Safaríkur marokkóskur kjúklingur

Ásta átti afmæli í janúar og fékk marokkósku matreiðslubókina The Food of Morocco eftir Paula Wolfert í afmælisgjöf. Bókin er ótrulega falleg með fullt af myndum af marokkóskum mat og menningu. Okkur líður eiginlega bara eins og við séum komin aftur til Marokkó þegar við skoðum bókina.

Við erum ekki búin að elda mikið upp úr henni enda ákváðum við að taka okkur smá hlé frá marokkóskri matargerð eftir ferðalagið okkur til Marokkó um áramótin – svona til þess að hafa matargerðina spennandi og pínu spari.

Um helgina kom upp mikil löngun í marokkóskan kjúkling og við völdum okkur því uppskrift í fínu bókinni. Kjúklingurinn er hægeldaður í sósu úr tómötum, rauðlauk, saffran, kanil og marokkóskri kryddblöndu. Einföld matreiðsla og kjúklingurinn var ótrúlega safaríkur og gómsætur!

marokkoskurkjulli

Marokkóskur kjúklingur

Fyrsta lota
 • stór heill kjúklingur (1,6 – 1,8 kg helst „hamingjusamur kjúklingur“ (e. free-range)), bútaður niður í 4 bita, bringur með beini og siðan legg og læri. Leyfið skinninu að vera á.
 • 900 g tómatar, fræhreinsaðir
 • 1 meðalstór rauðlaukur
 • 1/4 tsk engiferduft
 • 1/4 tsk túrmerik
 • 1/4 tsk hvítur pipar
 • 1/8 tsk kanilduft
 • smá múskat
 • nokkrir saffranþræðir, leggið í bleyti í 2 msk af vatni
 • salt eftir smekk
 • 2 msk ólífuolía
 • 1 lítil kanilstöng (u.þ.b. 7,5 cm)
Önnur lota
 • 1/2 tsk kanilduft
 • 2-3 msk hrásykur

kjuklingur

Hitið ofnin í 140 °C.

Þerrið kjúklingin örlítið með eldhúspappír og setjið í stóra skál. Kjúklingurinn er enn með skinni til þess að hann þorni ekki við eldun. Setjið tómata (fræhreinsaðir) í matvinnsluvél og „púlsið“ þar til tómatarnir eru vel hakkaðir. Gerið það sama við rauðlaukinn. Það er auðvitað alveg hægt að gera þetta í höndunum líka, þ.e. að hakka tómatana og rauðlaukinn.

Setjið í skálina með kjúklingnum. Látið engiferduft, túrmerik, pipar, kanilduft (1/8 tsk), múskat, kanilstöng, saffranþræði og vatnið sem þeir lágu í, salt eftir smekk og ólífuolíu í skálina og blandið þessu vel saman. Raðið kjúklingnum í fat svo skinnið á kjúklingnum snúi upp á við og hellið restinni úr skálinni á kjúklinginn.

Setjið fatið inn í ofninn og eldið í 1 klukkustund og 45 min.

tomatar

tomatarsaxadir

raudlaukur

kjuklingurfat

Takið fatið úr ofninum og síið vökvan frá. Hellið vökvan í lítinn pott og hrærið út í 1/2 tsk kanilduft og 2-3 msk hrásykur (uppskriftin segir 3 msk og það er það sem við gerðum en ef maður vill ekki hafa sósuna mjög sæta má minnka magnið). Hrærið vel og náið upp suðu. Sjóðið þar til sósan þykknar vel.

Hækkið hitan á ofninum, helst upp í grillhita. Skinnið á kjúklingnum er ekki stökkt (og því óætt) og því má e.t.v. fjarlægja það hér. „Smyrjið“ tómat- og rauðlauksmaukinu ofan á kjúklinginn og hellið síðan sósunni yfir. Látið inn í mjög heitan ofn og grillið kjúklinginn með maukinu þar til hálfgerð sykurbráð myndast. Berið fram með góðu kúskúsi.

marokkoskurkjuklingur

Bon appetit!

