Okkur hefur langað til þess að elda þenna pottrétt í mjög langan tíma og núna þegar veturinn er í hæstum hæðum er um að gera að nýta tækifærið og elda þennan bragðmikla og hægeldaða rétt.
Þessi réttur er ættaður frá Belgíu og er því að sjálfsögðu belgískur bjór í honum. Aðalhráefnin eru 3 – nautakjöt, laukur og bjór. Bjórinn spilar stórt hlutverk í réttinum og því skiptir máli að hafa réttan bjór. Að þeim sökum fórum við í rannsóknarvinnu á veraldarvefnum en eins og oft áður þegar leitað er þar er margar misvísandi uppýsingar að finna, en í ljósi þess að um þjóðar rétt Flæmska hluta Belgíu er að ræða, þá voru sitthvorar skoðanir á því hvernig rétturinn er eldaður. Oftast var þá um tvæ leiðir að ræða, annað hvort að nota dökkan klausturs bjór eða Flæmskt rauðöl (súrbjór). Við ákváðum að nota dökkan klausturs bjór í þetta skipti en munum klárlega prófa að nota súrbjórinn síðar.
Við notuðum svínafeiti til þess að steikja kjötið upp úr. Svínafeitið gerðum við daginn áður með því að elda svínaspekk (e. render). Það tókst ofboðslega vel og gaf kjötinu sætt og gott bragð.
Hægeldaður nautapottréttur
- 1,2 kg magurt nautakjöt
- 600 gr laukur, skorinn í sneiðar
- Feiti til steikningar (u.þ.b. 2-3 msk)
- 4 hvítlauksgeirar, kramdir
- Kryddvöndull (*)
- 1 stóran góðan belgískan bjór – eða 2 litla góða belgíska bjóra
- Nautasoð (eða vatn og kraft)
- Salt og pipar
- Maizenamjöl
(*) Við notuðum 3 stilka af steinselju, 1/2 tsk af timani og eitt lárviðarlauf, settum þetta í stóran tepoka og bundum fyrir.
Aðferð
Sneiðið kjötið í aflanga þunna kubba (ca. 1x2x3 cm). Stekið kjötið í nokkrum skömmtum í helmingnum af feitinni við háan hita. Salt og pipar eftir smekk. Takið af pönnunni og geymið. Lækkið hitann undir pönnunni og steikið laukinn upp úr restinni af feitinni í rúmlega 10 min. Salt og pipar eftir smekk og látið síðan hvítlaukinn út í (ekki elda).
Látið helminginn af kjötinu í eldfast mót/form (eitthvað sem hægt er að nota á hellunni – við notuðum le creuset pottinn okkar), síðan helmingur af lauknum ofan á kjötið og svo kryddvöndulinn ofan á. Endurtakið svo með restinni af kjötinu og lauknum. Hellið bjórnum (eða bjórunum) út í og síðan soðið þannig að vökvinn nái u.þ.b. 1 cm yfir kjötið. Náið upp suðu, lok á og látið síðan inn í 125°C heitan ofn. Eldið í u.þ.b. 2 1/2 tíma en þá á kjötið að vera orðið vel mjúkt.
Hellið soðinu af og færið yfir í pott. Sjóðið niður þar til u.þ.b. 250 ml eru eftir af soðinu og þykkið með maizenamjölinu þannig að það þeki skeið. Hendið kryddvöndlinum. Hrærið soðinu/sósunni saman við kjötið og laukinn og hitið eftir þörfum. Berið fram með góðum kartöflum eða kartöflumús.
Bon appetit!