Hleypt páskaegg

Hér er örlítið hollari valkostur en súkkulaði páskaegg – en alls ekki síðri.

Hleypt egg (e. poached eggs) er að við höldu ein besta leið til þess að elda egg. Fullkomin eldun á eggjahvítu en rík og fljótandi eggjarauða í miðjunni. Mmmm!

hleyptegg1

Okkur hefur samt ekki gengið alltof vel að búa til hleypt egg hingað til. Við erum búin að prófa ýmsar aðferðir með mjög misjöfnum árangri (eggjahvítan sem losnar utan af eggjarauðinni, sprungin eggjarauða eða ofsoðið egg!). Um daginn sáum við þessa snilldar aðgerð í Masterchef Australia og eftir smá rannsóknarvinnu til viðbótar létum við slag standa.

Aðferðin gengur út á að brjóta eggin á plastfilmu og sjóða þau í henni. Við erum núna búin að prófa þetta tvisvar sinnum og hefur hvert einasta egg tekist frábærlega. Við mælum því með aðferðinni!

eggogfilma

Fyrsta skref er að rífa bút af plastfilmu og breiða úr bútnum á borðinu. Penslið smá af einhvers konar feiti á plastfilmuna, t.d. brætt smjör eða olía (Það er einnig hægt að krydda eggin á þessum tímapunkti, t.d. smá salt og pipar). Leggið plastfilmuna yfir litla skál og brjótið síðan egg á plastfilmuna. Takið saman hornin á filmunni og snúið varlega upp á. Hnýtið fyrir með tvinna.

eggogvatn

eggjabakki

Sjóðið eggin í plastfilmunni í vatni sem er nálægt suðumarki (sirka 90°C) í 3,5 – 5 min. Tíminn fer auðvitað eftir því hvað þið viljið hafa eggin mikið soðin og hversu stór þau eru. Við suðum okkar í 4,5 min en eggin voru frekar stór.  Gott er að láta disk í botninn á pottinum svo eggin liggi ekki beint á heitu stálinu (og verða þá soðin misjafnt).

hleyptegg

Veiðið eggin upp úr vatninu og klippið plastið fyrir neðan hnútinn. Takið plastfilmuna varlega af egginu og þá eruð þið komin með fullkomið hleypt egg! Síðan er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða og bera eggin fram með einhverju gómsætu.

hleypteggtilbuid

Verði ykkur að góðu!

Egg Benedict og spínatbrauð

Á laugardaginn gerðum við Egg Benedict á spínatbrauði en við fengum hugmyndina hjá The Fabulous Baker Brothers, sjónvarpsþættir sem er verið að sýna núna á föstudögum hérna í DK. Spínatbrauðið (e. spinach muffin) kom skemmtilega á óvart, það var einfalt og ofboðslega bragðgott, en hleypt egg og góð hollandaise sósa stendur svo sannarlega alltaf fyrir sínu!

eggbenedictspinat

Spínatbrauð 4 stk
  • 15 g smjör
  • 1 tsk sykur
  • 1 1/2 dl mjólk
  • 5 g ferskt pressuger
  • u.þ.b. 100 g ferskt spínat
  • múskat eftir smekk
  • 225 g hveiti
  • salt eftir smekk

Bræðið smjör og sykur í potti, hellið mjólkinni út í og síðan geri. Hærið vel. Setjið spínat út í heitu mjólkina, múskat og salt eftir smekk og takið af hitanum. Látið hveiti í hræriskál og hellið mjólkinni með spínatinu út í hveitið. Hnoðið deigið í 10 min á frekar hægum hraða. Deigið verður eiturgrænt og fallegt! Látið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að lyftast í 30 min á hlýjum stað.

deigid

Stráið hveiti yfir deigið og fletjið það örlítið út svo það verði um 1 cm á þykkt. Notið lítið hringform til þess að stinga út 4 brauð. Eldið brauðin á þurri pönnu í 5 min á hvorri hlið og leyfið þeim síðan að kólna örlítið.

spinatbollur

Hollandaise sósa
  • 125 g smjör
  • 1/2 tsk hvítvínsedik
  • 1 eggjarauða
  • salt og pipar eftir smekk
  • smá sítrónusafi

Bræðið smjör í potti. Setjið eggjarauðu, edik og salt í skál og hitið yfir vatnsbaði og þeytið eggjarauðurnar þar til blandan þykknar. Hellið nú smjörinu út í eggjablönduna í mjórri bunu og þeytið vel á meðan. Salt og pipar ásamt sítrónusafa eftir smekk og þá er hollandaise sósan tilbúin.

