Rauðrófubollur með sesamfræjum

Í matarkafla Sunnudagsmoggans í dag var stutt viðtal við okkur ásamt því að við gáfum uppskrift af þessum skemmtilegum rauðrófubollum. Hér fylgir uppskriftin ásamt fleiri myndum af rauðrófubollunum.

raudrofubollatilbuin
Rauðrófubollur með sesamfræjum (8-10 stk)
  • 25 g ferskt pressuger
  • 2 1/2 dl volgt vatn
  • 500 g hveiti
  • 1 msk sykur
  • 1 tsk salt
  • 30 g mjúkt smjör
  • 1 stórt egg
  • 75 g sesamfræ
  • 1 stór rauðrófa, rifin

Setjið ger, sykur og volgt vatn í skál og hrærið vel saman. Bætið salti og hveiti út í og hnoðið. Látið smjör út í deigið og hnoðið þar til deigið er mjúkt og teygjanlegt. Leggið rakt stykki yfir skálina og leyfið deiginu að lyfta sér í klukkustund. Búið til holu í miðju deigsins og brjótið eggið í holuna. Hellið sesamfræjum og rauðrófu í holuna og teygið deigið yfir fyllinguna svo úr verði stór deigkúla. Notið hníf eða spaða til þess að skera deigið í marga litla bita og sjáið til þess að blanda egginu, sesamfræjum og rauðrófunni jafnt í deigið. Bitarnir þurfa ekki vera jafnstórir en deigið á að haldast saman eins og hakkabuff.

deigogegg

deigograudrofa

deigkula

raudrofanærmynd

Skiptið deiginu í 8-10 hluta og komið þeim fyrir á bökunarplötu með bökunarpappír. Leyfið deiginu að lyfta sér í 30 mínútur og bakið síðan í 10-15 min við 220°C án blásturs.

raudrofubollurtilbunar

Rauðrófubollurnar eru einstaklega góðar með smjöri og osti.

Það er hægt að nota annað rótargrænmeti í staðinn fyrir rauðrófurnar, til dæmis gulrætur eða rófur. Einnig er lítið mál að nota aðra tegund af fræjum í uppskriftina, til dæmis sólblómafræ eða graskersfræ.

Aloo Gosht – Indverskt lamb með kartöflum

Þegar við vorum seinast á Íslandi keyptum við okkur lambalæri, enda er fátt nokkuð betra en íslenskt lambakjöt. Lærið var vel stórt og því úrbeinuðum við það og skiptum í 4 parta. Við áttum smá eftir í frystinum sem við elduðum indverskan lambakjötsrétt með kartöflum úr. Rétturinn var ofboðslega bragðgóður og sósan æðisleg!

Indverskt lamb með kartöflum
  • 400 g lambakjöt, skorið í bita
  • 1 tsk kóríanderduft
  • 1 tsk cuminduft
  • 1 tsk chillí
  • 1/2 tsk garam masala
  • 60 ml ghee („hreinsað“ smjör)
  • 1 lárviðarlauf
  • 1/2 tsk cuminfræ
  • 3 stórar kartöflur, skornar í 4 bita
  • 1 stór laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1/2 kanilstöng
  • 2 negulnaglar
  • fræ úr einni svartri kardimommu
  • 2 grænar kardimommur
  • smá mace (hýði af múskathnetu – sjá mynd)
  • 1 cm ferskt engifer, saxað
  • 1 msk hvítlaukur, saxaður
  • 125 g tómatar, saxaðir
  • salt eftir smekk

Látið kóríanderduft, cuminduft, chillí og garam masala í skál og bleytið kryddin með smá vatni svo úr verður þykkt mauk. Geymið maukið.

larvidarlaufogcumin

Hitið ghee á pönnu. Látið lárviðarlauf og cuminfræ út í og hitið í u.þ.b. 1 min, eða þar til fræin fara að ilma. Látið kartöflur út í og steikið í 15-20 min, eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar og fallegar. Takið kartöflurnar af pönnunni og látið renna af þeim á eldhúspappír.

kardimommurogmuskat

Svört kardimommufræ // Mace

kartofluroglaukur

Komið lauknum fyrir á pönnunni og steikið í 5 min, eða þar til laukurinn er orðin vel gylltur. Látið kanilstöng, negulnagla, kardimommufræ, kardimommur og mace út í og steikið í 2 min. Látið síðan kryddmaukið út í, síðan 1 msk af vatni, engifer og hvítlauk. Hrærið vel. Lambakjötið á pönnuna og steikið kjötið í 5 min. Tómatar út í og steikið áfram í 5 min.

lambakjot

Hellið 250 ml af vatni út í réttinn, salt eftir smekk, lok á pönnuna og leyfið réttnum að malla í 1 – 1 1/2 klukkutíma, eða þar til kjötið er orðin vel meyrt. Látið þá kartöflubitana út í, hitið vel og þá er rétturinn tilbúinn! Berið fram með hrísgrjónum og naanbrauði.

lambarettur

Verði ykkur að góðu!

Msemmen – Marokkóskar pönnukökur

Í Marokkó borðuðum við ótrúlega góðan mat og þar var margt sem við höfum aldrei áður séð né smakkað! Einn morguninn fengum við ofboðslega ljúffengar pönnukökur, msemmen, sem voru reyndar frekar eins og flatbrauð í mörgum örþunnum lögum, borið fram með bræddu hunangi og smjöri. Um kvöldið keyptum við okkur eins pönnuköku en með kryddaðri laukfyllingu og þá var ekki aftur snúið – við urðum að komast að því hvernig þessar marokkósku pönnukökur eru gerðar!

Eftir Marokkó ferðina okkar fjárfestum við í matreiðslubók eftir Paula Wolfert – nýju bókina hennar The Food of Morocco. Í bókinni fundum við uppskrift að msemmen og prófuðum hana um síðustu helgi. Með pönnukökunum bræddum við hunang og smjör í litlum potti og borðuðum með pönnukökunum því þannig borða Marokkóbúar msemmen á morgnana.

marokkoskar pönnukökur

Msemmen – Marokkóskar pönnukökur (sirka 8 stykki)
  • 110 g fínmalað semolinahveiti (einnig kallað durum)
  • 100 g hveiti
  • 1 tsk salt
  • 1/8 tsk þurrger
  • volgt vatn eftir þörfum (u.þ.b. 150 ml)

Þar að auki:

  • olía til þess að móta deigið
  • 3 msk brætt smjör til steikingar
  • gróft semolinahveiti (durum)

Látið hveiti, salt og ger í skál og blandið þessu vel saman. Hellið vatni eftir þörfum og hnoðið deigið þar til það er orðið mjúkt og teygjanlegt. Leyfið deiginu að hvíla í 10 min.

Skiptið deiginu í 8 jafna hluta og þekið það með smá olíu (best er að gera þetta í höndunum). Fletjið nú hverja kúlu af deigi með höndunum – hér er nauðsynlegt að hafa smá olíu á höndunum til þess að deigið verði fallega slétt og jafnt. Stráið grófu semolinahveiti yfir deigið en semolinahveitið gerir það að verkum að það verða mörg örþunn lög í pönnukökunni. Brjótið síðan deiginu saman svo úr því verður ferkantaður koddi (sjá mynd).

deigogadferd

deigtilbuid

pönnukakantilbuin

Fletjið deigið út með höndunum og steikjið síðan á pönnu með örlítið af bræddu smjöri. Bræðið hunang og smjör og berið fram með pönnukökunum.

marokkoskarpönnukökur

Verði ykkur að góðu!

Bökuð ostakaka

Í tilefni 25 ára afmæli hennar Ástu var skellt í afmælisköku. Afmæliskakan varð að þessu sinni ótrúlega ljúffeng bökuð ostakaka. Best er að gera kökuna nokkrum dögum áður en það á að borða hana því hún verður bara betri þannig!

ostakaka

Bökuð ostakaka

Botninn
  • 50 g smjör, brætt
  • 100 g digestive kex, mulið í matvinnsluvél
  • 1 msk hrásykur

Bræðið smjör og myljið kexið í matvinnluvél. Látið sykur út í, síðan smjör og blandið þessu vel saman. Komið þessu fyrir í smelluformi (24 cm) og þrýstið jafnt svo botninn verði fallega sléttur. Bakið við 180 °C í 10 min. og látið síðan kólna.

Ostafylling
  • 150 g rjómaostur (við stofuhita!!)
  • 125 g hrásykur
  • 1 1/2 msk hveiti
  • smá salt
  • 1 tsk vanilludropar
  • sítrónubörkur af 1/2 sítrónu
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 2 egg
  • 120 ml sýrður rjómi (ég notaði 18%)

Látið rjómaostinn í skál og hrærið þar til áferðin er orðin mjúk og slétt (ég notaði hrærivélina). Það er mikilvægt að hafa rjómaostinn við stofuhita til þess að ná réttri áferð á fyllingunni því annars geta verið kekkir í henni. Látið sykur, hveiti og salt út í rjómaostinn í nokkrum umferðum og hrærið þessu rólega saman (ekki hræra alltof miklu lofti í fyllinguna). Vanilludropar, sítrónubörk og sítrónusafi út í og hrærið vel. Látið síða eitt egg út í í einu og hrærið vel. Að lokum sýrður rjómi út í rjómaostafyllingu og hellið fyllingunni síðan ofan í smelluformið með kexbotninum. Ef loftbólur sjást á yfirborðinu er gott að stinga í þær með hnífsoddi.

Bakið við 200 °C í 10 min., lækkið síðan hitann niður í 110 °C  (með kökuna allan tíman inn í ofninum) og bakið í 25 min. Leyfið ostakökunni að standa í opnum ofni í u.þ.b. 2 klukkutíma, eða þar til hún er orðin mátulega köld (ég tók hana út eftir 30 min. með ofninn opinn og leyfði henni að standa á borðinu að kólna).

Ofan á kökuna
  • 100 ml sýrður rjómi (aftur 18%)
  • 1/2 msk hrásykur
  • 1 tsk sítrónusafi

Hrærið hráefnunum vel saman og sjáið til þess að sykurinn leysist alveg upp. Hellið á kökuna þegar hún er orðin alveg köld og látið hana síðan inn í ísskáp í a.m.k. 8 klukkutíma (gjarnan lengur!).

Losið um kantana á ostakökunni (ef þörf er fyrir) með beittum hníf og náið kökunni síðan úr smelluforminu. Berið fram með ferskum ávöxtum.

ostakakasneid

Ótrúlega fersk, mjúk og dásamleg!

Marokkóskur kjúklingur með söltuðum sítrónum og ólífum

Gleðilegt nýtt ár!
Við hjónin skelltum okkur í ferðalag til Marokkó yfir áramótin, byrjuðum í 3 daga fjallgöngu í Atlasfjöllunum og tókum síðan 3 daga í Marrakesh. Við borðuðum endalaust af gómsætum marokkóskum mat og drukkum ansi marga lítra af marokkósku mintutei! Á nýársdag fórum við á marokkóst matreiðslunámskeið þar sem við elduðum þennan dásamlega og frekar einfalda kjúklingarétt. Að námskeiðinu loknu fengum við tvo litla tagine-potta sem við tókum með okkur heim.

eldhusid

tanginaogkrydd

kokkur

Marokkóskur kjúklingur f. 2
  • 400 g kjúklingur í bitum
  • 1/2 söltuð sítróna
  • 1/2 stór rauðlaukur
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð
  • 1 msk ferskt kóríander, saxað
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 1/2 tsk pipar
  • 1/2 tsk engiferduft
  • 1 stór tsk túrmerík
  • smá saffran
  • 1 msk olía
  • 4 msk vatn
  • Ólífur eftir smekk

Skerið sítrónuna í tvennt og takið „kjötið“ innan úr henni, fjarlægið fræ og himnuna af „kjötinu“. Geymið sítrónubörkinn. Saxið nú „kjötið“ úr sítrónunni og komið því fyrir í potti. Saxið hvítlauk, rauðlauk og kryddjurtir og látið út í pottinn ásamt kryddinu. Hellið vatni og olíu út í og hrærið vel. Komið kjúklingabitum fyrir í pottinum snúið bitunum nokkrum sinnum í vökvanum til að ná að krydda kjúklinginn.

Eldið á háum hita í 10 min með loki og lækkið síðan niður á miðlungshita í 20-30 min, eða þar til kjúklinguinn er eldaður. Snúið kjúklingabitunum einu sinni í vökvanum eftir 10 min og sjáið til þess að það sé nóg vatn í pottinum til þess að sósan brenni ekki við.

tanginur

kjuklingurogsitrona

Skreytið með sítrónuberkinum og ólífum eftir smekk og berið fram með góðu brauði.

Verði ykkur að góðu!