Pylsubrauð

Í einni verslunarferðinni okkar um daginn keyptum við mjög girnilegar pylsur. Við ákváðum því að hafa pylsur í kvöldmatinn og prófuðum að gera okkar eigið pylsubrauð með. Það tókst ansi vel og var frekar einfalt!

Pylsubrauð (8-10 stk.)
 • 1 1/4 dl vatn
 • 1/2 egg
 • 25 g ferskt pressuger
 • 1 tsk sykur
 • 1/2 tsk salt
 • 50 g smjör
 • 300 g hveiti

Látið vatn og ger í skál og hrærið vel. Sykur, salt, smjör og hveit út í og hnoðið þar til deigið er orðið slétt og teygjanlegt. Látið plastfilmu eða rakt stykki yfir og leyfið deiginu að lyfta sér í amk. 30 min.

Skiptið deiginu jafnt í 8 hluta og mótið pylsubrauð. Látið á bökunarplötu með bökunarpappír og leyfið að lyfta sér í u.þ.b. 30 min.
Bakið við 200 °C í u.þ.b. 20 min., eða þar til pylsubrauðin eru fallega brún á litinn.

Grilluð pylsa, heimabakað pylsubrauð og gott meðlæti!

Frönsk lauksúpa

Um daginn fórum við í verslunarferð í Bilka og keyptum m.a. 5 kg af lauk því hann var á mjög fínu verði! Þess vegna höfum við verið dugleg að elda rétti með lauk og eitt kvöldið gerðum við þessa dásamlegu frönsku lauksúpu eftir Juliu Child.

Lauksúpa (f. 4)
 • u.þ.b. 350 g laukur, skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 1/2 msk smjör
 • 1/2 msk olía
 • 1/2 tsk salt
 • 1/8 tsk sykur (svo laukurinn verði fallega brúnn)
 • 1 1/2 msk hveiti
 • 1 liter nautasoð
 • 1/2 dl hvítvín (má sleppa)
 • u.þ.b. 1 msk koníak (má sleppa)

Steikið lauk í smjöri og olíu á lágum hita með loki í u.þ.b. 15 min. Takið þá lokið af, hækkið hitann og hrærið salti og sykur út í. Steikið laukinn í 30 – 40 min., eða þar til hann er orðinn fallega brúnn og vel mjúkur. Passið að hræra ekki alltof mikið í lauknum á meðan því þá verður hann að mauki.

Hrærið hveiti út í og eldið áfram í 3 min. svo hveitibragðið hverfi. Látið nú nautasoð, hvítvín og salt út í og leyfið þessu að malla í 30 – 40 min. Koníak út í súpuna og hrærið vel.

Ostabrauð
 • Gott brauð, skorið í brauðsneiðar
 • Rifinn ostur eftir smekk

Ristið brauðsneiðarnar í ofni á 200 °C þar til þær eru orðnar vel dökkar á litinn (ekki brenna samt!). Það er mikilvægt að brauðið sé vel ristað því annars verður það strax mjúkt þegar það fer í súpuna. Látið rifinn ost yfir og bakið þar til osturinn er bráðnaður og fallega gylltur. Ausið súpu í skál og ostabrauð ofan á.

Bon appetit!

Eton Mess

Í sumar fórum við í lestarferð til Malmö og borðuðum kvöldverð á veitingastaðnum Bastard. Þar borðuðum við Eton Mess í fyrsta skipti og vorum svona líka hrifin af réttinum að við ákváðum að gera hann sjálf hérna heima.

Eton Mess er eftiréttur með jarðarberum, rjóma og marengs. Rétturinn á sennilega best við á sumrin þegar hægt er að fá fersk innlend ber því þá eru berin svo sæt og bragðgóð að maður þarf lítið annað sætt með.

Nóvember er ekki besti tíminn fyrir fersk ber en okkur tókst samt sem áður að finna lítil falleg dönsk jarðarber sem við notuðum. Berin voru þó frekar bragðlaus þannig að við gerðum jarðarberjasíróp til þess að bæta við sætu jarðarberjabragði við réttinn.

Eton mess (f. 4)

Marengs
 • 3 eggjahvítur
 • 150 g sykur
 • 3/4 tsk lyftiduft

Stífþeytið eggjahvítur og sykur. Hrærið lyftiduft varlega út í og látið á bökunarplötu með bökunarpappír. Bakið við 125 °C í 60 min., slökkvið þá á ofninum en leyfið marengsbotninum að kólna inni í ofni.

Jarðarberjasíróp
 • 100 g frosin jarðarber
 • 50 g sykur

Sjóðið jarðarber og sykur í þar til jarðarberin eru að mestu leyti horfin. Látið safann renna í gegnum sigti og sjóðið síðan niður þar til sírópið er orðið mátulega þykkt.

Samsetning
 • 250 ml rjómi
 • góður vanilluís
 • fersk jarðarber

Þeytið rjómann og hreinsið jarðarberin. Hrærið varlega saman marengs, rjóma og jarðarberum og dreifið helmingnum jafnt í 4 skálar/diska. Látið eina ískúlu á hvern skammt og dreifið síðan afgangnum af marengs- og rjómablöndunni jafnt ofan á ískúlurnar. Skreytið með jarðarberjasírópi og nokkrum ferskum jarðarberum.

Þetta er sko algjört nammi!