Rífið (eða skerið) spínatbrauðin í tvennt. Setjið góða skinku ofan á brauðið, síðan hleypt egg og hollandaise sósu á eggið. Verði ykkur að góðu!

Hveitilaus súkkulaðikaka og 1 árs afmæli

Bloggið varð 1 árs í síðustu viku og Pétur varð 31. Húrra húrra!

Pétur var þó veikur alla vikuna og því vorum við frekar róleg á afmælisdeginum sjálfum. Um helgina, þegar heilsan var öll að koma til, elduðum við ljúffenga uxuahalasúpu (sjá uppskriftina hér) og hveitilausa súkkulaðiköku í eftirrétt. Kakan er algjört lostæti en er mjög rík af súkkulaði. Til þess að vega á móti súkkulaðinu gerðum við mascarponerjóma sem við bárum fram með kökunni.

kaka2

Hveitilaus súkkulaðikaka
  • 55 g smjör
  • 90 g sykur
  • 150 g dökkt súkkulaði (við notuðum 70%), saxað
  • 1 msk olía
  • 3 stór egg
  • 1 msk gott ósætt kakóduft (e. natural unsweetened cacoa)
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • smá salt

Hitið ofninn í 180 °C. Smyrjið 22 sm form og stráið sykri í formið, hristið forminu svo sykur dreifist jafnt og hellið síðan eins mikið af lausum sykri og hægt er frá. Geymið formið.

Setjið súkkulaði, olíu og 55 g af smjöri í skál og bræðið yfir vatnsbaði. Takið skálinu af hitanum.

Brjótið 2 egg og látið eggjarauður og eggjahvítur í sitt hvoru skálina. Geymið skálina með eggjahvítunum en setjið kakóduft, vanilludropa, salt, 30 g af sykri og 1 egg í skálina með eggjarauðunum. Hrærið vel og hellið síðan blöndunni hægt út í brædda súkkulaðið og hrærið þar til blandan er slétt og falleg.

Stífþeytið eggjahvíturnar og hellið síðan 60 g af sykri (restin af sykri) út í og þeytið þar til stífir toppar myndast. Blandið marengsnum saman við súkkulaðiblönduna og hellið deiginu síðan í smurða formið. Stráið 1 msk af sykri yfir deigið og setjið inn í ofn.

Bakið þar til kakan er farin að losna frá köntunum í forminu og smá sprunga myndast á toppi kökunnar (þetta tók um 25 min hjá mér). Leyfið kökunni að kólna.

kakayfirlit

Mascarponerjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1 dl mascarpone ostur

Setjið rjóma og mascarpone í skál og stífþeytið. Berið fram með súkkulaðikökunni.

sukkuladikaka

Verði ykkur að góðu!

Uxahalasúpa

Þegar veturinn ætlar engan enda að taka þá er bara eitt að gera – elda góðan vetrarmat. Í kuldanum um helgina elduðum við bragðmikla uxahalasúpu með byggi, rauðlauk og perlulauk.

supanærmynd

Það tekur langan tíma að elda uxahalana fyrir súpuna og alveg eins og með íslensku kjötsúpuna verður uxahalasúpan bara betri daginn eftir. Við byrjuðum því að elda súpuna deginum áður en hún var borðuð en súpan var alveg þess virði!

Uxahalar
  • 850 g uxahalar
  • 4 shallot laukar
  • 2 sellerístilkar
  • 2 gulrætur, meðalstærð
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 3 stilkar af steinselju
  • grein af timiani
  • 2 msk olíu
  • 250 ml þurrt rauðvín
  • salt og pipar eftir smekk

Setjið msk af olíu út í góðan pott og steikið halana við miðlungs hita þar til þeir eru vel brúnaðir á alla kanta, sirka 10 – 15 mínútur. Saxið grænmetið gróflega niður á meðan.

Þegar uxahalarnir eru orðnir vel brúnaðir færið þá yfir á disk og geymið. Setjið msk af olíu út í pottinn og steikið grænmetið í tæpar 10 mínútur. Bætið hvítlauknum út í, því næst hölunum og loks kryddjurtunum. Hellið síðan rauðvíninu og 500 ml af vatni út í pottinn og náið upp suðu. Setjið pottinn inn í 135°c heitan ofn og leyfið kjötinu að malla þar í u.þ.b. 3,5 klukkutíma en þá á kjötið að vera lungnamjúkt.
Leyfið kjötinu að kólna örlítið, takið það síðan upp úr pottinum og tætið kjötið af hölunum. Setjið kjötið í box. Látið soðið renna gegnum sigti (ætti að vera u.þ.b. 500 ml af soði) og hendið grænmetinu. Setjið soðið í box og geymið kjötið og soðið í sitthvoru lagi í kæli yfir nótt.

