Dásamlegar ljóskur

Stundum er gott að fá sér eitthvað sætt með kaffinu og síðustu helgi bökuðum við þessar dásamlegu ljóskur (e. blondies). Ljóskurnar geymast vel í frysti og það tekur enga stund að kippa nokkrum ljóskum út úr frystinum ef maður fær allt í einu löngun í eitthvað sætt!

ljoskur1

Ljóskur
  • 115 g smjör
  • 230 g púðursykur (þess vegna verða ljóskurnar ljósbrúnar á litinn)
  • 2 egg
  • 1 tsk vanillusykur
  • 125 g hveiti
  • Börkur af einni appelsínu
  • 1 dl pekanhnetur, hakkaðar gróft
  • 2/3 dl hvítt súkkulaði, hakkað gróft
  • 1/3 dl súkkulaði (mjólkursúkkulaði eða dökkt súkkulaði), hakkað gróft

Klæðið bökunarform með bökunarpappír og hitið ofninn í 180°C. Bræðið smjör og púðursykur. Setjið egg út í og hrærið vel saman. Bætið þá hveiti, vanillusykri, appelsínuberki, hnetum og súkkulaði út í og hrærið vel. Hellið í bökunarformið og bakið í 20-25 min., eða þar til góð skorpa er mynduð og deigið er að byrja bakast í miðjunni. Passið samt að baka ekki of mikið!

ljoskurdeig

ljoskurbakadar

Leyfið að kólna alveg (annars er ekki hægt að skera út bita) og skerið síðan í bita.

ljoskur2

Njótið!

Bleikir marengstoppar með piparmyntu

Fyrir jólin bökum við nokkrar tegundir af smákökum sem okkur finnst góðar. Hér er ein tegund sem við höfum gert undanfarin ár; bleikir marengstoppar með piparmyntubragði. Uppskriftin er frekar einföld og marengstopparnir geymast vel (ef maður borðar þá ekki strax). Síðan eru þeir líka alveg hrikalega krúttlegir á kökudisknum í desember!

marengstoppar3

Bleikir marengstoppar (u.þ.b. 30 stk)

  • 2 stórar eggjahvítur við stofuhita
  • smá salt
  • 60 g sykur
  • 60 g flórsykur
  • 1/2 tsk piparmyntudropar frá Kötlu
  • u.þ.b. 1 tsk rauður matarlitur

Hitið ofninn í 100 °C án blásturs og setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur. Þeytið eggjahvítur og salt þar til eggjahvíturnar eru loftkenndar (u.þ.b. 1 min). Látið sykur (ekki flórsykur) út í í 3 skömmtum og haldið áfram að þeyta þar til mjúkir toppar myndast í marengsinum. Setjið þá flórsykur og piparmyntudropa út í marengsinn og þeytið örlítið til þess að blanda þessu vel saman. Látið að lokum matarlit í margensinn en hrærið eins lítið og hægt er – liturinn dreifist í sprautupokanum.

marengs

marengslitadur

Setjið marengs í sprautupoka og sprautið litla marengstoppa á bökunarplöturnar. Bakið í u.þ.b. 2 klukkutíma, eða þar til marengstopparnir eru orðnir þurrir og léttir. Leyfið að kólna og njótið síðan.

marengstoppar1

marengstoppar2

marengstoppar4

Verði ykkur að góðu!

Rifsberjabaka með óbökuðum marengs

Eitt af haustverkunum í ár var að tína ber af berjarunnum. Rifsberjarunninn hjá mömmu (Péturs) var svo öflugur í ár að þegar búið var að sulta í ársskammt af risfberjahlaupi voru enn töluvert af berjum eftir á runnanum.

rifsberljos

Rifsberjahlaup er alltaf gott en okkur langaði samt að prófa eitthvað nýtt, gera eitthvað annað gómsætt úr berjunum. Eftir nokkra leit suðum við saman þessa uppskrift – ljúffeng og falleg rifsberjabaka með óbökuðum marengs. Við munum klárlega endurtaka leikinn næsta haust!

skorin

Botn (20-22 cm form)

