Fyrir rúmri viku síðan var Copenhagen Beer Celebration (CBC) 2013. Þar tóku ýmis flott brugghús þátt og voru mörg þeirra með sérbruggaða bjóra fyrir viðburðinn. Miðarnir á viðburðinn fóru í sölu nokkrum mánuðum fyrir og seldust allir á mjög skömmum tíma. Við vorum þó búin að tryggja okkur miða og vorum mætt rétt fyrir hádegi á laugardeginum.
Kvöldið áður hitum við upp fyrir viðburðinn og gerðum okkur The Rhinelander frá Cheeseandburger-síðunni en sá hamborgari er með bjórsinnepi og brauðið er sama deig og fyrir mjúku saltkringlurnar sem við gerðum til þess að hafa með í nesti á CBC (uppskriftin er hér).




Anchorage – Love Buzz / Amager Bryghus – Fruiticus lambicus raspberry

/ Mikkeller – SpontanDoubleBlueberry
Viðburðurinn er hugmynd og barn hans Mikkels á Mikkellerbarnum og var haldinn nú í annað skipti eftir að hafa vakið frábæra lukku í fyrra. Viðburðurinn fór þannig fram að 30 úrvals brugghús voru hver með sinn bás og buðu hver upp á 3 mismunandi bjóra sem ýmist eru stolt þess brugghús eða höfðu verið sérstaklega bruggaðir fyrir viðburðinn. Við innganginn fengum við lítið glas og síðan gengum við um og smökkuðum að vild í 5 klukkutíma, sem er sá tími sem hver seta varir. Í heildina var boðið upp á 3 setur yfir 2 daga en við létum þó eina setu duga.
Það voru 90 bjórar í boði og því var ekki lítið verk hjá okkur að reyna smakka sem flesta en allt í allt náðum við að smakka 43 bjóra sem er tæpur helmingur af því sem var í boði. Bjórarnir voru úr öllum mögulegum og ómögulegum flokkum bjórheimsins. Hér að ofan má sjá þá 3 sem lentu í toppsætunum hjá okkur eftir harða en sanngjarna keppni.
Í 1. sæti var Mikkeller – SpontanDoubleBlueberry. Sá bjór smakkaðist ótúlega vel, þvílíkt bláberjabragð og villigerinn kom skemmtilega fram líka. Í 2. sæti voru nágrannar okkar hér á Amager með 3 ára lambic bjór, Fruiticus lambicus raspberry, sem fékk síðan góðan skammt af hindberjum til að vekja hann úr dvalanum. 3. sætið fekk Love buzz frá Anchorage brugghúsinu í Alaska. Ótrúlega góður saison sem er meðal annars bruggaður með piparkornum.
Fyrir utan þessa þrjá bjóra smökkuðum við himinn og haf af öðrum úrvalsbjórum og nutum þess að labba á milli bása. Stemningin var góð, rólegt og notalegt og allir frekar slakir á því.

Við gerðum þó líka annað en að smakka alls konar bjóra því á staðnum voru nokkrir matsölubásar sem buðu upp á kræsingar með bjórsmökkuninni. Við fengum okkur pylsur hjá John´s Hotdog deli en þeir voru m.a. með þeirra eigið bjórsinnep og sultaðan rauðlauk í bjór sem þeir gerðu sérstaklega fyrir CBC. Pylsurnar frá John´s Hotdog deli eru alltaf góðar en þessar voru snilld!



Unika bauð upp á ostaþrennu þar sem ostarinir voru látnir liggja í þremur mismunandi bjórum og bragðið eftir því. Við vorum hrifnust af ostinum sem hafði legið í stout en hann var alveg hreint æðislegur. Síðar buðu þeir upp á gráðaost sem við ákváðum að smakka líka og vorum mjög sátt.


Bjórsmökkunin var tekin mjög alvarlega og því voru mjög margir með lista yfir bjóra á viðburðinum sem þeir skrifuðu athugasemdir við og gáfu jafnvel einkunn. Við vorum ekki alveg jafn fagmannleg en voru þó með lista yfir hvaða bjórar yrðu í boði og merktum við þá sem við náðum að smakka.


Líkar við:
Líka við Hleð...