Súpan
  • 150 g perlulaukur, má vera frosinn
  • 2 rauðlaukar, fínsneiddir
  • 2 msk smjör
  • 1/2 dl búrbon (viskí)
  • 500 ml gott kjúklingasoð
  • 1 dl bankabygg.
  • salt og pipar eftir smekk

Bræðið smjörið við miðlungs hita í góðum potti og setjið rauðlaukinn útí og eldið á rólegum hita í 45 mínútur þar til hann er orðinn djúprauður (ef laukurinn byrjar að þorna of mikið bætið örlítið af vatni út í). Færið laukinn af hitanum og hellið viskí út í og skrapið upp allt af botninum. Setjið síðan perlulaukinn, kjúklingasoðið, soðið frá því í gær og byggið út í pottinn og sjóðið í 1 tíma eða þar til byggið er orðið mjúkt. Setjið að lokum kjötið af uxahölunum út í súpuna og hitið vel. Salt og pipar eftir smekk og þá er súpan tilbúin!

supa1

Við borðuðum síðan súpuna með heimagerðu maísbrauði (e. cornbread) og það var fullkomið með súpunni.

maisbraud

Verði ykkur að góðu!

Blinis með steinbítshrognum, reyktum osti og karsa

Í Torvehallerne keyptum við falleg og fersk steinbítshrogn sem við borðuðum í hádeginu í dag ofan á blinis (litlum pönnukökum sem eru bakaðar með geri) með reyktum osti (d. rygeost) og karsa. Ljúffengur hádegismatur!

blinisoghrogn1

Blinis (u.þ.b. 30 litlar pönnukökur)
  • 230 g hveiti
  • 1 tsk salt
  • 20 g fersk pressuger
  • 2 dl mjólk
  • 2 egg (eggjarauður og eggjahvítur í sitt hvoru lagi)
  • 2 dl sýrður rjómi (18%)

Sigtið hveiti og salt í skál og látið gerið út í. Hitið mjólkina í potti þar til hún er orðin vel volg. Hrærið saman eggjarauðum og sýrðum rjóma og hellið síðan út í mjólkina. Hrærið vel og hellið síðan eggjablöndunni út í hveitið. Hrærið þar til deigið er slétt og fallegt. Leyfið deiginu að standa á hlýjum stað í 30 min.

Þeytið eggjahvítur og setjið út í deigið. Leyfið deiginu síðan að standa í 20 min. Steikið blinis á heitri pönnu í nokkrar min. á hvorri hlið og geymið.

Álegg
  • steinbítshrogn
  • reyktur ostur (d. rygeost)
  • sýrður rjómi
  • ferskur karsi

Hrærið saman reyktum osti og sýrðum rjóma eftir smekk. Látið smá af ostinum á hverja blini, síðan steinbítshrogn og karsa eftir smekk.

blinisoghrogn4

Verði ykkur að góðu!

Bananabrauð

Við áttum nokkra banana sem voru orðnir aðeins of þroskaðir. Við ákváðum að nota þá í bananabrauð sem við sáum í Bon Appétit en þetta er besta bananabrauð sem við höfum smakkað! Ótrúlega létt, mjúkt og dásamlegt með fínu bragði af bönunum. Uppskriftin er ofboðslega einföld og brauðið helst mjúkt og gott í nokkra daga.

bananabraud

Bananabrauð
  • 4 dl hveiti
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 3/4 tsk salt
  • 3 stór egg
  • 3 dl sykur
  • 2 stórir bananar, vel þroskaðir og sætir
  • 1 1/2 dl olía

Setjið hveiti, matarsóda og salt í skál og hrærið saman. Látið egg, sykur, olíu og banana í aðra skál og hrærið vel. Látið hveitiblöndunni út í og hrærið.

Hellið deiginu í smurt brauðform og bakið við 180 °C þar til brauðið er bakað í miðjunni. Það tekur u.þ.b. 60 min.

Leyfið brauðinu að kólna aðeins í forminu áður en þið reynið að losa það úr forminu.

bananar

bananabraudskorid

Verði ykkur að góðu!