Panang karrí kjúklingur

Um daginn kom yfir okkur alveg svakaleg löngun í einhvern góðan taílenskan rétt enda gott að fá smá hita í sig þegar hitin úti er byrjaður að mælast í bláum tölum.

Þá fór smá rannsóknarvinna af stað og fundum við meðal annars þetta fína taí blog. Þar fengum við fullt af hugmyndum sem var frábært því allar matreiðslubækurnar eru enn í geymslu með restinni af búslóðinni okkar.

Við ákváðum að elda þennan dásamlega og einfalda panang karrí kjúkling og vorum mjög sátt.

panaengkjuklingur

Þegar við höfum eldað taílenskan mat höfum við bæði prófað að búa til okkar eigið karrí mauk (e. curry paste) og að kaupa það tilbúið. Reynslan okkar er sú að ef maður er svo heppinn að finna öll þau hráefni sem eiga vera í maukinu þá getur það verið virkilega gott ásamt því að það er mjög gaman að sjá og fá tilfinningu fyrir hráefnunum í karríinu. Tilbúið karrí mauk er hins vegar alls ekki síðra! Það er margfalt fljótlegra að nota tilbúið mauk, það geymist vel í ísskápnum og svo er það töluvert ódýrara en að kaupa öll hráefnin sjálf. Við notuðum því tilbúið karrí mauk í þetta skiptið.

Panang Karrí kjúklingur
  • 1,2 kg beinlaus kjúklingur skorinn niður í munnbita (við keyptum 2 hæfilega litla kjúklinga og úrbeinuðum – bringurnar og lærin voru notuð og svo eigum við leggi í frystinum)
  • 400 gr kartöflur, afhýddar og skornar í munnbita
  • 1 dl Panang karrí mauk
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4 msk ósætt hnetusmjör (t.d. Himneskt gróft hnetusmjör)
  • 2-3 stk jalapeno chilí, skorið niður í þunna strimla
  • 6 kaffir lime laufblöð, frosin eða þurrkuð.
  • 1/2 dl fiskisósa
  • 2 msk pálmasykur (eða púðursykur)

Byrjið á því að steikja karríið og þykka partinn af kókosmjólkinni (það sem er efst í dósinni) á pönnu. Hrærið duglega saman þar til kókosmjólkin byrjar að skilja sig leyfið þá að malla í smá stund.

Hækkið hitann, bætið kjúklingi úti og steikið í smá stund. Bætið því næst restinni af kókosmjólkinni (kókosvatninu) útí ásamt nóg af vatni svo fljóti yfir kjúklinginn. Setjið fiskisósuna og sykurinn úti og náið upp suðu. Bætið kaffir laufum út í. Um leið og suðan er komin lækkið þá hitann og leyfið þessu að malla í sirka 30 mínútúr (þá á kjúklingurinn að vera fulleldaður).

Látið hnetusmjör og chilí í réttinn og hrærið vel. Ef sósan er mjög þunn er gott að þykkja hana með því að sjóða örlítið niður eða bæta smá sósujafnara í sósuna. Fiskisósa og sykur eftir smekk. Berið fram með nóg af hrísgrjónum.

panaeng

Verið ykkur að góðu!

Djúsí kjúklingasamloka

Við kaupum okkur mjög sjaldan skyndibitamat enda finnst okkur lang skemmtilegast að elda sjálf. Af og til langar okkur samt í eitthvað „djúsí“ og þá er fátt sem slær út djúpsteiktum mat. Við sáum þessa samloku með djúpsteiktum kjúklingabringum í Bon Appetit, myndin var hreinlega svo girnileg að við urðum að prófa! Samlokan var gómsæt og kjúklingurinn ofboðslega mjúkur og safaríkur. Hrásalatið er ferskt og með mikla sýru sem vegur vel á móti djúpsteiktu kjúklingabringunum. Síðan er chillí majónesið bara punkturinn yfir i-ið!

Fyrr sama dag vorum við búin að baka ljósar brauðbollur fyrir samlokuna.

braudbollur

Chillí majónes
  • 1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður
  • 1 dl majónes
  • 1 msk sterk chillísósa

Hrærið hráefnum saman og geymið.

Hrásalat
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 jalapeño
  • 1/2 lítill haus af hvítkáli
  • 1 dl af súrum gúrkum
  • 1/2 dl af vökva frá súrsuðu gúrkunum(e. pickle juice)

Skerið rauðlauk, jalapeño og hvítkálið mjög þunnt og setjið í skál. Setjið súrar gúrkur út í og vökva frá gúrkunum. Blandið vel saman og kælið.

Djúpsteikir kjúklingabitar
  • hveiti
  • salt og pipar eftir smekk
  • AB mjólk
  • 2 stórar kjúklingabringur, hver skorin í 4 bita
  • olía til steikingar

Setjið hveiti og salt og pipar eftir smekk í skál og látið AB mjólk í aðra skál. Hitið olíu í 180°C í potti. Dýfið bitunum fyrst í hveiti, síðan AB mjólk og að lokum aftur hveiti. Steikið síðan í heitri olíu í nokkrar min., eða þar til bitarnir eru fallega gylltir á litinn. Setjið svo á rist, salt eftir smekk og leyfið síðan aðeins að kólna.

kjuklingurhveiti

kjuklingabitar

Smyrjið brauðið með chillí majónesi, látið síðan kjúklingabita ofan á og að lokum hrásalat.

kjuklingasamloka

Bon appetit!

Safaríkur marokkóskur kjúklingur

Ásta átti afmæli í janúar og fékk marokkósku matreiðslubókina The Food of Morocco eftir Paula Wolfert í afmælisgjöf. Bókin er ótrulega falleg með fullt af myndum af marokkóskum mat og menningu. Okkur líður eiginlega bara eins og við séum komin aftur til Marokkó þegar við skoðum bókina.

Við erum ekki búin að elda mikið upp úr henni enda ákváðum við að taka okkur smá hlé frá marokkóskri matargerð eftir ferðalagið okkur til Marokkó um áramótin – svona til þess að hafa matargerðina spennandi og pínu spari.

Um helgina kom upp mikil löngun í marokkóskan kjúkling og við völdum okkur því uppskrift í fínu bókinni. Kjúklingurinn er hægeldaður í sósu úr tómötum, rauðlauk, saffran, kanil og marokkóskri kryddblöndu. Einföld matreiðsla og kjúklingurinn var ótrúlega safaríkur og gómsætur!

marokkoskurkjulli

Marokkóskur kjúklingur

Fyrsta lota
  • stór heill kjúklingur (1,6 – 1,8 kg helst „hamingjusamur kjúklingur“ (e. free-range)), bútaður niður í 4 bita, bringur með beini og siðan legg og læri. Leyfið skinninu að vera á.
  • 900 g tómatar, fræhreinsaðir
  • 1 meðalstór rauðlaukur
  • 1/4 tsk engiferduft
  • 1/4 tsk túrmerik
  • 1/4 tsk hvítur pipar
  • 1/8 tsk kanilduft
  • smá múskat
  • nokkrir saffranþræðir, leggið í bleyti í 2 msk af vatni
  • salt eftir smekk
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 lítil kanilstöng (u.þ.b. 7,5 cm)
Önnur lota
  • 1/2 tsk kanilduft
  • 2-3 msk hrásykur

kjuklingur

Hitið ofnin í 140 °C.

Þerrið kjúklingin örlítið með eldhúspappír og setjið í stóra skál. Kjúklingurinn er enn með skinni til þess að hann þorni ekki við eldun. Setjið tómata (fræhreinsaðir) í matvinnsluvél og „púlsið“ þar til tómatarnir eru vel hakkaðir. Gerið það sama við rauðlaukinn. Það er auðvitað alveg hægt að gera þetta í höndunum líka, þ.e. að hakka tómatana og rauðlaukinn.

Setjið í skálina með kjúklingnum. Látið engiferduft, túrmerik, pipar, kanilduft (1/8 tsk), múskat, kanilstöng, saffranþræði og vatnið sem þeir lágu í, salt eftir smekk og ólífuolíu í skálina og blandið þessu vel saman. Raðið kjúklingnum í fat svo skinnið á kjúklingnum snúi upp á við og hellið restinni úr skálinni á kjúklinginn.

