Uova da Raviolo – pasta fyllt með eggjarauðu

Eins og við höfum nefnt áður horfum við á ýmsa matreiðsluþætti í sjónvarpinu. Masterchef Australia hefur t.d. verið í miklu uppáhaldi hjá okkur aðallega vegna þess að þar er maturinn í aðalhlutverki en lítið um rifridli milli þátttakenda. Þar fáum við líka nýjar hugmyndir af mat sem okkur langar að prófa en færsla dagsins er einmitt um þannig rétt.

ravioloeggjarauda

Ravíóló er ravíólí fyllt með ricotta og heilli eggjarauðu. Pastakoddarnir eru síðan soðnir þannig að eggjarauðan er rétt byrjuð að eldast en er samt enn svolítið fljótandi.

Ravíóló (4 stórir pastakoddar)
  • 200 g ferskt pasta
  • 150 g ricotta
  • 45 g af rifnum parmesan osti
  • múskat, salt og pipar eftir smekk
  • 4 eggjarauður

Fletjið pastadeigið út í tvær 50 cm plötur og hafið þær eins þunnar og mögulegt er (hjá okkur stilling 8 af 9 á pastavélinni). Hrærið saman ricotta, parmesan osti, múskat og salt og pipar eftir smekk. Setjið ricotta blönduna síðan í sprautupoka og sprautið 4 hringi á aðra pastaplötuna með gati í miðjunni fyrir eggjarauðuna (passið að hafa bil á milli hringanna).

raviolopasta

raviolodeig2

raviolo3

Brjótið eitt egg í einu og skiljið eggjarauðuna frá eggjahvítunni. Komið eggjarauðunni varlega fyrir í miðjunni á hringnum og endurtakið síðan með hin eggin. Pennslið með hrærðu eggi í kringum hverja fyllingu og leggið síðan hina pastaplötuna yfir. Þrýstið á pastaplötuna svo það lokist vel um hverja fyllingu fyrir sig og reynið á sama tíma að fá sem mest loft úr koddunum. Skerið síðan út 4 pastakodda og setjið á lítinn disk sem búið er að strá smá pastahveiti á. Þrýstið með gafli á endana á pastanu til að tryggja að það haldist lokað. Sjóðið síðan 5 lítra af vatni í stórum potti og saltið vel. Setjið smá olíu út í og rennið síðan koddunum varlega út í vatnið af diskunum og sjóðið í 2,5 mínútu. Veiðið síðan koddana úr pottinum og færið strax á disk.

ravioloeggjarauda2

Við bárum ravíólóið fram með brenndu salvíusmjöri. Það var ljúffengt!

Verði ykkur að góðu!

Pönnupítsur á föstudagskvöldi

Föstudagskvöld eru pítsukvöld hjá okkur en við förum alltaf annaðhvort í pítsu til foreldra Péturs eða búum okkur sjálf til pítsu hérna heima. Síðasta föstudag gerðum við pönnupítsur en þá eru pítsurnar settar á heita steypujárnspönnu og beint inn í sjóðheitan ofn. Pítsubotninn verður vel stökkur en pítsan er samt ótrúlega létt og ljúffeng! pitsaananasbökud

pitsusneid

Það er lykilatriði að setja ekki of mikið á pítsuna og 175 g af áleggi (sósa, álegg og ostur) er algjört hámark. Við gerðum eina margherita pítsu og eina með ananas og skinku. Þær voru báðar ótrúlega góðar.

Pönnupítsa
  • 100 g pítsudeig (við gerðum deigið kvöldið áður en létum það standa við stofuhita)
  • 175 g álegg (pítsusósa, rifinn mozzarella ostur og annað álegg)
  • 85 ml hitaþolin olía

Hitið ofninn í 240-260°C (eins hátt og hægt er). Best er að kveikja á ofninum klukkutíma áður en það á að baka pítsurnar því ofninn þarf að vera mjög heitur. Fletjið pítsudeigið þunnt og látið deigið á pítsuspaða (við eigum ekki þannig en notuðum skurðarbretti í staðinn – þá þarf að passa að hafa hveiti á brettinu). Setjið álegg á pítsubotninn. Hellið olíu á steypujárnspönnu og hitið þar til það rýkur úr olíunni. Látið pítsuna þá renna af pítsuspaðanum á pönnuna (passið ykkur á olíunni því hún er rjúkandi heit!!) og setjið pönnuna strax inn í ofn. Bakið í u.þ.b. 5 min., eða þar til pítsan er tilbúin.

Náið pítsunni af pönnunni og komið henni fyrir á eldhúspappír á meðan hún kólnar örlítið. Skerið síðan í sneiðar og njótið.

pitsaananas

pitsamargherita

pitsamargheritabökud

pitsaskorin

Verði ykkur að góðu!

Rauðrófuravíólí með geitaostafyllingu

Okkur finnst alltaf gaman að gera ravíólí og stundum er gaman að leika sér aðeins og prófa eitthvað nýtt. Um daginn gerðum bleikt pasta í fyrsta skipti  og fylltum með ljúffengri geitaostafyllingu. Bleiki liturinn kemur frá rauðrófumauki sem er sett í pastadeigið. Bragðið verður líka örlítið sætara en þegar notað er venjulegt pastadeig en það passaði vel við geitaostafyllinguna.

raudrofuravioli

Rauðrófuravíólí (f. 3-4)
  • 1 stór rauðrófa (eða 2 litlar)
  • 200 g pastahveiti
  • 1-2 egg

Fyrst þarf að elda rauðrófuna. Afhýðið og skerið rauðrófuna í litla bita (etv. smá olía svo hún verði ekki of þurr). Bakið í við 180°C þar til bitarnir eru vel mjúkir og leyfið síðan að kólna. Setjið rauðrófubitana í matvinnsluvél (eða notið töfrasprota) ásamt einu eggi og maukið þar til blandan er orðin silkimjúk. Látið pastahveiti í skál og setjið rauðrófumaukið út í og hnoðið. Ef deigið er mjög þurrt bætið á öðru eggi út í. Hnoðið vel, látið plastfilmu utan um deigið og kælið í u.þ.b. klukkustund.

bleiktpasta

raviolibleikt

ravioli

Geitaostafylling
  • lítill vel þroskaður geitaostur (hvítmyglan skorin af)
  • 250 g ricottaostur
  • múskat eftir smekk
  • rifinn börkur af hálfri sítrónu
  • salt og pipar eftir smekk

Skerið geitaostinn í litla bita og hrærið saman við ricottaostinn. Látið ostablönduna í eldfast mót og bakið í 10 min., eða þar til geitaosturinn er bráðnaður. Hrærið vel í ostablöndunni og setjið síðan múska, sítrónubörk og salt og pipar eftir smekk.

Flejtið út pastadeigið, skammtið geitaostafyllingunni jafnt á deigið og búið til pastakodda. Sjóðið í söltu vatni og berið fram heitt. Við settum smá brennt smjör með örlítið af sítrónuberki og rifinn parmesan á ravíólíið. Það var fullkomið!

raviolirautt

Verði ykkur að góðu!

Kálfa Osso Buco

Sem secondo höfðum við kálfa skankasneiðar (Osso Buco) í mílanskri sósu. Það er ótúlega gaman að sjá hvernig þetta seiga kjöt hreinlega leysist upp þegar maður eldar það í nokkra klukkutíma og alveg með ólíkindum hvað sósan verður bragðmikil.

Við borðuðum réttinn án þess að hafa neitt með honum, enda var hann hluti af stærri máltíð. Við gerðum þó það mikið af honum að við áttum afgang sem við borðuðum með tagliatelle daginn eftir. Kjötið og sósan var ekkert verri daginn eftir og sú máltíð var einnig frábær.

ossobucotilbuid

Kálfa Osso Buco
  • 2 meðal stórir laukar, smátt saxaðir
  • 3 gulrætur, smátt saxaðar
  • 3 stilka sellerí, smátt saxað
  • 2 msk smjör
  • 2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
  • rifinn börkur af 1/4 sítrónu
  • 4 sneiðar af kálfa Osso Buco, sirka 3-4 cm þykkar  (alveg hægt að nota nauta líka – bara ekki segja Ítölunum)
  • hveiti til að velta sneiðunum upp úr
  • olía til steikningar, sirka 3 msk
  • 250 ml hvítvín
  • 250 ml nautasoð
  • 400 g af niðursoðnum tómötum, saxaðir
  • 1/4 tsk timian
  • 2 lárviðarlauf
  • 3 stilka af steinselju
  • salt og pipar eftir smekk

Byrjið á því að velta sneiðunum upp úr hveiti og steikið á djúpri heitri pönnunni í olíunni. Færið sneiðarnar yfir á disk þegar þær eru orðnar brúnaðar.

ossobuco

sosa

Bræðið smjörið á pönnunni. Setjið lauk, gulrætur og sellerí út í og steikið á miðlungs hita í tæpar 10 mín. Bætið hvítlauk og sítrónubörk út í og steikið áfram í 2-3 min. Hellið síðan hvítvíni og soði út í og sjóðið niður um u.þ.b. helming. Raðið kjötsneiðum í einfaldri röð á pönnuna og stráið kryddi og tómötum yfir. Náið upp suðu og setjið lok á pönnuna. Setjið pönnuna inn í 140°C heitan ofn í sirka 2,5 klukkutíma, eða þar til kjötið er orðið mjög meyrt.

