Ásta átti afmæli í janúar og fékk marokkósku matreiðslubókina The Food of Morocco eftir Paula Wolfert í afmælisgjöf. Bókin er ótrulega falleg með fullt af myndum af marokkóskum mat og menningu. Okkur líður eiginlega bara eins og við séum komin aftur til Marokkó þegar við skoðum bókina.
Við erum ekki búin að elda mikið upp úr henni enda ákváðum við að taka okkur smá hlé frá marokkóskri matargerð eftir ferðalagið okkur til Marokkó um áramótin – svona til þess að hafa matargerðina spennandi og pínu spari.
Um helgina kom upp mikil löngun í marokkóskan kjúkling og við völdum okkur því uppskrift í fínu bókinni. Kjúklingurinn er hægeldaður í sósu úr tómötum, rauðlauk, saffran, kanil og marokkóskri kryddblöndu. Einföld matreiðsla og kjúklingurinn var ótrúlega safaríkur og gómsætur!
Marokkóskur kjúklingur
Fyrsta lota
- stór heill kjúklingur (1,6 – 1,8 kg helst „hamingjusamur kjúklingur“ (e. free-range)), bútaður niður í 4 bita, bringur með beini og siðan legg og læri. Leyfið skinninu að vera á.
- 900 g tómatar, fræhreinsaðir
- 1 meðalstór rauðlaukur
- 1/4 tsk engiferduft
- 1/4 tsk túrmerik
- 1/4 tsk hvítur pipar
- 1/8 tsk kanilduft
- smá múskat
- nokkrir saffranþræðir, leggið í bleyti í 2 msk af vatni
- salt eftir smekk
- 2 msk ólífuolía
- 1 lítil kanilstöng (u.þ.b. 7,5 cm)
Önnur lota
- 1/2 tsk kanilduft
- 2-3 msk hrásykur
Hitið ofnin í 140 °C.
Þerrið kjúklingin örlítið með eldhúspappír og setjið í stóra skál. Kjúklingurinn er enn með skinni til þess að hann þorni ekki við eldun. Setjið tómata (fræhreinsaðir) í matvinnsluvél og „púlsið“ þar til tómatarnir eru vel hakkaðir. Gerið það sama við rauðlaukinn. Það er auðvitað alveg hægt að gera þetta í höndunum líka, þ.e. að hakka tómatana og rauðlaukinn.
Setjið í skálina með kjúklingnum. Látið engiferduft, túrmerik, pipar, kanilduft (1/8 tsk), múskat, kanilstöng, saffranþræði og vatnið sem þeir lágu í, salt eftir smekk og ólífuolíu í skálina og blandið þessu vel saman. Raðið kjúklingnum í fat svo skinnið á kjúklingnum snúi upp á við og hellið restinni úr skálinni á kjúklinginn.
Setjið fatið inn í ofninn og eldið í 1 klukkustund og 45 min.
Takið fatið úr ofninum og síið vökvan frá. Hellið vökvan í lítinn pott og hrærið út í 1/2 tsk kanilduft og 2-3 msk hrásykur (uppskriftin segir 3 msk og það er það sem við gerðum en ef maður vill ekki hafa sósuna mjög sæta má minnka magnið). Hrærið vel og náið upp suðu. Sjóðið þar til sósan þykknar vel.
Hækkið hitan á ofninum, helst upp í grillhita. Skinnið á kjúklingnum er ekki stökkt (og því óætt) og því má e.t.v. fjarlægja það hér. „Smyrjið“ tómat- og rauðlauksmaukinu ofan á kjúklinginn og hellið síðan sósunni yfir. Látið inn í mjög heitan ofn og grillið kjúklinginn með maukinu þar til hálfgerð sykurbráð myndast. Berið fram með góðu kúskúsi.
Bon appetit!