Sumarlegt smørrebrød

Hvað er meira danskt en gott smørrebrød? Það þarf ekki mikið meira en nokkur góð hráefni til þess að búa til smørrebrød og það er alltaf svo skemmtilegt að borða fallega skreytt brauð með góðu áleggi. Hér eru nokkrar hugmyndir að smørrebrød með sumarlegu áleggi.

smörrebröd

Grænn aspas og linsoðið egg
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Grænn aspas
 • Linsoðin egg
 • Stökk svínapurra, mulin
 • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Smjörsteikið aspasinn í smá stund á heitri pönnu og raðið honum síðan á brauðið. Skerið linsoðið egg í tvennt og setjið ofan á aspasinn. Salt og pipar eftir smekk og stráið síðan smá af svínapurru yfir. Við vorum sérlega sátt með þetta smørrebrød. Aspasinn er enn smá stökkur og góður og samsetningin er æðisleg!

aspasogegg

Tómatar, camembert og beikon
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Tómatar
 • Þroskaður camembert
 • Beikon, stökkt
 • Karsi eða graslaukur
 • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið tómatana í sneiðar og raðið ofan á brauðið. Salt og pipar eftir smekk. Væn sneið af camembert ofan á tómatasneiðarnar og síðan ein sneið af stökku beikoni. Stráið að lokum karsa eða graslauk á brauðið. Tómatar, camembert og beikon er samsetning sem klikkar aldrei!

tomatarogbeikon

Nýjar kartöflur, steiktur laukur og sinnepsmajónes
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
 • Steiktur laukur
 • Majónes
 • Gróft sinnep
 • Karsi

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflurnar í sneiðar og raðað á brauðið. Hrærið majónesi og sinnepi eftir smekk saman og setjið smá á brauðið. Síðan karsa eftir smekk og steikur laukur efst.

nýjarkartölflur

Nýjar kartöflur, radísur og stökkar kartöflur
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
 • Radísur
 • Salt og pipar
 • Stökkar kartöfluflögur
 • Sítrónumajónes
 • Ferskt dill

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflur og radísur í sneiðar og raðað á brauðið. Sítrónumajónes og salt og pipar eftir smekk. Raðið síðan stökkum kartöfluflögum ofan á og skeytið með fersku dilli.

radísurogkartöflur

Njótið með góðum pilsner!

Rauðrófuravíólí með geitaostafyllingu

Okkur finnst alltaf gaman að gera ravíólí og stundum er gaman að leika sér aðeins og prófa eitthvað nýtt. Um daginn gerðum bleikt pasta í fyrsta skipti  og fylltum með ljúffengri geitaostafyllingu. Bleiki liturinn kemur frá rauðrófumauki sem er sett í pastadeigið. Bragðið verður líka örlítið sætara en þegar notað er venjulegt pastadeig en það passaði vel við geitaostafyllinguna.

raudrofuravioli

Rauðrófuravíólí (f. 3-4)
 • 1 stór rauðrófa (eða 2 litlar)
 • 200 g pastahveiti
 • 1-2 egg

Fyrst þarf að elda rauðrófuna. Afhýðið og skerið rauðrófuna í litla bita (etv. smá olía svo hún verði ekki of þurr). Bakið í við 180°C þar til bitarnir eru vel mjúkir og leyfið síðan að kólna. Setjið rauðrófubitana í matvinnsluvél (eða notið töfrasprota) ásamt einu eggi og maukið þar til blandan er orðin silkimjúk. Látið pastahveiti í skál og setjið rauðrófumaukið út í og hnoðið. Ef deigið er mjög þurrt bætið á öðru eggi út í. Hnoðið vel, látið plastfilmu utan um deigið og kælið í u.þ.b. klukkustund.

bleiktpasta

raviolibleikt

ravioli

Geitaostafylling
 • lítill vel þroskaður geitaostur (hvítmyglan skorin af)
 • 250 g ricottaostur
 • múskat eftir smekk
 • rifinn börkur af hálfri sítrónu
 • salt og pipar eftir smekk

Skerið geitaostinn í litla bita og hrærið saman við ricottaostinn. Látið ostablönduna í eldfast mót og bakið í 10 min., eða þar til geitaosturinn er bráðnaður. Hrærið vel í ostablöndunni og setjið síðan múska, sítrónubörk og salt og pipar eftir smekk.

Flejtið út pastadeigið, skammtið geitaostafyllingunni jafnt á deigið og búið til pastakodda. Sjóðið í söltu vatni og berið fram heitt. Við settum smá brennt smjör með örlítið af sítrónuberki og rifinn parmesan á ravíólíið. Það var fullkomið!

raviolirautt

Verði ykkur að góðu!

Blinis með steinbítshrognum, reyktum osti og karsa

Í Torvehallerne keyptum við falleg og fersk steinbítshrogn sem við borðuðum í hádeginu í dag ofan á blinis (litlum pönnukökum sem eru bakaðar með geri) með reyktum osti (d. rygeost) og karsa. Ljúffengur hádegismatur!

blinisoghrogn1

Blinis (u.þ.b. 30 litlar pönnukökur)
 • 230 g hveiti
 • 1 tsk salt
 • 20 g fersk pressuger
 • 2 dl mjólk
 • 2 egg (eggjarauður og eggjahvítur í sitt hvoru lagi)
 • 2 dl sýrður rjómi (18%)

Sigtið hveiti og salt í skál og látið gerið út í. Hitið mjólkina í potti þar til hún er orðin vel volg. Hrærið saman eggjarauðum og sýrðum rjóma og hellið síðan út í mjólkina. Hrærið vel og hellið síðan eggjablöndunni út í hveitið. Hrærið þar til deigið er slétt og fallegt. Leyfið deiginu að standa á hlýjum stað í 30 min.

