Blinis með steinbítshrognum, reyktum osti og karsa

Í Torvehallerne keyptum við falleg og fersk steinbítshrogn sem við borðuðum í hádeginu í dag ofan á blinis (litlum pönnukökum sem eru bakaðar með geri) með reyktum osti (d. rygeost) og karsa. Ljúffengur hádegismatur!

blinisoghrogn1

Blinis (u.þ.b. 30 litlar pönnukökur)
 • 230 g hveiti
 • 1 tsk salt
 • 20 g fersk pressuger
 • 2 dl mjólk
 • 2 egg (eggjarauður og eggjahvítur í sitt hvoru lagi)
 • 2 dl sýrður rjómi (18%)

Sigtið hveiti og salt í skál og látið gerið út í. Hitið mjólkina í potti þar til hún er orðin vel volg. Hrærið saman eggjarauðum og sýrðum rjóma og hellið síðan út í mjólkina. Hrærið vel og hellið síðan eggjablöndunni út í hveitið. Hrærið þar til deigið er slétt og fallegt. Leyfið deiginu að standa á hlýjum stað í 30 min.

Þeytið eggjahvítur og setjið út í deigið. Leyfið deiginu síðan að standa í 20 min. Steikið blinis á heitri pönnu í nokkrar min. á hvorri hlið og geymið.

Álegg
 • steinbítshrogn
 • reyktur ostur (d. rygeost)
 • sýrður rjómi
 • ferskur karsi

Hrærið saman reyktum osti og sýrðum rjóma eftir smekk. Látið smá af ostinum á hverja blini, síðan steinbítshrogn og karsa eftir smekk.

blinisoghrogn4

Verði ykkur að góðu!

Bananabrauð

Við áttum nokkra banana sem voru orðnir aðeins of þroskaðir. Við ákváðum að nota þá í bananabrauð sem við sáum í Bon Appétit en þetta er besta bananabrauð sem við höfum smakkað! Ótrúlega létt, mjúkt og dásamlegt með fínu bragði af bönunum. Uppskriftin er ofboðslega einföld og brauðið helst mjúkt og gott í nokkra daga.

bananabraud

Bananabrauð
 • 4 dl hveiti
 • 1 1/2 tsk matarsódi
 • 3/4 tsk salt
 • 3 stór egg
 • 3 dl sykur
 • 2 stórir bananar, vel þroskaðir og sætir
 • 1 1/2 dl olía

Setjið hveiti, matarsóda og salt í skál og hrærið saman. Látið egg, sykur, olíu og banana í aðra skál og hrærið vel. Látið hveitiblöndunni út í og hrærið.

Hellið deiginu í smurt brauðform og bakið við 180 °C þar til brauðið er bakað í miðjunni. Það tekur u.þ.b. 60 min.

Leyfið brauðinu að kólna aðeins í forminu áður en þið reynið að losa það úr forminu.

bananar

bananabraudskorid

Verði ykkur að góðu!

Skonsur með vorlauk og cheddar

Pétur skellti sér í smjörgerð um helgina eins og má lesa um í færslunni um heimagert smjör. Það var því alveg kjörið að baka eitthvað gott með þessu dásamlegu smjöri sem við gerðum í morgun. Við bökuðum smjörkenndar skonsur með vorlauk og cheddar og borðuðum þær nýbakaðar.

skonsur

Skonsur með vorlauk og cheddar
 • 180 g hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 1/4 tsk cayenne pipar
 • 90 g kalt smjör, skorið í litla bita
 • 1 msk vorlaukur, saxaður
 • 120 g sterkur cheddar, rifinn
 • 350 ml kaldur rjómi

Hitið ofninn í 220 °C án blásturs. Setjið bökunarplötu inn í ofninn og leyfið henni að hitna með ofninum.

Látið hveiti, lyftiduft, salt og cayenne pipar í matvinnsluvél og „púlsið“ nokkru sinnum til þess að blanda hráefninum vel saman. Setjið smjör (mikilvægt að hafa smjörið kalt), vorlauk og cheddar út í og púlsið 20 sinnum, eða þar til deigið er fullt af litlum smjörbitum. Deigið á að vera þurrt og frekar ójafnt. Hellið síðan köldum rjóma út í og púlsið nokkrum sinnum þar til deigið helst saman. Það er mjög mikilvægt að ofgera ekki deiginu því þá verður það of þungt og seigt!

