Uova da Raviolo – pasta fyllt með eggjarauðu

Eins og við höfum nefnt áður horfum við á ýmsa matreiðsluþætti í sjónvarpinu. Masterchef Australia hefur t.d. verið í miklu uppáhaldi hjá okkur aðallega vegna þess að þar er maturinn í aðalhlutverki en lítið um rifridli milli þátttakenda. Þar fáum við líka nýjar hugmyndir af mat sem okkur langar að prófa en færsla dagsins er einmitt um þannig rétt.

ravioloeggjarauda

Ravíóló er ravíólí fyllt með ricotta og heilli eggjarauðu. Pastakoddarnir eru síðan soðnir þannig að eggjarauðan er rétt byrjuð að eldast en er samt enn svolítið fljótandi.

Ravíóló (4 stórir pastakoddar)
 • 200 g ferskt pasta
 • 150 g ricotta
 • 45 g af rifnum parmesan osti
 • múskat, salt og pipar eftir smekk
 • 4 eggjarauður

Fletjið pastadeigið út í tvær 50 cm plötur og hafið þær eins þunnar og mögulegt er (hjá okkur stilling 8 af 9 á pastavélinni). Hrærið saman ricotta, parmesan osti, múskat og salt og pipar eftir smekk. Setjið ricotta blönduna síðan í sprautupoka og sprautið 4 hringi á aðra pastaplötuna með gati í miðjunni fyrir eggjarauðuna (passið að hafa bil á milli hringanna).

raviolopasta

raviolodeig2

raviolo3

Brjótið eitt egg í einu og skiljið eggjarauðuna frá eggjahvítunni. Komið eggjarauðunni varlega fyrir í miðjunni á hringnum og endurtakið síðan með hin eggin. Pennslið með hrærðu eggi í kringum hverja fyllingu og leggið síðan hina pastaplötuna yfir. Þrýstið á pastaplötuna svo það lokist vel um hverja fyllingu fyrir sig og reynið á sama tíma að fá sem mest loft úr koddunum. Skerið síðan út 4 pastakodda og setjið á lítinn disk sem búið er að strá smá pastahveiti á. Þrýstið með gafli á endana á pastanu til að tryggja að það haldist lokað. Sjóðið síðan 5 lítra af vatni í stórum potti og saltið vel. Setjið smá olíu út í og rennið síðan koddunum varlega út í vatnið af diskunum og sjóðið í 2,5 mínútu. Veiðið síðan koddana úr pottinum og færið strax á disk.

ravioloeggjarauda2

Við bárum ravíólóið fram með brenndu salvíusmjöri. Það var ljúffengt!

Verði ykkur að góðu!

Sumarlegt smørrebrød

Hvað er meira danskt en gott smørrebrød? Það þarf ekki mikið meira en nokkur góð hráefni til þess að búa til smørrebrød og það er alltaf svo skemmtilegt að borða fallega skreytt brauð með góðu áleggi. Hér eru nokkrar hugmyndir að smørrebrød með sumarlegu áleggi.

smörrebröd

Grænn aspas og linsoðið egg
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Grænn aspas
 • Linsoðin egg
 • Stökk svínapurra, mulin
 • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Smjörsteikið aspasinn í smá stund á heitri pönnu og raðið honum síðan á brauðið. Skerið linsoðið egg í tvennt og setjið ofan á aspasinn. Salt og pipar eftir smekk og stráið síðan smá af svínapurru yfir. Við vorum sérlega sátt með þetta smørrebrød. Aspasinn er enn smá stökkur og góður og samsetningin er æðisleg!

aspasogegg

Tómatar, camembert og beikon
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Tómatar
 • Þroskaður camembert
 • Beikon, stökkt
 • Karsi eða graslaukur
 • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið tómatana í sneiðar og raðið ofan á brauðið. Salt og pipar eftir smekk. Væn sneið af camembert ofan á tómatasneiðarnar og síðan ein sneið af stökku beikoni. Stráið að lokum karsa eða graslauk á brauðið. Tómatar, camembert og beikon er samsetning sem klikkar aldrei!

tomatarogbeikon

Nýjar kartöflur, steiktur laukur og sinnepsmajónes
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
 • Steiktur laukur
 • Majónes
 • Gróft sinnep
 • Karsi

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflurnar í sneiðar og raðað á brauðið. Hrærið majónesi og sinnepi eftir smekk saman og setjið smá á brauðið. Síðan karsa eftir smekk og steikur laukur efst.

nýjarkartölflur

Nýjar kartöflur, radísur og stökkar kartöflur
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
 • Radísur
 • Salt og pipar
 • Stökkar kartöfluflögur
 • Sítrónumajónes
 • Ferskt dill

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflur og radísur í sneiðar og raðað á brauðið. Sítrónumajónes og salt og pipar eftir smekk. Raðið síðan stökkum kartöfluflögum ofan á og skeytið með fersku dilli.

radísurogkartöflur

Njótið með góðum pilsner!

