Marokkóskar kjötbollur (Kefta) í kryddsósu

Við höfum áður skrifað um að nota heilt lambalæri í meira en eina máltíð. Um daginn keyptum við einmitt læri og erum nú þegar búin að búa til tvær gómsætar máltíðir úr því og eigum samt enn innanlærið eftir. Fyrri máltíðin voru marokkóskar kjötbollur eftir mikla löngun og hugsun til ferðalagsins okkar í Marokkó.

kjotbollur2

Um er ræða frekar einfalda matreiðslu og skemmtilega nýtingu á síðri vöðvum en þar sem kjötið er hakkað er það ótrúlega meyrt og gott. Við hökkuðum því síðri vöðvana af lærinu ásamt þindinni sem var enn á lærinu.

Kjötbollurnar
 • 500 gr lambahakk
 • 2 msk sýrður rjómi
 • 2 tsk paprika
 • 1 tsk malað cumin
 • 1 tsk malaður kóríander
 • 1 tsk kanill
 • 1/4 tsk rifið múskat
 • 1/4 tsk cayenne pipar
 • 2 msk af saxaðri ferskir steinselju og kóríander

Setjið öll hráefni í skál, blandið vel saman og mótið litlar kjötbollur.

kjotbollur1

Sósan
 • 1 rauðlaukur, rifinn í rifjárni
 • 2 msk smjör
 • 4 msk af saffran vatni (4 msk volgt vatn og smá af saffrani)
 • 1 tsk paprika
 • 1/2 tsk malað cumin
 • 1/4 tsk malað engifer
 • 1 dl vatn
 • 4 msk saxaður ferskur kóríander – ekkert að því að nýta stilkana líka.
 • 2 msk sítrónusafi

Setjð öll hráefni nema 1 msk af kóríander og sítrónusafa á stóra pönnu og steikið á meðal háum hita í 10 min. Lækkið niður í meðal lágan hita og bætið kjötbollum út í. Setjið lok á pönnuna og eldið í 30 min. Snúið kjötbollunum eftir 15 min.

Þegar kjötbollurnar eru fulleldaðar bætið þá sítrónusafa út í og salt og pipar eftir smekk. Stráið 1 msk af kóríander yfir og berið fram.

sosa

kjotbollur3

Við borðuðum kjötbollurnar með marokkósku (berber) flatbrauði eins og við fengum í fjöllunum í Marokkó. Uppskriftin kemur í næstu færslu!

Verði ykkur að góðu!

Áramótasteikin

Undanfarin ár höfum við haft matreiðsluna fyrir gamlárskvöld frekar veglega og á því var engin breyting á árinu sem var að líða. Við vorum byrjuð að elda fyrir kvöldið upp úr níu um morguninn og nutum þess að standa í dunda okkur í eldhúsinu allan daginn.

Aðalstjarna máltíðarinnar á gamlárskvöldi var nautasteikin sem var nautaframhryggur á beini (e. rib roast). Við slíka matargerð skiptir gæðin á kjötinu öllu máli og í heimsókn okkar til Dodda í Matarbúrinu í byrjun desember nefndum við þessa steik við hann. Doddi sá um að velja kjötstykkið handa okkur og það fékk svo að þurrhanga hjá honum nánast fram að áramótum. Á gamlársdag var kjötið því búið að hanga í u.þ.b. 6 vikur og leit stórkostlega út – djúprautt og virkilega meyrt.

nautakjot

Matreiðslan á svona fallegu kjöti á ekki að vera flókin. Kjötið var tekið út úr ísskápnum 4 klukkustundum áður en það fór í ofninn til þess að ná stofuhita – enda var það tæp 4 kg. Ofninn var hitaður í 100 °C, salt og pipar á kjötið og kjarnhitamælir stilltur á 50°C stunginn í kjötið. Kjötið fékk síðan að eldast þar til kjarnhitamælirinn hringdi við 50°C en það tók rúma 4 klukkutíma. Þá var kjötið tekið út úr ofninum og við lögðum álpappír og handklæði yfir það. Kjötið heldur þá áfram að eldast og kjarnhitinn hækkaði um heilar 4°C á einum klukkutíma, en það þarf einmitt að leyfa svona stóru stykki að jafna sig í allveg klukkutíma. Að lokum settum við kjötið inn í 250°C heitan ofn til þess að ná góðri skorpu. Það tók tæpar 10 min. hjá okkur.

nauteldad

nautskorid

kjotskorid2

Kjötið var síðan skorið niður í sneiðar og borið fram með soðsósu með mikið af shallotlauk, dijon sinnepi, guðdómlegar pommes anna kartöflur, léttu og fersku waldorfsalati og góðu rauðvíni. Allir voru hrikalega sáttir með matinn!

Gleðilegt nýtt ár!