Verði ykkur að góðu!

Ravíólí með ostafyllingu og brenndu smjöri

Þegar við eldum ítalskt verslum við flest öll hráefnin í mjög skemmtilegri ítalskri búð hérna í Köben. Starfsmenn búðarinnar eru flestir Ítalar og það er heilmikil stemning að koma þangað inn. Um daginn fór Ásta ein í ítölsku búðina til þess að kaupa nokkra osta sem við hjónin ætluðum að gæða okkur á eitt kvöldið og kom heim með 2 osta; einn mjúkan og bragðmildan og síðan truffluost. Truffluosturinn var mjög góður en frekar bragðmikill sem gerði það að verkum að við borðuðum ekki mikið af honum um kvöldið. Við ákváðum því að búa til ravíólí með ostafyllingu úr truffluostinum.

ravioli

Ravíólí með ostafyllingu og brenndu smjöri
  • Pasta fyrir 2 (sjá uppskrift hér)
  • Ricottaostur (u.þ.b. 1 bolli)
  • Truffluostur, rifinn (einnig hægt að nota parmesan)
  • Smá múskat
  • 1 egg
  • Pipar
  • Smjör eftir smekk

truffluostur

Ricottaostur, truffluostur, múskat og egg í skál og hrærið vel saman. Pipar eftir smekk og þá er fyllingin tilbúin! Fletjið út pastadeig og búið til fyllta pastakodda (hér má sjá frekari leiðbeiningar um ravíólígerð). Sjóðið í söltu vatni.

Hitið smjör á pönnu eða í potti og leyfið smjörinu að verða fallega brúnt (örlítið brennt). Við steiktum nokkur salvíulauf í smjörinu þar til salvíulaufin voru orðin vel stökk.

Raðið nokkrum pastakoddum á disk, hellið passlega mikið af brenndu smjöri yfir og skreytið með nokkrum salvíulaufum. Einnig er gott að rífa smá truffluost (eða parmesan) yfir.

raviolitilbuid

Verði ykkur að góðu!

Ravíólí með sætum kartöflum, prosciutto og parmesanosti

Fyrsta kvöldmáltíðin eftir góða heimsókn heim til Íslands síðustu daga var þetta dýrindis ravólí með sætum kartöflum, prosciutto og parmesanosti.

Við erum búin að vera með ravíólívél í pössun í nokkurn tíma en höfum aldrei komist í það að prófa vélina. Þar sem komið var að því að skila henni núna um helgina var tækifærið notað og við skelltum í pasta. Við völdum fyllingu sem yðri mátulega mjúk en þó ekki fljótandi því við héldum að þá myndi vélin virka hvað best. Tilraunin tókst prýðilega og allir koddarnir urðu eins en þegar við gerum þá sjálf verða þeir misstórir og eru þá oftast um 3 munnbitar á stærð.

Pastadeig (ravíólí fyrir 3)
  • 250 gr. pastahveiti
  • 3 egg

Hnoðið, látið plastfilmu utan um deigið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.

Fylling (ravíólí fyrir 3)
  • 400 gr. sætar kartöflur
  • 1 makkaróna (ekki þessar með fyllingu! má sleppa og nota smá sykur í staðinn)
  • 1 lítil eggjarauða
  • 1 1/2 msk. prosciutto, skorin í litla bita
  • 85 gr. rifinn parmesanostur
  • 1 1/2 msk. steinselja, söxuð
  • múskathneta eftir smekk
  • salt eftir smekk

Skrælið kartöflurnar og skerið í nokkra bita. Látið á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið við 200°C þar til kartaflan er orðin mjúk. Myljið makkarónukökuna og látið í matvinnsluvél ásamt kartöflunni, steinselju, prosciutto, parmesanosti og eggjarauðu og maukið vel. Salt og múskat eftir smekk.

Fletjið pastadeigið frekar þunnt, setjið fyllinguna á flötina, penslið kantana með vatni eða eggi og lokið. Skerið síðan í sundur og passið að allir endar séu lokaðir, súrt að fá þessa góðu fyllingu bara út í pastavatnið.  Sjóðið í stórum potti í söltu vatni þar til tilbúið (tekur sirka 3-4 mínútur). Að þessu sinni notuðum við pastavél til þess að fylla koddana (eins og sést á myndinni).

