Taco með flatiron steik

Það er kominn tími á nýja bloggfærslu! Við vorum að koma heim úr dásamlegu ferðalagi um Ísland og erum endurnærð eftir þrjár góðar vikur í íslenskri náttúru. Áður en við fórum í sumarfrí fórum við í Matarbúrið hjá Dodda og keyptum fallega Flatiron nautasteik. Um helgina skelltum við steikinni á grillið og gerðum steikartacos með öllu tilheyrandi!

Steikskorintacos

Steikartacos

Steikin var það falleg að við vildum ekki gera of mikið við hana. Þess vegna létum við salt og pipar duga og grilluðum hana síðan í 3 mín á hverri hlið á miðlungsheitum kolum. Það skilar steikinni rétt yfir medium rare, sem passar fínt þar sem hún er skorin vel þunnt og gefur líka bestu áferðina á kjötinu í taco-inu.

SteikinDoddi

steikoggrænmeti

Meðlætið var sultaður rauðlaukur (uppskriftin er hér), guacamole (uppskriftin er hér), grillaður ferskur maís og chimichurri (uppskriftin er hér). Við vorum nýbúin að taka upp litla ferska lauka sem við ræktum í potti á svölunum okkar og okkur fannst því tilvalið að grilla þá líka.

laukur

Steiktacos

Mexíkósku flatkökurnar (tacos) gerðum við líka sjálfar (uppskriftin er hér). Til þess notuðum við nýju tortillupressuna sem við keyptum í New York í maí. Pressan léttir verkið töluvert og flatkökurnar verða fallegar og jafnar! Plastfilma er sett í pressuna til þess að deigið festist ekki í pressunni.

tacopressa

tacosdeig

Steikartacos

Sumarlegur og góður matur!

Mexíkósk veisla

Eins og áður hefur komið fram og lesa má af þessu bloggi þá finnst okkur mjög gaman af mat – hvort sem það er að elda hann, borða, skrifa um eða lesa sér til um mat en síðan horfum við líka á mismunandi matreiðsluþætti. Á einni sjónvarpsstöðinni hérna í DK er verið að sýna 3. seríu af ástralska Masterchef – þættir sem eru virkilega skemmtilegir og ofboðslega jákvæðir. Þar er sko enginn Gordan Ramsay öskrandi á fólk.

Einn af keppundum í þáttunum hefur mikið dálæti af mexíkóskri matargerð og hefur galdrað fram marga mjög girnilega rétti. Með þessi rétti sem innblástur ákváðum við að gera okkar eigin mexíkóska veislu hérna heima sem tókst barasta svona ljómandi vel.

Stjörnurnar í þessari máltíð eru svínakjötið og heimagerðu mexíkönsku flatkökurnar en það óvænta var hins vegar hversu vel sultaði rauðlaukurinn náði að fullkomna samsetninguna af þessu hráefnum.

taco
Hægeldaður svínahnakki (e. pulled pork)
  • 2 þurrkaðir ancho chillí
  • 2 þurrkaðir de árbol chillí
  • 2 msk sykur
  • 1 msk limesafi
  • 1,5 kg svínahnakki
  • duglega af salti
  • 2 msk olíu
  • 2 miðlungs laukar
  • 3 hvílauksgeira
  • 2 lárviðarlauf
  • 2 tsk oreganó
  • 2 tsk kóríander
  • 2 tsk cuminduft
  • 1/2 tsk allspice
  • flaska af dökkum bjór

Hellið sjóðandi heitu vatni yfir þessar tvær tegundir af chillí og leyfið að liggja í bleyti í 30 min. Passið að vatnið þeki vel, t.d. með því að þrysta chillí niður með skál. Saltið svínahnakkann duglega á meðan.

Takið chillí upp úr vatninu en geymið 1/2 dl af vatninu. Setjið chillí, limesafa og sykur í matvinnsluvél og maukið vel. Berið mauk á svínahnakkann og leyfið að standa í a.m.k. klukkustund. Best er þó að leyfa þessu að standa í kæli yfir nótt.

Saxið lauk og hvítlauk og hitið olíu á pönnu. Steikið lauk og krydd í olíunni þar til laukurinn er orðinn vel mjúkur, u.þ.b. 10 min. Hellið nú bjór yfir laukinn á pönnunni og náið upp suðu. Setjið svínahnakka út í, látið lok á pönnuna og náið aftur upp suðu. Færið pönnuna inn í 115 °C heitan ofn og bakið í 4 1/2 – 6 klukkutíma, eða þar til kjarnhiti svínsins er 91 °C.

Þegar svínahnakkinn er tilbúinn leyfið honum þá að standa við stofuhita í 30 min. Færið kjötið yfir í fat og notið tvo gaffla til þess að rífa kjötið niður. Hellið sósuna af pönnunni út í kjötið þar til kjötið er vel safaríkt.

Mexíkóskar flatkökur
  • 250 g masa harina hveiti (maíshveiti)
  • 330 ml heitt vatn
  • smá salt

Hveiti og salt í skál og hellið heitu vatni út í. Hrærið vel, setjið plast yfir og leyfið deiginu að standa í 15 min. Mótið litlar kúlur úr deiginu og fletjið í tortillupressu eða með kökukefli á milli tveggja arka af bökunarpappír (eða plastpoka). Deigið er mjög viðkvæmt og það er ekki hægt að snerta það mikið. Penslið með smá olíu og steikið á heitri pönnu í 1-2 min á hverri hlið.

Sultaður rauðlaukur
  • 1 dl eplaedik
  • 1 msk sykur
  • 1 1/2 tsk salt
  • 1 rauðlaukur, þunnt skorinn

Eplaedik, sykur og salt í skál og hrærið vel svo sykur og salt leysist vel upp í vökvanum. Setjið rauðlauk ofan í vökvann og leyfið að standa í klukkustund við stofuhita áður en laukurinn er borinn fram. Þá á laukurinn að vera orðinn fallega bleikur á litinn. Það er vel hægt að gera laukinn fyrr og geyma hann í kæli.

Guacamole með fersku kóríander
  • 2 avókadó, vel þroskuð
  • ferskur kóríander eftir smekk
  • salt eftir smekk
  • limesafi eftir smekk

Skerið avókadóin í tvennt, takið steininn úr og fjarlægið hýðið. Skerið ávaxtakjötið í nokkra bita og setjið í matvinnsluvél (eða töfrasprota) ásamt kóríender og maukið vel. Salt og limesafi eftir smekk.

Ferskt tómatsalsa
  • 1/2 laukur, skorinn þunnt og í litla bita
  • u.þ.b. 500 g tómatar, skornir í litla bita
  • ferskur kóríander eftir smekk, saxaður
  • salt eftir smekk

Skerið laukinn og hellið síðan örlítið af sjóðandi vatni fyrir hann. Það tekur sterka laukbragðið af lauknum. Látið vatn renna af lauknum og setjið hann síðan í skál ásamt tómötum, kóríander og salt eftir smekk. Hrærið vel.

Síðan er bara að raða smá af svínahnakka á flatköku (einnig er gott að setja smá af osti neðst), guacamole, tómatsalsa og sultaður rauðlaukur með. Ferskur limesafi eftir smekk og rétturinn er fullkominn!

tacos