Panang karrí kjúklingur

Um daginn kom yfir okkur alveg svakaleg löngun í einhvern góðan taílenskan rétt enda gott að fá smá hita í sig þegar hitin úti er byrjaður að mælast í bláum tölum.

Þá fór smá rannsóknarvinna af stað og fundum við meðal annars þetta fína taí blog. Þar fengum við fullt af hugmyndum sem var frábært því allar matreiðslubækurnar eru enn í geymslu með restinni af búslóðinni okkar.

Við ákváðum að elda þennan dásamlega og einfalda panang karrí kjúkling og vorum mjög sátt.

panaengkjuklingur

Þegar við höfum eldað taílenskan mat höfum við bæði prófað að búa til okkar eigið karrí mauk (e. curry paste) og að kaupa það tilbúið. Reynslan okkar er sú að ef maður er svo heppinn að finna öll þau hráefni sem eiga vera í maukinu þá getur það verið virkilega gott ásamt því að það er mjög gaman að sjá og fá tilfinningu fyrir hráefnunum í karríinu. Tilbúið karrí mauk er hins vegar alls ekki síðra! Það er margfalt fljótlegra að nota tilbúið mauk, það geymist vel í ísskápnum og svo er það töluvert ódýrara en að kaupa öll hráefnin sjálf. Við notuðum því tilbúið karrí mauk í þetta skiptið.

Panang Karrí kjúklingur
  • 1,2 kg beinlaus kjúklingur skorinn niður í munnbita (við keyptum 2 hæfilega litla kjúklinga og úrbeinuðum – bringurnar og lærin voru notuð og svo eigum við leggi í frystinum)
  • 400 gr kartöflur, afhýddar og skornar í munnbita
  • 1 dl Panang karrí mauk
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4 msk ósætt hnetusmjör (t.d. Himneskt gróft hnetusmjör)
  • 2-3 stk jalapeno chilí, skorið niður í þunna strimla
  • 6 kaffir lime laufblöð, frosin eða þurrkuð.
  • 1/2 dl fiskisósa
  • 2 msk pálmasykur (eða púðursykur)

Byrjið á því að steikja karríið og þykka partinn af kókosmjólkinni (það sem er efst í dósinni) á pönnu. Hrærið duglega saman þar til kókosmjólkin byrjar að skilja sig leyfið þá að malla í smá stund.

Hækkið hitann, bætið kjúklingi úti og steikið í smá stund. Bætið því næst restinni af kókosmjólkinni (kókosvatninu) útí ásamt nóg af vatni svo fljóti yfir kjúklinginn. Setjið fiskisósuna og sykurinn úti og náið upp suðu. Bætið kaffir laufum út í. Um leið og suðan er komin lækkið þá hitann og leyfið þessu að malla í sirka 30 mínútúr (þá á kjúklingurinn að vera fulleldaður).

Látið hnetusmjör og chilí í réttinn og hrærið vel. Ef sósan er mjög þunn er gott að þykkja hana með því að sjóða örlítið niður eða bæta smá sósujafnara í sósuna. Fiskisósa og sykur eftir smekk. Berið fram með nóg af hrísgrjónum.

panaeng

Verið ykkur að góðu!

Rifsberjabaka með óbökuðum marengs

Eitt af haustverkunum í ár var að tína ber af berjarunnum. Rifsberjarunninn hjá mömmu (Péturs) var svo öflugur í ár að þegar búið var að sulta í ársskammt af risfberjahlaupi voru enn töluvert af berjum eftir á runnanum.

rifsberljos

Rifsberjahlaup er alltaf gott en okkur langaði samt að prófa eitthvað nýtt, gera eitthvað annað gómsætt úr berjunum. Eftir nokkra leit suðum við saman þessa uppskrift – ljúffeng og falleg rifsberjabaka með óbökuðum marengs. Við munum klárlega endurtaka leikinn næsta haust!

skorin

Botn (20-22 cm form)

  • 90 g mjúkt smjör
  • 50 g sykur
  • smá salt
  • korn úr 1 vanillustöng
  • 1 egg
  • 20 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
  • 160 g hveiti

Látið smjör, sykur, salt og vanillubaunir í skál og hrærið vel saman. Setjið egg út í smjörblönduna og hrærið. Blandið saman hveiti og möndlumjöli. Látið út í smjör- og eggjablönduna og hnoðið þar til deigið helst saman. Látið plast utan um deigið, fletjið örlítið með höndunum og látið inn í kæli í a.m.k. klukkustund.

botn

Fletjið deigið út svo það passi í bökuformið (best að nota form með lausan botn því þá losnar bakan auðveldlega úr forminu). Komið deiginu fyrir í forminu og gatið á nokkrum stöðum með gaffli. Setjið bökunarpappír á botninn og fyllið með þurrkuðum baunum eða leirkúlum. Bakið botninn svona í 10 min, fjarlægið síðan baunirnar/leirkúlurnar og bökunarpappírinn og bakið áfram í ca. 10 min, eða þar til botninn hefur tekið lit.

rifsberskal

Rifsberjafylling

  • 300 g fersk eða frosin rifsber
  • 90 g sykur
  • 3 egg
  • 3/4 dl rjómi

Skolið berin vel (ef þau eru fersk) og látið í pott. Sjóðið þar til berin í nokkrar min. og notið sleifu til þess að merja berin á meðan svo saftið kreistist úr þeim. Látið saft renna í gegnum sigti og notið sleif til þess að kreista úr hratinu. Úr rifsberjunum fáið þið u.þ.b. 160 g rifsberjasaft.

rifsbersodin

Sykur og egg í skál og hrærið saman (ekki þeyta því þá myndast loftbólur í fyllingunni). Látið 130 g (geymið rest fyrir marengsinn) rifsberjasaft út í og hrærið vel. Bætið við rjóma að lokum og hrærið þar til blandan er jöfn. Hellið í bökubotninn og bakið við 120°C við blástur í u.þ.b. 30 min, eða þar til fyllinginn er orðin föst. Leyfið að kólna.

botnmedfyllingu

Bleikur marengs

  • 3 eggjahvítur
  • 180 g sykur
  • Restin af rifsberjasaftinu

Eggjahvítur og u.þ.b. 60 g sykur í skál og þeytið. Bætið sykur út í hægt á meðan og síðan rifsberjasaftinu. Þeytið þar til marengsinn er orðin vel stífur.

rifsberjabaka

Sprautið marengs á rifsberjabökuna þegar hún er orðin alveg köld. Notið brennara (e. flamer) til þess að brenna marengsinn örlítið (má sleppa) og berið síðan fram.

rifsberjabakaskorin

Verði ykkur að góðu!