1/2 dl epla edik
  • 1/2 dl vatn
  • 1 msk saxaðu hvítlaukur
  • 1 msk sinnepsfræ
  • 2 tsk rifinn engifer
  • 1/2 tsk malaður svartur pipar
  • 1 lárviðarlauf
  • salt eftir smekk

Aðferð: Afhýðið(*) plómurnar og skerið í 1 cm sneiðar. Setjið olíu í 3l pott og hitið á miðlungs hita. Mýkið laukinn í pottinum en það tekur um sirka 2 mín. Setjið síðan öll hráfni nema plómur út í og eldið í aðrar 2 mín. Því næst er plómum bætt út í og lok sett yfir pottinn og þessu leyft að krauma í 8 mín. Hrærið öðru hvoru. Takið lokið af og haldið áfram að elda á sama hita í 20-25 mín þar til plómur eru orðnar mjúkar og sósan orðin þykk.

Með svínalundinni og chutneyinu bárum við fram grillað grænmeti.

(*) Til að afhýða plómur og önnur steinaldin er eftirfarandi aðferð mjög góð. Skerið 2 cm djúpan kross í botninn á ávextinum og látið í sjóðandi vatn í tæpa mínútu. Færið síðan strax í kalt vatn og þá á skinnið að fara auðveldlega af.

Indverskt dahl

Við erum komin úr sumarfríi og þá er eins gott að birta nýja færslu!

Eftir sukk og nammiát í sumarfríinu er gott að elda sér einn léttan og góðan grænmetisrétt til þess að koma mataræðinu aftur í lag. Hér er indverskur baunaréttur með kókosmjöli sem er síðan borðaður með naanbrauði og evt. hrísgrjónum.

Í dahl fyrir 2 þarf: 1 lárviðarlauf, 1 kanilstöng (u.þ.b. 2,5 cm), 2 grænar kardimommur, 3 negulnaglar, 1 þurrkaður chillí (fræ fjarlægð), 1/2 tsk. cuminfræ, 125 g. linsubaunir (ég notaði rauðar og svartar en það er hægt að nota hvaða tegund sem er), 1/2 tsk. túrmerik, 1 1/2 tsk sykur, 1/2 msk. ghee (hitað smjör þar sem mjólkin í smjörinu er fjarlægð – þá þolir smjörið hærri hita án þess að brenna), 1 dl. kókósmjöl, 1 dl. kókosmjólk, 25 gr. rúsínur, 1/2 tsk. chillí duft, 1/2 tsk. cumin og salt eftir smekk.

Byrjið á því að leggja linsubaunirnar í bleyti í ca. klukkustund. Hitið lárviðarlauf, kanilstöng, kardimommur, negulnagla, cuminfræ og chillí á pönnu í 2 min. eða þar til kryddin eru orðin örlítið brún. Látið í kryddkvörn eða mortél og malið vel.

Látið 400 ml. vatn í pott og hitið að suðu. Hellið vökvanum af linsubaununum og sjóðið þær í pottinum í 30 min. eða þar til þær eru orðnar mjúkar. Fjarlægið froðuna sem myndast við suðuna. Hrærið síðan kókósmjólk, túrmerik, sykur og salt eftir smekk út í linsubaunirnar.

Hitið ghee á pönnu og steikið kókósmjölið þar til það er orðið ljósbrúnt. Bætið út í linsubaunirnar ásamt rúsínunum. Lok á pottinn og látið malla í 5 min.

Malaða kryddblandan (lárviðarlauf, kanilstöng, kardimommur, negull, chillí og cuminfræ) út í að lokum og hrærið vel. Berið fram með naanbrauði og evt. hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu!