Chapati- Indverskt flatbrauð

Þegar við eldum indverskan mat gerum við nánast alltaf indverskt flatbrauð með. Það er ofboðslega einfalt að búa til sitt eigið flatbrauð og svo er það margfalt betra en það sem fæst keypt tilbúið í matvöruverslunum.

indverskflatbraud1

Flatbrauðin eru best nýbökuð og heit með smjöri en það er alveg hægt að hita þau aftur með því að stinga þeim inn í heitan ofn í smá stund eða hita brauðin á pönnu.

Chapati – indverskt flatbrauð (f. 2-3)
  • 175 g hveiti
  • 1/2 tsk salt
  • 10 g ferskt pressuger
  • tæplega 1 dl vatn, volgt
  • 15 g brætt smjör

Vatn, salt og ger í skál og hrærið vel. Setjið hveiti út í og brætt smjör og hnoðið þar til deigið er vel mjúkt, slétt og teygjanlegt. Leyfið deiginu að standa í 30 min (gjarnan lengur) á hlýjum stað.

Stráið hveiti yfir deigið og skiptið því í jafna hluta (okkur finnst best að gera mörg lítil – þá um 10 stk). Fletjið deigið eins þunnt út og hægt er og bakið á heitri pönnu í nokkrar min. á hvorri hlið. Setjið smjör á brauðin á meðan þau eru enn heit og berið fram.

flatbraudhlid1

Njótið!

Aloo Gosht – Indverskt lamb með kartöflum

Þegar við vorum seinast á Íslandi keyptum við okkur lambalæri, enda er fátt nokkuð betra en íslenskt lambakjöt. Lærið var vel stórt og því úrbeinuðum við það og skiptum í 4 parta. Við áttum smá eftir í frystinum sem við elduðum indverskan lambakjötsrétt með kartöflum úr. Rétturinn var ofboðslega bragðgóður og sósan æðisleg!

Indverskt lamb með kartöflum
  • 400 g lambakjöt, skorið í bita
  • 1 tsk kóríanderduft
  • 1 tsk cuminduft
  • 1 tsk chillí
  • 1/2 tsk garam masala
  • 60 ml ghee („hreinsað“ smjör)
  • 1 lárviðarlauf
  • 1/2 tsk cuminfræ
  • 3 stórar kartöflur, skornar í 4 bita
  • 1 stór laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1/2 kanilstöng
  • 2 negulnaglar
  • fræ úr einni svartri kardimommu
  • 2 grænar kardimommur
  • smá mace (hýði af múskathnetu – sjá mynd)
  • 1 cm ferskt engifer, saxað
  • 1 msk hvítlaukur, saxaður
  • 125 g tómatar, saxaðir
  • salt eftir smekk

Látið kóríanderduft, cuminduft, chillí og garam masala í skál og bleytið kryddin með smá vatni svo úr verður þykkt mauk. Geymið maukið.

larvidarlaufogcumin

Hitið ghee á pönnu. Látið lárviðarlauf og cuminfræ út í og hitið í u.þ.b. 1 min, eða þar til fræin fara að ilma. Látið kartöflur út í og steikið í 15-20 min, eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar og fallegar. Takið kartöflurnar af pönnunni og látið renna af þeim á eldhúspappír.

kardimommurogmuskat

Svört kardimommufræ // Mace

kartofluroglaukur

Komið lauknum fyrir á pönnunni og steikið í 5 min, eða þar til laukurinn er orðin vel gylltur. Látið kanilstöng, negulnagla, kardimommufræ, kardimommur og mace út í og steikið í 2 min. Látið síðan kryddmaukið út í, síðan 1 msk af vatni, engifer og hvítlauk. Hrærið vel. Lambakjötið á pönnuna og steikið kjötið í 5 min. Tómatar út í og steikið áfram í 5 min.

lambakjot

Hellið 250 ml af vatni út í réttinn, salt eftir smekk, lok á pönnuna og leyfið réttnum að malla í 1 – 1 1/2 klukkutíma, eða þar til kjötið er orðin vel meyrt. Látið þá kartöflubitana út í, hitið vel og þá er rétturinn tilbúinn! Berið fram með hrísgrjónum og naanbrauði.

lambarettur

Verði ykkur að góðu!

Kjúklingur í indverskri kryddsósu

Helgina áður en við fórum til Íslands reyndum við að tæma duglega úr frystinum til þess að búa til pláss fyrir íslenska lambakjötið og fiskinn sem við ætluðum að koma með heim úr ferðinni. Í frystinum áttum við nokkur kjúklingalæri því við kaupum yfirleitt heilan kjúkling og úrbeinum hann sjálf. Það sem við notum ekki strax fer í plastpoka og fryst – einnig bein sem við sjóðum okkur eigið kjúklingasoð úr! Úr kjúklingalærunum gerðum við þennan dásamlega og bragðsterka indverska rétt en hér er uppskriftin:

Kjúklingabitar í indverskri kryddsósu:

  • 60 ml olía
  • 1 laukur, skorinn þunnt.
  • 1 tsk. hvítlaukur (sett í matvinnsluvél/töfrasprota og búið til mauk)
  • 1 tsk. engiferrót (sett í matvinnsluvél/töfrasprota og búið til mauk)
  • 500 gr. kjúklingur með beinu (við notuðum kjúklingalæri)
  • 60 ml. sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Cuminfræ // Birkifræ

Kóríanderfræ // Túrmerík

Fenugreekfræ // Svört piparkorn

Kryddmauk:
  • 2-3 þurrkaðir chillí (heilir)
  • 1/2 msk. kóríander
  • 1 tsk. cuminfræ
  • 1 tsk. fenugreekfræ
  • 5 svört piparkorn
  • 1 1/2 tsk. birkifræ
  • 20 gr. kókósmjöl
  • 1/2 tsk. túrmerík
  • 1/4 tsk. kardimommur
  • 1/4 tsk. negull
  • 1/4 tsk. kanill

Fyrst þarf að búa til kryddmaukið. Leggið chillí í bleyti heitu vatni í 10 min. og hellið síðan vatninu frá. Ristið chillí, kókósmjöl, cuminfræ, fenugreekfræ, piparkorn og birkifræ á þurri pönnu þar til þau fara að taka smá lit (ekki brenna!!). Ristið síðan kóríander, túrmerík, kardimommur, negul og kanil alveg eins og passið að hræra vel í kryddunum á meðan. Látið allt í matvinnsluvél/kryddkvörn og búið til mauk (látið smá vatn út í ef nauðsynlegt).
Geymið kryddmaukið.


Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann er orðinn gylltur á litinn. Látið engifer- og hvítlauksmauk út í ásamt kryddmauki og steikið í 1-2 min. Kjúklingabitar út í og saltið örlítið. Hrærið vel, látið 1/2 – 1 dl. af vatni út í og leyfið þessu að malla á vægum hita í u.þ.b. 25 min., eða þar til kjúklingabitarnir eru tilbúnir. Sítrónusafi út í réttinn, hrærið vel og berið fram með hrísgjrónum og naanbrauði.

Verði ykkur að góðu!

Indverskt dahl

Við erum komin úr sumarfríi og þá er eins gott að birta nýja færslu!

Eftir sukk og nammiát í sumarfríinu er gott að elda sér einn léttan og góðan grænmetisrétt til þess að koma mataræðinu aftur í lag. Hér er indverskur baunaréttur með kókosmjöli sem er síðan borðaður með naanbrauði og evt. hrísgrjónum.

Í dahl fyrir 2 þarf: 1 lárviðarlauf, 1 kanilstöng (u.þ.b. 2,5 cm), 2 grænar kardimommur, 3 negulnaglar, 1 þurrkaður chillí (fræ fjarlægð), 1/2 tsk. cuminfræ, 125 g. linsubaunir (ég notaði rauðar og svartar en það er hægt að nota hvaða tegund sem er), 1/2 tsk. túrmerik, 1 1/2 tsk sykur, 1/2 msk. ghee (hitað smjör þar sem mjólkin í smjörinu er fjarlægð – þá þolir smjörið hærri hita án þess að brenna), 1 dl. kókósmjöl, 1 dl. kókosmjólk, 25 gr. rúsínur, 1/2 tsk. chillí duft, 1/2 tsk. cumin og salt eftir smekk.

Byrjið á því að leggja linsubaunirnar í bleyti í ca. klukkustund. Hitið lárviðarlauf, kanilstöng, kardimommur, negulnagla, cuminfræ og chillí á pönnu í 2 min. eða þar til kryddin eru orðin örlítið brún. Látið í kryddkvörn eða mortél og malið vel.

Látið 400 ml. vatn í pott og hitið að suðu. Hellið vökvanum af linsubaununum og sjóðið þær í pottinum í 30 min. eða þar til þær eru orðnar mjúkar. Fjarlægið froðuna sem myndast við suðuna. Hrærið síðan kókósmjólk, túrmerik, sykur og salt eftir smekk út í linsubaunirnar.

Hitið ghee á pönnu og steikið kókósmjölið þar til það er orðið ljósbrúnt. Bætið út í linsubaunirnar ásamt rúsínunum. Lok á pottinn og látið malla í 5 min.

Malaða kryddblandan (lárviðarlauf, kanilstöng, kardimommur, negull, chillí og cuminfræ) út í að lokum og hrærið vel. Berið fram með naanbrauði og evt. hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu!

Pista Kulfi – Indverskur ís með pistasíuhnetum

Eftir eina indversku máltíðina um daginn ákváðum við að prófa indverskan eftirrétt og Pista Kulfi varð fyrir valinu. Pista Kulfi er indverskur ís með pistasíuhnetum og er borinn fram mjög frosinn. Við vorum mjög sátt með ísinn enda er hann ótrúlega freskur og fulkominn endir á indverskri veislu!

Hráefnin í ís fyrir 4: 500 ml. mjólk. 50 gr. sykur, 2 msk. pistasíuhnetur (ósaltaðar og malaðar), 70 gr. rjómi, 1/2 msk. rósavatn (má sleppa) og 1/4 tsk. kardimommur (duft).

Hitið mjólkina að suðu og leyfið að malla í ca. 25 min. Þetta er gert til þess að ná fram sætuna í mjólkinni. Hellið sykur út í mjólkina og hrærið vel. Hitið við lágan hita þar til mjólkin fer að þykkna örlítið. Látið pistasíuhnetur út í mjólkina og leyfið að kólna.

Þeytið rjómann aðeins (léttþeyttur) og hrærið út í mjólkina. Síðan rósavatn (ef það er notað) og kardimommum. Hellið ísnum í form og látið í frost.

Berið fram á meðan ísinn er enn mjög frosinn!

Indverskt lamb

Eins og við höfum nefnt hér áður erum við mjög hrifin af indverskum mat. Fyrir 1 1/2 ári síðan eignuðumst við bókina India Cookbook eftir Pushpesh Pant – 816 bls. af indverskum uppskriftum og leiðbeiningum! Uppskriftirnar eru þó sumar ansi tímafrekar og því eldum við oftast indverskt um helgar þegar við höfum nægan tíma.

Síðustu helgi elduðum við indverskt lamb í karrí sem heppnaðist mjög vel. Mildur en bragðgóður réttur! Enn og aftur þarf að hafa í huga að „karrí“ er kryddblanda og er því ekki alltaf eins og karríið sem flestir Íslendingar þekkja.

Hráefnin í réttinn eru: 500 g. lambakjöt, 70 ml. olía, 2 litlir laukar (skornir í sneiðar), 1 msk. engifer (maukaður í matvinnsluvél eða með fínu rifjárni), 1/2 msk. hvítlaukur (maukaður eða kraminn), 1 tsk. ferskur grænn chillí (saxaður), 250 ml. jógúrt, 1 tsk. chillí duft, 1/2 tsk. túrmerik. 1 1/2 tsk. sykur, 1 tsk. svartar kardimommur (malaðar í mortéli) og salt.

Hráefnin í kryddlög fyrir lambið: 125 ml. jógúrt, 1 msk. olía, 1/2 tsk. chillí duft, 1/4 tsk. túrmerik og 1/2 tsk. sykur.

Það er ofboðslega gott að byrja á því að finna öll hráefnin til. Þá lendir maður ekki í því að vera með kryddbauka út um allt og þurfa eyða heilu kvöldi í að þrífa eldhúsið eftir matreiðsluna.

