Falafel – Gómsætar kjúklingabaunabollur

Falafel – þessar litlu kjúklingabaunabollur sem eru stökkar að utan og mjúkar og safaríkar að innan klikkar ekki! Við höfum gert þessar kjúklingabaunabollur nokkrum sinnum og borðum þær í pítubrauði með gúrkum, papríku og salati og gerum einfalda jógúrtsósu með kryddjurtum með. Léttur og bragðgóður matur!

falafelpita

Falafel – kjúklingabaunabollur
  • 200 g þurrkaðar kjúklingabaunir, lagðar í bleyti í 12 klukkustundir
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 1 laukur
  • 1 tsk kóríanderduft
  • 2 tsk cuminduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 lítil kartafla, rifin
  • 2 egg
  • 2 msk brauðmylsna
  • 1/4 tsk chillíduft
  • 1 msk sítrónusafi
  • Steinselja eftir smekk

Kjúklingabaunirnar eru lagðar í bleyti í 12 klukkustundir en þær eru ekki soðnar. Hellið vatninu frá og setjið í matvinnsluvél.

kjuklingabaunir

Látið öll hráefni í matvinnsluvélina og hakkið þar til úr verður frekar mjúkt og blautt deig. Hitið olíu í potti. Mótið litlar bollur úr deiginu með matskeið og steikið í olíunni þar til kjúklingabollurnar eru fallega gylltar. Látið á eldhúsrúllu, smá salt yfir og leyfið að kólna örlítið.

Það er lítið mál að frysta kjúklingabaunabollurnar og hita þær síðan bara örlítið í heitum ofni áður en þær eru bornar fram.

steiking

falafel

Verði ykkur að góðu!

Copenhagen Beer Celebration 2013

Fyrir rúmri viku síðan var Copenhagen Beer Celebration (CBC) 2013. Þar tóku ýmis flott brugghús þátt og voru mörg þeirra með sérbruggaða bjóra fyrir viðburðinn. Miðarnir á viðburðinn fóru í sölu nokkrum mánuðum fyrir og seldust allir á mjög skömmum tíma. Við vorum þó búin að tryggja okkur miða og vorum mætt rétt fyrir hádegi á laugardeginum.

Kvöldið áður hitum við upp fyrir viðburðinn og gerðum okkur The Rhinelander frá Cheeseandburger-síðunni en sá hamborgari er með bjórsinnepi og brauðið er sama deig og fyrir mjúku saltkringlurnar sem við gerðum til þess að hafa með í nesti á CBC (uppskriftin er hér).

hamborgari

kringlur

astaogpetur

bjorbleikur

Anchorage – Love Buzz / Amager Bryghus – Fruiticus lambicus raspberry

blaberogdokkur

/ Mikkeller – SpontanDoubleBlueberry

Viðburðurinn er hugmynd og barn hans Mikkels á Mikkellerbarnum og var haldinn nú í annað skipti eftir að hafa vakið frábæra lukku í fyrra. Viðburðurinn fór þannig fram að 30 úrvals brugghús voru hver með sinn bás og buðu hver upp á 3 mismunandi bjóra sem ýmist eru stolt þess brugghús eða höfðu verið sérstaklega bruggaðir fyrir viðburðinn. Við innganginn fengum við lítið glas og síðan gengum við um og smökkuðum að vild í 5 klukkutíma, sem er sá tími sem hver seta varir. Í heildina var boðið upp á 3 setur yfir 2 daga en við létum þó eina setu duga.

Það voru 90 bjórar í boði og því var ekki lítið verk hjá okkur að reyna smakka sem flesta en allt í allt náðum við að smakka 43 bjóra sem er tæpur helmingur af því sem var í boði. Bjórarnir voru úr öllum mögulegum og ómögulegum flokkum bjórheimsins. Hér að ofan má sjá þá 3 sem lentu í toppsætunum hjá okkur eftir harða en sanngjarna keppni.

Í 1. sæti var MikkellerSpontanDoubleBlueberry. Sá bjór smakkaðist ótúlega vel, þvílíkt bláberjabragð og villigerinn kom skemmtilega fram líka. Í 2. sæti voru nágrannar okkar hér á Amager með 3 ára lambic bjór, Fruiticus lambicus raspberry, sem fékk síðan góðan skammt af hindberjum til að vekja hann úr dvalanum. 3. sætið fekk Love buzz frá Anchorage brugghúsinu í Alaska. Ótrúlega góður saison sem er meðal annars bruggaður með piparkornum.

