Súrdeigsbrauð frá San Francisco

Í desember eignaðist áhugabakarinn á heimilinu bókina Tartine Bread þar sem bakarinn Chad Robertson fjallar ítarlega um súrdeig og gefur upp uppskriftir af súrdeigsbrauði sem hann bakar í bakaríinu sínu í San Francisco. Brauðbakstur á heimilinu tók því stórt stökk og nú er það algjör undantekning að það fari ger í deigið þegar við bökum!

Við notum uppskriftina hans Chad Robertson en erum búin að lagfæra hana örlítið eftir þörfum. Chad notar t.d. ekki hrærivél en þar sem við eigum fína og öfluga Kenwood hrærivél notum við hana til þess að hnoða deigið. Hitastig á vatni sem fer í deigið fer auðvitað eftir umhverfinu en okkar reynsla er sú að við þurfum að nota frekar heitt vatn til þess að deigið kólni ekki of hratt.

1017657_10151917623510913_1424541255_n

Súrdeig

Hingað til höfum við verið að notað súrdeig úr brauðbók Claus Meyer en það er nokkuð þunnt og þarf lítið að passa. Súrdeigið notuðum við aðallega sem bragðbætir og notuðum þá alltaf ger líka. Chad notar hins vegar súrdeig sem er þykkt eins og brauðdeig. Súrdeigið þarf að passa vel og „þjálfar“ það með því að bæta út í það hveiti, heilhveiti og vatn á hverjum degi. Þannig má sjá súrdeigið rísa og falla eftir því hversu langur tími er liðinn frá því að hveiti og vatn var bætt út í súrdeigið. Hitastigið á vatninu og því umhverfinu sem súrdeigið er í skiptir öllu máli og því er nauðsynlegt að eiga góðan og nákvæman hitamælir!

Eftir að hafa lesið ítarlegar lýsingar í bókinni hans Chad vorum við tilbúin að taka stökkið – og búa til alvöru súrdeigsbrauð!

surdeig2

Súrdeig

Grunnuppskriftin fyrir súrdeigið er einföld og það þarf ekki að mæla hitastig né grömm.

  • glerkrukka eða skál
  • volgt vatn
  • hveiti
  • heilhveiti

Blanda saman hveiti og heilhveiti (helmingi minni af hveilhveiti á móti hveitinu). Fyllið hálfa glerkrukkuna með volgu vatni og takið góða lúkufylli af hveitiblöndunni látið út í vatnið. Notið höndina til þess að hræra saman hveiti og vatni. Deigið á að vera þykkt en ekki þurrt (ef deigið er of þunnt bætið þá við hveitiblöndu eftir þörfum). Breiðið eldhúspappír yfir krukkuna og leyfið deiginu að standa við stofuhita í 2 til 3 daga.

Eftir 3 daga ætti að vera komin súr lykt af deiginu og loftbólur byrja að myndast á yfirborði deigsins – þá er súrdeigið tilbúið í þjálfunina! Ef lyktin er ekkert súr og engar loftbólur á yfirborði deigsins þarf það að standa lengur.

Þjálfun

Chad talar um að þjálfa súrdeigið við að henda 80% af deiginu í krukkunni og láta jafnmikið af jöfnum hlutföllum af hveitiblöndu (hveiti og heilhveiti) og vatni í staðinn. Magnið af hveiti og vatni í þjálfuninni skiptir ekki öllu máli en súrdeigið á að vera þykkt og fylla 1/3 af krukkunni. Eftir nokkra klukkutíma myndast fullt af litlum loftbólum í súrdeiginu og deigið lyftist upp – og fyllir jafnvel alla krukkuna! Þetta þarf að endurtaka á hverjum degi og þegar súrdeigið lyftist og fellur saman á fyrirsjáanlegan hátt er það tilbúið!

surdeig1

Súrdeigsbrauðið

Kvöldið áður en það á að baka þarf að undirbúa súrdeigið. Uppskriftin gerir 2 stór súrdeigsbrauð.