Með þessu höfðum við einfalda rjóma- og smjörsósu, rifinn parmesanostur yfir, einfalt salat og kalt hvítvín með.

Ljúffengur kvöldverður!

Humarpasta og tiramisu

Í síðustu viku kláraði Ásta rannsóknarverkefnið sitt og því bar að fagna. Lausnin var Alfreðs humarpasta (e. lobbster alfredo) og tiramisu í eftirrétt.

Kvöldið áður hófst undirbúningur en þá gerði Pétur frumraun sína í tiramisugerð. Á meðan sat eiginkonan sveitt á lokametrum ritgerðarsmíðar.

Aðalrétturinn var humarpasta. Fyrst þarf að hnoða í pastadeig. Það er verulega einfalt; eitt stórt egg á móti 100gr hveiti hnoðað saman og síðan leyft að standa í kæli í u.þ.b. klukkutíma. Aðal matreiðslan felst í því að undirbúa humarinn og sósuna sem hann er eldaður í en þökk sé mægðunum Ástu og Siggu áttum við íslenskan humar í fyrstinum sem við notuðum í réttinn.

Á móti pasta úr 200 gr. af hveiti fer: 1 1/2 dl af humarkjöti skorið í bita, 60gr smjör, 2 tsk saxaður hvítlaukur, 2 1/2 dl af rjóma, 1 1/2 dl af rifnum parmesan, 3 tsk graslaukur skorinn smátt.

Bræðið smjörið og steikið humarinn á heitri pönnu, lækkið svo í miðlungs hita og bætið hvítlauk og rjóma út í og leyfið að malla í smá stund. Loks er ostinum og graslauk bætt út í. Um leið og osturinn er bráðnaður er sósan tilbúin. Bætið þá pasta (soðið) út í. Með þessu var borið fram einfalt salat, bleytt í olíu og balsamik ediki.

Verði ykkur að góðu!

Calzone með skinku og sveppum

Sumarið er svo sannarlega komið til Kaupmannahafnar og undanfarnir dagar hafa verið u.þ.b. 25°C og sól. Grasið á Íslandsbryggju er fullt af fólki í sólbaði og alls staðar má sjá fáklætt fólk með svalandi drykki eða ís. Í kvöld elduðum við Calzone (innbökuð pitsa) með skinku og sveppum sem var frábær kvöldverður eftir alltof heitan vinnudag.

Fyrst þarf að búa til pitsudeig en í Calzone fyrir 2 þarf: 5 g. ferkt pressuger, 1 tsk. sykur, 1 msk. ólífuolía, u.þ.b. 1 1/2 dl vatn, 200 g. tipo 00 hveiti og 50 g. gróft durum hveiti (líka hægt að nota venjulegt hveiti og durum hveiti  (eða semolina) á móti).

Setjið vatn, ger, sykur og salt í skál og hrærið saman. Hveiti út í ásamt ólífuolíu og hnoðið þar til deigið er teygjanlegt og slétt. Rakt stykki yfir og látið lyfta sér í a.m.k. klukkustund á hlýjum stað.

Í fyllinguna notaðuðum við: pitsusósu, sveppi, hvítlauk, skinku, ferkan mozzarella, basilíku, oreganó, salt og pipar – allt eftir smekk.

Skerið sveppi í þunnar sneiðar, saxið hvítlauk og steikjið í smá smjöri þar til sveppirnir eru fallega brúnir. Þannig verða þeir ekki of blautir í fyllingunni. Skerið skinkuna í bita. Skiptið deiginu í tvo jafn stóra hluta og fletjið deigið hæfilega þunnt. Smyrjið pitsusósu á deigið, dreifið sveppum og skinku jafnt yfir. Tætið mozzarella yfir, kryddið með basilíku, oreganó, salti og pipar eftir smekk.

Leggið helminginn af deiginu yfir fyllinguna og lokið þannig pitsunni. Brettið upp kantinn svo fyllinginn leki ekki út. Bakið í 220 °C ofni þar til liturinn á deiginu er fallega gylltur.

Mmmmmmmmmmm……….

Panna cotta

Panna cotta er fallegur og ljúffengur ítalskur eftirréttur. Dásamlega einfaldur og í rauninni bara vanillubúðingur með sósu! Við erum búin að prófa þrjár mismunandi tegundir af sósu, allar ofboðslega góðar og fljótlegar.

