Við höfum áður skrifað um að nota heilt lambalæri í meira en eina máltíð. Um daginn keyptum við einmitt læri og erum nú þegar búin að búa til tvær gómsætar máltíðir úr því og eigum samt enn innanlærið eftir. Fyrri máltíðin voru marokkóskar kjötbollur eftir mikla löngun og hugsun til ferðalagsins okkar í Marokkó.
Um er ræða frekar einfalda matreiðslu og skemmtilega nýtingu á síðri vöðvum en þar sem kjötið er hakkað er það ótrúlega meyrt og gott. Við hökkuðum því síðri vöðvana af lærinu ásamt þindinni sem var enn á lærinu.
Kjötbollurnar
- 500 gr lambahakk
- 2 msk sýrður rjómi
- 2 tsk paprika
- 1 tsk malað cumin
- 1 tsk malaður kóríander
- 1 tsk kanill
- 1/4 tsk rifið múskat
- 1/4 tsk cayenne pipar
- 2 msk af saxaðri ferskir steinselju og kóríander
Setjið öll hráefni í skál, blandið vel saman og mótið litlar kjötbollur.
Sósan
- 1 rauðlaukur, rifinn í rifjárni
- 2 msk smjör
- 4 msk af saffran vatni (4 msk volgt vatn og smá af saffrani)
- 1 tsk paprika
- 1/2 tsk malað cumin
- 1/4 tsk malað engifer
- 1 dl vatn
- 4 msk saxaður ferskur kóríander – ekkert að því að nýta stilkana líka.
- 2 msk sítrónusafi
Setjð öll hráefni nema 1 msk af kóríander og sítrónusafa á stóra pönnu og steikið á meðal háum hita í 10 min. Lækkið niður í meðal lágan hita og bætið kjötbollum út í. Setjið lok á pönnuna og eldið í 30 min. Snúið kjötbollunum eftir 15 min.
Þegar kjötbollurnar eru fulleldaðar bætið þá sítrónusafa út í og salt og pipar eftir smekk. Stráið 1 msk af kóríander yfir og berið fram.
Við borðuðum kjötbollurnar með marokkósku (berber) flatbrauði eins og við fengum í fjöllunum í Marokkó. Uppskriftin kemur í næstu færslu!
Verði ykkur að góðu!