Kvöldið áður
  • 1 msk súrdeig
  • 200 g vatn (26°C)
  • 150 g hveiti
  • 50 g heilhveiti

Hræra saman og láta standa við stofuhita yfir nótt. Um morguninn (eða þegar það á að búa til deigið) þarf að athuga hvort súrdeigið sé ekki örugglega tilbúið. Það er gert með því að láta 1 msk af súrdeigi ofan í volgt vatn. Súrdeigið á að fljóta ofan á vatninu en ef það sekkur er súrdeigið ekki tilbúið til notkunar. Þá þarf það að standa í nokkra klukkutíma til viðbótar við stofuhita.

Súrdeigsbrauð
  • 1000 g vatn (27°C) + 50 g vatn sem fer í deigið eftir fyrstu 30 min.
  • 300 g súrdeig
  • 1350 g hveiti
  • 150 g heilhveiti
  • 30 g salt

Látið súrdeig, vatn og hveiti í skál og hnoðið örlítið saman. Leyfið deiginu að hvíla í 30-40 min. Bætið salt og 50 g af vatni út í deigið og hnoðið þar til deigið helst vel saman og er orðið teygjanlegt og slétt. Deigið þarf nú að standa í 3-4 klukkustundir við 25-27°C þar til það hefur stækkað um 20-30% í skálinni og er orðið mjúkt og loftkennt. 3-4 klukkustundir eru bara viðmið en þetta getur alveg tekið styttri eða lengri tíma!

deigbraud

Að móta súrdeigsbrauð

Blandið saman 1 dl af hveiti og 1 dl af hrísmjöli í skál. Stráið smá af blöndunni á borðið og komið deiginu þar fyrir. Skiptið deiginu í tvo jafna hluta og mótið tvö brauð með því að brjóta deig saman, toga örlítið í það og þrýsta niður. Komið brauðinum fyrir í „hævekurv“ eða skálum og leyfið að lyftast í 1-2 tíma við stofuhita, eða þar til þau eru orðin vel stór. Það má líka kæla brauðin á þessu stigi yfir nótt og baka þau næsta dag. Brauðin verða samt fallegust og best ef þau eru bökuð sama dag.

braudlyfta

Að baka súrdeigbrauð í steypujárnspotti

Chad bakar súrdeigsbrauðið í steypujárnspotti með loki. Steypujárnið verður ótrúlega heitt og það þarf mikinn hita til þess að ná góðri skorpu. Bakarar nota ofna sem úða vatni til þess að ná upp réttu rakastigi þegar verið er að baka brauð. Það er ekki hægt í venjulegum ofni en rakinn næst samt í steypujárnspottinum við það að hafa lokið á fyrstu 20 min. af bakstrinum.

Ofninn þarf að vera HEITUR! 20 min. áður en það á að baka brauðin þarf að hita ofninn í 260°C. Setjið steypujárnspott (við notum stóran steypujárnspott úr IKEA) inn í ofninn um leið og þið kveikið á ofninum og leyfið pottinum að hitna í þessar 20 min. Takið síðan pottinn út úr ofninum en leyfið lokinu að vera áfram inni í honum. Stráið smá af 50/50 blöndunni í pottinn (svo brauðið festist ekki í pottinum) og komið brauðdeiginu fyrir. Skerið í brauðið, látið lok á pottinn og komið honum fyrir í ofninum. Lækkið hita niður í 230°C og bakið í 20 min. Takið síðan lokið af eftir 20 min. og bakið áfram í 20-25 min., eða þar til brauðið er vel stökkt og fallega gyllt á litinn.

surdeigsbraudheilt

Til þess að baka brauð nr. 2 þarf að hita pottinn með lokinu aftur í 10 min. við 260°C. Komið síðan brauðdeiginu fyrir í pottinum rétt eins og með fyrsta brauðið og bakið með loki í 20 min. við 230°C – og í 20-25 min. án loks.

