Föstudaginn 8. febrúar áttum við miða á mjög áhugaverðan viðburð sem brugghúsið Mikkeller í samstarfi við veitingastaðinn Mielcke & Hurtigkarl stóðu fyrir. Viðburðurinn var haldinn við Frederiksberg Have og samanstóð af 6 rétta máltíð með 6 mismunandi sérbrugguðum bjórum.
Bjórarnir voru samstarfsverkefni Mikkeller og Mielcke & Hurtigkar á þann máta að Mikkeller lagði til grunnbjórinn. Það voru nokkrir mismunandi bjórar sem þeir brugga öllu jafna en síðan tóku kokkarnir við þeim og, eins og þeir orðuðu það sjálfir, lögðu sig allan fram við að „eyðileggja“ bjórana með því að bæta ótrúlegustu hlutum út í bjórkútana og leyfa bjórnum að þroskast áfram þannig. Þetta var því mest spennandi viðburður sem við höfum farið á til þessa hvað varðar pörun drykkjar og matar en á sama tíma eins krefjandi fyrir bragðlaukana og mögulegt er.
Við hjóluðum í Frederiksberg Have í miklum kulda og frosti og okkur var því orðið ansi kalt þegar við komum á áfangastað. Móttökurnar voru þó hlýjar og við fengum strax fyrsta bjórinn í hendurnar. Bjórinn var húsbjór Mielcke & Hurtigkarl sem þeir hönnuðu í samstarfi með Mikkeller og var hann borinn fram í fínu freyðivínsglasi.
Á meðan gestirnir komu sér vel fyrir í sætunum við nokkrum stórum hringborðum í salnum gengu þjónarnir um með litla bakka af heimagerðu charcuteri úr bæði svíni og önd.
1. réttur kvöldsins: Ostrur á súrkálsbeði og heitri grænkálssósu yfir. Með ostrunum drukkum við súrbjór með kóríandersafa í – fersk samsetning og ótrúlegur litur!
2. réttur kvöldsins: Þunnildi af lúðu, sem var tæplegast eldað, í góðri rjómasósu með fyrstu steinbítshrogni ársins og sultaðum perlulauk. Með fisknum drukkum við It´s Alive bjórinn sem búið var að bæta bonito flögum (þurkaður og reyktur japanskur fiskur) út í. Þetta var sem sagt algjör fiskisprengja og frábær réttur.
3. réttur kvöldsins: Syndsamlegasti réttur sem til er! Djúpsteikt brioche brauð með kobenaut, kóríander, majónes og gúrkum. Það varð þögn í salnum. Þvílíkt lostæti!
Með réttinum fengum við aftur It´s Alive bjórinn en að þessu sinni Chardonnay útgáfuna þar sem bjórinn er þroskaður á hvítvínstunnum. Út í bjórinn var búið að bæta ótrúlegu magni af söltuðu malti og markmið kokkana var að hafa bjórinn á mörkum þess að vera drykkjarhæfur vegna magni af salti í honum. Við verðum að segja að það tókst hjá þeim en það var alveg ótrúlegt hvað bjórinn passaði vel með matnum.
4. réttur kvöldsins: Saltbakaður fiskur á hreðkustrimlum og jurtum með dökkri soðsósu. Með fisknum drukkum við George sem er óheyrilega kraftmikill imperial stout nefndur eftir George Forman. Bjórinn var bragðbættur með bergamot, sítrúsávexti með sérstakan keim af sítrónum og smá beisku. Bjórinn var frekar kaldur þegar hann kom í glasið en var síðan við stofuhita þegar síðasti sopinn var tekinn og smakkaðist aldrei eins. Okkur fannst það mjög skemmtilegt og áhugavert.
5. réttur kvöldsins: Jarðskokkaís á saltri karamellu og jarðskokkaflögum. Með eftirréttinum drukkum við Funky Easter, páskabjór Mikkeller, sem er bruggaður með tvenns konar geri þar sem seinna gerið er villigerið brettanomyces. Kokkarnir voru búnir að bæta við karmellu og rjóma í bjórinn og gera því háflgerðan Baileys bjór. Karamellukeimurinn passaði mjög vel við réttinn.
6. réttur kvöldsins: Síðasti réttur kvöldsins var ferskur, súr og beiskur eftirréttur með sítrúsávöxtum, sítrúsís og bergmot frauðköku. Ótrúlega fallegur réttur en við hjónin vorum ekki alveg sammála um ágæti hans. Ástu fannst hann of beiskur en Pétur var mjög sáttur. Með eftirréttinum drukkum við aftur Funky Easter en í þetta skiptið var búið að setja óhemju magn af engiferrót út í bjórinn. Það kom verulega á óvart hversu vel þurra beiskjan af bjórnum passaði vel með skarpa súra bragðinu af eftirréttinum.
Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld!