Eins og við höfum nefnt hér áður erum við mjög hrifin af indverskum mat. Fyrir 1 1/2 ári síðan eignuðumst við bókina India Cookbook eftir Pushpesh Pant – 816 bls. af indverskum uppskriftum og leiðbeiningum! Uppskriftirnar eru þó sumar ansi tímafrekar og því eldum við oftast indverskt um helgar þegar við höfum nægan tíma.
Síðustu helgi elduðum við indverskt lamb í karrí sem heppnaðist mjög vel. Mildur en bragðgóður réttur! Enn og aftur þarf að hafa í huga að „karrí“ er kryddblanda og er því ekki alltaf eins og karríið sem flestir Íslendingar þekkja.

Hráefnin í réttinn eru: 500 g. lambakjöt, 70 ml. olía, 2 litlir laukar (skornir í sneiðar), 1 msk. engifer (maukaður í matvinnsluvél eða með fínu rifjárni), 1/2 msk. hvítlaukur (maukaður eða kraminn), 1 tsk. ferskur grænn chillí (saxaður), 250 ml. jógúrt, 1 tsk. chillí duft, 1/2 tsk. túrmerik. 1 1/2 tsk. sykur, 1 tsk. svartar kardimommur (malaðar í mortéli) og salt.
Hráefnin í kryddlög fyrir lambið: 125 ml. jógúrt, 1 msk. olía, 1/2 tsk. chillí duft, 1/4 tsk. túrmerik og 1/2 tsk. sykur.


Það er ofboðslega gott að byrja á því að finna öll hráefnin til. Þá lendir maður ekki í því að vera með kryddbauka út um allt og þurfa eyða heilu kvöldi í að þrífa eldhúsið eftir matreiðsluna.
Hrærið saman hráefnum í kryddlöginn, skerið lambakjötið í bita (u.þ.b. 2,5 cm á stærð) og látið í kryddlöginn. Geymið í ísskáp í klukkutíma.
Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn í 5 min. eða þar til hann er orðinn gylltur. Bætið hvítlauki, engifer og grænum chillí út í og steikið í 2-3 min. Hækkið hitann undir pönnunni og látið jógúrt, chillí duft, túrmerik og sykur ásamt lambakjöti og kryddlegi út í og steikið í 5-10 min. Salt eftir smekk.
Hellið nú 500 ml. af vatni á pönnuna og lækkið hitann undir pönnunni. Lok á pönnuna og leyfið að malla í 1 – 1 1/2 klukkutíma eða þar til kjötið er orðið vel meyrt (það tekur alveg sinn tíma) og sósan þykk. Malaðar kardimommur út í að lokum og salt eftir smekk.

Berið fram með hrísgrjónum og naanbrauði.
Líkar við:
Líka við Hleð...