Matur í Frakklandi 2013 – Auberge de Chassignolles

Auberge de Chassignolles

Eftir tvo daga í Beaune keyrðum við til Chassignolles. Chassingolles er pínu lítið þorp, kirkjan í hjarta þorpsins og á móti er Auberge de Chassignolles. Hótelið er rekið af breskum hjónum, Harry og Ali, og hafa þau verið með það í þónokkurn tíma núna. Pétur hafði gist á hótelinu eina nótt árið 2008 og hafði síðan þá langað að fara aftur – svo frábær var staðurinn, maturinn og vínið! Og eftir ekki nema 5 ára eftirvæntingu stóðst staðurinn hana ekki – heldur fór hann langt fram úr henni eins og lesa má hér fyrir neðan.

Aubergeyfirlit

Kvöldið sem við komum var mánudagskvöld. Á mánudögum er eldhúsið lokað og við fengum okkur því charcuteri á veröndinni ásamt köldu hvítvíni og nutum útsýnisins.

auberge

Við vorum í fullu fæði hjá Auberge de Chassignolles sem þýðir að við fengum morgunmat, hádegismat og kvöldmat á staðnum.

Morgunmaturinn var fallegasta morgunverðarhlaðborðið hlaðið ferskum og gómsætum mat úr sveitinni. Á borðinu var nýbakað brauð, smjör, ostur, ferskt jógúrt og mjólk úr sveitinni, croissant, fersk og dísæt kirsuber, ferskar apríkósur, ferskur eplasafi og æðislegar heimargerðar sultur.

morgunverdur

smjörosturMeð morgunmatnum bjó Ali til expressó á fínu kaffivélinni sinni.

kaffi

Til þess að vinna upp matarlyst fyrir kvöldmatinn fórum við í gönguferðir í skógi í hæðunum í kringum þorpið. Við tókum því hádegismatinn með okkur í göngunar og borðuðum hann í skóginum.

Nýbakað brauð, smjör, charcuteri, ostar, ferskar radísur og dísæt jarðarber.

nesti

1. kvöldverður á staðnum. Um er að ræða set menu sem bæði hótelgestir og nærsveitungar borða. Matseðillinn byggir á því hvað var ferskast á sveitamarkaðinum þann daginn. Fyrsta kvöldið fengum við einmitt ótrúlega góðar nautakinnar og frábær vín úr héraðinu. Dásamleg máltíð! Allur matur á staðnum er fullkominn slow food og þekkja þau alla þá bændur sem þau versla hrávörurnar sínar af.

1.kvöld

nautakinnar

2. kvöldverður var ekki síðri þar sem við fengum ótrúlega góðar og sumarlegar tartalettur – eitthvað sem okkur Íslendingunum hefði ekki einu sinni dottið í hug að væri hægt að gera 🙂 Og síðan ostaplatta eins og með öllum okkar máltíðum (Eins gott að ferðinni var heitið í 7 daga fjallgöngu eftir þessi herlegheit!).

ciderogtafla

kvoldmatur

osturogdessertÞvílíkt himnaríki sem Auberge de Chassignolles er!

Matur í Frakklandi 2013

Þegar við vorum búin að pakka búslóðinni okkar og tæma íbúðina í Kaupmannahöfn fórum við í tveggja vikna langt ferðalag til Frakklands. Fyrstu vikuna nutum við þess að vera til, slökuðum á, borðuðum endalaust af góðum mat og drukkum dásamleg frönsk vín. Lífið var svo sannarlega ljúft! Seinni vikuna vorum við í frönsku Ölpunum og klifum Mont Blanc. Okkur veitti því ekki af vikunni þar á undan til þess að safna orku fyrir fjallgönguna og við stóðum okkur sérlega vel að safna næga orku fyrir átökin.

Þessi færsla verður einhvers konar myndablogg. Engin uppskrift en fullt af myndum af fallegum og ótrúlega girnilegum mat.

Lyon

Á fyrsta degi í Frakklandi stoppuðum við í Les Halles de Lyon. Les Halles de Lyon er algjört himnaríki fyrir fólk sem elskar mat og þar fengum við okkur að borða og keyptum okkur smá nesti – litlar pylsur og fullkomnar franskar makkarónur. Í höllinni var líka ótrúlegt úrval osta.

