Copenhagen Beer Celebration 2013

Fyrir rúmri viku síðan var Copenhagen Beer Celebration (CBC) 2013. Þar tóku ýmis flott brugghús þátt og voru mörg þeirra með sérbruggaða bjóra fyrir viðburðinn. Miðarnir á viðburðinn fóru í sölu nokkrum mánuðum fyrir og seldust allir á mjög skömmum tíma. Við vorum þó búin að tryggja okkur miða og vorum mætt rétt fyrir hádegi á laugardeginum.

Kvöldið áður hitum við upp fyrir viðburðinn og gerðum okkur The Rhinelander frá Cheeseandburger-síðunni en sá hamborgari er með bjórsinnepi og brauðið er sama deig og fyrir mjúku saltkringlurnar sem við gerðum til þess að hafa með í nesti á CBC (uppskriftin er hér).

hamborgari

kringlur

astaogpetur

bjorbleikur

Anchorage – Love Buzz / Amager Bryghus – Fruiticus lambicus raspberry

blaberogdokkur

/ Mikkeller – SpontanDoubleBlueberry

Viðburðurinn er hugmynd og barn hans Mikkels á Mikkellerbarnum og var haldinn nú í annað skipti eftir að hafa vakið frábæra lukku í fyrra. Viðburðurinn fór þannig fram að 30 úrvals brugghús voru hver með sinn bás og buðu hver upp á 3 mismunandi bjóra sem ýmist eru stolt þess brugghús eða höfðu verið sérstaklega bruggaðir fyrir viðburðinn. Við innganginn fengum við lítið glas og síðan gengum við um og smökkuðum að vild í 5 klukkutíma, sem er sá tími sem hver seta varir. Í heildina var boðið upp á 3 setur yfir 2 daga en við létum þó eina setu duga.

Það voru 90 bjórar í boði og því var ekki lítið verk hjá okkur að reyna smakka sem flesta en allt í allt náðum við að smakka 43 bjóra sem er tæpur helmingur af því sem var í boði. Bjórarnir voru úr öllum mögulegum og ómögulegum flokkum bjórheimsins. Hér að ofan má sjá þá 3 sem lentu í toppsætunum hjá okkur eftir harða en sanngjarna keppni.

Í 1. sæti var MikkellerSpontanDoubleBlueberry. Sá bjór smakkaðist ótúlega vel, þvílíkt bláberjabragð og villigerinn kom skemmtilega fram líka. Í 2. sæti voru nágrannar okkar hér á Amager með 3 ára lambic bjór, Fruiticus lambicus raspberry, sem fékk síðan góðan skammt af hindberjum til að vekja hann úr dvalanum. 3. sætið fekk Love buzz frá Anchorage brugghúsinu í Alaska. Ótrúlega góður saison sem er meðal annars bruggaður með piparkornum.

Fyrir utan þessa þrjá bjóra smökkuðum við himinn og haf af öðrum úrvalsbjórum og nutum þess að labba á milli bása. Stemningin var góð, rólegt og notalegt og allir frekar slakir á því.

bjorsmokkun

Við gerðum þó líka annað en að smakka alls konar bjóra því á staðnum voru nokkrir matsölubásar sem buðu upp á kræsingar með bjórsmökkuninni. Við fengum okkur pylsur hjá John´s Hotdog deli en þeir voru m.a. með þeirra eigið bjórsinnep og sultaðan rauðlauk í bjór sem þeir gerðu sérstaklega fyrir CBC. Pylsurnar frá John´s Hotdog deli eru alltaf góðar en þessar voru snilld!

pylsur

johnspylsur

pylsur2

Unika bauð upp á ostaþrennu þar sem ostarinir voru látnir liggja í þremur mismunandi bjórum og bragðið eftir því. Við vorum hrifnust af ostinum sem hafði legið í stout en hann var alveg hreint æðislegur. Síðar buðu þeir upp á gráðaost sem við ákváðum að smakka líka og vorum mjög sátt.

ostur

osturogbjor

Bjórsmökkunin var tekin mjög alvarlega og því voru mjög margir með lista yfir bjóra á viðburðinum sem þeir skrifuðu athugasemdir við og gáfu jafnvel einkunn. Við vorum ekki alveg jafn fagmannleg en voru þó með lista yfir hvaða bjórar yrðu í boði og merktum við þá sem við náðum að smakka.

smokkun

peturCBC

Landkönnuðurinn – gómsætur hamborgari

Á sunnudaginn grilluðum við hamborgara og venju samkvæmt var það borgari af síðunni www.cheeseandburger.com – ótrúlega flott síða sem mjólkurráð Wisconsins fylkis í Bandaríkjunum heldur út. Borgarinn sem varð fyrir valinu er Landkönnuðurinn (e. The Pioneer) og er nr. 18 á síðunni.

Landkönnuðurinn

  • Hamborgarabrauð með sesamfræjum og rósmaríni
  • Smjörsteiktir villtir sveppir
  • Hamborgari
  • Þroskaður svissneskur ostur
  • Beikon
  • Aioli
  • Salat/kál

Hamborgarabrauðið bökuðum við sjálf og notuðum þessa uppskrift en bættum við einni rósmaríngrein þegar brauðin voru að lyfta sér.

Borgarinn stóð fyrir sínu eins og allir aðrir sem við höfum gert af síðunni. Við mælum því hiklaust með því að þið látið á reyna – jafnvel þótt sumum hamborgurunum fylgi meiri vinna en venja er!

Hamborgarabrauð

Heimagert brauð er best! Ég baka nánast allt brauð sem við borðum sjálf og á yfirleitt alltaf til brauð í frystinum. Um helgina grilluðum við hamborgara, The Seattle, og ég bjó til hamborgarabrauðið sjálf. Uppskriftin að hamborgarabrauðinu er úr brauðbók Claus Meyers en þessi uppskrift verður að 3 stórum (eða 4 litlum) hamborgarabrauðum. Ég nota alltaf ferskt pressuger – brauðið verður stærra og betra ef maður notar ferskt pressuger og svo er það líka til alls staðar hér.

Ferskt pressuger

Látið 1 ¼ dl. volgt vatn og 10 g. ferskt pressuger í skál og hrærið saman. U.þ.b. 20 g. sykur (má minnka ef maður vill ekki hafa brauðið sætt, ég gerði það), 7 g. salt, 230 g. hveiti og 20 g. mjúkt smjör út í og hnoða í 8 min. (það er mikilvægt að hnoða vel til þess að fá góða áferð. Ég nota alltaf hrærivélina því annars er þetta mikil vinna!). Rakt stykki yfir og láta síðan deigið standa á hlýjum stað í u.þ.b. klukkutíma. Hér er allt í lagi að leyfa deiginu að standa lengur.

Deigið - Ég notaði líka heilhveiti en það má sleppa því

Síðan þarf að móta brauðin. Skiptið deiginu í 3 (eða) 4 jafnstóra bita, mótið kúlur og dreifið sesamfræjum á brauðin. Brauðin þurfa standa á hlýjum stað undir röku stykki í sirka 30 min.

Mótuð hamborgarabrauð með sesamfræjum

Eftir 30 min. þarf að þrýsta plötu eða slíku niður á brauðin til þess að fá rétt lag á þau (svo þau verða ekki of há). Brauðin þurfa svo standa í allt að klukkutíma og baka síðan við 220 °C í 12-14 min. – eða þar til brauðin eru tilbúin.

Fín og svakalega góð hamborgarabrauð!