Uxahalasúpa

Þegar veturinn ætlar engan enda að taka þá er bara eitt að gera – elda góðan vetrarmat. Í kuldanum um helgina elduðum við bragðmikla uxahalasúpu með byggi, rauðlauk og perlulauk.

supanærmynd

Það tekur langan tíma að elda uxahalana fyrir súpuna og alveg eins og með íslensku kjötsúpuna verður uxahalasúpan bara betri daginn eftir. Við byrjuðum því að elda súpuna deginum áður en hún var borðuð en súpan var alveg þess virði!

Uxahalar
 • 850 g uxahalar
 • 4 shallot laukar
 • 2 sellerístilkar
 • 2 gulrætur, meðalstærð
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 3 stilkar af steinselju
 • grein af timiani
 • 2 msk olíu
 • 250 ml þurrt rauðvín
 • salt og pipar eftir smekk

Setjið msk af olíu út í góðan pott og steikið halana við miðlungs hita þar til þeir eru vel brúnaðir á alla kanta, sirka 10 – 15 mínútur. Saxið grænmetið gróflega niður á meðan.

Þegar uxahalarnir eru orðnir vel brúnaðir færið þá yfir á disk og geymið. Setjið msk af olíu út í pottinn og steikið grænmetið í tæpar 10 mínútur. Bætið hvítlauknum út í, því næst hölunum og loks kryddjurtunum. Hellið síðan rauðvíninu og 500 ml af vatni út í pottinn og náið upp suðu. Setjið pottinn inn í 135°c heitan ofn og leyfið kjötinu að malla þar í u.þ.b. 3,5 klukkutíma en þá á kjötið að vera lungnamjúkt.
Leyfið kjötinu að kólna örlítið, takið það síðan upp úr pottinum og tætið kjötið af hölunum. Setjið kjötið í box. Látið soðið renna gegnum sigti (ætti að vera u.þ.b. 500 ml af soði) og hendið grænmetinu. Setjið soðið í box og geymið kjötið og soðið í sitthvoru lagi í kæli yfir nótt.

Súpan
 • 150 g perlulaukur, má vera frosinn
 • 2 rauðlaukar, fínsneiddir
 • 2 msk smjör
 • 1/2 dl búrbon (viskí)
 • 500 ml gott kjúklingasoð
 • 1 dl bankabygg.
 • salt og pipar eftir smekk

Bræðið smjörið við miðlungs hita í góðum potti og setjið rauðlaukinn útí og eldið á rólegum hita í 45 mínútur þar til hann er orðinn djúprauður (ef laukurinn byrjar að þorna of mikið bætið örlítið af vatni út í). Færið laukinn af hitanum og hellið viskí út í og skrapið upp allt af botninum. Setjið síðan perlulaukinn, kjúklingasoðið, soðið frá því í gær og byggið út í pottinn og sjóðið í 1 tíma eða þar til byggið er orðið mjúkt. Setjið að lokum kjötið af uxahölunum út í súpuna og hitið vel. Salt og pipar eftir smekk og þá er súpan tilbúin!

supa1

Við borðuðum síðan súpuna með heimagerðu maísbrauði (e. cornbread) og það var fullkomið með súpunni.

maisbraud

Verði ykkur að góðu!

Mexíkósk veisla

Eins og áður hefur komið fram og lesa má af þessu bloggi þá finnst okkur mjög gaman af mat – hvort sem það er að elda hann, borða, skrifa um eða lesa sér til um mat en síðan horfum við líka á mismunandi matreiðsluþætti. Á einni sjónvarpsstöðinni hérna í DK er verið að sýna 3. seríu af ástralska Masterchef – þættir sem eru virkilega skemmtilegir og ofboðslega jákvæðir. Þar er sko enginn Gordan Ramsay öskrandi á fólk.

Einn af keppundum í þáttunum hefur mikið dálæti af mexíkóskri matargerð og hefur galdrað fram marga mjög girnilega rétti. Með þessi rétti sem innblástur ákváðum við að gera okkar eigin mexíkóska veislu hérna heima sem tókst barasta svona ljómandi vel.

Stjörnurnar í þessari máltíð eru svínakjötið og heimagerðu mexíkönsku flatkökurnar en það óvænta var hins vegar hversu vel sultaði rauðlaukurinn náði að fullkomna samsetninguna af þessu hráefnum.

taco
Hægeldaður svínahnakki (e. pulled pork)
 • 2 þurrkaðir ancho chillí
 • 2 þurrkaðir de árbol chillí
 • 2 msk sykur
 • 1 msk limesafi
 • 1,5 kg svínahnakki
 • duglega af salti
 • 2 msk olíu
 • 2 miðlungs laukar
 • 3 hvílauksgeira
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 tsk oreganó
 • 2 tsk kóríander
 • 2 tsk cuminduft
 • 1/2 tsk allspice
 • flaska af dökkum bjór

Hellið sjóðandi heitu vatni yfir þessar tvær tegundir af chillí og leyfið að liggja í bleyti í 30 min. Passið að vatnið þeki vel, t.d. með því að þrysta chillí niður með skál. Saltið svínahnakkann duglega á meðan.

Takið chillí upp úr vatninu en geymið 1/2 dl af vatninu. Setjið chillí, limesafa og sykur í matvinnsluvél og maukið vel. Berið mauk á svínahnakkann og leyfið að standa í a.m.k. klukkustund. Best er þó að leyfa þessu að standa í kæli yfir nótt.

Saxið lauk og hvítlauk og hitið olíu á pönnu. Steikið lauk og krydd í olíunni þar til laukurinn er orðinn vel mjúkur, u.þ.b. 10 min. Hellið nú bjór yfir laukinn á pönnunni og náið upp suðu. Setjið svínahnakka út í, látið lok á pönnuna og náið aftur upp suðu. Færið pönnuna inn í 115 °C heitan ofn og bakið í 4 1/2 – 6 klukkutíma, eða þar til kjarnhiti svínsins er 91 °C.

Þegar svínahnakkinn er tilbúinn leyfið honum þá að standa við stofuhita í 30 min. Færið kjötið yfir í fat og notið tvo gaffla til þess að rífa kjötið niður. Hellið sósuna af pönnunni út í kjötið þar til kjötið er vel safaríkt.

Mexíkóskar flatkökur
 • 250 g masa harina hveiti (maíshveiti)
 • 330 ml heitt vatn
 • smá salt

Hveiti og salt í skál og hellið heitu vatni út í. Hrærið vel, setjið plast yfir og leyfið deiginu að standa í 15 min. Mótið litlar kúlur úr deiginu og fletjið í tortillupressu eða með kökukefli á milli tveggja arka af bökunarpappír (eða plastpoka). Deigið er mjög viðkvæmt og það er ekki hægt að snerta það mikið. Penslið með smá olíu og steikið á heitri pönnu í 1-2 min á hverri hlið.

Sultaður rauðlaukur
 • 1 dl eplaedik
 • 1 msk sykur
 • 1 1/2 tsk salt
 • 1 rauðlaukur, þunnt skorinn

Eplaedik, sykur og salt í skál og hrærið vel svo sykur og salt leysist vel upp í vökvanum. Setjið rauðlauk ofan í vökvann og leyfið að standa í klukkustund við stofuhita áður en laukurinn er borinn fram. Þá á laukurinn að vera orðinn fallega bleikur á litinn. Það er vel hægt að gera laukinn fyrr og geyma hann í kæli.

Guacamole með fersku kóríander
 • 2 avókadó, vel þroskuð
 • ferskur kóríander eftir smekk
 • salt eftir smekk
 • limesafi eftir smekk

Skerið avókadóin í tvennt, takið steininn úr og fjarlægið hýðið. Skerið ávaxtakjötið í nokkra bita og setjið í matvinnsluvél (eða töfrasprota) ásamt kóríender og maukið vel. Salt og limesafi eftir smekk.

Ferskt tómatsalsa
 • 1/2 laukur, skorinn þunnt og í litla bita
 • u.þ.b. 500 g tómatar, skornir í litla bita
 • ferskur kóríander eftir smekk, saxaður
 • salt eftir smekk

Skerið laukinn og hellið síðan örlítið af sjóðandi vatni fyrir hann. Það tekur sterka laukbragðið af lauknum. Látið vatn renna af lauknum og setjið hann síðan í skál ásamt tómötum, kóríander og salt eftir smekk. Hrærið vel.

Síðan er bara að raða smá af svínahnakka á flatköku (einnig er gott að setja smá af osti neðst), guacamole, tómatsalsa og sultaður rauðlaukur með. Ferskur limesafi eftir smekk og rétturinn er fullkominn!

tacos

Kálfa Osso Buco

Sem secondo höfðum við kálfa skankasneiðar (Osso Buco) í mílanskri sósu. Það er ótúlega gaman að sjá hvernig þetta seiga kjöt hreinlega leysist upp þegar maður eldar það í nokkra klukkutíma og alveg með ólíkindum hvað sósan verður bragðmikil.

Við borðuðum réttinn án þess að hafa neitt með honum, enda var hann hluti af stærri máltíð. Við gerðum þó það mikið af honum að við áttum afgang sem við borðuðum með tagliatelle daginn eftir. Kjötið og sósan var ekkert verri daginn eftir og sú máltíð var einnig frábær.

ossobucotilbuid

Kálfa Osso Buco
 • 2 meðal stórir laukar, smátt saxaðir
 • 3 gulrætur, smátt saxaðar
 • 3 stilka sellerí, smátt saxað
 • 2 msk smjör
 • 2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
 • rifinn börkur af 1/4 sítrónu
 • 4 sneiðar af kálfa Osso Buco, sirka 3-4 cm þykkar  (alveg hægt að nota nauta líka – bara ekki segja Ítölunum)
 • hveiti til að velta sneiðunum upp úr
 • olía til steikningar, sirka 3 msk
 • 250 ml hvítvín
 • 250 ml nautasoð
 • 400 g af niðursoðnum tómötum, saxaðir
 • 1/4 tsk timian
 • 2 lárviðarlauf
 • 3 stilka af steinselju
 • salt og pipar eftir smekk

Byrjið á því að velta sneiðunum upp úr hveiti og steikið á djúpri heitri pönnunni í olíunni. Færið sneiðarnar yfir á disk þegar þær eru orðnar brúnaðar.

ossobuco

sosa

Bræðið smjörið á pönnunni. Setjið lauk, gulrætur og sellerí út í og steikið á miðlungs hita í tæpar 10 mín. Bætið hvítlauk og sítrónubörk út í og steikið áfram í 2-3 min. Hellið síðan hvítvíni og soði út í og sjóðið niður um u.þ.b. helming. Raðið kjötsneiðum í einfaldri röð á pönnuna og stráið kryddi og tómötum yfir. Náið upp suðu og setjið lok á pönnuna. Setjið pönnuna inn í 140°C heitan ofn í sirka 2,5 klukkutíma, eða þar til kjötið er orðið mjög meyrt.

Verði ykkur að góðu!

Carbonnades á la flamande – hægeldaður nautapottréttur

Okkur hefur langað til þess að elda þenna pottrétt í mjög langan tíma og núna þegar veturinn er í hæstum hæðum er um að gera að nýta tækifærið og elda þennan bragðmikla og hægeldaða rétt.

Þessi réttur er ættaður frá Belgíu og er því að sjálfsögðu belgískur bjór í honum. Aðalhráefnin eru 3 – nautakjöt, laukur og bjór. Bjórinn spilar stórt hlutverk í réttinum og því skiptir máli að hafa réttan bjór. Að þeim sökum fórum við  í rannsóknarvinnu á veraldarvefnum en eins og oft áður þegar leitað er þar er margar misvísandi uppýsingar að finna, en í ljósi þess að um þjóðar rétt Flæmska hluta Belgíu er að ræða, þá voru sitthvorar skoðanir á því hvernig rétturinn er eldaður. Oftast var þá um tvæ leiðir að ræða, annað hvort að nota  dökkan klausturs bjór eða Flæmskt rauðöl (súrbjór). Við ákváðum að nota dökkan klausturs bjór í þetta skipti en munum klárlega prófa að nota súrbjórinn síðar.

Við notuðum svínafeiti til þess að steikja kjötið upp úr. Svínafeitið gerðum við daginn áður með því að elda svínaspekk (e. render). Það tókst ofboðslega vel og gaf kjötinu sætt og gott bragð.

svinafita

nautoglaukur

Hægeldaður nautapottréttur
 • 1,2 kg magurt nautakjöt
 • 600 gr laukur, skorinn í sneiðar
 • Feiti til steikningar (u.þ.b. 2-3 msk)
 • 4 hvítlauksgeirar, kramdir
 • Kryddvöndull (*)
 • 1 stóran góðan belgískan bjór – eða 2 litla góða belgíska bjóra
 • Nautasoð (eða vatn og kraft)
 • Salt og pipar
 • Maizenamjöl

(*)  Við notuðum 3 stilka af steinselju, 1/2 tsk af timani og eitt lárviðarlauf, settum þetta í stóran tepoka og bundum fyrir.

Aðferð

Sneiðið kjötið í aflanga þunna kubba (ca. 1x2x3 cm). Stekið kjötið í nokkrum skömmtum í helmingnum af feitinni við háan hita. Salt og pipar eftir smekk. Takið af pönnunni og geymið. Lækkið hitann undir pönnunni og steikið laukinn upp úr restinni af feitinni í rúmlega 10 min. Salt og pipar eftir smekk og látið síðan hvítlaukinn út í (ekki elda).

nautipotti

nautipottitilbuid

Látið helminginn af kjötinu í eldfast mót/form (eitthvað sem hægt er að nota á hellunni – við notuðum le creuset pottinn okkar), síðan helmingur af lauknum ofan á kjötið og svo kryddvöndulinn ofan á. Endurtakið svo með restinni af kjötinu og lauknum. Hellið bjórnum (eða bjórunum) út í og síðan soðið þannig að vökvinn nái u.þ.b. 1 cm yfir kjötið. Náið upp suðu, lok á og látið síðan inn í 125°C heitan ofn. Eldið í u.þ.b. 2 1/2 tíma en þá á kjötið að vera orðið vel mjúkt.

Hellið soðinu af og færið yfir í pott. Sjóðið niður þar til u.þ.b. 250 ml eru eftir af soðinu og þykkið með maizenamjölinu þannig að það þeki skeið. Hendið kryddvöndlinum. Hrærið soðinu/sósunni saman við kjötið og laukinn og hitið eftir þörfum. Berið fram með góðum kartöflum eða kartöflumús.

hægeldadnaut

Bon appetit!

Nautakjötsbaka

Loksins eru komnar blár tölur á hitamælinn hér í Kaupmannahöfn og það gefur okkur heimild til að byrja elda „þægindamat“ (e. comfort food). Ein af okkar uppáhalds uppskriftum af slíkum mat er Steak and Guinness Pie eftir Jamie Oliver sem við sáum einmitt fyrst á síðunni hjá honum Ragnari Frey. Þetta er einn af þeim réttum sem verða betri á degi 2 og jafnvel enn betri á degi 3! Fyllingin í bökuna var gerð deginum áður og við settum svo bökuna saman næsta dag.

grænmetioglondon

Nautakjötsbaka

Í fyllinguna þarf:
 • 1 kg nautakjöt skorið í 2,5 cm bita – helst einhvern bragðmikinn vöðva t.d. síðusteik eða brjóst
 • 4 rauðlauka, saxaðir
 • 3 gulrætur, saxaðar
 • 3 sellerí stilka, saxaðir
 • 2 msk af ferskri rósmarín, söxuð
 • 4 sveppi, sneiddir
 • 3 hvítlauksgeira, fínt saxaðir
 • 2 msk hveiti
 • 2 msk smjör
 • 2 msk olía
 • Salt og pipar
 • Síðast en ekki síst einn stóran öl, t.d. Fullers eða Móra frá Ölvisholti
Bakan sjálf:
 • 200 gr rifinn Cheddar ostur
 • 400 gr smjördeig í plötum
 • 1 hrært egg
grænmetiskorid

smjördeig

steakandalepie

steakandalepieostur

steakandalepielokud

Aðferð:

Bræðið helming af smjörinu á heitri pönnu og brúnið kjótið, saltið og piprið á meðan. Þetta þarf að gera í tvennu lagi svo kjótið brúnist og sjóði ekki. Leggið svo til hliðar í góðan pott (u.þ.b. 5 l).