Hrærið saman hráefnum í kryddlöginn, skerið lambakjötið í bita (u.þ.b. 2,5 cm á stærð) og látið í kryddlöginn. Geymið í ísskáp í klukkutíma.

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn í 5 min. eða þar til hann er orðinn gylltur. Bætið hvítlauki, engifer og grænum chillí út í og steikið í 2-3 min. Hækkið hitann undir pönnunni og látið jógúrt, chillí duft, túrmerik og sykur ásamt lambakjöti og kryddlegi út í og steikið í 5-10 min. Salt eftir smekk.

Hellið nú 500 ml. af vatni á pönnuna og lækkið hitann undir pönnunni. Lok á pönnuna og leyfið að malla í 1 – 1 1/2 klukkutíma eða þar til kjötið er orðið vel meyrt (það tekur alveg sinn tíma) og sósan þykk. Malaðar kardimommur út í að lokum og salt eftir smekk.

Berið fram með hrísgrjónum og naanbrauði.

Indversk matargerð

Fyrir þónokkru síðan fann annað okkar umfjöllun um mjög spennandi indverska matreiðlsubók, India Cookbook eftir Pushpesh Pant. Þetta er sannkölluð alfræðiorðabók í indverskri matargerð sem fer um öll héruð í Indlandi. 

Við eldum oftast indverskt um helgar því uppskriftirnar eru oft þannig að rétturinn þarf að malla í dágóðan tíma. Á miðvikudaginn í síðustu viku gerðum við okkur þó dagamun og elduðum þennan ljúffenga grænmetisrétt sem við borðuðum með hrísgrjónum og nýbökuðu naanbrauði.

Rétturinn er kallaður Uralaikizhan Sagu eða ‘Potato Curry with Coconut’ og er upprunninn frá Tamil Nadu í Indlandi. Uppskriftin er skipt í nokkur skref og að fenginni reynslu er best að byrja á því að finna öll hráefnin til áður en matreiðslan sjálf hefst.

Fyrst þarf að huga að aðalhráefni réttsins, þ.e. kartöflunum. 7 kartöflur eru afhýddar og soðnar í söltu vatni. Þegar þær eru orðnar mjúkar eru þær kældar og skornar niður í hæfilega stóra bita.

Öll hráefnin

Í indverskri matargerð eru krydd oft hituð í olíu áður en maður bætir við öðrum hráefnum til þess að framkalla brögðin enn betur. Þetta á einnig við í þessum rétti en 6 msk. olíu er hituð og eftirfarandi sett út í: 1 tsk. sinnepsfræ, 1 tsk. cuminfræ, 1 tsk. rauðar linsubaunir (leggja í bleyti í smá tíma fyrst), 1 tsk. grænar linsubaunir (leggja í bleyti í smá tíma fyrst) og 10 karrílauf.

Krydd og olía á pönnunni

Kryddin eru hituð í dágóða stund eða þar til sinnepsfræin byrja að ‘poppa’. 3 saxaðir laukar (það virkar mikið en er það alls ekki!) eru þá settir út í og steiktir þar til þeir eru orðnir vel mjúkir. Á meðan er gott að taka til hráefnin í kryddmaukið: 2 þurrkuð rauð chilli, 1 msk. rauðar linsubaunir (þurrristaðar á pönnu), 1 msk. kóríanderfræ, ½ tsk. fennilfræ og 1 cm. kanilstöng.

Kryddin eru sett í kryddkvörn ásamt smá vatni og möluð þar til verður að mjúku mauki. Geymið maukið.

Krydd í kvörninni

1 saxaður rauður chilli, 1 cm. bútur af engifer, 4 niðurskornir tómatar og ½ tsk. túrmerik er bætt við á pönnuna og látið brúnast í 2 mín. U.þ.b. 1 ½ dl. af vatni er sett út í, lok á pönnuna og látið malla í 5 mín. Kartöflur og kryddmauk er bætt við að lokum ásamt 1 dós af kókósmjólk og látið malla í smá stund (eða þar til linsubaunirnar eru tilbúnar). Ferskt kóríander til skrauts.

Rétturinn tilbúinn!

Rétturinn er ótrúlega bragðgóður, fallega gulur á litinn og áferðin silkimjúk!