Stráið hveiti á borðið og hnoðið deigið örlítið í höndunum – ekki mikið samt! Fletjið deigið í 2 cm að þykkt og skerið það í tvennt. Stráið hveiti yfir eftir þörfum. Leggið annan deigbútinn yfir hinn, þrýstið þeim aðeins saman og fletjið örlítið aftur. Þetta er gert til þess að búa til nokkur lög í skonsunum. Endurtakið nokkrum sinnum.

Skerið deigið í litla ferkantaða bita (við gerðum 16 litlar skonsur) og raðið á heita bökunarplötu með bökunarpappír. Best er að skera alla kanta því þá lyftist deigið jafnt í ofninum og skonsurnar verða þar með fallegri. Bakið í u.þ.b. 15 min, eða þar til skonsurnar eru fallega gylltar á litinn. Léttar, stökkar og smjörkenndar skonsur með góðu bragði af cheddar og vorlauk. Berið fram með smjöri, og ekki skemmir fyrir ef smjörið er heimagert. Nammi!

skonsaskorin

Verði ykkur að góðu!

Rauðrófubollur með sesamfræjum

Í matarkafla Sunnudagsmoggans í dag var stutt viðtal við okkur ásamt því að við gáfum uppskrift af þessum skemmtilegum rauðrófubollum. Hér fylgir uppskriftin ásamt fleiri myndum af rauðrófubollunum.

raudrofubollatilbuin
Rauðrófubollur með sesamfræjum (8-10 stk)
 • 25 g ferskt pressuger
 • 2 1/2 dl volgt vatn
 • 500 g hveiti
 • 1 msk sykur
 • 1 tsk salt
 • 30 g mjúkt smjör
 • 1 stórt egg
 • 75 g sesamfræ
 • 1 stór rauðrófa, rifin

Setjið ger, sykur og volgt vatn í skál og hrærið vel saman. Bætið salti og hveiti út í og hnoðið. Látið smjör út í deigið og hnoðið þar til deigið er mjúkt og teygjanlegt. Leggið rakt stykki yfir skálina og leyfið deiginu að lyfta sér í klukkustund. Búið til holu í miðju deigsins og brjótið eggið í holuna. Hellið sesamfræjum og rauðrófu í holuna og teygið deigið yfir fyllinguna svo úr verði stór deigkúla. Notið hníf eða spaða til þess að skera deigið í marga litla bita og sjáið til þess að blanda egginu, sesamfræjum og rauðrófunni jafnt í deigið. Bitarnir þurfa ekki vera jafnstórir en deigið á að haldast saman eins og hakkabuff.

deigogegg

deigograudrofa

deigkula

raudrofanærmynd

Skiptið deiginu í 8-10 hluta og komið þeim fyrir á bökunarplötu með bökunarpappír. Leyfið deiginu að lyfta sér í 30 mínútur og bakið síðan í 10-15 min við 220°C án blásturs.

raudrofubollurtilbunar

Rauðrófubollurnar eru einstaklega góðar með smjöri og osti.

Það er hægt að nota annað rótargrænmeti í staðinn fyrir rauðrófurnar, til dæmis gulrætur eða rófur. Einnig er lítið mál að nota aðra tegund af fræjum í uppskriftina, til dæmis sólblómafræ eða graskersfræ.

Msemmen – Marokkóskar pönnukökur

Í Marokkó borðuðum við ótrúlega góðan mat og þar var margt sem við höfum aldrei áður séð né smakkað! Einn morguninn fengum við ofboðslega ljúffengar pönnukökur, msemmen, sem voru reyndar frekar eins og flatbrauð í mörgum örþunnum lögum, borið fram með bræddu hunangi og smjöri. Um kvöldið keyptum við okkur eins pönnuköku en með kryddaðri laukfyllingu og þá var ekki aftur snúið – við urðum að komast að því hvernig þessar marokkósku pönnukökur eru gerðar!

