Hér er örlítið hollari valkostur en súkkulaði páskaegg – en alls ekki síðri.
Hleypt egg (e. poached eggs) er að við höldu ein besta leið til þess að elda egg. Fullkomin eldun á eggjahvítu en rík og fljótandi eggjarauða í miðjunni. Mmmm!
Okkur hefur samt ekki gengið alltof vel að búa til hleypt egg hingað til. Við erum búin að prófa ýmsar aðferðir með mjög misjöfnum árangri (eggjahvítan sem losnar utan af eggjarauðinni, sprungin eggjarauða eða ofsoðið egg!). Um daginn sáum við þessa snilldar aðgerð í Masterchef Australia og eftir smá rannsóknarvinnu til viðbótar létum við slag standa.
Aðferðin gengur út á að brjóta eggin á plastfilmu og sjóða þau í henni. Við erum núna búin að prófa þetta tvisvar sinnum og hefur hvert einasta egg tekist frábærlega. Við mælum því með aðferðinni!
Fyrsta skref er að rífa bút af plastfilmu og breiða úr bútnum á borðinu. Penslið smá af einhvers konar feiti á plastfilmuna, t.d. brætt smjör eða olía (Það er einnig hægt að krydda eggin á þessum tímapunkti, t.d. smá salt og pipar). Leggið plastfilmuna yfir litla skál og brjótið síðan egg á plastfilmuna. Takið saman hornin á filmunni og snúið varlega upp á. Hnýtið fyrir með tvinna.
Sjóðið eggin í plastfilmunni í vatni sem er nálægt suðumarki (sirka 90°C) í 3,5 – 5 min. Tíminn fer auðvitað eftir því hvað þið viljið hafa eggin mikið soðin og hversu stór þau eru. Við suðum okkar í 4,5 min en eggin voru frekar stór. Gott er að láta disk í botninn á pottinum svo eggin liggi ekki beint á heitu stálinu (og verða þá soðin misjafnt).
Veiðið eggin upp úr vatninu og klippið plastið fyrir neðan hnútinn. Takið plastfilmuna varlega af egginu og þá eruð þið komin með fullkomið hleypt egg! Síðan er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða og bera eggin fram með einhverju gómsætu.
Verði ykkur að góðu!