Það er liðinn alltof langur tími síðan við blogguðum síðast. Nóvembermánuður hefur liðið hratt en við fluttum loksins í íbúðina okkar í byrjun nóvember og síðustu vikurnar hafa farið í að koma okkur almennilega fyrir. Það hefur ekki verið mikill tími til þess að eyða miklum tíma í eldhúsinu undanfarið og enn minna verið um myndatöku af mat.
Um helgina tókum við okkur þó dágóða stund við morgunverðinn og gerðum ljúffengar stökkar vöfflur sem við sáum í Bon Appetit. Vöfflurnar eru ekki eins og hefðbundnu íslensku vöfflurnar; vöffludeigið er gert 8-12 tímum áður en vöfflurnar eru bakaðar og deigið inniheldur ger og brúnað smjör. Vöfflurnar eru ekki sætar og okkur fannst þær því ótrúlega góðar með skinku og osti. Gerið í deiginu gerir það að verkum að vöfflurnar eru einstaklega léttar og stökkar að utan og eru bestar nýbakaðar.
Stökkar vöfflur með geri
- 170 g smjör
- 500 ml mjólk, volg
- 125 ml súrmjólk
- 2 msk sykur
- 20 g ferskt pressuger
- 1 1/4 tsk salt
- 350 g hveiti
- 2 stór egg
- 1/4 tsk matarsódi
Bræðið smjör í potti og látið það verða örlítið brúnt. Látið síðan kólna í smá stund. Mjólk, súrmjólk, sykur, ger og salt í skál og hrærið vel. Hellið síðan hveiti og smjörinu út í og hrærið þar til deigið er jafnt. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa við stofuhita í 8-12 klukkutíma (Það er kjörið að búa til deigið kvöldið áður og baka síðan vöfflur um morguninn eftir).
Hitið vöfflujárnið. Hrærið egg og matarsóda í deigið og bakið vöfflurnar í heitu vöfflujárninu. Berið fram strax með góðu áleggi.
Verði ykkur að góðu!