Leyfið brauðinu að kólna áður en það er skorið. Njótið með smjöri eða góðu áleggi. Brauðið geymist vel í frysti og er líka dásamlegt ristað. Mmmmm…..!

surdeigsbraud1

surdeigsbraudsneidar

Pönnupítsur á föstudagskvöldi

Föstudagskvöld eru pítsukvöld hjá okkur en við förum alltaf annaðhvort í pítsu til foreldra Péturs eða búum okkur sjálf til pítsu hérna heima. Síðasta föstudag gerðum við pönnupítsur en þá eru pítsurnar settar á heita steypujárnspönnu og beint inn í sjóðheitan ofn. Pítsubotninn verður vel stökkur en pítsan er samt ótrúlega létt og ljúffeng! pitsaananasbökud

pitsusneid

Það er lykilatriði að setja ekki of mikið á pítsuna og 175 g af áleggi (sósa, álegg og ostur) er algjört hámark. Við gerðum eina margherita pítsu og eina með ananas og skinku. Þær voru báðar ótrúlega góðar.

Pönnupítsa
  • 100 g pítsudeig (við gerðum deigið kvöldið áður en létum það standa við stofuhita)
  • 175 g álegg (pítsusósa, rifinn mozzarella ostur og annað álegg)
  • 85 ml hitaþolin olía

Hitið ofninn í 240-260°C (eins hátt og hægt er). Best er að kveikja á ofninum klukkutíma áður en það á að baka pítsurnar því ofninn þarf að vera mjög heitur. Fletjið pítsudeigið þunnt og látið deigið á pítsuspaða (við eigum ekki þannig en notuðum skurðarbretti í staðinn – þá þarf að passa að hafa hveiti á brettinu). Setjið álegg á pítsubotninn. Hellið olíu á steypujárnspönnu og hitið þar til það rýkur úr olíunni. Látið pítsuna þá renna af pítsuspaðanum á pönnuna (passið ykkur á olíunni því hún er rjúkandi heit!!) og setjið pönnuna strax inn í ofn. Bakið í u.þ.b. 5 min., eða þar til pítsan er tilbúin.

Náið pítsunni af pönnunni og komið henni fyrir á eldhúspappír á meðan hún kólnar örlítið. Skerið síðan í sneiðar og njótið.

pitsaananas

pitsamargherita

pitsamargheritabökud

pitsaskorin

Verði ykkur að góðu!

Marokkóskt flatbrauð (Khobz)

Í Marokkó borðuðum við brauð með öllum mat. Brauðin voru sérstök flatbrauð með smá skorpu, svolítið eins og pítubrauð og úr durumhveiti en þó ekki eins þunnt og pítubrauð. Marokkóbúar nota brauðin í staðinn fyrir hnífapör – rífa brauðið í sundur og grípa um matinn með því. Á matreiðslunámskeiði í Marrakech lærðum við að út frá brauðgerð fjölskyldna væri auðvelt að segja til um fjárstöðu þeirra. Fjölskylda sem býr til mörg brauð á hverjum degi á stóra fjölskyldu og á þá nóg af peningum.

flatbraud

Fyrstu dagana okkar í Marokkó fórum við í fjallgöngu og borðuðum fullt af gómsætum marokkóskum mat. Brauðið með matnum var bakað af Berbum í fjallaþorpinu áður en við lögðum af stað í fjallgönguna. Síðustu 3 dagana í ferðalaginu okkar eyddum við Marrakech og fengum þar svipað brauð með öllum mat. Við vorum þó algjörlega á því að brauðið í fjallaþorpinu var betra en brauðið í Marrakech. Brauðið í fjallaþorpinu var nefnilega ekki eins þétt og það var góð skorpa á því.

