Til að undirbúa okkur fyrir veisluna miklu vöknuðum við snemma og fengum okkur léttan morgunverð. Síðan hjóluðum við í sundlaugina góðu, böðuðum okkur og unnum þannig upp matarlyst. Að því loknu hjóluðum við yfir í Christianshavn og vorum komin inn á Noma eina mínútu yfir eitt. Þar tók hópur þjóna á móti okkur og þegar við vorum sest einni mínútu seinna voru 7 þjónar búnir að sinna okkur. Stemmingin var góð og þegar við litum yfir staðinn voru þjónar á hverju borði að útskýrandi rétti og berandi mat. Þetta stefndi allt í góða máltíð.
Noma keyrðir einn matseðill hverju sinni, s.s. sami matseðill að hádegi og kvöldi. Því var spurning þjónsins mjög einföld: „Má færa ykkur kampavín og eru þið með ofnæmi fyrir einhverju?” Okkar svör voru enn einfaldari, eða „já“ og „nei”.

Fínu smjörhnífarnir
Næst útskýrði þjónninn fyrir okkur hvernig þetta allt yrði; Við myndum byrja á ýmiss konar litlum réttum, oftast einn eða tveir munnbitar í einu, sem borðaðir yrðu með fingrunum og síðan tæki við hefðbundinn matseðill. Okkur leist stórvel á þetta allt saman og ekki leið langur tími fyrr en fyrsti rétturinn var borinn fram – blómaskreytingin á borðinu okkar. Fyrsti réttur setti línuna fyrir hina sem á eftir komu en þetta endaði í 12 mismunandi litlum réttum á borðinu hjá okkur. Með þessum réttum var borið fram ofboðslega fínt en létt kampavín sem hreinsaði vel bragðlaukana á milli rétta.
Litlu réttirnir voru eftirfarandi:

Malt hrökkbrauð og einiber

Mosi og Karl-Jóhann sveppir

Svínapurra og sólber

Bláskel og sellerí

Ostasmákökur og kryddjurtastönglar

Kartafla og kjúklingalifur - Rúgbrauð, kjúklingaskinn og steinbíts hrogn

Þurrkuð gulrót og brennt hey - Mjólk og frosin þorskalifur

Sultuð og reykt fasanaegg (da. vagtelæg)

Radísur, gulrætur, mold og gras

Jurtir og reykt þorskahrogn
Hér varð síðan smá pása áður en farið var í hefðbundna matseðilinn, sem betur fer. Með matseðlinum var borið fram sérvalið vín sem á einn eða annan máta átti að passa vel með hverjum rétti. Réttirnir voru samtals 10 en það skemmtilega við þá var að ekki nema einn þeirra var úr spenndýraheimi – 7. réttur sem var beinmergur. Restin var ýmist sjávar, fiðurfé eða grænmeti. Því var einungis borðið fram ein tegund af rauðvíni á móti nokkuð mörgum hvítvínum.

Brauð, þeytt smjör og svínafeiti
Réttirnir voru:

Sellerírót, óþroskuð slåenbær, hvít rifsber og greni

Töskukrabi, eggjarauður og jurtir

Þurrkaður hörpudiskur, grjón og vætukarsi

Límfjarðar ostrur, þang, stikkilsber og kærnemælk

Blómkál, greni, rjómi og piparrót

Sandart, stönglar, græn hyldebær og sellerírót

Sultað rótargrænmeti, beinmergur, brúnað smjör og steinselja
Hér var örstutt pása og fengum við þá þessa skemmtilegu dálka:


Gráönd, rauðrófur, birki og malt
Síðan koma tveir eftirréttir:

Gammel Dansk ís

Perutré

Nærmynd af perunni
Þegar við vorum búin með perutréið var okkur boðið í betri stofuna en þar beið okkur kaffi og með því.

Kósí í betri stofunni
Kaffið var ansi fín uppáhelling og til viðbótar var boðið upp á bjór. Bjórinn brugga þeir sjálfir á Noma og er merkilegur að því leiti að ekki er notað vatn við gerð hans heldur safi úr birkitréi, sem gerir bjórinn ansi sætan en síðan er hann kryddaður með brenninetlulaufum.

Pétur slakur með kaffi og bjór í betri stofunni

Svaka fínt kaffiborð
Með drykkjunum borðuðum við síðan síðustu 3 réttina:

Súkkulaðihúðaðar kartöfluflögur kryddaðar með fenneli

Heimagerðar flødeboller

Beinmergskarmella (karmella úr beinmerg í stað smjörs)
Þegar síðasti sopinn var tekinn var klukkan orðin 5 og á þessum 4 klukkutímum sem við vorum á Noma borðuðum við allt í allt 25 mismunandi rétti og vorum því tilbúin að yfirgefa staðinn alsæl og glöð. Á leiðinni út var okkur hinsvegar “boðið” í skoðunarferð um eldhúsin (já, í fleirtölu!) og tilraunaaðstöðu þeirra sem við þáðum með þökkum og fengum því að sjá hvar þessi ævintýralega máltíð varð til með eigin augum.

Allt búið
Það má svo sannalega segja að 30. afmælismáltíð Péturs hafi alls ekki verið leiðinleg upplifun!