Fyrir utan þessa þrjá bjóra smökkuðum við himinn og haf af öðrum úrvalsbjórum og nutum þess að labba á milli bása. Stemningin var góð, rólegt og notalegt og allir frekar slakir á því.

bjorsmokkun

Við gerðum þó líka annað en að smakka alls konar bjóra því á staðnum voru nokkrir matsölubásar sem buðu upp á kræsingar með bjórsmökkuninni. Við fengum okkur pylsur hjá John´s Hotdog deli en þeir voru m.a. með þeirra eigið bjórsinnep og sultaðan rauðlauk í bjór sem þeir gerðu sérstaklega fyrir CBC. Pylsurnar frá John´s Hotdog deli eru alltaf góðar en þessar voru snilld!

pylsur

johnspylsur

pylsur2

Unika bauð upp á ostaþrennu þar sem ostarinir voru látnir liggja í þremur mismunandi bjórum og bragðið eftir því. Við vorum hrifnust af ostinum sem hafði legið í stout en hann var alveg hreint æðislegur. Síðar buðu þeir upp á gráðaost sem við ákváðum að smakka líka og vorum mjög sátt.

ostur

osturogbjor

Bjórsmökkunin var tekin mjög alvarlega og því voru mjög margir með lista yfir bjóra á viðburðinum sem þeir skrifuðu athugasemdir við og gáfu jafnvel einkunn. Við vorum ekki alveg jafn fagmannleg en voru þó með lista yfir hvaða bjórar yrðu í boði og merktum við þá sem við náðum að smakka.

smokkun

peturCBC

Samlokubrauð með stökkri skorpu

Þegar við gerðum kjúklingasamlokuna um daginn bökuðum við brauðbollur fyrir samlokuna. Þær voru einstaklega góðar þannig að um helgina gerðum við brauð eftir sömu uppskrift. Brauðið er dásamlegt alveg nýbakað en er líka ótrúlega gott ristað! Það geymist líka vel án þess að verða of þurrt.

braudskorid

Samlokubrauð
  • 500 g hveiti (við notuðum 50 g heilhveiti og 450 g hveiti í þetta skiptið)
  • 300 ml vatn
  • 7 g salt
  • 5 g ferskt pressuger

Setjið hveiti og vatn í skál og hnoðið í 2 min (bara rétt svo til þess blanda hveitinu og vatninu vel saman). Breiðið yfir skálina og leyfið að standa í 30 min.

Setjið síðan salt og ger út í og hnoðið í 15 min, eða þar til deigið er vel teygjanlegt (etv. að gera glútenpróf eins og hér) og slétt. Rakt stykki eða plast yfir deigið og látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast á stærð (tekur u.þ.b. 3 klukkutíma).

Sláið deigið niður og látið hefast í klukkutíma áður en þið mótið brauðið. Ef þið ætlið að gera braubollur þarf að skipta deiginu í bita á þessum tímapunkti.

brauddeigbraudhefastdeigskorid

Mótið brauð úr deiginu og látið það í brauðform. Látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast á stærð (tekur u.þ.b. 45 min) og bakið síðan í 220 °C heitum ofni í 20-30 min., eða þar til brauðið er orðið vel gyllt og fallegt á litinn. Leyfið brauðinu að kólna og njótið síðan.

samlokubraud

braudsneidarVerði ykkur að góðu!

Djúsí kjúklingasamloka

Við kaupum okkur mjög sjaldan skyndibitamat enda finnst okkur lang skemmtilegast að elda sjálf. Af og til langar okkur samt í eitthvað „djúsí“ og þá er fátt sem slær út djúpsteiktum mat. Við sáum þessa samloku með djúpsteiktum kjúklingabringum í Bon Appetit, myndin var hreinlega svo girnileg að við urðum að prófa! Samlokan var gómsæt og kjúklingurinn ofboðslega mjúkur og safaríkur. Hrásalatið er ferskt og með mikla sýru sem vegur vel á móti djúpsteiktu kjúklingabringunum. Síðan er chillí majónesið bara punkturinn yfir i-ið!

Fyrr sama dag vorum við búin að baka ljósar brauðbollur fyrir samlokuna.

braudbollur

Chillí majónes
  • 1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður
  • 1 dl majónes
  • 1 msk sterk chillísósa

Hrærið hráefnum saman og geymið.

Hrásalat
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 jalapeño
  • 1/2 lítill haus af hvítkáli
  • 1 dl af súrum gúrkum
  • 1/2 dl af vökva frá súrsuðu gúrkunum(e. pickle juice)

Skerið rauðlauk, jalapeño og hvítkálið mjög þunnt og setjið í skál. Setjið súrar gúrkur út í og vökva frá gúrkunum. Blandið vel saman og kælið.

Djúpsteikir kjúklingabitar
  • hveiti
  • salt og pipar eftir smekk
  • AB mjólk
  • 2 stórar kjúklingabringur, hver skorin í 4 bita
  • olía til steikingar

Setjið hveiti og salt og pipar eftir smekk í skál og látið AB mjólk í aðra skál. Hitið olíu í 180°C í potti. Dýfið bitunum fyrst í hveiti, síðan AB mjólk og að lokum aftur hveiti. Steikið síðan í heitri olíu í nokkrar min., eða þar til bitarnir eru fallega gylltir á litinn. Setjið svo á rist, salt eftir smekk og leyfið síðan aðeins að kólna.

kjuklingurhveiti

kjuklingabitar

Smyrjið brauðið með chillí majónesi, látið síðan kjúklingabita ofan á og að lokum hrásalat.

kjuklingasamloka

Bon appetit!