Marokkóskt flatbrauð (6-8 brauð)
  • 300 g hveiti
  • 100 g fínt durumhveiti
  • 100 g gróft durumhveiti
  • 10 g ferskt pressuger
  • 1 tsk salt
  • u.þ.b. 3 dl vatn, volgt

Öll hráefni í skál og hnoðið þar til deigið er orðið mjúkt og slétt. Leggið rakt stykki yfir og leyfið að standa í a.m.k. 1 klukkustund. Skiptið þá deiginu í 6-8 jafna hluta (eftir því hversu stór brauðin eiga vera) og mótið kúlur. Leggið aftur rakt stykki yfir og leyfið deigkúlunum að hvíla í 30 min. (deigkúlurnar stækka svolítið). Fletjið síðan hverja deigkúlu út í u.þ.b. 1 cm á þykkt, raðið á bökunarplötu með bökunarpappír og leyfið að lyftast í 1 klukkustund.

marokkodeig

marokkodeig2

marokkodeig3

marokkodeig4

Hitið ofninn í 200°C. Þrýstið örlítið niður á brauðin með höndunum til þess að koma í veg fyrir að brauðin breytist í pítubrauð í ofninum og bakið síðan þar til brauðin eru fallega gyllt á litinn. Staflið brauðunum strax upp (þá verða brauðin alveg flöt) og berið fram með góðum marokkóskum mat.

flatbraud2

Verði ykkur að góðu!

Stökkar vöfflur með geri

Það er liðinn alltof langur tími síðan við blogguðum síðast. Nóvembermánuður hefur liðið hratt en við fluttum loksins í íbúðina okkar í byrjun nóvember og síðustu vikurnar hafa farið í að koma okkur almennilega fyrir. Það hefur ekki verið mikill tími til þess að eyða miklum tíma í eldhúsinu undanfarið og enn minna verið um myndatöku af mat.

Um helgina tókum við okkur þó dágóða stund við morgunverðinn og gerðum ljúffengar stökkar vöfflur sem við sáum í Bon Appetit. Vöfflurnar eru ekki eins og hefðbundnu íslensku vöfflurnar; vöffludeigið er gert 8-12 tímum áður en vöfflurnar eru bakaðar og deigið inniheldur ger og brúnað smjör. Vöfflurnar eru ekki sætar og okkur fannst þær því ótrúlega góðar með skinku og osti. Gerið í deiginu gerir það að verkum að vöfflurnar eru einstaklega léttar og stökkar að utan og eru bestar nýbakaðar.

vöfflur1

Stökkar vöfflur með geri

  • 170 g smjör
  • 500 ml mjólk, volg
  • 125 ml súrmjólk
  • 2 msk sykur
  • 20 g ferskt pressuger
  • 1 1/4 tsk salt
  • 350 g hveiti
  • 2 stór egg
  • 1/4 tsk matarsódi

voffludeig

vöfflur2

Bræðið smjör í potti og látið það verða örlítið brúnt. Látið síðan kólna í smá stund. Mjólk, súrmjólk, sykur, ger og salt í skál og hrærið vel. Hellið síðan hveiti og smjörinu út í og hrærið þar til deigið er jafnt. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa við stofuhita í 8-12 klukkutíma (Það er kjörið að búa til deigið kvöldið áður og baka síðan vöfflur um morguninn eftir).

Hitið vöfflujárnið. Hrærið egg og matarsóda í deigið og bakið vöfflurnar í heitu vöfflujárninu. Berið fram strax með góðu áleggi.

 

voffluhjarta

Verði ykkur að góðu!

Sumarlegt smørrebrød

Hvað er meira danskt en gott smørrebrød? Það þarf ekki mikið meira en nokkur góð hráefni til þess að búa til smørrebrød og það er alltaf svo skemmtilegt að borða fallega skreytt brauð með góðu áleggi. Hér eru nokkrar hugmyndir að smørrebrød með sumarlegu áleggi.

smörrebröd

Grænn aspas og linsoðið egg
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Grænn aspas
  • Linsoðin egg
  • Stökk svínapurra, mulin
  • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Smjörsteikið aspasinn í smá stund á heitri pönnu og raðið honum síðan á brauðið. Skerið linsoðið egg í tvennt og setjið ofan á aspasinn. Salt og pipar eftir smekk og stráið síðan smá af svínapurru yfir. Við vorum sérlega sátt með þetta smørrebrød. Aspasinn er enn smá stökkur og góður og samsetningin er æðisleg!

