Marokkóskar kjötbollur (Kefta) í kryddsósu

Við höfum áður skrifað um að nota heilt lambalæri í meira en eina máltíð. Um daginn keyptum við einmitt læri og erum nú þegar búin að búa til tvær gómsætar máltíðir úr því og eigum samt enn innanlærið eftir. Fyrri máltíðin voru marokkóskar kjötbollur eftir mikla löngun og hugsun til ferðalagsins okkar í Marokkó.

kjotbollur2

Um er ræða frekar einfalda matreiðslu og skemmtilega nýtingu á síðri vöðvum en þar sem kjötið er hakkað er það ótrúlega meyrt og gott. Við hökkuðum því síðri vöðvana af lærinu ásamt þindinni sem var enn á lærinu.

Kjötbollurnar
  • 500 gr lambahakk
  • 2 msk sýrður rjómi
  • 2 tsk paprika
  • 1 tsk malað cumin
  • 1 tsk malaður kóríander
  • 1 tsk kanill
  • 1/4 tsk rifið múskat
  • 1/4 tsk cayenne pipar
  • 2 msk af saxaðri ferskir steinselju og kóríander

Setjið öll hráefni í skál, blandið vel saman og mótið litlar kjötbollur.

kjotbollur1

Sósan
  • 1 rauðlaukur, rifinn í rifjárni
  • 2 msk smjör
  • 4 msk af saffran vatni (4 msk volgt vatn og smá af saffrani)
  • 1 tsk paprika
  • 1/2 tsk malað cumin
  • 1/4 tsk malað engifer
  • 1 dl vatn
  • 4 msk saxaður ferskur kóríander – ekkert að því að nýta stilkana líka.
  • 2 msk sítrónusafi

Setjð öll hráefni nema 1 msk af kóríander og sítrónusafa á stóra pönnu og steikið á meðal háum hita í 10 min. Lækkið niður í meðal lágan hita og bætið kjötbollum út í. Setjið lok á pönnuna og eldið í 30 min. Snúið kjötbollunum eftir 15 min.

Þegar kjötbollurnar eru fulleldaðar bætið þá sítrónusafa út í og salt og pipar eftir smekk. Stráið 1 msk af kóríander yfir og berið fram.

sosa

kjotbollur3

Við borðuðum kjötbollurnar með marokkósku (berber) flatbrauði eins og við fengum í fjöllunum í Marokkó. Uppskriftin kemur í næstu færslu!

Verði ykkur að góðu!

Aloo Gosht – Indverskt lamb með kartöflum

Þegar við vorum seinast á Íslandi keyptum við okkur lambalæri, enda er fátt nokkuð betra en íslenskt lambakjöt. Lærið var vel stórt og því úrbeinuðum við það og skiptum í 4 parta. Við áttum smá eftir í frystinum sem við elduðum indverskan lambakjötsrétt með kartöflum úr. Rétturinn var ofboðslega bragðgóður og sósan æðisleg!

Indverskt lamb með kartöflum
  • 400 g lambakjöt, skorið í bita
  • 1 tsk kóríanderduft
  • 1 tsk cuminduft
  • 1 tsk chillí
  • 1/2 tsk garam masala
  • 60 ml ghee („hreinsað“ smjör)
  • 1 lárviðarlauf
  • 1/2 tsk cuminfræ
  • 3 stórar kartöflur, skornar í 4 bita
  • 1 stór laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1/2 kanilstöng
  • 2 negulnaglar
  • fræ úr einni svartri kardimommu
  • 2 grænar kardimommur
  • smá mace (hýði af múskathnetu – sjá mynd)
  • 1 cm ferskt engifer, saxað
  • 1 msk hvítlaukur, saxaður
  • 125 g tómatar, saxaðir
  • salt eftir smekk

Látið kóríanderduft, cuminduft, chillí og garam masala í skál og bleytið kryddin með smá vatni svo úr verður þykkt mauk. Geymið maukið.