Næst er laukurinn steikur í olíunni á meðal heitri pönnu í 10 mín – þó ekki þannig að hann brúnist um of. Á meðan laukurinn er að eldast sáldrið hveitnu yfir kjótið og þekið/hristið vel. Þegar laukurinn er klár leggið hann svo í pottin með kjötinu.

Látið afganginn af smjörinu út á miðlungsheita pönnu ásamt gulrótum, sveppum og sellerí og steikið í 5 mínútur. Látið í pottinn með kjötinu og lauknum og hellið ölinu yfir (ef það nær ekki að þekkja kjötið fyllið upp í með vatni). Náið upp suðu á og látið lok á pottinn. Færið nú pottinn í 140°c heitann ofn og eldið þar í rúma 2,5 tíma.

Fyllingin má ekki vera of fljótandi þannig það getur verið nauðsynlegt að sjóða hana niður og þykkja sósuna eftir þörfum. Salt og pipar eftir smekk. Kælið fyllinguna örlítið niður en ef hún er gerð daginn áður er hún geymd í ísskáp og hituð rólega upp daginn eftir.

Fletjið smjórdeiginu út í sirka 2 mm á þykkt og þekið botninn á smurðu eldföstu móti með helmingnum af deiginu. Hellið fyllingunni ofan á deigið og stráið svo ostinum yfir. Lokið bökuna með afgangum af smjördeiginu og límið saman með smá af egginu. Penslið með egginu og látið bökuna síðan í botninn á 190°c heitum ofni og bakið í u.þ.b. 45 mínútur en þá ætti bakan að vera gyllt að ofan. Leyfið henni að standa í a.m.k. 10 mín áður en hún er borin fram.

steakandalepie2

Verði ykkur að góðu!

Bragðmikil nauta- og rótargrænmetissúpa með austurlensku ívafi

Það er farið að hausta í Kaupmannahöfn og það kallar á bragðmikinn og heitan mat. Um helgina keyptum við fullt af litríku rótargrænmeti í Torvehallerne sem við notuðum síðar sama dag þegar við elduðum bragðmikla nauta- og rótargrænmetissúpu með austurlensku ívafi. Uppskriftin er úr nýjasta tölublaði Verði ykkur að góðu.

Nauta- og rótargrænmetissúpa
 • 3 msk. olífuolía
 • u.þ.b. 600 gr. nautabógur, skorinn í 2 cm. bita
 • 1 tsk. gróft malaður svartur pipar
 • 5 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 2 chilí, fræ fjarlögð og saxaðir
 • 1 cm. engiferrót, skorin í þunnar sneiðar
 • 1 tsk. túrmerík
 • 3 bollar kjúklingasoð
 • 225 gr. gulrætur, skrælaðar og skornar í tvennt eða fernt
 • 250 gr. kartöflur, skornar í tvennt
 • 100 gr. frosin perlulaukur, skornir í tvennt
 • 1 dós kókósmjólk
 • Ferskt kóríander (skraut)

Aðferð

Hitið olíu á pönnu. Kryddið nautakjötið með salti og pipar og brúnið kjötið vel í olíunni á öllum hliðum. Þetta tekur u.þ.b. 5 mín. Færið kjötið á sér disk og geymið. Látið engifer, hvítlauk og chilí á pönnuna og steikið í u.þ.b. 2 mín., eða þar til hvítlaukurinn er orðinn örlítið mjúkur. Bætið pipar og túrmerík út í og hrærið vel. Steikið í u.þ.b. 1 mín. Kjúklingasoð og nautakjöt út á pönnuna og hrærið vel. Náið upp suðu og leyfið að malla í 45 mín, eða þar til nautakjötið er vel meyrt.
Gulrætur, kartöflur, perlulaukur og kókósmjólk út í og látið malla í 15-20 mín, eða þar til grænmetið er soðið. Ferskt kóríander yfir og þá er súpan tilbúin!

