Fyrsta kvöldmáltíðin eftir góða heimsókn heim til Íslands síðustu daga var þetta dýrindis ravólí með sætum kartöflum, prosciutto og parmesanosti.
Við erum búin að vera með ravíólívél í pössun í nokkurn tíma en höfum aldrei komist í það að prófa vélina. Þar sem komið var að því að skila henni núna um helgina var tækifærið notað og við skelltum í pasta. Við völdum fyllingu sem yðri mátulega mjúk en þó ekki fljótandi því við héldum að þá myndi vélin virka hvað best. Tilraunin tókst prýðilega og allir koddarnir urðu eins en þegar við gerum þá sjálf verða þeir misstórir og eru þá oftast um 3 munnbitar á stærð.
Pastadeig (ravíólí fyrir 3)
- 250 gr. pastahveiti
- 3 egg
Hnoðið, látið plastfilmu utan um deigið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.

Fylling (ravíólí fyrir 3)
- 400 gr. sætar kartöflur
- 1 makkaróna (ekki þessar með fyllingu! má sleppa og nota smá sykur í staðinn)
- 1 lítil eggjarauða
- 1 1/2 msk. prosciutto, skorin í litla bita
- 85 gr. rifinn parmesanostur
- 1 1/2 msk. steinselja, söxuð
- múskathneta eftir smekk
- salt eftir smekk
Skrælið kartöflurnar og skerið í nokkra bita. Látið á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið við 200°C þar til kartaflan er orðin mjúk. Myljið makkarónukökuna og látið í matvinnsluvél ásamt kartöflunni, steinselju, prosciutto, parmesanosti og eggjarauðu og maukið vel. Salt og múskat eftir smekk.

Fletjið pastadeigið frekar þunnt, setjið fyllinguna á flötina, penslið kantana með vatni eða eggi og lokið. Skerið síðan í sundur og passið að allir endar séu lokaðir, súrt að fá þessa góðu fyllingu bara út í pastavatnið. Sjóðið í stórum potti í söltu vatni þar til tilbúið (tekur sirka 3-4 mínútur). Að þessu sinni notuðum við pastavél til þess að fylla koddana (eins og sést á myndinni).


Með þessu höfðum við einfalda rjóma- og smjörsósu, rifinn parmesanostur yfir, einfalt salat og kalt hvítvín með.
Ljúffengur kvöldverður!
Líkar við:
Líka við Hleð...