larvidarlaufogcumin

Hitið ghee á pönnu. Látið lárviðarlauf og cuminfræ út í og hitið í u.þ.b. 1 min, eða þar til fræin fara að ilma. Látið kartöflur út í og steikið í 15-20 min, eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar og fallegar. Takið kartöflurnar af pönnunni og látið renna af þeim á eldhúspappír.

kardimommurogmuskat

Svört kardimommufræ // Mace

kartofluroglaukur

Komið lauknum fyrir á pönnunni og steikið í 5 min, eða þar til laukurinn er orðin vel gylltur. Látið kanilstöng, negulnagla, kardimommufræ, kardimommur og mace út í og steikið í 2 min. Látið síðan kryddmaukið út í, síðan 1 msk af vatni, engifer og hvítlauk. Hrærið vel. Lambakjötið á pönnuna og steikið kjötið í 5 min. Tómatar út í og steikið áfram í 5 min.

lambakjot

Hellið 250 ml af vatni út í réttinn, salt eftir smekk, lok á pönnuna og leyfið réttnum að malla í 1 – 1 1/2 klukkutíma, eða þar til kjötið er orðin vel meyrt. Látið þá kartöflubitana út í, hitið vel og þá er rétturinn tilbúinn! Berið fram með hrísgrjónum og naanbrauði.

lambarettur

Verði ykkur að góðu!

Grillaður lambahryggvöðvi

Fátt er nokkuð betra en íslenska lambakjötið.

Veðrið núna síðustu daga er búið að vera alveg frábært og til að fagna því þá ákváðum við að grilla okkur íslenskt lambakjöt sem við áttum í frystinum. Kjötið var síðan borið fram með syndsamlega góðum kartöflum, sinneps- og graslaukssósu og einföldu salati.

Kjötið

Fyrst er að vinna lambakjötið. Fitulagið ofan á kjötinu er um það bil besti parturinn þegar það er rétt eldað, þ.e. þegar hún er orðin að stökkri purru. Til þess að fá hana þannig þarf að fjarlægja efstu himnuna af fitunni (þar liggur lopabragðið sem fer í svo marga). Skerið síðan teninga í fituna (eða eitthvað annað form sem ykkur girnist). Passið að mynstrið sé þétt skorið og ekki sé skorið niður í kjötið.

Næst þarf að krydda kjötið. Við höfðum þetta einfalt og notuðum ferskar kryddjurtir úr kryddjurtagarðinum okkar og smá pipar. Kryddjurtirnar voru rósmarín, timjan, graslauk, steinselju og örlítið af myntu, en það má auðvitað nota hvaða kryddjurtir sem er. Hellið smá olíu yfir kjötið og nýmalaður pipar yfir. Saxið kryddjurtirnar gróft og stráið þeim síðan yfir kjötið. Leyfið kjötinu að standa a.m.k. 1 klukkustund en best er að gera þetta kvöldið áður og leyfa kjötinu að standa yfir nótt.

Grillið lambakjötið á heitu grilli – meirihluta tímans á fitunni. Eldunartíminn fer auðvitað eftir hitastigi grillsins og stærð kjötsins en við grilluðum okkar í 8 min. og leyfðum því síðan að jafna sig í 10 min. áður en það var skorið.

Með kjötinu höfðum við Önnu kartöflur (Pommes Anna), þunnskornar kartöflur bakaðar í ljúffengu kryddsmjöri, og heimagerða sinneps- og graslaukssósu (uppskriftin er hér). Uppskriftin að Önnu kartöflunum verður birt síðar.

Sönn íslensk veisla!

Indverskt lamb

Eins og við höfum nefnt hér áður erum við mjög hrifin af indverskum mat. Fyrir 1 1/2 ári síðan eignuðumst við bókina India Cookbook eftir Pushpesh Pant – 816 bls. af indverskum uppskriftum og leiðbeiningum! Uppskriftirnar eru þó sumar ansi tímafrekar og því eldum við oftast indverskt um helgar þegar við höfum nægan tíma.

Síðustu helgi elduðum við indverskt lamb í karrí sem heppnaðist mjög vel. Mildur en bragðgóður réttur! Enn og aftur þarf að hafa í huga að „karrí“ er kryddblanda og er því ekki alltaf eins og karríið sem flestir Íslendingar þekkja.

Hráefnin í réttinn eru: 500 g. lambakjöt, 70 ml. olía, 2 litlir laukar (skornir í sneiðar), 1 msk. engifer (maukaður í matvinnsluvél eða með fínu rifjárni), 1/2 msk. hvítlaukur (maukaður eða kraminn), 1 tsk. ferskur grænn chillí (saxaður), 250 ml. jógúrt, 1 tsk. chillí duft, 1/2 tsk. túrmerik. 1 1/2 tsk. sykur, 1 tsk. svartar kardimommur (malaðar í mortéli) og salt.

Hráefnin í kryddlög fyrir lambið: 125 ml. jógúrt, 1 msk. olía, 1/2 tsk. chillí duft, 1/4 tsk. túrmerik og 1/2 tsk. sykur.

Það er ofboðslega gott að byrja á því að finna öll hráefnin til. Þá lendir maður ekki í því að vera með kryddbauka út um allt og þurfa eyða heilu kvöldi í að þrífa eldhúsið eftir matreiðsluna.

Hrærið saman hráefnum í kryddlöginn, skerið lambakjötið í bita (u.þ.b. 2,5 cm á stærð) og látið í kryddlöginn. Geymið í ísskáp í klukkutíma.

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn í 5 min. eða þar til hann er orðinn gylltur. Bætið hvítlauki, engifer og grænum chillí út í og steikið í 2-3 min. Hækkið hitann undir pönnunni og látið jógúrt, chillí duft, túrmerik og sykur ásamt lambakjöti og kryddlegi út í og steikið í 5-10 min. Salt eftir smekk.

Hellið nú 500 ml. af vatni á pönnuna og lækkið hitann undir pönnunni. Lok á pönnuna og leyfið að malla í 1 – 1 1/2 klukkutíma eða þar til kjötið er orðið vel meyrt (það tekur alveg sinn tíma) og sósan þykk. Malaðar kardimommur út í að lokum og salt eftir smekk.

Berið fram með hrísgrjónum og naanbrauði.

Grillað lambakjöt og blaut súkkulaðikaka

Sumarið er svo sannarlega að koma til Kaupmannahafnar og sem sönnum Íslendingum ákváðum við að taka því fagnandi með grilluðu íslensku lambi.

Uppskriftin er ekki flókin en löngu orðin klassísk á okkar heimili. Úrbeinað læri er snyrt og skorið í mátulega stóra bita. Síðan er það sett í kryddlög sem samanstendur af Bezt á lambið og Caj P (kryddsósu). Með þessu grilluðum við síðan sveppi og papriku og höfðum bakaðar franskar kartöflur.

Þar sem það er ekki hægt að kaupa Argentínu grillsósurnar hér í búð (ótrúlegt en satt) þá var brugðið á ráð að stela og stílfæra aðeins. Sósan samanstóð af eftirfarandi: Sýrður rjómi, dijon sinnep, graslaukur, salt, hunang og smá sítrónusafi.

Allt í allt einföld matreiðsla en með jafn góðu hráefni og íslensku lambi þarf hreinlega ekkert meira til.

Í eftirrétt var boðið upp á syndsamlega súkkulaðiköku og vanilluís.

Í súkkulaðiköku fyrir 2 þarf: 65 g 70% súkkulaði, 43 g smjör í bitum, 20 g. hveiti, 7 g kartöflumjöl, 7 g kakóduft, 43 g sykur (sett í matvinnsluvél í smá stund) og 1 egg.

Bræðið súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði. Hrærið sykur og egg út í súkkulaðiblönduna, síðan hveiti, kakódufti og kartöflumjöli. Látið í smurð form og geymið í ísskáp í a.m.k. 30 min. – helst lengur!

Bakið við 200 °C í u.þ.b. 10 min. (fer samt mjög mikið eftir stærð á forminu en það er mikilvægt að baka kökuna ekki of mikið!!).

Namm!