Eftir Marokkó ferðina okkar fjárfestum við í matreiðslubók eftir Paula Wolfert – nýju bókina hennar The Food of Morocco. Í bókinni fundum við uppskrift að msemmen og prófuðum hana um síðustu helgi. Með pönnukökunum bræddum við hunang og smjör í litlum potti og borðuðum með pönnukökunum því þannig borða Marokkóbúar msemmen á morgnana.

marokkoskar pönnukökur

Msemmen – Marokkóskar pönnukökur (sirka 8 stykki)
 • 110 g fínmalað semolinahveiti (einnig kallað durum)
 • 100 g hveiti
 • 1 tsk salt
 • 1/8 tsk þurrger
 • volgt vatn eftir þörfum (u.þ.b. 150 ml)

Þar að auki:

 • olía til þess að móta deigið
 • 3 msk brætt smjör til steikingar
 • gróft semolinahveiti (durum)

Látið hveiti, salt og ger í skál og blandið þessu vel saman. Hellið vatni eftir þörfum og hnoðið deigið þar til það er orðið mjúkt og teygjanlegt. Leyfið deiginu að hvíla í 10 min.

Skiptið deiginu í 8 jafna hluta og þekið það með smá olíu (best er að gera þetta í höndunum). Fletjið nú hverja kúlu af deigi með höndunum – hér er nauðsynlegt að hafa smá olíu á höndunum til þess að deigið verði fallega slétt og jafnt. Stráið grófu semolinahveiti yfir deigið en semolinahveitið gerir það að verkum að það verða mörg örþunn lög í pönnukökunni. Brjótið síðan deiginu saman svo úr því verður ferkantaður koddi (sjá mynd).

deigogadferd

deigtilbuid

pönnukakantilbuin

Fletjið deigið út með höndunum og steikjið síðan á pönnu með örlítið af bræddu smjöri. Bræðið hunang og smjör og berið fram með pönnukökunum.

marokkoskarpönnukökur

Verði ykkur að góðu!

Bökuð ostakaka

Í tilefni 25 ára afmæli hennar Ástu var skellt í afmælisköku. Afmæliskakan varð að þessu sinni ótrúlega ljúffeng bökuð ostakaka. Best er að gera kökuna nokkrum dögum áður en það á að borða hana því hún verður bara betri þannig!

ostakaka

Bökuð ostakaka

Botninn
 • 50 g smjör, brætt
 • 100 g digestive kex, mulið í matvinnsluvél
 • 1 msk hrásykur

Bræðið smjör og myljið kexið í matvinnluvél. Látið sykur út í, síðan smjör og blandið þessu vel saman. Komið þessu fyrir í smelluformi (24 cm) og þrýstið jafnt svo botninn verði fallega sléttur. Bakið við 180 °C í 10 min. og látið síðan kólna.

Ostafylling
 • 150 g rjómaostur (við stofuhita!!)
 • 125 g hrásykur
 • 1 1/2 msk hveiti
 • smá salt
 • 1 tsk vanilludropar
 • sítrónubörkur af 1/2 sítrónu
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 2 egg
 • 120 ml sýrður rjómi (ég notaði 18%)

Látið rjómaostinn í skál og hrærið þar til áferðin er orðin mjúk og slétt (ég notaði hrærivélina). Það er mikilvægt að hafa rjómaostinn við stofuhita til þess að ná réttri áferð á fyllingunni því annars geta verið kekkir í henni. Látið sykur, hveiti og salt út í rjómaostinn í nokkrum umferðum og hrærið þessu rólega saman (ekki hræra alltof miklu lofti í fyllinguna). Vanilludropar, sítrónubörk og sítrónusafi út í og hrærið vel. Látið síða eitt egg út í í einu og hrærið vel. Að lokum sýrður rjómi út í rjómaostafyllingu og hellið fyllingunni síðan ofan í smelluformið með kexbotninum. Ef loftbólur sjást á yfirborðinu er gott að stinga í þær með hnífsoddi.

Bakið við 200 °C í 10 min., lækkið síðan hitann niður í 110 °C  (með kökuna allan tíman inn í ofninum) og bakið í 25 min. Leyfið ostakökunni að standa í opnum ofni í u.þ.b. 2 klukkutíma, eða þar til hún er orðin mátulega köld (ég tók hana út eftir 30 min. með ofninn opinn og leyfði henni að standa á borðinu að kólna).

Ofan á kökuna
 • 100 ml sýrður rjómi (aftur 18%)
 • 1/2 msk hrásykur
 • 1 tsk sítrónusafi

Hrærið hráefnunum vel saman og sjáið til þess að sykurinn leysist alveg upp. Hellið á kökuna þegar hún er orðin alveg köld og látið hana síðan inn í ísskáp í a.m.k. 8 klukkutíma (gjarnan lengur!).