aspasogegg

Tómatar, camembert og beikon
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Tómatar
  • Þroskaður camembert
  • Beikon, stökkt
  • Karsi eða graslaukur
  • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið tómatana í sneiðar og raðið ofan á brauðið. Salt og pipar eftir smekk. Væn sneið af camembert ofan á tómatasneiðarnar og síðan ein sneið af stökku beikoni. Stráið að lokum karsa eða graslauk á brauðið. Tómatar, camembert og beikon er samsetning sem klikkar aldrei!

tomatarogbeikon

Nýjar kartöflur, steiktur laukur og sinnepsmajónes
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
  • Steiktur laukur
  • Majónes
  • Gróft sinnep
  • Karsi

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflurnar í sneiðar og raðað á brauðið. Hrærið majónesi og sinnepi eftir smekk saman og setjið smá á brauðið. Síðan karsa eftir smekk og steikur laukur efst.

nýjarkartölflur

Nýjar kartöflur, radísur og stökkar kartöflur
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
  • Radísur
  • Salt og pipar
  • Stökkar kartöfluflögur
  • Sítrónumajónes
  • Ferskt dill

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflur og radísur í sneiðar og raðað á brauðið. Sítrónumajónes og salt og pipar eftir smekk. Raðið síðan stökkum kartöfluflögum ofan á og skeytið með fersku dilli.

radísurogkartöflur

Njótið með góðum pilsner!

Copenhagen Beer Celebration 2013

Fyrir rúmri viku síðan var Copenhagen Beer Celebration (CBC) 2013. Þar tóku ýmis flott brugghús þátt og voru mörg þeirra með sérbruggaða bjóra fyrir viðburðinn. Miðarnir á viðburðinn fóru í sölu nokkrum mánuðum fyrir og seldust allir á mjög skömmum tíma. Við vorum þó búin að tryggja okkur miða og vorum mætt rétt fyrir hádegi á laugardeginum.

Kvöldið áður hitum við upp fyrir viðburðinn og gerðum okkur The Rhinelander frá Cheeseandburger-síðunni en sá hamborgari er með bjórsinnepi og brauðið er sama deig og fyrir mjúku saltkringlurnar sem við gerðum til þess að hafa með í nesti á CBC (uppskriftin er hér).

hamborgari

kringlur

astaogpetur

bjorbleikur

Anchorage – Love Buzz / Amager Bryghus – Fruiticus lambicus raspberry

blaberogdokkur

/ Mikkeller – SpontanDoubleBlueberry

Viðburðurinn er hugmynd og barn hans Mikkels á Mikkellerbarnum og var haldinn nú í annað skipti eftir að hafa vakið frábæra lukku í fyrra. Viðburðurinn fór þannig fram að 30 úrvals brugghús voru hver með sinn bás og buðu hver upp á 3 mismunandi bjóra sem ýmist eru stolt þess brugghús eða höfðu verið sérstaklega bruggaðir fyrir viðburðinn. Við innganginn fengum við lítið glas og síðan gengum við um og smökkuðum að vild í 5 klukkutíma, sem er sá tími sem hver seta varir. Í heildina var boðið upp á 3 setur yfir 2 daga en við létum þó eina setu duga.

Það voru 90 bjórar í boði og því var ekki lítið verk hjá okkur að reyna smakka sem flesta en allt í allt náðum við að smakka 43 bjóra sem er tæpur helmingur af því sem var í boði. Bjórarnir voru úr öllum mögulegum og ómögulegum flokkum bjórheimsins. Hér að ofan má sjá þá 3 sem lentu í toppsætunum hjá okkur eftir harða en sanngjarna keppni.

