Grilluð flank steik og chimichurri

Annar mikill kostur við það að vera komin aftur heim til Íslands er að komast í mat beint frá býli. Einn af þeim bóndum sem við höfum heimsótt oft er hann Doddi í Matarbúrinu en Doddi selur frábært nautakjöt og er með flott úrval af vöðvum.

Í síðustu heimsókn okkar til Dodda keyptum við Flank steik sem er úr síðunni á nautinu. Kjötið er grófara og bragðmeira en hinir svokölluðu „prime cuts“ en á sama tíma líka töluvert ódýrari.

steikagrillinu

Við ákváðum að grilla kjötið en til að það takist vel þarf að gera tvennt; marinera kjötið (til að brjóta niður vöðvann) og elda það við háan hita.

Marineringin: Við skárum steikina niður í smærri bita til að hafa hana meðfærilegri á grillinu. Síðan settum við kjötið í marineringu. Marineringin er tælensk fiskisósa og smá pipar. Piprið kjötið og komið fyrir í fati. Hellið fiskisósu yfir þannig rétt fljóti yfir kjötið. Látið inn í ísskáp og leyfið því að vera þar í tæpan sólahring. Marinering gerir kjötið bæði meyrara ásamt því að dýpka bragðið af kjötinu.

grillhiti

Hár hiti: Kjötið á að grilla á eins háum hita og hægt er og þá örstutt (steikurnar sem við vorum með fengu 2 og hálfa mínútu á hverri hlið). Þannig verður það stötkt að utan , medium rare inn við miðju og mjög meyrt. Til að ná sem hæstum hita á grillinu prófaði ég að nota ný viðarkol frá Weber. Með viðarkolunum ásamt því að vera duglegur að blása á grillið náðum við hitanum upp í góðar 350°c og það var kjörið hitastig fyrir þessa tilraun. Þegar búið er að grilla kjötið þarf að leyfa því að hvíla í sirka 5-10 min. Loks er það skorið niður í þunnar sneiðar og þá er mjög mikilvægt að skera þvert á vöðvaþræðina!

steikoskorin

steiktilbuin

Með kjötinu grilluðum við grænmeti og gerðum chimichurri sósu (það gleymdist alveg að taka mynd af sósunni!). Sósan kemur frá Argentínu og nota þeir hana mikið með steikum og passaði hún alveg ljómandi með flank steikinni. Það er mjög auðvelt að leika sér með mismunandi hráefni í sósuna en uppistaða sósunnar er steinselja, olífuolía, einshvers konar sýra (t.d. edik eða sítróna) og hvítlaukur.

maisoglaukur

Auðveld chimichurri

  • Eitt búnt af steinselju
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2-3 msk af olífuolíu
  • sítrónusafi eftir smekk
  • salt og pipar eftir smekk

Saxið steinselju og hvítlauku smátt og blandið saman. Hellið olíunni út í og hrærið mjög vel. Magn olíu fer eftir því hvernig steinseljan er og hversu fljótandi þið viljið sósuna. Sósan er síðan smökkuð til með sítrónusafa og salt og pipar. Góðar viðbætur út í sósuna er t.d. ferskt oreganó, chilí flögur, rauðvínsedik og shallotlaukur.

Kjötið var algjört lostæti og eldunin fljótleg og einföld – sannkallaður skyndibiti. Afgangarnir eru síðan frábærir í steikarsamloku daginn eftir!

Bláberjamúffur

Tveir mánuðir eru liðnir frá því að við blogguðum síðast. Haustið er komið og þótt ekkert hafi verið bloggað þá höfum við nú ekki setið á hakanum. Í sumar ferðuðumst við um Frakkland. Við borðuðum dásamlegan mat og drukkum æðisleg vín – við munum blogga um þetta allt saman við tækifæri en óhætt er þó að segja að þar hafi margar góðar hugmyndir kviknað og verða vonandi framkvæmdar sem fyrst.

Við erum flutt aftur heim til Íslands og höfum notið sumarsins vel. Íslenskt grænmeti, ferskur fiskur og ekki gleyma ófáum nóttum i tjaldinu góða í íslenskri náttúru – það er gott að vera komin heim.

Eitt af því sem við vorum spenntust fyrir við íslenska sumarið í ár var að komast í berjamó. Í ferðalögum okkar um allt land í sumar vorum við stöðugt með augun opin fyrir berjum en berjasprettan fór seint af stað og við tíndum því engin ber.

Síðustu helgi vorum við þó staðráðin í að fara í berjamó þrátt fyrir lélega veðurspá og fréttir um að nánast engin ber væri að finna í ár. Við klæddum okkur vel, tókum með okkur nesti og keyrðum út úr bænum í leit að einhverjum berjum.

Veðrið reynist mun betri en við áttum von á og við fyrstu tilraun fundum við góðan slatta af fallegum aðalbláberjum og fullt af krækiberjum. 3 klukkustundum síðar vorum við komin með 1,5 kg af aðalbláberjum og 2,6 kg af krækiberjum og vorum verulega sátt.

adalblaber

berjamo

Aðalbláberin eiga fara í sultu og bláberjaleður en úr krækiberjunum munum við búa til krækiberjasaft. Á sunnudaginn gerðum við þessar ljúffengu bláberjamúffur með bláberja ostakremi. Uppskriftin er frá Agnes Cupcakes og er mjög einföld. Múffurnar eru ótrúlega mjúkar og bragðgóðar!

blaberjamuffins

Bláberjamúffur (12 múffur)

  • 250 g hveiti
  • 250 g hrásykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 250 g smjör, brætt
  • 4 egg
  • korn úr 1 vanillustöng
  • 1 dl nýmjólk
  • 1 msk appelsínusafi
  • 2 tsk rifinn appelsínubörkur
  • u.þ.b. 80 g bláber

Látið hveiti, hrásykur, lyftiduft og salt í skál og blandið saman. Mjólk, smjör, appelsínusafi, vanilla og appelsínubörkur í aðra skál og hrærið síðan eggjum út í. Hellið vökva hægt út í hveitiblönduna og hrærið vel. Látið að lokum bláber út í deigið og hrærið varlega.

Látið deigið í sprautupoka og sprautið deig í 12 múffuform. Fyllið formin nánast alveg. Bakið í 15-20 min (mínar þurftu sirka 16 min) við 200°C en passið að bakaðar ekki of mikið því þá verða þær þurrar. Leyfið þeim síðan að kólna alveg.

muffur

Bláberja ostakrem:

  • 100 g mjúkt smjör
  • 100 g rjómaostur
  • u.þ.b. 250 g flórsykur
  • korn úr 1/2 vanillustöng
  • appelsínubörkur eftir smekk
  • nokkur bláber

Hrærið saman smjöri og rjómaosti. Látið síðan vanillu, appelsínubörk og bláber út í, og að lokum flórsykur. Þeytið þar til kremið er mjúkt og loftkennt (ef kremið er of þunnt þarf meiri flórsykur).

Notið sprautupoka til þess að sprauta krem á múffurnar og skreytið með bláberjum.

muffurbiti

Verði ykkur að góðu!