Setjið fatið inn í ofninn og eldið í 1 klukkustund og 45 min.

tomatar

tomatarsaxadir

raudlaukur

kjuklingurfat

Takið fatið úr ofninum og síið vökvan frá. Hellið vökvan í lítinn pott og hrærið út í 1/2 tsk kanilduft og 2-3 msk hrásykur (uppskriftin segir 3 msk og það er það sem við gerðum en ef maður vill ekki hafa sósuna mjög sæta má minnka magnið). Hrærið vel og náið upp suðu. Sjóðið þar til sósan þykknar vel.

Hækkið hitan á ofninum, helst upp í grillhita. Skinnið á kjúklingnum er ekki stökkt (og því óætt) og því má e.t.v. fjarlægja það hér. „Smyrjið“ tómat- og rauðlauksmaukinu ofan á kjúklinginn og hellið síðan sósunni yfir. Látið inn í mjög heitan ofn og grillið kjúklinginn með maukinu þar til hálfgerð sykurbráð myndast. Berið fram með góðu kúskúsi.

marokkoskurkjuklingur

Bon appetit!

Marokkóskur kjúklingur með söltuðum sítrónum og ólífum

Gleðilegt nýtt ár!
Við hjónin skelltum okkur í ferðalag til Marokkó yfir áramótin, byrjuðum í 3 daga fjallgöngu í Atlasfjöllunum og tókum síðan 3 daga í Marrakesh. Við borðuðum endalaust af gómsætum marokkóskum mat og drukkum ansi marga lítra af marokkósku mintutei! Á nýársdag fórum við á marokkóst matreiðslunámskeið þar sem við elduðum þennan dásamlega og frekar einfalda kjúklingarétt. Að námskeiðinu loknu fengum við tvo litla tagine-potta sem við tókum með okkur heim.

eldhusid

tanginaogkrydd

kokkur

Marokkóskur kjúklingur f. 2
  • 400 g kjúklingur í bitum
  • 1/2 söltuð sítróna
  • 1/2 stór rauðlaukur
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð
  • 1 msk ferskt kóríander, saxað
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 1/2 tsk pipar
  • 1/2 tsk engiferduft
  • 1 stór tsk túrmerík
  • smá saffran
  • 1 msk olía
  • 4 msk vatn
  • Ólífur eftir smekk

Skerið sítrónuna í tvennt og takið „kjötið“ innan úr henni, fjarlægið fræ og himnuna af „kjötinu“. Geymið sítrónubörkinn. Saxið nú „kjötið“ úr sítrónunni og komið því fyrir í potti. Saxið hvítlauk, rauðlauk og kryddjurtir og látið út í pottinn ásamt kryddinu. Hellið vatni og olíu út í og hrærið vel. Komið kjúklingabitum fyrir í pottinum snúið bitunum nokkrum sinnum í vökvanum til að ná að krydda kjúklinginn.

Eldið á háum hita í 10 min með loki og lækkið síðan niður á miðlungshita í 20-30 min, eða þar til kjúklinguinn er eldaður. Snúið kjúklingabitunum einu sinni í vökvanum eftir 10 min og sjáið til þess að það sé nóg vatn í pottinum til þess að sósan brenni ekki við.

tanginur

kjuklingurogsitrona

Skreytið með sítrónuberkinum og ólífum eftir smekk og berið fram með góðu brauði.

Verði ykkur að góðu!

Kjúklingur í indverskri kryddsósu

Helgina áður en við fórum til Íslands reyndum við að tæma duglega úr frystinum til þess að búa til pláss fyrir íslenska lambakjötið og fiskinn sem við ætluðum að koma með heim úr ferðinni. Í frystinum áttum við nokkur kjúklingalæri því við kaupum yfirleitt heilan kjúkling og úrbeinum hann sjálf. Það sem við notum ekki strax fer í plastpoka og fryst – einnig bein sem við sjóðum okkur eigið kjúklingasoð úr! Úr kjúklingalærunum gerðum við þennan dásamlega og bragðsterka indverska rétt en hér er uppskriftin:

Kjúklingabitar í indverskri kryddsósu:

  • 60 ml olía
  • 1 laukur, skorinn þunnt.
  • 1 tsk. hvítlaukur (sett í matvinnsluvél/töfrasprota og búið til mauk)
  • 1 tsk. engiferrót (sett í matvinnsluvél/töfrasprota og búið til mauk)
  • 500 gr. kjúklingur með beinu (við notuðum kjúklingalæri)
  • 60 ml. sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Cuminfræ // Birkifræ