Í 1. sæti var MikkellerSpontanDoubleBlueberry. Sá bjór smakkaðist ótúlega vel, þvílíkt bláberjabragð og villigerinn kom skemmtilega fram líka. Í 2. sæti voru nágrannar okkar hér á Amager með 3 ára lambic bjór, Fruiticus lambicus raspberry, sem fékk síðan góðan skammt af hindberjum til að vekja hann úr dvalanum. 3. sætið fekk Love buzz frá Anchorage brugghúsinu í Alaska. Ótrúlega góður saison sem er meðal annars bruggaður með piparkornum.

Fyrir utan þessa þrjá bjóra smökkuðum við himinn og haf af öðrum úrvalsbjórum og nutum þess að labba á milli bása. Stemningin var góð, rólegt og notalegt og allir frekar slakir á því.

bjorsmokkun

Við gerðum þó líka annað en að smakka alls konar bjóra því á staðnum voru nokkrir matsölubásar sem buðu upp á kræsingar með bjórsmökkuninni. Við fengum okkur pylsur hjá John´s Hotdog deli en þeir voru m.a. með þeirra eigið bjórsinnep og sultaðan rauðlauk í bjór sem þeir gerðu sérstaklega fyrir CBC. Pylsurnar frá John´s Hotdog deli eru alltaf góðar en þessar voru snilld!

pylsur

johnspylsur

pylsur2

Unika bauð upp á ostaþrennu þar sem ostarinir voru látnir liggja í þremur mismunandi bjórum og bragðið eftir því. Við vorum hrifnust af ostinum sem hafði legið í stout en hann var alveg hreint æðislegur. Síðar buðu þeir upp á gráðaost sem við ákváðum að smakka líka og vorum mjög sátt.

ostur

osturogbjor

Bjórsmökkunin var tekin mjög alvarlega og því voru mjög margir með lista yfir bjóra á viðburðinum sem þeir skrifuðu athugasemdir við og gáfu jafnvel einkunn. Við vorum ekki alveg jafn fagmannleg en voru þó með lista yfir hvaða bjórar yrðu í boði og merktum við þá sem við náðum að smakka.

smokkun

peturCBC

Samlokubrauð með stökkri skorpu

Þegar við gerðum kjúklingasamlokuna um daginn bökuðum við brauðbollur fyrir samlokuna. Þær voru einstaklega góðar þannig að um helgina gerðum við brauð eftir sömu uppskrift. Brauðið er dásamlegt alveg nýbakað en er líka ótrúlega gott ristað! Það geymist líka vel án þess að verða of þurrt.

braudskorid

Samlokubrauð
  • 500 g hveiti (við notuðum 50 g heilhveiti og 450 g hveiti í þetta skiptið)
  • 300 ml vatn
  • 7 g salt
  • 5 g ferskt pressuger

Setjið hveiti og vatn í skál og hnoðið í 2 min (bara rétt svo til þess blanda hveitinu og vatninu vel saman). Breiðið yfir skálina og leyfið að standa í 30 min.

Setjið síðan salt og ger út í og hnoðið í 15 min, eða þar til deigið er vel teygjanlegt (etv. að gera glútenpróf eins og hér) og slétt. Rakt stykki eða plast yfir deigið og látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast á stærð (tekur u.þ.b. 3 klukkutíma).

Sláið deigið niður og látið hefast í klukkutíma áður en þið mótið brauðið. Ef þið ætlið að gera braubollur þarf að skipta deiginu í bita á þessum tímapunkti.

brauddeigbraudhefastdeigskorid

Mótið brauð úr deiginu og látið það í brauðform. Látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast á stærð (tekur u.þ.b. 45 min) og bakið síðan í 220 °C heitum ofni í 20-30 min., eða þar til brauðið er orðið vel gyllt og fallegt á litinn. Leyfið brauðinu að kólna og njótið síðan.

samlokubraud

braudsneidarVerði ykkur að góðu!