Losið um kantana á ostakökunni (ef þörf er fyrir) með beittum hníf og náið kökunni síðan úr smelluforminu. Berið fram með ferskum ávöxtum.

ostakakasneid

Ótrúlega fersk, mjúk og dásamleg!

Mjúkar saltkringlur

Það er október og haustið er komið til Kaupmannahafnar. Það er búið að vera ansi blautt enda hefur rignt flesta daga undanfarið. Við erum þess vegna búin að vera mikið heima og höfum þá fundið okkur eitthvað skemmtilegt að gera inni á meðan mestu rigningunni stendur á. Síðustu helgi bakaði ég þessar dásamlegu saltkringur sem við borðuðum sennipart dags og drukkum góðan hveitibjór með. Saltkringlurnar eru klárlega uppáhalds bjórsnakkið!

Uppskriftin er með fordeigi sem þarf að búa til kvöldið áður og saltkringlurnar eru bæði soðnar og bakaðar.

Mjúkar saltkringlur (10 stk.):

Fordeig:
 • 50 gr. hveiti
 • 1/2 dl. vatn
 • u.þ.b. 1 gr. ferskt pressuger

Hrærið saman í skál og leyfið að standa við stofuhita yfir nótt.

Deig:
 • fordeig
 • 115 ml. vatn
 • 150 ml. mjólk
 • 10 gr. ferskt pressuger
 • 450 gr. hveiti
 • 10 gr. salt
 • 5 gr. sykur
 • 15 gr. mjúkt smjör

Fordeig, vatn, mjólk og ger í skál og hrærið vel saman. Salt, sykur, hveiti og smjör út í og hnoðið í u.þ.b. 10 min., eða þar til deigið er slétt og fallegt. Leyfið að lyfta sér í 30 min.

Síðan þarf að móta saltkringlurnar. Skiptið deiginu í 10 jafnstóra hluta. Rúllið hvern hluta í mjóa lengju og mótið síðan kringlu. Raðið kringlunum á plötu með bökunarpappír (eða disk með bökunarpappír ef platan passar ekki inn í ísskáp) og látið inn í ísskáp í 30 min. Þetta er gert til þess að kæla deigið svo það sé auðveldara að sjóða þær áður en þær eru bakaðar í ofni.

Blandið 1/2 dl. af matarsóda út í 1 liter af vatni og náið upp suðu. Sjóðið hverja kringlu í 30 sek. og raðið þeim á bökunarplötu með bökunarpappír. Penslið með eggi og stráið grófu salti yfir. Bakið við 225°C í 15-20 min., eða þar til kringlurnar eru orðnar fallega dökkar á litinn.

Njótið með góðum bjór!

Kanelsnurrer frá Lom

Í sumarfríinu fundum við flottasta og besta bakarí sem við höfum á ævinni séð. Bakaríið er staðsett í Lom (Noregur), heitir einfaldlega Bakeriet i Lom og eigandinn er Morten Schakenda – kokkurinn sem ákvað að verða bakari. Í fyrstu heimsókninni keyptum við okkur kanilsnurrer, nýbakaðir kanilsnúðar sem voru snúnir í „snúninga“ frekar en rúllur og voru enn heitir þegar við keyptum þá. Í seinni heimsókninni keyptum við bókina Om brød og tilfeldigheter fra Bakariet i Lom og fengum þar með uppskriftina að þessum gómsætum kanilsnúðum.

Kanelsnurrer (8 stk.)
 • 500 gr. hveiti
 • 250 ml. mjólk
 • 75 gr. sykur
 • 7,5 gr. salt
 • 7,5 gr. kardimommur (þetta virðist vera mikið en er samt alls ekki yfirþyrmandi)
 • 1 lítið egg
 • 25 gr. ferskt pressuger
 • 75 gr. smjör í bitum

Hveiti, sykur, salt, ger, kardimommur, egg og mjólk í skál og hnoðið í u.þ.b. 15 mín, eða þar til deigið sleppir skálinni og loðir allt saman. Látið nú smjörið út í og hnoðið í aðrar 15 mín. Plastfilma yfir skálina og leyfið að lyfta sér í 1 1/2 klukkustund.