Kjúklingur í indverskri kryddsósu

Helgina áður en við fórum til Íslands reyndum við að tæma duglega úr frystinum til þess að búa til pláss fyrir íslenska lambakjötið og fiskinn sem við ætluðum að koma með heim úr ferðinni. Í frystinum áttum við nokkur kjúklingalæri því við kaupum yfirleitt heilan kjúkling og úrbeinum hann sjálf. Það sem við notum ekki strax fer í plastpoka og fryst – einnig bein sem við sjóðum okkur eigið kjúklingasoð úr! Úr kjúklingalærunum gerðum við þennan dásamlega og bragðsterka indverska rétt en hér er uppskriftin:

Kjúklingabitar í indverskri kryddsósu:

 • 60 ml olía
 • 1 laukur, skorinn þunnt.
 • 1 tsk. hvítlaukur (sett í matvinnsluvél/töfrasprota og búið til mauk)
 • 1 tsk. engiferrót (sett í matvinnsluvél/töfrasprota og búið til mauk)
 • 500 gr. kjúklingur með beinu (við notuðum kjúklingalæri)
 • 60 ml. sítrónusafi
 • salt eftir smekk

Cuminfræ // Birkifræ

Kóríanderfræ // Túrmerík

Fenugreekfræ // Svört piparkorn

Kryddmauk:
 • 2-3 þurrkaðir chillí (heilir)
 • 1/2 msk. kóríander
 • 1 tsk. cuminfræ
 • 1 tsk. fenugreekfræ
 • 5 svört piparkorn
 • 1 1/2 tsk. birkifræ
 • 20 gr. kókósmjöl
 • 1/2 tsk. túrmerík
 • 1/4 tsk. kardimommur
 • 1/4 tsk. negull
 • 1/4 tsk. kanill

Fyrst þarf að búa til kryddmaukið. Leggið chillí í bleyti heitu vatni í 10 min. og hellið síðan vatninu frá. Ristið chillí, kókósmjöl, cuminfræ, fenugreekfræ, piparkorn og birkifræ á þurri pönnu þar til þau fara að taka smá lit (ekki brenna!!). Ristið síðan kóríander, túrmerík, kardimommur, negul og kanil alveg eins og passið að hræra vel í kryddunum á meðan. Látið allt í matvinnsluvél/kryddkvörn og búið til mauk (látið smá vatn út í ef nauðsynlegt).
Geymið kryddmaukið.


Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann er orðinn gylltur á litinn. Látið engifer- og hvítlauksmauk út í ásamt kryddmauki og steikið í 1-2 min. Kjúklingabitar út í og saltið örlítið. Hrærið vel, látið 1/2 – 1 dl. af vatni út í og leyfið þessu að malla á vægum hita í u.þ.b. 25 min., eða þar til kjúklingabitarnir eru tilbúnir. Sítrónusafi út í réttinn, hrærið vel og berið fram með hrísgjrónum og naanbrauði.

Verði ykkur að góðu!

Ravíólí með sætum kartöflum, prosciutto og parmesanosti

Fyrsta kvöldmáltíðin eftir góða heimsókn heim til Íslands síðustu daga var þetta dýrindis ravólí með sætum kartöflum, prosciutto og parmesanosti.

Við erum búin að vera með ravíólívél í pössun í nokkurn tíma en höfum aldrei komist í það að prófa vélina. Þar sem komið var að því að skila henni núna um helgina var tækifærið notað og við skelltum í pasta. Við völdum fyllingu sem yðri mátulega mjúk en þó ekki fljótandi því við héldum að þá myndi vélin virka hvað best. Tilraunin tókst prýðilega og allir koddarnir urðu eins en þegar við gerum þá sjálf verða þeir misstórir og eru þá oftast um 3 munnbitar á stærð.

Pastadeig (ravíólí fyrir 3)
 • 250 gr. pastahveiti
 • 3 egg

Hnoðið, látið plastfilmu utan um deigið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.

Fylling (ravíólí fyrir 3)
 • 400 gr. sætar kartöflur
 • 1 makkaróna (ekki þessar með fyllingu! má sleppa og nota smá sykur í staðinn)
 • 1 lítil eggjarauða
 • 1 1/2 msk. prosciutto, skorin í litla bita
 • 85 gr. rifinn parmesanostur
 • 1 1/2 msk. steinselja, söxuð
 • múskathneta eftir smekk
 • salt eftir smekk

Skrælið kartöflurnar og skerið í nokkra bita. Látið á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið við 200°C þar til kartaflan er orðin mjúk. Myljið makkarónukökuna og látið í matvinnsluvél ásamt kartöflunni, steinselju, prosciutto, parmesanosti og eggjarauðu og maukið vel. Salt og múskat eftir smekk.

Fletjið pastadeigið frekar þunnt, setjið fyllinguna á flötina, penslið kantana með vatni eða eggi og lokið. Skerið síðan í sundur og passið að allir endar séu lokaðir, súrt að fá þessa góðu fyllingu bara út í pastavatnið.  Sjóðið í stórum potti í söltu vatni þar til tilbúið (tekur sirka 3-4 mínútur). Að þessu sinni notuðum við pastavél til þess að fylla koddana (eins og sést á myndinni).

Með þessu höfðum við einfalda rjóma- og smjörsósu, rifinn parmesanostur yfir, einfalt salat og kalt hvítvín með.

Ljúffengur kvöldverður!