Til þess að búa til panna cotta fyrir 3 þarf: 2 1/2 dl. rjómi, 1/2 dl. mjólk, 50 gr sykur, 1/2 vanillustöng, smá rifinn sítrónubörk og 2 blöð matarlím.

Panna cotta með ástaraldini

Mýkið matarlímið í köldu vatni í smá stund. Hitið rjóma, mjólk, sykur, vanillu og sítrónubörk þar til sykurinn leysist upp og rjómablandan er orðin heit. Matarlím út í og hrærið vel. Skiptið rjómablöndunni jafnt í 3 form og kælið þar til blandan hefur stífnað (tekur nokkra klukkutíma).

Það eru til ýmsar sósur fyrir panna cotta. Berjasósur eru mjög algengar en við erum búin að prófa eina berjasósu, sósu úr ástaraldini og eina karamellusósu. Uppistaða ávaxtasósanna er í rauninni bara ávextirnir og sykur eftir smekk. Í ástaraldinsósuna er gott að setja eplasafa með til þess að bæta við vökva. Ef sósan er of þunn má þykkja hana með smá maizenamjöli.

Verði ykkur að góðu!

Ítölsk veisla

Sunnudagur var dekurdagur hjá okkur – enda áttum við það svo sannarlega skilið eftir langa og mikla vinnuviku hjá okkur báðum. Við vöknuðum um hálf tíu leytið og hjóluðum í Øbrohallen. Þar slökuðum við á í heita pottinum og gufunni í rúman klukkutíma og hjóluðum svo heim endurnærð og sæl.

Um kvöldið var sönnkölluð ítölsk veisla sem hófst á antipasti. Í aðalrétt var ravíólí með spínat og ricotta fyllingu í ljúffengri tómatsósu en í eftirrétt var panna cotta með karamellusósu. Hér er uppskriftin af ravíólíinu en færsla um ricotta og panna cotta verður birt síðar.

Tómatsósan er lang best ef hún fær að malla lengi og því er best að byrja á henni. Hráefnin í sósuna eru: 1 laukur, 3 hvítlauksgeirar, u.þ.b. 1 kg tómar (líka hægt að nota tómata í dós), 1 msk. tómatpuré, 2 lárviðarlauf,  ferskar kryddjurtir (t.d. basil, timían, oreganó), salt og pipar. Þar að auki notaði ég hálfþurrkaða tómata (uppskriftin er hér) í sósuna, þeir eru svo sætir og bragðmiklir og alveg hreint dásamlegir í sósuna.

Saxið lauk og hvítlauk fínt. Steikið í smá olíu þar til laukurinn er vel mjúkur. Skerið tómatana í litla bita (eða notið tómata úr dós) og látið þá út í pottinn ásamt kryddjurtum og lárviðarlaufum. Látið sjóða í smá stund, bætið þá tómapuré út í (ef notaðir eru hálfþurrkaðir tómatar þá fara þeir í sósuna hér). Leyfið sósunni að malla í dágóðan tíma, salt og pipar eftir smekk (ef sósan er svolítið súr er gott að setja smá sykur í hana. Það er mjög misjafnt hversu sætir tómatar eru).

Við gerðum okkar eigið pasta en það er rosalega einfalt og margfalt betra en keypt pasta! Uppskriftin er einföld; 180 gr. pastahveiti og 2 egg. Hnoðið, látið plastfilmu utan um deigið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.

Hráefnin í fyllinguna eru: 1  1/2 bolli ricotta, 1 poki ferskt spínat, múskat, salt og pipar. Látið spínatið í sjóðandi vatn í nokkrar mín. og látið svo í sigti svo allur vökvi leki af því. Setjið spínatið í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Hrærið út í ricotta, kryddið með múskati, salti og pipar.

Fletjið út pastadeigið frekar þunnt, setjið fyllinguna á flötina, penslið kantana með vatni eða eggi og lokið. Hér ræður fólk sjálft hvað koddarnir eru stórir, okkar koddar eru almennt frekar stórir, eða um það bil 2-3 munnbitar. Skerið síðan í sundur og passið að allir endar séu lokaðir, súrt að fá þessa góðu fyllingu bara út í pastavatnið.  Sjóðið í stórum potti í söltu vatni þar til tilbúið (tekur sirka 3-4 mínútur).

Tómatsósa á ravíóliið og rifinn parmesanostur!

Með þessu drukkum við mjög fínt rauðvín sem við fengum í brúðkaupsgjöf.

Frábært kvöld með ljúffengum mat!