Hleypt páskaegg

Hér er örlítið hollari valkostur en súkkulaði páskaegg – en alls ekki síðri.

Hleypt egg (e. poached eggs) er að við höldu ein besta leið til þess að elda egg. Fullkomin eldun á eggjahvítu en rík og fljótandi eggjarauða í miðjunni. Mmmm!

hleyptegg1

Okkur hefur samt ekki gengið alltof vel að búa til hleypt egg hingað til. Við erum búin að prófa ýmsar aðferðir með mjög misjöfnum árangri (eggjahvítan sem losnar utan af eggjarauðinni, sprungin eggjarauða eða ofsoðið egg!). Um daginn sáum við þessa snilldar aðgerð í Masterchef Australia og eftir smá rannsóknarvinnu til viðbótar létum við slag standa.

Aðferðin gengur út á að brjóta eggin á plastfilmu og sjóða þau í henni. Við erum núna búin að prófa þetta tvisvar sinnum og hefur hvert einasta egg tekist frábærlega. Við mælum því með aðferðinni!

eggogfilma

Fyrsta skref er að rífa bút af plastfilmu og breiða úr bútnum á borðinu. Penslið smá af einhvers konar feiti á plastfilmuna, t.d. brætt smjör eða olía (Það er einnig hægt að krydda eggin á þessum tímapunkti, t.d. smá salt og pipar). Leggið plastfilmuna yfir litla skál og brjótið síðan egg á plastfilmuna. Takið saman hornin á filmunni og snúið varlega upp á. Hnýtið fyrir með tvinna.

eggogvatn

eggjabakki

Sjóðið eggin í plastfilmunni í vatni sem er nálægt suðumarki (sirka 90°C) í 3,5 – 5 min. Tíminn fer auðvitað eftir því hvað þið viljið hafa eggin mikið soðin og hversu stór þau eru. Við suðum okkar í 4,5 min en eggin voru frekar stór.  Gott er að láta disk í botninn á pottinum svo eggin liggi ekki beint á heitu stálinu (og verða þá soðin misjafnt).

hleyptegg

Veiðið eggin upp úr vatninu og klippið plastið fyrir neðan hnútinn. Takið plastfilmuna varlega af egginu og þá eruð þið komin með fullkomið hleypt egg! Síðan er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða og bera eggin fram með einhverju gómsætu.

hleypteggtilbuid

Verði ykkur að góðu!

Egg Benedict og spínatbrauð

Á laugardaginn gerðum við Egg Benedict á spínatbrauði en við fengum hugmyndina hjá The Fabulous Baker Brothers, sjónvarpsþættir sem er verið að sýna núna á föstudögum hérna í DK. Spínatbrauðið (e. spinach muffin) kom skemmtilega á óvart, það var einfalt og ofboðslega bragðgott, en hleypt egg og góð hollandaise sósa stendur svo sannarlega alltaf fyrir sínu!

eggbenedictspinat

Spínatbrauð 4 stk
 • 15 g smjör
 • 1 tsk sykur
 • 1 1/2 dl mjólk
 • 5 g ferskt pressuger
 • u.þ.b. 100 g ferskt spínat
 • múskat eftir smekk
 • 225 g hveiti
 • salt eftir smekk

Bræðið smjör og sykur í potti, hellið mjólkinni út í og síðan geri. Hærið vel. Setjið spínat út í heitu mjólkina, múskat og salt eftir smekk og takið af hitanum. Látið hveiti í hræriskál og hellið mjólkinni með spínatinu út í hveitið. Hnoðið deigið í 10 min á frekar hægum hraða. Deigið verður eiturgrænt og fallegt! Látið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að lyftast í 30 min á hlýjum stað.

deigid

Stráið hveiti yfir deigið og fletjið það örlítið út svo það verði um 1 cm á þykkt. Notið lítið hringform til þess að stinga út 4 brauð. Eldið brauðin á þurri pönnu í 5 min á hvorri hlið og leyfið þeim síðan að kólna örlítið.

spinatbollur

Hollandaise sósa
 • 125 g smjör
 • 1/2 tsk hvítvínsedik
 • 1 eggjarauða
 • salt og pipar eftir smekk
 • smá sítrónusafi

Bræðið smjör í potti. Setjið eggjarauðu, edik og salt í skál og hitið yfir vatnsbaði og þeytið eggjarauðurnar þar til blandan þykknar. Hellið nú smjörinu út í eggjablönduna í mjórri bunu og þeytið vel á meðan. Salt og pipar ásamt sítrónusafa eftir smekk og þá er hollandaise sósan tilbúin.

Rífið (eða skerið) spínatbrauðin í tvennt. Setjið góða skinku ofan á brauðið, síðan hleypt egg og hollandaise sósu á eggið. Verði ykkur að góðu!