LesHalles1

La Ferme Modéle

Fyrstu nóttina gistum við í bóndagistingu hjá honum Pierre. Við borðum kvöldmat hjá þeim sem þau elduðu sjálf á staðnum. 4 rétta kvöldverður: Tómatasalat með kryddjurtum úr garðinum í forrétt, sítrónukjúkling í aðalrétt, ostar í millirétt og dásamlega ferskur ís borinn fram með heimgerðum sultum í eftirrétt. Með matnum var borðið fram vín hússins sem húsbóndinn fyllti á flöskurnar jafnóðum og þær tæmdust. Við vorum í skýjunum eftir þetta kvöld!

bordvinDagur 2 keyrðum við til Dijion. Á leiðinni stoppuðum við á sveitamarkaði í Louhans sem er stærsti markaðurinn haldinn er á svæðinu. Þar keyptum við ferskar apríkósur, hestabaunir, pylsur, osta og nýbakað brauð. Matinn borðuðum við í hádeginu þegar við stoppuðum við huggulegt stopp á þjóðveginum.

markadur

picnic

Beaune

Næstu tvo daga vorum við túristar í Beaune, krúttlegum litlum bæ í hjarta Bourgogne. Við gistum á B&B rétt fyrir utan bæjarmúrinn.

vinogkökur

Í Beaune borðuðum við á Le Goret – himnaríki fyrir svínakjötsaðdáendur. Eigandi staðarins elskar svín og svínakjöt er það eina á matseðilinum (sem er ekki til í prenti og er bara á frönsku!). Skammtarnir þar voru rosalegir en þessir tveir réttir sem við fengum á borðið innihéldu ekki minna en 1 kg af kjöti. En svakalegt hvað þetta var gott og stemmingin verður seint endurtekin.

LeGoret

Á degi 2 í Beaune fórum við í vínsmökkun í vínkjallara Patriarche Père et Fils. Það eru víst stærsti vínkjallarinn í Bourgogne og samanstendur hann samtals af 5 km löngum göngum. Þar var gott að komast í skjól frá sólinni sem hafði verið að baka okkur ofanjarðar og skýldum við okkur þar í duglega stund og supum fjöldan allan af vínum.

vinsmökkun

Eftir vínsmökkunina enduðum við á vínbarnum Les Caves de l’Abbaye þar sem Guilaume fræddi okkur um vín allt kvöldið. Kvöldstundin sem við áttum með honum er með þeim eftirminnilegustu í ferðinni og mælum við hiklaust með því að fólk stoppi hjá honum ef það á leið hjá í Beaune.

Vinbar

Copenhagen Beer Celebration 2013

Fyrir rúmri viku síðan var Copenhagen Beer Celebration (CBC) 2013. Þar tóku ýmis flott brugghús þátt og voru mörg þeirra með sérbruggaða bjóra fyrir viðburðinn. Miðarnir á viðburðinn fóru í sölu nokkrum mánuðum fyrir og seldust allir á mjög skömmum tíma. Við vorum þó búin að tryggja okkur miða og vorum mætt rétt fyrir hádegi á laugardeginum.

Kvöldið áður hitum við upp fyrir viðburðinn og gerðum okkur The Rhinelander frá Cheeseandburger-síðunni en sá hamborgari er með bjórsinnepi og brauðið er sama deig og fyrir mjúku saltkringlurnar sem við gerðum til þess að hafa með í nesti á CBC (uppskriftin er hér).

hamborgari

kringlur

astaogpetur

bjorbleikur

Anchorage – Love Buzz / Amager Bryghus – Fruiticus lambicus raspberry

blaberogdokkur

/ Mikkeller – SpontanDoubleBlueberry

Viðburðurinn er hugmynd og barn hans Mikkels á Mikkellerbarnum og var haldinn nú í annað skipti eftir að hafa vakið frábæra lukku í fyrra. Viðburðurinn fór þannig fram að 30 úrvals brugghús voru hver með sinn bás og buðu hver upp á 3 mismunandi bjóra sem ýmist eru stolt þess brugghús eða höfðu verið sérstaklega bruggaðir fyrir viðburðinn. Við innganginn fengum við lítið glas og síðan gengum við um og smökkuðum að vild í 5 klukkutíma, sem er sá tími sem hver seta varir. Í heildina var boðið upp á 3 setur yfir 2 daga en við létum þó eina setu duga.

