Taco með flatiron steik

Það er kominn tími á nýja bloggfærslu! Við vorum að koma heim úr dásamlegu ferðalagi um Ísland og erum endurnærð eftir þrjár góðar vikur í íslenskri náttúru. Áður en við fórum í sumarfrí fórum við í Matarbúrið hjá Dodda og keyptum fallega Flatiron nautasteik. Um helgina skelltum við steikinni á grillið og gerðum steikartacos með öllu tilheyrandi!

Steikskorintacos

Steikartacos

Steikin var það falleg að við vildum ekki gera of mikið við hana. Þess vegna létum við salt og pipar duga og grilluðum hana síðan í 3 mín á hverri hlið á miðlungsheitum kolum. Það skilar steikinni rétt yfir medium rare, sem passar fínt þar sem hún er skorin vel þunnt og gefur líka bestu áferðina á kjötinu í taco-inu.

SteikinDoddi

steikoggrænmeti

Meðlætið var sultaður rauðlaukur (uppskriftin er hér), guacamole (uppskriftin er hér), grillaður ferskur maís og chimichurri (uppskriftin er hér). Við vorum nýbúin að taka upp litla ferska lauka sem við ræktum í potti á svölunum okkar og okkur fannst því tilvalið að grilla þá líka.

laukur

Steiktacos

Mexíkósku flatkökurnar (tacos) gerðum við líka sjálfar (uppskriftin er hér). Til þess notuðum við nýju tortillupressuna sem við keyptum í New York í maí. Pressan léttir verkið töluvert og flatkökurnar verða fallegar og jafnar! Plastfilma er sett í pressuna til þess að deigið festist ekki í pressunni.

tacopressa

tacosdeig

Steikartacos

Sumarlegur og góður matur!

Grilluð flank steik og chimichurri

Annar mikill kostur við það að vera komin aftur heim til Íslands er að komast í mat beint frá býli. Einn af þeim bóndum sem við höfum heimsótt oft er hann Doddi í Matarbúrinu en Doddi selur frábært nautakjöt og er með flott úrval af vöðvum.

Í síðustu heimsókn okkar til Dodda keyptum við Flank steik sem er úr síðunni á nautinu. Kjötið er grófara og bragðmeira en hinir svokölluðu „prime cuts“ en á sama tíma líka töluvert ódýrari.

steikagrillinu

Við ákváðum að grilla kjötið en til að það takist vel þarf að gera tvennt; marinera kjötið (til að brjóta niður vöðvann) og elda það við háan hita.

Marineringin: Við skárum steikina niður í smærri bita til að hafa hana meðfærilegri á grillinu. Síðan settum við kjötið í marineringu. Marineringin er tælensk fiskisósa og smá pipar. Piprið kjötið og komið fyrir í fati. Hellið fiskisósu yfir þannig rétt fljóti yfir kjötið. Látið inn í ísskáp og leyfið því að vera þar í tæpan sólahring. Marinering gerir kjötið bæði meyrara ásamt því að dýpka bragðið af kjötinu.

grillhiti

Hár hiti: Kjötið á að grilla á eins háum hita og hægt er og þá örstutt (steikurnar sem við vorum með fengu 2 og hálfa mínútu á hverri hlið). Þannig verður það stötkt að utan , medium rare inn við miðju og mjög meyrt. Til að ná sem hæstum hita á grillinu prófaði ég að nota ný viðarkol frá Weber. Með viðarkolunum ásamt því að vera duglegur að blása á grillið náðum við hitanum upp í góðar 350°c og það var kjörið hitastig fyrir þessa tilraun. Þegar búið er að grilla kjötið þarf að leyfa því að hvíla í sirka 5-10 min. Loks er það skorið niður í þunnar sneiðar og þá er mjög mikilvægt að skera þvert á vöðvaþræðina!

steikoskorin

steiktilbuin

Með kjötinu grilluðum við grænmeti og gerðum chimichurri sósu (það gleymdist alveg að taka mynd af sósunni!). Sósan kemur frá Argentínu og nota þeir hana mikið með steikum og passaði hún alveg ljómandi með flank steikinni. Það er mjög auðvelt að leika sér með mismunandi hráefni í sósuna en uppistaða sósunnar er steinselja, olífuolía, einshvers konar sýra (t.d. edik eða sítróna) og hvítlaukur.

maisoglaukur

Auðveld chimichurri

  • Eitt búnt af steinselju
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2-3 msk af olífuolíu
  • sítrónusafi eftir smekk
  • salt og pipar eftir smekk

Saxið steinselju og hvítlauku smátt og blandið saman. Hellið olíunni út í og hrærið mjög vel. Magn olíu fer eftir því hvernig steinseljan er og hversu fljótandi þið viljið sósuna. Sósan er síðan smökkuð til með sítrónusafa og salt og pipar. Góðar viðbætur út í sósuna er t.d. ferskt oreganó, chilí flögur, rauðvínsedik og shallotlaukur.

