Copenhagen Cooking – Nordens madfestival fór af stað á föstudaginn og dagskráin fyrir vikuna er full af áhugaverðum viðburðum sem eru allir tengdir mat eða matreiðslu á einhvern hátt. Við ætlum svo sannarlega að nýta okkur tækifærið og taka þátt en á föstudaginn borðuðum við Tapas frá Cofoco í bíósal á frönsku myndinni The Kitchen og á laugardaginn smökkuðum við fjölda rétta á Nordic Taste.
Í gær tókum við lestina til Holte station og hjóluðum síðan að Søllerød Kro en þar beið okkur 7 rétta hádegisverður í verulega huggulegu og fallegu umhverfi.
Með kampavínsglasinu fengum við smakk dagsins, tómat sorbet og rósmarín, góð og fersk byrjun á hádegisverði.
Fyrsti forréttur var saltaður þorskur með sultuðum aspas og sólselju. Annar réttur var hörpudiskur með steinselju og lauk.
Þriðji réttur var sólkoli (d. rødtunge) með blómkáli, parmesan og sumartrufflu. Fjórði réttur var maís með foie gras og bouillon.
Aðalréttur og fimmti réttur dagsins var kálfalund með brisi og kantarellum. Eftir aðalréttinn fengum við ostaplatta með rúgbrauði og hunangi sem við nutum í rólegheitum áður en eftirrétturinn var borinn fram.
Síðasti réttur dagsins var eftirréttur, ferskjur, hindber og marsípan. Ljúffengur og sætur endir á frábærum hádegisverði á Søllerød Kro.