Súrdeigsbrauð með valhnetum

Við höfum verið að nota súrdeigið okkar mikið undanfarnar vikur og um daginn gerðum við æðislegt súrdeigsbrauð með valhnetum. Brauðið þarf að lyfta sig mjög lengi og því þarf maður að vera mjög þolinmóður. Það er hins vegar alveg þess virði því brauðið er æðislegt!

braudsurdeig

braudskorid

Súrdeigsbrauð með valhnetum
  • 350 g hveiti
  • 50 g maltmjöl (má sleppa og nota þá alls 400 g hveiti)
  • 25 g rúgmjöl
  • 25 g heilhveiti
  • 15 g maltsíróp (má nota venjulegt síróp í staðinn)
  • 300 ml vatn
  • 1 dl súrdeig
  • 7 g salt
  • 5 g ferskt pressuger
  • 50 g valhnetur

valhnetur

siropmalt

Setjið hveiti, maltmjöl, rúgmjöl, heilhveiti, síróp og vatn í skál og hrærið í 2 min. Látið plastfilmu eða rakt stykki yfir skálina og leyfið að standa í 30 min. Þetta er gert til þess að stytta hnoðunartímann.

deigid

Setjið síðan ger og salt í deigið og hnoðið í 15 min, eða þar til deigið er vel teygjanlegt (gerið glútenprufu – sjá hér). Látið síðan valhnetur í deigið og hnoðið í 2 min. Smyrjið skál með örlítið af olíu, setjið deigið í skálina og breiðið yfir. Leyfið að standa á hlýjum stað þar til deigið hefur tvöfaldast í stærð (það getur tekið allt að 3 klukkutímum). Sláið síðan deigið niður og leyfið að lyftast í klukkutíma áður en brauðið er mótað.

Mótið brauð úr deiginu, stráið hveiti yfir brauðið og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír. Plast eða rakt stykki yfir og leyfið brauðinu að lyfta sig á hlýjum stað þar til það hefur tvöfaldast í stærð. Hitið ofninn í 225°C á meðan.

Rétt áður en brauðið fer í ofninn er hægt að skera í brauðið og búa þannig til mynstur. Setjið inn í heitan ofn, látið skál með smá vatni í botninn af ofninum (til þess að búa til gufu) og bakið í u.þ.b. 40 min, eða þar til brauðið er vel stökkt og fallegt. Þegar brauðið er alveg að verða tilbúið er gott að opna ofnhurðina og hafa hana þannig í nokkrar min. til þess að hleypa gufunni út. Þá verður skorpan stökk og góð.

valhnetubraudofan

Brauðið er dásamlegt með góðu smjöri og jafnvel mildum osti. Það er líka gott ristað.

valhnetubraud

Verði ykkur að góðu!

Brioche au chocolat

Um helgar finnst okkur gott að búa til góðan morgunverð og eyða dágóðri stund við morgunverðarborðið. Við fáum okkur alltaf góðan espressóbolla og yfirleitt ristað brauð og ávexti. Á laugardaginn langaði okkur í eitthvað sætt með morgunkaffinu og því skelltum við í brioche brauð með súkkulaði og vanillufyllingu. Það var sko alls ekki slæmt!

briochesukkuladi

Við byrjuðum reyndar á deiginu kvöldinu áður því það þarf að standa í ísskápnum yfir nótt. Ástæðan er sú að deigið er mjög blautt útaf smjörinu í því en þegar það fær að kólna í ísskápnum yfir nótt verður deigið viðráðanlegt. Hvíldin í ísskápnum hefur eflaust líka áhrif á bragðið af brauðinu en það er alveg hreint dásamlegt.

Brioche brauð er líka fullkomið í franskt eggjabrauð (e. French toast) þar sem það sýgur eggjablönduna vel til sín og er létt og gott. Við notum einnig brioche brauð sem hamborgarabrauð þegar við gerum The Camelot eða The Miss Daisy frá síðunni cheeseandburger.com. Þá er bara að móta hamborgarabrauð eða baka brauðið í brauðformi í staðinn.