Fylling
 • 70 gr. mjúkt smjör
 • 70 gr. sykur
 • 1 msk. kanill

Fletjið deigið út svo það verði u.þ.b. 20 cm x 50 cm. á stærð. Dreifið smjöri jafnt yfir, svo sykur og kanil. Brjótið 1/3 af deiginu upp að miðju og brjótið síðan restina af deiginu ofan á það svo lögin séu núna 3. Fletjið nú deigið út svo það verði u.þ.b. 15 cm x 50-60 cm á stærð. Skerið í 8 jafnstórar lengjur og búið til snúninga.

Látið kanilsnúðana á bökunarplötu með bökunarpappír. Plastfilma yfir og leyfið að lyfta sér í u.þ.b. klukkustund. Penslið með eggi og stráið sykur yfir kanilsnúðana. Bakið í u.þ.b. 20 mín. 175°C.

Mmmmmmmm………

Rabarbaramulningur

Ég elska rabarbara og verð alltaf jafn spennt þegar sumarið hefst og það er hægt að taka upp fyrsta rabarbarann. Á Íslandi hef ég greiðan aðgang að ferskum rabarbara í garðinum hjá fjölskyldunni. Ég hef þá skorið hann niður og fryst og notað hann yfir veturinn. Í Kaupmannahöfn verð ég að kaupa hann úti í búð því rabarbara verð ég að fá!

Hér er uppskrift að rabarbara með möndlumulningi sem ég gerði fyrir okkur skötuhjúin í eftirrétt eitt kvöldið.

Rabarbarafylling: Ca. 700 gr. rabarbari, 70 gr. sykur (eða eftir smekk – það er misjafnt hversu súr rabarbarinn er), 1 vanillustöng og evt. smá vatn.

Skerið rabarbarann í bita. Látið hráefnin í pott og sjóðið þar til rabarbarinn er orðin mjúkur.

Mulningur: 100 gr. hveiti, 50 gr. haframjöl, 50 gr. möndlur, 150 gr. smjör (mjúkt), 150 gr. púðursykur og korn úr vanillustöng.

Setjið möndlur í matvinnsluvél og hakkið vel. Látið púðursykur, haframjöl og hveiti út í og hakkið í 2 sek. Hrærið síðan smjöri og vanillu út í.

Hellið fyllingunni í smurt form og mulningur ofan á. Bakið í ca. 25 min. (eða þar til mulningurinn er orðinn fallegur á litinn) við 200 °C og berið fram með góðum vanilluís.

Verði ykkur að góðu!

Rúgbrauðs orkustykki

Við erum afar hrifin af dönsku rúgbrauði, sérstaklega ef það er gróft með mikið af fræjum og kjörnum. Eins og á Íslandi fá Danir sér gjarnan orkustykki milli mála en hér eru svokallaðir „rugbarer“ úr rúgbrauðsdeigi, með hnetum og þurrkuðum ávöxtum mjög vinsælir.

Fyrst þarf að búa til rúgbrauðsdeigið (í rauninni má nota hvaða danska rúgbrauðsdeig sem er): 1 1/2 dl. vatn, 1/2 dl. kærnemælk, 3 gr ferskt pressuger, 3 gr salt, 60 gr rúgkjarnar (leggja í bleyti fyrst), 55 gr hörfræ, 35 gr sólblómafræ eða graskersfræ, 30 gr sesamfræ og 140 gr rúgmjöl. Deigið á að vera eins og þykkur grautur.

Hrærið saman geri, vökva og salti. Svo fræ og rúgmjöl út í og hnoðið í u.þ.b. 10 min.

Út í rúgrauðsdeigið fer: 100 gr þurrkaðir ávextir (ég notaði trönuber, rúsínur og döðlur), 100 gr hesilhnetur (eða hvaða hnetur sem er), 25 g haframjöl og 25 g hunang.

Setjið hráefnin í rúgbrauðsdeigið og hnoðið í smá stund eða þar til deigið er orðið jafnt. Skiptið deiginu jafnt í lítil smurð form (ég notaði lítil bollakökuform en það er hægt að nota hvað sem er) og leyfið að standa í a.m.k. 1 klukkutíma – gjarnan yfir nótt í ísskápnum. Deigið stækkar ekkert á þessum tíma en bragðið verður best ef deigið fær að standa yfir nótt.

Bakið í sirka 20 min. við 180°C, eða þar til rúgbrauðsstykkin eru orðin fallega brún og stökk að utan (fer mjög mikið eftir stærðinni á stykkjunum).

Hollt og gott nesti í fjallgöngu, hjólaferð, skólann eða vinnuna!