Kjötið var algjört lostæti og eldunin fljótleg og einföld – sannkallaður skyndibiti. Afgangarnir eru síðan frábærir í steikarsamloku daginn eftir!

Grillaður lambahryggvöðvi

Fátt er nokkuð betra en íslenska lambakjötið.

Veðrið núna síðustu daga er búið að vera alveg frábært og til að fagna því þá ákváðum við að grilla okkur íslenskt lambakjöt sem við áttum í frystinum. Kjötið var síðan borið fram með syndsamlega góðum kartöflum, sinneps- og graslaukssósu og einföldu salati.

Kjötið

Fyrst er að vinna lambakjötið. Fitulagið ofan á kjötinu er um það bil besti parturinn þegar það er rétt eldað, þ.e. þegar hún er orðin að stökkri purru. Til þess að fá hana þannig þarf að fjarlægja efstu himnuna af fitunni (þar liggur lopabragðið sem fer í svo marga). Skerið síðan teninga í fituna (eða eitthvað annað form sem ykkur girnist). Passið að mynstrið sé þétt skorið og ekki sé skorið niður í kjötið.

Næst þarf að krydda kjötið. Við höfðum þetta einfalt og notuðum ferskar kryddjurtir úr kryddjurtagarðinum okkar og smá pipar. Kryddjurtirnar voru rósmarín, timjan, graslauk, steinselju og örlítið af myntu, en það má auðvitað nota hvaða kryddjurtir sem er. Hellið smá olíu yfir kjötið og nýmalaður pipar yfir. Saxið kryddjurtirnar gróft og stráið þeim síðan yfir kjötið. Leyfið kjötinu að standa a.m.k. 1 klukkustund en best er að gera þetta kvöldið áður og leyfa kjötinu að standa yfir nótt.

Grillið lambakjötið á heitu grilli – meirihluta tímans á fitunni. Eldunartíminn fer auðvitað eftir hitastigi grillsins og stærð kjötsins en við grilluðum okkar í 8 min. og leyfðum því síðan að jafna sig í 10 min. áður en það var skorið.

Með kjötinu höfðum við Önnu kartöflur (Pommes Anna), þunnskornar kartöflur bakaðar í ljúffengu kryddsmjöri, og heimagerða sinneps- og graslaukssósu (uppskriftin er hér). Uppskriftin að Önnu kartöflunum verður birt síðar.

Sönn íslensk veisla!

Grilluð Svínarif

Fyrir ekki svo löngu síðan fórum við okkar fyrstu heimsókn á Jægerborgsgötu en í þeirri götu er heill hellingur af skemmtilegum búðum og matsölustöðum. Ein af búðunum er kjötverslun sem bóndi hér á Sjálandi er með. Búðin er bara opin 3 daga í viku en þar selur bóndinn svínakjöt frá eigin býli og kjúkling, nauta- og kálfakjöt frá nærliggjandi bæjum. Við keyptum alveg ótrúlega flott „baby back“ svínaríf og notuðum eina alveg skothelda aðferð til að gera súper djúsí rif.

Matreiðslan er í tveimum stigum þar sem rifin er fyrst bökuð og síðan grilluð. Best er að láta dag líða á milli því þá nær bragðið að þroskast betur. Einnig er auðveldara að grilla rifin þegar maður leyfir þeim að kólna fyrst – að öðrum kosti er hætta á að þau detti bara í sundur á grillinu þar sem þau eru einfaldlega það djúsí!

Svínarif

Dagur 1

Byrjum á að setja kryddblöndu yfir rifin (eftirfarandi hlutföll miðað við 1,5kg af svínarifjum)

  • 1 msk. salt
  • 1/2 msk. sinnepsduft
  • 1/2 msk. paprika
  • 1/4 tsk. cayenne pipar
  • 1/4 tsk. nýmalaður svartur pipar

Hverju rifi er pakkað í álpappír og síðan bökuð við 180°c í ofni í 2 klukkustundir. Rifin eru þá u.þ.b. við það að detta í sundur! Nú þarf að opna hvern álpappírspakka með rifi og hella soðinu sem rifið liggur í í bolla (Þetta er vonandi 1 1/2 dl af soði). Geymið soðið! Rifin eru aftur pökkuð í álpappír og sett í kæli.

Dagur 2

Fyrst er undirbúa BBQ sósuna. Hitið soðið frá því í gær í litlum potti og látið 1 1/2 dl. af uppáhalds BBQ sósunni þinni út í. 2/3 af sósunni er notuð til þess að pensla rifin en 1/3 af henni er borin fram með rifjunum eftir grillun (geymið því 1/3 af sósunni).

Rifin eru grilluð á miðlungs heitu grilli, pensluð með sósunni, lítið í einu. Snúið þeim reglulega þar sem þau brenna auðveldlega út af sósunni. Það tekur u.þ.b. 10 min. að hita rifin alveg í gegn.

Rifin eru nú tilbúin og borin fram með 1/3 af sósunni og góðu meðlæti, t.d. maís og ferskt salat.

Verði ykkur að góðu!

Beikonvafin svínalund með plómuchutneyi

Nýtt blað af „Verði þér að góðu“ kom í hús um daginn. Í blaðinu er mikið fjallað um ávexti og grænmeti árstíðarinnar en núna er tíminn fyrir steinaldin hér í DK og því völdum við eitt kvöldið að elda bæði aðal- og eftirrétt með plómum.

Aðalrétturinn:

Aðalrétturinn var beikonvafin svínalund. Hér er um mjög einfalda matreiðslu að ræða en fyrst er svínalundin himnu-hreinsuð og sett í fat. Síðan er hún smurð með kryddjurtablöndu og loks vafinn í panchettu (panchetta er ítalskt óreykt beikon sem er mjög þunnt skorið). Kryddjurtablandan samanstendur af: 2 tsk ólífu olíu, 1 msk skorinn ferskt rósmarín og 2 tsk herbes de Provence (blanda af ítölskum grænkryddum). Síðan er svínalundin vafin með sláturgarni þannig að beikonið haldist á sínum stað.

Grillið svínalundina fyrstu 8 mín á háum hita og færið síðan yfir á lægri hita og leyfið henni að klára sig þannig u.þ.b. 15 mín eða þanngað til hún er kominn í 61°C í kjarnhita. Svo þarf að leyfa svínalundinni að standa vel, allveg 10 mín áður en hún er skorinn í þunnar sniðar (munið samt að taka spottan af áður)

Chutney
  • 4 plómur
  • 1 msk ólífu olía
  • 1 shallotlaukur, sneiddur á lengdina
  • 1 dl púðursykur
  • 1/2 dl epla edik
  • 1/2 dl vatn
  • 1 msk saxaðu hvítlaukur
  • 1 msk sinnepsfræ
  • 2 tsk rifinn engifer
  • 1/2 tsk malaður svartur pipar
  • 1 lárviðarlauf
  • salt eftir smekk

Aðferð: Afhýðið(*) plómurnar og skerið í 1 cm sneiðar. Setjið olíu í 3l pott og hitið á miðlungs hita. Mýkið laukinn í pottinum en það tekur um sirka 2 mín. Setjið síðan öll hráfni nema plómur út í og eldið í aðrar 2 mín. Því næst er plómum bætt út í og lok sett yfir pottinn og þessu leyft að krauma í 8 mín. Hrærið öðru hvoru. Takið lokið af og haldið áfram að elda á sama hita í 20-25 mín þar til plómur eru orðnar mjúkar og sósan orðin þykk.

Með svínalundinni og chutneyinu bárum við fram grillað grænmeti.

(*) Til að afhýða plómur og önnur steinaldin er eftirfarandi aðferð mjög góð. Skerið 2 cm djúpan kross í botninn á ávextinum og látið í sjóðandi vatn í tæpa mínútu. Færið síðan strax í kalt vatn og þá á skinnið að fara auðveldlega af.

Grillað lambakjöt og blaut súkkulaðikaka

Sumarið er svo sannarlega að koma til Kaupmannahafnar og sem sönnum Íslendingum ákváðum við að taka því fagnandi með grilluðu íslensku lambi.

Uppskriftin er ekki flókin en löngu orðin klassísk á okkar heimili. Úrbeinað læri er snyrt og skorið í mátulega stóra bita. Síðan er það sett í kryddlög sem samanstendur af Bezt á lambið og Caj P (kryddsósu). Með þessu grilluðum við síðan sveppi og papriku og höfðum bakaðar franskar kartöflur.

Þar sem það er ekki hægt að kaupa Argentínu grillsósurnar hér í búð (ótrúlegt en satt) þá var brugðið á ráð að stela og stílfæra aðeins. Sósan samanstóð af eftirfarandi: Sýrður rjómi, dijon sinnep, graslaukur, salt, hunang og smá sítrónusafi.

Allt í allt einföld matreiðsla en með jafn góðu hráefni og íslensku lambi þarf hreinlega ekkert meira til.

Í eftirrétt var boðið upp á syndsamlega súkkulaðiköku og vanilluís.

Í súkkulaðiköku fyrir 2 þarf: 65 g 70% súkkulaði, 43 g smjör í bitum, 20 g. hveiti, 7 g kartöflumjöl, 7 g kakóduft, 43 g sykur (sett í matvinnsluvél í smá stund) og 1 egg.

Bræðið súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði. Hrærið sykur og egg út í súkkulaðiblönduna, síðan hveiti, kakódufti og kartöflumjöli. Látið í smurð form og geymið í ísskáp í a.m.k. 30 min. – helst lengur!

Bakið við 200 °C í u.þ.b. 10 min. (fer samt mjög mikið eftir stærð á forminu en það er mikilvægt að baka kökuna ekki of mikið!!).

Namm!