Brioche au chocolat (u.þ.b. 8 stk)
  • 200 g hveiti
  • 3/4 tsk salt
  • 10 g ferskt pressuger
  • 1 msk sykur
  • 1/2 dl volg mjólk
  • 2 egg
  • 50 g mjúkt smjör

Setjið ger, salt, sykur og mjólk í skál og hrærið saman. Látið síðan hveiti út í og hnoðið örlítið. Setjið síðan eitt egg út í deigið í einu og hnoðið þar til allir hekkir eru horfnir. Haldið áfram að hnoða og bætið smjörinu við í nokkrum umferðum og hnoðið þar til deigið er slétt og teygjanlegt. Smyrjið skál með smá olíu (þá er auðveldara að ná deiginu úr skálinni síðar) og látið deigið í skálina. Breiðið yfir deigið og geymið í ísskáp yfir nótt.

briochedeig

Fyllingin er vanillukrem og dökkt súkkulaði. Vanillukremið þarf að vera kalt þegar það er notað en það er ekkert mál að gera það kvöldið áður og geyma það í ísskáp yfir nótt.

Vanillukrem
  • 2 1/2 dl nýmjólk
  • 50 g sykur
  • 2 egg
  • baunir úr einni vanillustöng
  • 2 msk maizenamjöl (til þess að þykkja kremið)

Setjið 2 dl af mjólk, sykur, egg og vanillubaunir í pott og hitið á vægum hita. Hrærið saman 1/2 dl af mjólk og maizenamjölið og látið síðan út í pottinn. Sjóðið kremið á vægum hita þar til kremið er orðið hægilega þykkt. Hrærið vel á meðan! Kælið kremið.

Fletjið út deigið frekar þunnt (það lyftist mikið í ofninum!) og skerið út ferkönntuð stykki. Þið ráðið sjálf stærðinni. Sprautið rönd af vanillukremi öðru megin á deigið og stráið yfir dökkt súkkulaði eftir smekk. Brjótið deiginu saman svo fyllingin sjáist ekki og leyfið að lyfta sér á hlýjum stað í 30 min.

fylling

briochelyfta

Penslið með eggi og bakið síðan við 200 °C þar til fallega gyllt á litinn.

briochebraud

Njótið!

Belgískar vöfflur með skinku og osti

Við hjónin vorum í dásamlegu fríi á Íslandi um páskana. Við fórum í fjallgöngur, lágum í heita pottinum á hverjum degi og borðuðum gómsætan mat með fjölskyldunni. Einn morgunninn gerðum við belgískar vöfflur sem við sáum í Bon Appetit fyrir u.þ.b. ári síðan og þær slógu svo sannarlega í gegn! Vöfflurnar eru svokallaðar Brussels vöfflur, þær eru stökkar að utan en léttar og loftkenndar að innan. Við settum síðan skinku og cheddar ost á vöfflurnar og það var ljúfengt.

belgiskarvöfflurogsirup

Belgískar vöfflur (12 stk)
  • 220 g hveiti
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 3 stór egg, eggjahvítur og eggjarauður í sitt hvoru lagi
  • 200 g brætt smjör
  • 225 ml ab-mjólk
  • 200 ml sódavatn
  • Góð skinka, skorin í bita
  • Cheddar ostur, rifinn

Setjið hveiti, sykur, lyftiduft, matarsódi og salt í skál. Stífþeytið eggjahvítur og geymið. Hrærið saman eggjarauður, brætt smjör, ab-mjólk og sódavatn í skál og blandið síðan við hveitiblönduna í nokkrum umferðum þar til deigið er fallega slétt. Setjið síðan eggjahvítur út í og blandið þessu vel saman.

belgiskar

vöfflur

Hitið vöfflujárnið og látið eina ausu af deigi í járnið (magn fer auðvitað eftir stærðinni á vöfflujárninu). Stráið u.þ.b. 1 msk af skinku og 1 msk af rifnum osti yfir deigið. Bakið þar til vafflan, osturinn og skinkan er stökk.

belgiskarvöfflur

Við borðuðum vöfflurnar með örlítið af smjöri og maple sírópi. Þvílíkt sælgæti!

Verði ykkur að góðu!