Það voru 90 bjórar í boði og því var ekki lítið verk hjá okkur að reyna smakka sem flesta en allt í allt náðum við að smakka 43 bjóra sem er tæpur helmingur af því sem var í boði. Bjórarnir voru úr öllum mögulegum og ómögulegum flokkum bjórheimsins. Hér að ofan má sjá þá 3 sem lentu í toppsætunum hjá okkur eftir harða en sanngjarna keppni.

Í 1. sæti var MikkellerSpontanDoubleBlueberry. Sá bjór smakkaðist ótúlega vel, þvílíkt bláberjabragð og villigerinn kom skemmtilega fram líka. Í 2. sæti voru nágrannar okkar hér á Amager með 3 ára lambic bjór, Fruiticus lambicus raspberry, sem fékk síðan góðan skammt af hindberjum til að vekja hann úr dvalanum. 3. sætið fekk Love buzz frá Anchorage brugghúsinu í Alaska. Ótrúlega góður saison sem er meðal annars bruggaður með piparkornum.

Fyrir utan þessa þrjá bjóra smökkuðum við himinn og haf af öðrum úrvalsbjórum og nutum þess að labba á milli bása. Stemningin var góð, rólegt og notalegt og allir frekar slakir á því.

bjorsmokkun

Við gerðum þó líka annað en að smakka alls konar bjóra því á staðnum voru nokkrir matsölubásar sem buðu upp á kræsingar með bjórsmökkuninni. Við fengum okkur pylsur hjá John´s Hotdog deli en þeir voru m.a. með þeirra eigið bjórsinnep og sultaðan rauðlauk í bjór sem þeir gerðu sérstaklega fyrir CBC. Pylsurnar frá John´s Hotdog deli eru alltaf góðar en þessar voru snilld!

pylsur

johnspylsur

pylsur2

Unika bauð upp á ostaþrennu þar sem ostarinir voru látnir liggja í þremur mismunandi bjórum og bragðið eftir því. Við vorum hrifnust af ostinum sem hafði legið í stout en hann var alveg hreint æðislegur. Síðar buðu þeir upp á gráðaost sem við ákváðum að smakka líka og vorum mjög sátt.

ostur

osturogbjor

Bjórsmökkunin var tekin mjög alvarlega og því voru mjög margir með lista yfir bjóra á viðburðinum sem þeir skrifuðu athugasemdir við og gáfu jafnvel einkunn. Við vorum ekki alveg jafn fagmannleg en voru þó með lista yfir hvaða bjórar yrðu í boði og merktum við þá sem við náðum að smakka.

smokkun

peturCBC

Mikkeller og Mielcke & Hurtigkarl – fókus á bjór

Föstudaginn 8. febrúar áttum við miða á mjög áhugaverðan viðburð sem brugghúsið Mikkeller í samstarfi við veitingastaðinn Mielcke & Hurtigkarl stóðu fyrir. Viðburðurinn var haldinn við Frederiksberg Have og samanstóð af 6 rétta máltíð með 6 mismunandi sérbrugguðum bjórum.

Bjórarnir voru samstarfsverkefni Mikkeller og Mielcke & Hurtigkar á þann máta að Mikkeller lagði til grunnbjórinn. Það voru nokkrir mismunandi bjórar sem þeir brugga öllu jafna en síðan tóku kokkarnir við þeim og, eins og þeir orðuðu það sjálfir, lögðu sig allan fram við að „eyðileggja“ bjórana með því að bæta ótrúlegustu hlutum út í bjórkútana og leyfa bjórnum að þroskast áfram þannig. Þetta var því mest spennandi viðburður sem við höfum farið á til þessa hvað varðar pörun drykkjar og matar en á sama tíma eins krefjandi fyrir bragðlaukana og mögulegt er.

Við hjóluðum í Frederiksberg Have í miklum kulda og frosti og okkur var því orðið ansi kalt þegar við komum á áfangastað. Móttökurnar voru þó hlýjar og við fengum strax fyrsta bjórinn í hendurnar. Bjórinn var húsbjór Mielcke & Hurtigkarl sem þeir hönnuðu í samstarfi með Mikkeller og var hann borinn fram í fínu freyðivínsglasi.

Á&PMikkeller&Hurtigkarl

Á meðan gestirnir komu sér vel fyrir í sætunum við nokkrum stórum hringborðum í salnum gengu þjónarnir um með litla bakka af heimagerðu charcuteri úr bæði svíni og önd.

1. réttur kvöldsins:  Ostrur á súrkálsbeði og heitri grænkálssósu yfir. Með ostrunum drukkum við súrbjór með kóríandersafa í – fersk samsetning og ótrúlegur litur!

korianderogostrur

forrettur

2. réttur kvöldsins: Þunnildi af lúðu, sem var tæplegast eldað, í góðri rjómasósu með fyrstu steinbítshrogni ársins og sultaðum perlulauk. Með fisknum drukkum við It´s Alive bjórinn sem búið var að bæta bonito flögum (þurkaður og reyktur japanskur fiskur) út í. Þetta var sem sagt algjör fiskisprengja og frábær réttur.

fiskurMikkeller

plating

3. réttur kvöldsins: Syndsamlegasti réttur sem til er! Djúpsteikt brioche brauð með kobenaut, kóríander, majónes og gúrkum. Það varð þögn í salnum. Þvílíkt lostæti!

Með réttinum fengum við aftur It´s Alive bjórinn en að þessu sinni Chardonnay útgáfuna þar sem bjórinn er þroskaður á hvítvínstunnum. Út í bjórinn var búið að bæta ótrúlegu magni af söltuðu malti og markmið kokkana var að hafa bjórinn á mörkum þess að vera drykkjarhæfur vegna magni af salti í honum. Við verðum að segja að það tókst hjá þeim en það var alveg ótrúlegt hvað bjórinn passaði vel með matnum.  

nautasamloka&salt

4. réttur kvöldsins: Saltbakaður fiskur á hreðkustrimlum og jurtum með dökkri soðsósu. Með fisknum drukkum við George sem er óheyrilega kraftmikill imperial stout nefndur eftir George Forman. Bjórinn var bragðbættur með bergamot, sítrúsávexti með sérstakan keim af sítrónum og smá beisku. Bjórinn var frekar kaldur þegar hann kom í glasið en var síðan við stofuhita þegar síðasti sopinn var tekinn og smakkaðist aldrei eins. Okkur fannst það mjög skemmtilegt og áhugavert.

heillfiskuroggrænt

adalrettur

5. réttur kvöldsins: Jarðskokkaís á saltri karamellu og jarðskokkaflögum. Með eftirréttinum drukkum við Funky Easter, páskabjór Mikkeller, sem er bruggaður með tvenns konar geri þar sem seinna gerið er villigerið brettanomyces. Kokkarnir voru búnir að bæta við karmellu og rjóma í bjórinn og gera því háflgerðan Baileys bjór. Karamellukeimurinn passaði mjög vel við réttinn.

eftirrettur1

6. réttur kvöldsins: Síðasti réttur kvöldsins var ferskur, súr og beiskur eftirréttur með sítrúsávöxtum, sítrúsís og bergmot frauðköku. Ótrúlega fallegur réttur en við hjónin vorum ekki alveg sammála um ágæti hans. Ástu fannst hann of beiskur en Pétur var mjög sáttur. Með eftirréttinum drukkum við aftur Funky Easter en í þetta skiptið var búið að setja óhemju magn af engiferrót út í bjórinn. Það kom verulega á óvart hversu vel þurra beiskjan af bjórnum passaði vel með skarpa súra bragðinu af eftirréttinum.

eftirrettur2

Þetta var ótrúlega skemmtilegt kvöld!

Søllerød Kro á Copenhagen Cooking – Nordens madfestival

Copenhagen Cooking – Nordens madfestival fór af stað á föstudaginn og dagskráin fyrir vikuna er full af áhugaverðum viðburðum sem eru allir tengdir mat eða matreiðslu á einhvern hátt. Við ætlum svo sannarlega að nýta okkur tækifærið og taka þátt en á föstudaginn borðuðum við Tapas frá Cofoco í bíósal á frönsku myndinni The Kitchen og á laugardaginn smökkuðum við fjölda rétta á Nordic Taste.

Í gær tókum við lestina til Holte station og hjóluðum síðan að Søllerød Kro en þar beið okkur 7 rétta hádegisverður í verulega huggulegu og fallegu umhverfi.

Með kampavínsglasinu fengum við smakk dagsins, tómat sorbet og rósmarín, góð og fersk byrjun á hádegisverði.

Fyrsti forréttur var saltaður þorskur með sultuðum aspas og sólselju. Annar réttur var hörpudiskur með steinselju og lauk.

Þriðji réttur var sólkoli (d. rødtunge) með blómkáli, parmesan og sumartrufflu. Fjórði réttur var maís með foie gras og bouillon.

Aðalréttur og fimmti réttur dagsins var kálfalund með brisi og kantarellum. Eftir aðalréttinn fengum við ostaplatta með rúgbrauði og hunangi sem við nutum í rólegheitum áður en eftirrétturinn var borinn fram.

Síðasti réttur dagsins var eftirréttur, ferskjur, hindber og marsípan. Ljúffengur og sætur endir á frábærum hádegisverði á Søllerød Kro.

Illgresi með Spiseklubben

Við vorum heppin að eignast 2 miða á matarkvöld í Spiseklubben #3 hjá NACL þar sem þemað var illgresi.

Atburðurinn var haldinn á Odd Fellow Palæ og fljótlega eftir komu var okkur boðið freyðivínsglas og vísað til borðs.

Kaldir lystaukar: Kartafla með ostrukremi, grafinn økolax í Baldursbrá með brenninetlumajó og Aspas & hyldeblomstedik. 

Heitir lystaukar: Kræklingur með spydmælde og hélunjóla, Brenninetlusúpu með rækjubrauði, Jurtakróketta 2012 (lavender, svín og sólber).

Forrétturinn var hvítur aspas frá Søren Wiuff með kanínusalati og myrkli.

Síðan varð pása áður en aðalrétturinn var borinn fram. Í aðalrétt var nauta ribeye með grænu salati og 3 tegundir af sauce.

Eftir aðalréttinn fengum við ost frá Høgelundgaard, myntuhunang og maltkrökkbrauð.

Þegar eftirrétturinn kom varð þögn í salnum. Rétturinn var hápunktur kvöldsins: Anganmörðuís, skyrmousse, „mold“ og sósa úr karamellu, timian og snaps – þvílík samsetning!

Eftir þessa veislu var síðan bíðið upp á súkkulaðikarmellu með sjávarsalti og jurtate.

Að því loknu gengum sæl og södd út og hjóluðum heim.

Bastard í Malmö

Við skelltum okkur til Malmö síðust helgi og vorum þar túristar í heilan dag. Það var einstaklega afslappandi og notalegt og eftir heilmikið labb um bæinn fengum við okkur kvöldverð á veitingastaðnum Bastard.

Staðurinn er mátulega hrár með hvítum flísum á veggjunum og opið eldhús sem maður sér beint inn í. Þjónustan er hlý og heimilisleg þar sem þjóninn sestist hjá okkur við borðið þegar hann tók niður pöntunina.

Við pöntuðum okkar einn forrétt sem við borðuðum saman. Grillað brauð með ferskum geitaosti, hvítlauks- og ólífumauki varð fyrir valinu og var virkilega gott!

Í aðalrétt fengum við Linderödssvín með bökuðum gulrótum, súrsætum lauk, spínati og pólentu.

Hinn aðalrétturinn var franskur maískjúklingur og blóðmör með hvítum baunum og chillí. Ég verð að viðurkenna að þegar ég las orðið „blóðmör“ með maískjúklingnum þá var ég ekki alveg viss. Rétturinn kom hins vegar ótrúlega skemmtilega á óvart og blóðmörinn var það besta á disknum! Mig langar enn í annan skammt af blóðmörnum….

Þegar við vorum búin með aðalréttina vorum við orðin ansi södd. Við ákváðum þó samt að panta okkur einn eftirrétt sem við borðuðum saman í rólegheitum. Eftirrétturinn var Eton Mess og var sérlega ljúffengur!

Eftir þennan glæsilega kvöldverð röltum við aftur að lestarstöðunni og tókum lest til Kaupmannahafnar – alsæl og sátt með daginn í Malmö!

Páskar í Brussel og Brugge

Í páskafríinum okkar vorum við túristar í Belgíu. Eftir vinnu á miðvikudegi fyrir páska löbbuðum við út á metróstöð og enduðum á Kastrup flugvelli. Nokkrum klukkustundum síðar vorum við lent í Brussel, hungruð í belgískar vöfflur, frönskur, súkkulaði og endalaust af belgískum bjór!

Belgískar frönskur eru dásamlegar. Þær bestu eru steiktar í nautafeiti og bornar fram með majónesi! Við smökkuðum nokkrar:

Listaverk / Vinsæll staður og löng biðröð eftir belgískum frönskum

Við borðuðum stökkar en léttar Brussel vöfflur með flórsykri og heitar Liege vöfflur úr vöffluvögnum:

Brussel vöfflur eru ferkantaðar, stökkar að utan en mjúkar og loftkenndar að innan og eru borðaðar með flórsykri / Liege vöfflur eru úr gerdeigi og eldaðar með sykri sem myndar stökka og sæta húð. Belgar borða þessar vöfflur án meðlætis

Ásta ofurspennt með vöfflu við vöffluvagninn

Túristar við atómið að borða vöfflur

Við heimsóttum bari og drukkum himneska belgíska bjóra:

Moeder Lambic Fontainas

Kriek bjór

Bjór hjá Daisy á 't Brugs Beertje

Stundum fengum við okkur eitthvað með bjórnum:

Við skoðuðum einnig bjórbúðir og blúndur í glugga:

Og skelltum okkur í dagsferð til Brugge:

Ekki má gleyma belgísku súkkulaðinu:

Og svo fengum við sjúklega góðar makkarónur hjá Paul:

Yndisleg ferð og dásamlegur staður – páskarnir voru æði!

Noma

Eitt af markmiðum okkar hér í Kaupmannahöfn er að prófa sem mest af mismunandi mat og spennandi matsölustaði. Meðal draumastaðanna til þess að borða á er að sjálfsögðu Noma. Við vorum það heppinn að fá borð á Noma núna þessa helgi, eða laugardaginn þann 10. mars, og því fórum við þangað að borða. Vert er að nefna að ferðin á Noma var í tilefni þrítugsafmæli Péturs, en hann verður þrítugur þann 13. mars næstkomandi.

Til að undirbúa okkur fyrir veisluna miklu vöknuðum við snemma og fengum okkur léttan morgunverð. Síðan hjóluðum við í sundlaugina góðu, böðuðum okkur og unnum þannig upp matarlyst. Að því loknu hjóluðum við yfir í Christianshavn og vorum komin inn á Noma eina mínútu yfir eitt. Þar tók hópur þjóna á móti okkur og þegar við vorum sest einni mínútu seinna voru 7 þjónar búnir að sinna okkur. Stemmingin var góð og þegar við litum yfir staðinn voru þjónar á hverju borði að útskýrandi rétti og berandi mat. Þetta stefndi allt í góða máltíð.

Noma keyrðir einn matseðill hverju sinni, s.s. sami matseðill að hádegi og kvöldi. Því var spurning þjónsins mjög einföld: „Má færa ykkur kampavín og eru þið með ofnæmi fyrir einhverju?” Okkar svör voru enn einfaldari, eða „já“ og „nei”.

Fínu smjörhnífarnir

Næst útskýrði þjónninn fyrir okkur hvernig þetta allt yrði; Við myndum byrja á ýmiss konar litlum réttum, oftast einn eða tveir munnbitar í einu, sem borðaðir yrðu með fingrunum og síðan tæki við hefðbundinn matseðill. Okkur leist stórvel á þetta allt saman og ekki leið langur tími fyrr en fyrsti rétturinn var borinn fram – blómaskreytingin á borðinu okkar. Fyrsti réttur setti línuna fyrir hina sem á eftir komu en þetta endaði í 12 mismunandi litlum réttum á borðinu hjá okkur. Með þessum réttum var borið fram ofboðslega fínt en létt kampavín sem hreinsaði vel bragðlaukana á milli rétta.

Litlu réttirnir voru eftirfarandi:

Malt hrökkbrauð og einiber

Mosi og Karl-Jóhann sveppir

Svínapurra og sólber

Bláskel og sellerí

Ostasmákökur og kryddjurtastönglar

Kartafla og kjúklingalifur - Rúgbrauð, kjúklingaskinn og steinbíts hrogn

Þurrkuð gulrót og brennt hey - Mjólk og frosin þorskalifur

Sultuð og reykt fasanaegg (da. vagtelæg)

Radísur, gulrætur, mold og gras

Jurtir og reykt þorskahrogn

Hér varð síðan smá pása áður en farið var í hefðbundna matseðilinn, sem betur fer. Með matseðlinum var borið fram sérvalið vín sem á einn eða annan máta átti að passa vel með hverjum rétti. Réttirnir voru samtals 10 en það skemmtilega við þá var að ekki nema einn þeirra var úr spenndýraheimi – 7. réttur sem var beinmergur. Restin var ýmist sjávar, fiðurfé eða grænmeti. Því var einungis borðið fram ein tegund af rauðvíni á móti nokkuð mörgum hvítvínum.

Brauð, þeytt smjör og svínafeiti

Réttirnir voru:

Sellerírót, óþroskuð slåenbær, hvít rifsber og greni

Töskukrabi, eggjarauður og jurtir

Þurrkaður hörpudiskur, grjón og vætukarsi

Límfjarðar ostrur, þang, stikkilsber og kærnemælk

Blómkál, greni, rjómi og piparrót

Sandart, stönglar, græn hyldebær og sellerírót

Sultað rótargrænmeti, beinmergur, brúnað smjör og steinselja

 Hér var örstutt pása og fengum við þá þessa skemmtilegu dálka:

Gráönd, rauðrófur, birki og malt

Síðan koma tveir eftirréttir:

Gammel Dansk ís

Perutré

Nærmynd af perunni

Þegar við vorum búin með perutréið var okkur boðið í betri stofuna en þar beið okkur kaffi og með því.

Kósí í betri stofunni

Kaffið var ansi fín uppáhelling og til viðbótar var boðið upp á bjór. Bjórinn brugga þeir sjálfir á Noma og er merkilegur að því leiti að ekki er notað vatn við gerð hans heldur safi úr birkitréi, sem gerir bjórinn ansi sætan en síðan er hann kryddaður með brenninetlulaufum.

Pétur slakur með kaffi og bjór í betri stofunni

Svaka fínt kaffiborð

Með drykkjunum borðuðum við síðan síðustu 3 réttina:

Súkkulaðihúðaðar kartöfluflögur kryddaðar með fenneli

Heimagerðar flødeboller

Beinmergskarmella (karmella úr beinmerg í stað smjörs)

Þegar síðasti sopinn var tekinn var klukkan orðin 5 og á þessum 4 klukkutímum sem við vorum á Noma borðuðum við allt í allt 25 mismunandi rétti og vorum því tilbúin að yfirgefa staðinn alsæl og glöð. Á leiðinni út var okkur hinsvegar “boðið” í skoðunarferð um eldhúsin (já, í fleirtölu!) og tilraunaaðstöðu þeirra sem við þáðum með þökkum og fengum því að sjá hvar þessi ævintýralega máltíð varð til með eigin augum.

Allt búið

Það má svo sannalega segja að 30. afmælismáltíð Péturs hafi alls ekki verið leiðinleg upplifun!