Ótrúlega bragðmikill og góður matur á haustlegum degi. Verði ykkur að góðu!

Steak and Guinness Pie á konudegi

Konudagurinn var á sunnudaginn og því var heldur betur dekrað við eiginkonuna, enda fyrsti alvöru Konudags dagur okkar. Matreiðslan hófst á laugardagskvöldi og stóð fram að kvöldmat á sunnudag. Á meðan sat frúin í sófanum með tærnar upp í loftið! Útkoman var dýrindis Steak and Guinness Pie og með henni drukkum við sérlega gott pinot noir rauðvín.

Bakan var gerð eftir uppskrift Jamie Oliver og má sjá uppskriftina hér. Ekkert var til sparað við gerð bökunnar og því hjólað um allan bæ eftir hráefnum. Ég prófaði því í fyrsta skipti að nota ‘brisket’ sem er ‘spisebryst’ á dönsku. Það var virkilega skemmtilegt hráefni, gróft en mjög bragðmikið og að sjálfsögðu augnlokameyrt eftir rúmlega 4 tíma eldun!

Til að vinna sér inn matarlyst fyrir þessa veislu var farið í sundferð í Ørebrohallen sem er orðin hefðbundin ferð á tveggja vikna fresti – mikið saknaðar maður nú potts númer 4 í Laugardalslauginni…

Annars má sjá hér the pie in the making:

Nautabrjóst

Allt orðið klárt!

Áður en bökunni var lokað

Bakan, grænar baunir og rauðvín

 Verði ykkur að góðu!

Vetur í Kaupmannahöfn

Veturinn kom til Kaupmannahafnar í síðustu viku og um helgina kom svo fyrsti snjórinn. Á sunnudaginn fórum við snemma á fætur, klæddum okkur vel og skelltum okkur í hjólaferð í Øbro-hallen (Østerbro svømmehal) en þar komumst við í heitan pott og góða gufu.

Í kuldanum og snjónum var alveg upplagt að elda eitthvað vetrarlegt, þ.e. eldað í hægum takti. Á leiðinni heim stoppuðum við í Torvehallerne og keyptum þessar fínu svínakinnar sem við hægelduðum í dökku öli (dark ale) í nýja Le Creuset pottinum okkar sem við fengum í brúðkaupsgjöf frá Deloitte. Með svínakinnunum höfðum við hvítlaukskartöflumús eftir hana Julia Child og ferskt salat. Uppskriftin að svínakinnunum var fengin úr bókinni hans Claus Meyers, Almanak, sem er í miklu uppáhaldi þessa stundina. Hráefni í réttin eru: 500 gr. svínakinnar, ½ gulrót (eða ein lítil), ½ laukur, 1 hvítlauksgeiri, 3 greinar ferskt timjan, 1 dl. dökkt öl (dark ale), salt og pipar, 500 ml. kjúklingasoð, 5 gr. smjör og 1 msk. edik.

Kinnarnar eru snyrtar eins og til þarf og síðan brúnaðar í pottinum og grænmetið skorið niður. Grænmetið er síðan sett út í pottinn og brúnað í smá stund. Svo timjan, bjór og salt og pipar og það soðið niður um helming. Loks er soðinu bætt út í og herlegheitin sett í 150 °C heitan ofn og leyft að malla þar í 1 ½ – 2 tíma, eða þar til kinnarnar næstum því detta í sundur! Kinnarnar eru veiddar upp úr soðinu og það sigtað og soðið niður þangað til það er orðið hálf klístrað og síðan smakkað til með smjéri og ediki.

Hér má sjá myndir af þessu öllu saman:

Hráefni

Kinnar, dark ale og grænmeti

Rétturinn tilbúinn!

Kveðjum við í bili með ódauðlegum orðum Juliu Child, Bon appétit!