  • 90 g mjúkt smjör
  • 50 g sykur
  • smá salt
  • korn úr 1 vanillustöng
  • 1 egg
  • 20 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
  • 160 g hveiti

Látið smjör, sykur, salt og vanillubaunir í skál og hrærið vel saman. Setjið egg út í smjörblönduna og hrærið. Blandið saman hveiti og möndlumjöli. Látið út í smjör- og eggjablönduna og hnoðið þar til deigið helst saman. Látið plast utan um deigið, fletjið örlítið með höndunum og látið inn í kæli í a.m.k. klukkustund.

botn

Fletjið deigið út svo það passi í bökuformið (best að nota form með lausan botn því þá losnar bakan auðveldlega úr forminu). Komið deiginu fyrir í forminu og gatið á nokkrum stöðum með gaffli. Setjið bökunarpappír á botninn og fyllið með þurrkuðum baunum eða leirkúlum. Bakið botninn svona í 10 min, fjarlægið síðan baunirnar/leirkúlurnar og bökunarpappírinn og bakið áfram í ca. 10 min, eða þar til botninn hefur tekið lit.

rifsberskal

Rifsberjafylling

  • 300 g fersk eða frosin rifsber
  • 90 g sykur
  • 3 egg
  • 3/4 dl rjómi

Skolið berin vel (ef þau eru fersk) og látið í pott. Sjóðið þar til berin í nokkrar min. og notið sleifu til þess að merja berin á meðan svo saftið kreistist úr þeim. Látið saft renna í gegnum sigti og notið sleif til þess að kreista úr hratinu. Úr rifsberjunum fáið þið u.þ.b. 160 g rifsberjasaft.

rifsbersodin

Sykur og egg í skál og hrærið saman (ekki þeyta því þá myndast loftbólur í fyllingunni). Látið 130 g (geymið rest fyrir marengsinn) rifsberjasaft út í og hrærið vel. Bætið við rjóma að lokum og hrærið þar til blandan er jöfn. Hellið í bökubotninn og bakið við 120°C við blástur í u.þ.b. 30 min, eða þar til fyllinginn er orðin föst. Leyfið að kólna.

botnmedfyllingu

Bleikur marengs

  • 3 eggjahvítur
  • 180 g sykur
  • Restin af rifsberjasaftinu

Eggjahvítur og u.þ.b. 60 g sykur í skál og þeytið. Bætið sykur út í hægt á meðan og síðan rifsberjasaftinu. Þeytið þar til marengsinn er orðin vel stífur.

rifsberjabaka

Sprautið marengs á rifsberjabökuna þegar hún er orðin alveg köld. Notið brennara (e. flamer) til þess að brenna marengsinn örlítið (má sleppa) og berið síðan fram.

rifsberjabakaskorin

Verði ykkur að góðu!

Bláberjamúffur

Tveir mánuðir eru liðnir frá því að við blogguðum síðast. Haustið er komið og þótt ekkert hafi verið bloggað þá höfum við nú ekki setið á hakanum. Í sumar ferðuðumst við um Frakkland. Við borðuðum dásamlegan mat og drukkum æðisleg vín – við munum blogga um þetta allt saman við tækifæri en óhætt er þó að segja að þar hafi margar góðar hugmyndir kviknað og verða vonandi framkvæmdar sem fyrst.

Við erum flutt aftur heim til Íslands og höfum notið sumarsins vel. Íslenskt grænmeti, ferskur fiskur og ekki gleyma ófáum nóttum i tjaldinu góða í íslenskri náttúru – það er gott að vera komin heim.

Eitt af því sem við vorum spenntust fyrir við íslenska sumarið í ár var að komast í berjamó. Í ferðalögum okkar um allt land í sumar vorum við stöðugt með augun opin fyrir berjum en berjasprettan fór seint af stað og við tíndum því engin ber.

Síðustu helgi vorum við þó staðráðin í að fara í berjamó þrátt fyrir lélega veðurspá og fréttir um að nánast engin ber væri að finna í ár. Við klæddum okkur vel, tókum með okkur nesti og keyrðum út úr bænum í leit að einhverjum berjum.