Kóríanderfræ // Túrmerík

Fenugreekfræ // Svört piparkorn

Kryddmauk:
  • 2-3 þurrkaðir chillí (heilir)
  • 1/2 msk. kóríander
  • 1 tsk. cuminfræ
  • 1 tsk. fenugreekfræ
  • 5 svört piparkorn
  • 1 1/2 tsk. birkifræ
  • 20 gr. kókósmjöl
  • 1/2 tsk. túrmerík
  • 1/4 tsk. kardimommur
  • 1/4 tsk. negull
  • 1/4 tsk. kanill

Fyrst þarf að búa til kryddmaukið. Leggið chillí í bleyti heitu vatni í 10 min. og hellið síðan vatninu frá. Ristið chillí, kókósmjöl, cuminfræ, fenugreekfræ, piparkorn og birkifræ á þurri pönnu þar til þau fara að taka smá lit (ekki brenna!!). Ristið síðan kóríander, túrmerík, kardimommur, negul og kanil alveg eins og passið að hræra vel í kryddunum á meðan. Látið allt í matvinnsluvél/kryddkvörn og búið til mauk (látið smá vatn út í ef nauðsynlegt).
Geymið kryddmaukið.


Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn þar til hann er orðinn gylltur á litinn. Látið engifer- og hvítlauksmauk út í ásamt kryddmauki og steikið í 1-2 min. Kjúklingabitar út í og saltið örlítið. Hrærið vel, látið 1/2 – 1 dl. af vatni út í og leyfið þessu að malla á vægum hita í u.þ.b. 25 min., eða þar til kjúklingabitarnir eru tilbúnir. Sítrónusafi út í réttinn, hrærið vel og berið fram með hrísgjrónum og naanbrauði.

Verði ykkur að góðu!

Taílenskur kjúklingur í Massaman karrí

Kristín og Steinar fóru til Taílands í fyrra og fóru þá meðal annars á námskeið í taílenskri matargerð. Þegar þau komu heim gáfu þau mér hefti með taílenskum uppskriftum en það hefur verið notað töluvert á þessu heimili síðan!

Hér er uppskrift að kjúklingi í Massaman karrí með kartöflum, lauki og hnetum. Rétturinn getur verið frekar sterkur en er ofboðslega bragðgóður!

Fyrst þarf að búa til kryddblönduna/karríið: 1/4 tsk. kóríanderfræ, 1/4 tsk. cuminfræ, 1 1/4 tsk. svört piparkorn, 1/4 tsk. negull, 1/2 þurrkaður chillí (fjarlægja fræin), 1/4 msk. sítrónugras (saxað), 1/4 msk. engiferrót (söxuð), 1/4 msk. hvítlaukur (saxaður), 1 shallot laukur (saxaður) og 1/4 tsk. salt.

Látið hráefnin í kryddkvörn eða mortél og maukið vel.

Hráefni í réttinn eru: 300 gr. kjúklingabringur skornar í bita, 1 dós kókósmjólk (ath. EKKI hrista áður en dósin er opnuð!!), 200 gr. kartöflur, 1 stór laukur skorinn í bita, 2 msk. jarðhnetum (má líka nota kasjúhnetur), 5 heilar karimommur, 2 kanilstangir (5 cm. á lengd), 3 lárviðarlauf, 1 msk. fiskisósa, 2 tsk. sykur og 3 msk. tamarindsafi (tamarindmauk og vatn).

Kryddblanda / Tamarind

Skrælið og skerið kartöflurnar í bita og sjóðið þar til þær eru mjúkar. Takið efsta lagið af kókósmjólkinni (sem er alveg hvítt og þykkt – eiginlega eins og rjómi) með skeið og látið í skál til hliðar. Hellið restinni af kókósmjólkinni í pott og látið suðu koma upp. Látið kjúklinginn út í kókósmjólkina og látið malla í smá stund. Hitið kókósrjómann (efsta lagið af kókósmjólkinni sem þið settuð til hliðar) og látið síðan út í kókósmjólkina og kjúklinginn ásamt kryddblöndunni, kardimommum, lárviðarlaufi, kanilstöngum, jarðhnetum og lauknum. Fiskisósa, sykur og tamarindsafi út í og leyfið þessu að malla þar til kjúklingurinn er eldaður.

Berið fram með hrísgrjónum og einföldu salati.