Veðrið reynist mun betri en við áttum von á og við fyrstu tilraun fundum við góðan slatta af fallegum aðalbláberjum og fullt af krækiberjum. 3 klukkustundum síðar vorum við komin með 1,5 kg af aðalbláberjum og 2,6 kg af krækiberjum og vorum verulega sátt.

adalblaber

berjamo

Aðalbláberin eiga fara í sultu og bláberjaleður en úr krækiberjunum munum við búa til krækiberjasaft. Á sunnudaginn gerðum við þessar ljúffengu bláberjamúffur með bláberja ostakremi. Uppskriftin er frá Agnes Cupcakes og er mjög einföld. Múffurnar eru ótrúlega mjúkar og bragðgóðar!

blaberjamuffins

Bláberjamúffur (12 múffur)

  • 250 g hveiti
  • 250 g hrásykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 250 g smjör, brætt
  • 4 egg
  • korn úr 1 vanillustöng
  • 1 dl nýmjólk
  • 1 msk appelsínusafi
  • 2 tsk rifinn appelsínubörkur
  • u.þ.b. 80 g bláber

Látið hveiti, hrásykur, lyftiduft og salt í skál og blandið saman. Mjólk, smjör, appelsínusafi, vanilla og appelsínubörkur í aðra skál og hrærið síðan eggjum út í. Hellið vökva hægt út í hveitiblönduna og hrærið vel. Látið að lokum bláber út í deigið og hrærið varlega.

Látið deigið í sprautupoka og sprautið deig í 12 múffuform. Fyllið formin nánast alveg. Bakið í 15-20 min (mínar þurftu sirka 16 min) við 200°C en passið að bakaðar ekki of mikið því þá verða þær þurrar. Leyfið þeim síðan að kólna alveg.

muffur

Bláberja ostakrem:

  • 100 g mjúkt smjör
  • 100 g rjómaostur
  • u.þ.b. 250 g flórsykur
  • korn úr 1/2 vanillustöng
  • appelsínubörkur eftir smekk
  • nokkur bláber

Hrærið saman smjöri og rjómaosti. Látið síðan vanillu, appelsínubörk og bláber út í, og að lokum flórsykur. Þeytið þar til kremið er mjúkt og loftkennt (ef kremið er of þunnt þarf meiri flórsykur).

Notið sprautupoka til þess að sprauta krem á múffurnar og skreytið með bláberjum.

muffurbiti

Verði ykkur að góðu!

Sjónvarpskaka með marsípani

Sjónvarpskaka er sígild kaka sem flestir þekkja og er ofboðslega góð ef kakan er nógu létt, mjúk og með nóg af kókoskaramellubráð ofan á. Um helgina bökuðum við sjónvarpsköku til þess að hafa með kaffinu og prófuðum að setja rifið marsípan í deigið. Það var ótrúlega gott og maður fann alveg bragðið af marsípaninu sem passaði ótrúlega vel við kökuna.

Það er ekki mikið mál að skella í eina sjónvarpsköku og tekur undir klukkustund. Aðalmálið er að bíða eftir því að kakan verður orðin nógu köld svo hægt sé að borða hana án þess að brenna sig! Mamma gerði oft sjónvarpsköku þegar ég var lítil og hún setti alltaf haframjöl á móti kókosmjölinu í kókoskaramellubráðinni og mér finnst það virka vel. Kókoskaramellubráðin er því með kókosmjöli og haframjöli hér.

sjonvarpskaka

Sjónvarpskaka með marsípani
  • 125 g hveiti
  • 25 g smjör
  • 100 g sykur
  • 50 g rifið marsípan (ren rå marcipan med 60% mandler frá Odense Marcipan)
  • 2 egg
  • 1 dl nýmjólk
  • 1 1/4 tsk lyftiduft
  • baunir úr 1/2 vanillustöng

Hitið ofn í 200°C. Þeytið saman egg, vanillubaunir og sykur. Setjið hveiti, lyftiduft og rifið marsípan út í eggjablönduna og hrærið örlítið. Látið mjólk og smjör í pott og náið upp suðu. Hellið þá strax í deigið og hrærið vel. Látið í smurt kökuform og bakið í 15-20 min , eða þar til kakan er bökuð í miðjunni (fer eftir stærðinni á forminu). Það er mikilvægt að baka kökuna ekki of mikið því þá verður hún þurr en hún má auðvitað heldur ekki vera óbökuð.

hraefni

Kókoskaramellubráð
  • 150 g smjör
  • 150 g kókosmjöl
  • 50 g haframjöl
  • 250 g púðursykur
  • 50 g sykur (má sleppa og nota þá 300 g púðursykir allt í allt)
  • 3/4 dl mjólk
  • 2 tsk vanillusykur

Látið hráefnin í pott og hitið þar til úr verður falleg karamellubráð. Hellið yfir kökuna og bakið í 5-10 min, eða þar til karamellubráðin er fallega gyllt á litinn. Leyfið að kólna og njótið síðan.

sjonvarpskaka2

Verði ykkur að góðu!

Hveitilaus súkkulaðikaka og 1 árs afmæli

Bloggið varð 1 árs í síðustu viku og Pétur varð 31. Húrra húrra!

Pétur var þó veikur alla vikuna og því vorum við frekar róleg á afmælisdeginum sjálfum. Um helgina, þegar heilsan var öll að koma til, elduðum við ljúffenga uxuahalasúpu (sjá uppskriftina hér) og hveitilausa súkkulaðiköku í eftirrétt. Kakan er algjört lostæti en er mjög rík af súkkulaði. Til þess að vega á móti súkkulaðinu gerðum við mascarponerjóma sem við bárum fram með kökunni.

kaka2

Hveitilaus súkkulaðikaka
  • 55 g smjör
  • 90 g sykur
  • 150 g dökkt súkkulaði (við notuðum 70%), saxað
  • 1 msk olía
  • 3 stór egg
  • 1 msk gott ósætt kakóduft (e. natural unsweetened cacoa)
  • 1/2 tsk vanilludropar
  • smá salt

Hitið ofninn í 180 °C. Smyrjið 22 sm form og stráið sykri í formið, hristið forminu svo sykur dreifist jafnt og hellið síðan eins mikið af lausum sykri og hægt er frá. Geymið formið.

Setjið súkkulaði, olíu og 55 g af smjöri í skál og bræðið yfir vatnsbaði. Takið skálinu af hitanum.

Brjótið 2 egg og látið eggjarauður og eggjahvítur í sitt hvoru skálina. Geymið skálina með eggjahvítunum en setjið kakóduft, vanilludropa, salt, 30 g af sykri og 1 egg í skálina með eggjarauðunum. Hrærið vel og hellið síðan blöndunni hægt út í brædda súkkulaðið og hrærið þar til blandan er slétt og falleg.

Stífþeytið eggjahvíturnar og hellið síðan 60 g af sykri (restin af sykri) út í og þeytið þar til stífir toppar myndast. Blandið marengsnum saman við súkkulaðiblönduna og hellið deiginu síðan í smurða formið. Stráið 1 msk af sykri yfir deigið og setjið inn í ofn.

Bakið þar til kakan er farin að losna frá köntunum í forminu og smá sprunga myndast á toppi kökunnar (þetta tók um 25 min hjá mér). Leyfið kökunni að kólna.

kakayfirlit

Mascarponerjómi
  • 2 dl rjómi
  • 1 dl mascarpone ostur

Setjið rjóma og mascarpone í skál og stífþeytið. Berið fram með súkkulaðikökunni.

sukkuladikaka

Verði ykkur að góðu!

Bananabrauð

Við áttum nokkra banana sem voru orðnir aðeins of þroskaðir. Við ákváðum að nota þá í bananabrauð sem við sáum í Bon Appétit en þetta er besta bananabrauð sem við höfum smakkað! Ótrúlega létt, mjúkt og dásamlegt með fínu bragði af bönunum. Uppskriftin er ofboðslega einföld og brauðið helst mjúkt og gott í nokkra daga.

bananabraud

Bananabrauð
  • 4 dl hveiti
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 3/4 tsk salt
  • 3 stór egg
  • 3 dl sykur
  • 2 stórir bananar, vel þroskaðir og sætir
  • 1 1/2 dl olía

Setjið hveiti, matarsóda og salt í skál og hrærið saman. Látið egg, sykur, olíu og banana í aðra skál og hrærið vel. Látið hveitiblöndunni út í og hrærið.

Hellið deiginu í smurt brauðform og bakið við 180 °C þar til brauðið er bakað í miðjunni. Það tekur u.þ.b. 60 min.

Leyfið brauðinu að kólna aðeins í forminu áður en þið reynið að losa það úr forminu.

bananar

bananabraudskorid

Verði ykkur að góðu!

Bökuð ostakaka

Í tilefni 25 ára afmæli hennar Ástu var skellt í afmælisköku. Afmæliskakan varð að þessu sinni ótrúlega ljúffeng bökuð ostakaka. Best er að gera kökuna nokkrum dögum áður en það á að borða hana því hún verður bara betri þannig!

ostakaka

Bökuð ostakaka

Botninn
  • 50 g smjör, brætt
  • 100 g digestive kex, mulið í matvinnsluvél
  • 1 msk hrásykur

Bræðið smjör og myljið kexið í matvinnluvél. Látið sykur út í, síðan smjör og blandið þessu vel saman. Komið þessu fyrir í smelluformi (24 cm) og þrýstið jafnt svo botninn verði fallega sléttur. Bakið við 180 °C í 10 min. og látið síðan kólna.

Ostafylling
  • 150 g rjómaostur (við stofuhita!!)
  • 125 g hrásykur
  • 1 1/2 msk hveiti
  • smá salt
  • 1 tsk vanilludropar
  • sítrónubörkur af 1/2 sítrónu
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 2 egg
  • 120 ml sýrður rjómi (ég notaði 18%)

Látið rjómaostinn í skál og hrærið þar til áferðin er orðin mjúk og slétt (ég notaði hrærivélina). Það er mikilvægt að hafa rjómaostinn við stofuhita til þess að ná réttri áferð á fyllingunni því annars geta verið kekkir í henni. Látið sykur, hveiti og salt út í rjómaostinn í nokkrum umferðum og hrærið þessu rólega saman (ekki hræra alltof miklu lofti í fyllinguna). Vanilludropar, sítrónubörk og sítrónusafi út í og hrærið vel. Látið síða eitt egg út í í einu og hrærið vel. Að lokum sýrður rjómi út í rjómaostafyllingu og hellið fyllingunni síðan ofan í smelluformið með kexbotninum. Ef loftbólur sjást á yfirborðinu er gott að stinga í þær með hnífsoddi.

Bakið við 200 °C í 10 min., lækkið síðan hitann niður í 110 °C  (með kökuna allan tíman inn í ofninum) og bakið í 25 min. Leyfið ostakökunni að standa í opnum ofni í u.þ.b. 2 klukkutíma, eða þar til hún er orðin mátulega köld (ég tók hana út eftir 30 min. með ofninn opinn og leyfði henni að standa á borðinu að kólna).

Ofan á kökuna
  • 100 ml sýrður rjómi (aftur 18%)
  • 1/2 msk hrásykur
  • 1 tsk sítrónusafi

Hrærið hráefnunum vel saman og sjáið til þess að sykurinn leysist alveg upp. Hellið á kökuna þegar hún er orðin alveg köld og látið hana síðan inn í ísskáp í a.m.k. 8 klukkutíma (gjarnan lengur!).

Losið um kantana á ostakökunni (ef þörf er fyrir) með beittum hníf og náið kökunni síðan úr smelluforminu. Berið fram með ferskum ávöxtum.

ostakakasneid

Ótrúlega fersk, mjúk og dásamleg!

Eton Mess

Í sumar fórum við í lestarferð til Malmö og borðuðum kvöldverð á veitingastaðnum Bastard. Þar borðuðum við Eton Mess í fyrsta skipti og vorum svona líka hrifin af réttinum að við ákváðum að gera hann sjálf hérna heima.

Eton Mess er eftiréttur með jarðarberum, rjóma og marengs. Rétturinn á sennilega best við á sumrin þegar hægt er að fá fersk innlend ber því þá eru berin svo sæt og bragðgóð að maður þarf lítið annað sætt með.

Nóvember er ekki besti tíminn fyrir fersk ber en okkur tókst samt sem áður að finna lítil falleg dönsk jarðarber sem við notuðum. Berin voru þó frekar bragðlaus þannig að við gerðum jarðarberjasíróp til þess að bæta við sætu jarðarberjabragði við réttinn.

Eton mess (f. 4)

Marengs
  • 3 eggjahvítur
  • 150 g sykur
  • 3/4 tsk lyftiduft

Stífþeytið eggjahvítur og sykur. Hrærið lyftiduft varlega út í og látið á bökunarplötu með bökunarpappír. Bakið við 125 °C í 60 min., slökkvið þá á ofninum en leyfið marengsbotninum að kólna inni í ofni.

Jarðarberjasíróp
  • 100 g frosin jarðarber
  • 50 g sykur

Sjóðið jarðarber og sykur í þar til jarðarberin eru að mestu leyti horfin. Látið safann renna í gegnum sigti og sjóðið síðan niður þar til sírópið er orðið mátulega þykkt.

Samsetning
  • 250 ml rjómi
  • góður vanilluís
  • fersk jarðarber

Þeytið rjómann og hreinsið jarðarberin. Hrærið varlega saman marengs, rjóma og jarðarberum og dreifið helmingnum jafnt í 4 skálar/diska. Látið eina ískúlu á hvern skammt og dreifið síðan afgangnum af marengs- og rjómablöndunni jafnt ofan á ískúlurnar. Skreytið með jarðarberjasírópi og nokkrum ferskum jarðarberum.

Þetta er sko algjört nammi!

Kanelsnurrer frá Lom

Í sumarfríinu fundum við flottasta og besta bakarí sem við höfum á ævinni séð. Bakaríið er staðsett í Lom (Noregur), heitir einfaldlega Bakeriet i Lom og eigandinn er Morten Schakenda – kokkurinn sem ákvað að verða bakari. Í fyrstu heimsókninni keyptum við okkur kanilsnurrer, nýbakaðir kanilsnúðar sem voru snúnir í „snúninga“ frekar en rúllur og voru enn heitir þegar við keyptum þá. Í seinni heimsókninni keyptum við bókina Om brød og tilfeldigheter fra Bakariet i Lom og fengum þar með uppskriftina að þessum gómsætum kanilsnúðum.

Kanelsnurrer (8 stk.)
  • 500 gr. hveiti
  • 250 ml. mjólk
  • 75 gr. sykur
  • 7,5 gr. salt
  • 7,5 gr. kardimommur (þetta virðist vera mikið en er samt alls ekki yfirþyrmandi)
  • 1 lítið egg
  • 25 gr. ferskt pressuger
  • 75 gr. smjör í bitum

Hveiti, sykur, salt, ger, kardimommur, egg og mjólk í skál og hnoðið í u.þ.b. 15 mín, eða þar til deigið sleppir skálinni og loðir allt saman. Látið nú smjörið út í og hnoðið í aðrar 15 mín. Plastfilma yfir skálina og leyfið að lyfta sér í 1 1/2 klukkustund.

Fylling
  • 70 gr. mjúkt smjör
  • 70 gr. sykur
  • 1 msk. kanill

Fletjið deigið út svo það verði u.þ.b. 20 cm x 50 cm. á stærð. Dreifið smjöri jafnt yfir, svo sykur og kanil. Brjótið 1/3 af deiginu upp að miðju og brjótið síðan restina af deiginu ofan á það svo lögin séu núna 3. Fletjið nú deigið út svo það verði u.þ.b. 15 cm x 50-60 cm á stærð. Skerið í 8 jafnstórar lengjur og búið til snúninga.

Látið kanilsnúðana á bökunarplötu með bökunarpappír. Plastfilma yfir og leyfið að lyfta sér í u.þ.b. klukkustund. Penslið með eggi og stráið sykur yfir kanilsnúðana. Bakið í u.þ.b. 20 mín. 175°C.

Mmmmmmmm………