Þeytið eggjahvítur og setjið út í deigið. Leyfið deiginu síðan að standa í 20 min. Steikið blinis á heitri pönnu í nokkrar min. á hvorri hlið og geymið.

Álegg
 • steinbítshrogn
 • reyktur ostur (d. rygeost)
 • sýrður rjómi
 • ferskur karsi

Hrærið saman reyktum osti og sýrðum rjóma eftir smekk. Látið smá af ostinum á hverja blini, síðan steinbítshrogn og karsa eftir smekk.

blinisoghrogn4

Verði ykkur að góðu!

Dásamlegt súrdeigsbrauð

Á okkar heimili er brauð ekki bara brauð og heimabakað brauð er alltaf best. Súrdeigsbrauð er í miklu uppáhaldi hjá okkur – aðallega vegna þess að súrdeigsbrauð er svo bragðmikið og gott!

braudheilt

braudskorid

Eftir töluverða rannsóknarvinnu og margar tilraunir í eldhúsinu erum við búin að finna aðferð og uppskrift sem hentar okkar vel. Uppskriftin er frá Claus Meyer (auðvitað) en í örlítið breyttri útfærslu.

Súrdeigsbrauðið er með ótrúlega stökkri skorpu en létt og mjúkt að innan – eins og fullkomið súrdeigsbrauð á að vera!

Súrdeigsbrauð (eitt lítið)
 • 1/2 dl súrdeig (sjá uppskrift hér)
 • 5 g ferskt pressuger
 • 2 – 2 1/2 dl kalt vatn
 • 1 tsk salt
 • 300 g hveiti

Þetta deig á að vera mjög þunnt og það er mikilvægt að hnoða það MJÖG lengi! Kenwood hrærivélin okkar sér alfarið um að hnoða deigið og það er sennilega eina leiðin með þetta deig – nema maður sé í massa formi og vilji klístraðar hendur.

Dagur 1

Vatn (byrjið á 2 dl), súrdeig og ger í skál og hrærið vel. Setjið hveiti og salt út í og hnoðið deigið í ca. 15 min, eða þar til deigið er glansandi, teygjanlegt og sleppir skálinni alveg. Bætið vatni við eftir þörfum. Deigið er fyrst eins og grautur en þegar það er búið að hnoða það nóg helst það vel saman og hægt er að gera „glútenprufu“ eins og sést hér. Hellið deiginu í smurðri skál með örlítið af olíu (annars festist deigið í skálinni) og leyfið að standi í kæli yfir nótt.

deig

deigkrokur

Dagur 2

Hitið ofnin upp í hæsta mögulega hita án blásturs (um 250°C). Látið bökunarplötu eða lítið eldfastmót neðst í ofninn (það fer vatn í plötuna/mótið þegar brauðið er komið inn í ofn til þess að mynda gufu). Stráið hveiti yfir deigið í skálinni og hellið deiginu varlega úr skálinni á bökunarplötu með bökunarpappír. Snertið brauðið eins lítið og mögulegt og reynið ekki að móta það. Setjið brauðið inn í ofn og hellið síðan smá vatni í bökunarplötuna/mótið neðst í ofninum og lokið. Bakið í u.þ.b. 20 min, eða þar til brauðið er alveg að verða orðið fallega dökkt og skorpan stökk. Opnið þá ofnin aðeins og hleypið gufu út úr ofninum (annars verður skorpan mjúk). Bakið brauðið áfram með hurðina opna í nokkrar mínútur, eða þar til brauðið er tilbúið.

Það er gott að baka brauðið á bökunarsteini ef maður á þannig. Einnig er hægt að baka brauðið á bökunargrind fyrir pitsur, t.d. eins og fæst í IKEA. Skorpan á brauðinu verður þá bökuð jafnt.

surdeigsbraud2

braudnærmynd

Leyfið brauðinu að kólna áður en þið skerið það (það er erfitt en verið þolinmóð!). Brauðið er dásamlegt nýbakað með smjöri og jafnvel nokkrum grófum saltflögum. Mmmm!

Illgresi með Spiseklubben

Við vorum heppin að eignast 2 miða á matarkvöld í Spiseklubben #3 hjá NACL þar sem þemað var illgresi.

Atburðurinn var haldinn á Odd Fellow Palæ og fljótlega eftir komu var okkur boðið freyðivínsglas og vísað til borðs.

Kaldir lystaukar: Kartafla með ostrukremi, grafinn økolax í Baldursbrá með brenninetlumajó og Aspas & hyldeblomstedik. 

Heitir lystaukar: Kræklingur með spydmælde og hélunjóla, Brenninetlusúpu með rækjubrauði, Jurtakróketta 2012 (lavender, svín og sólber).

Forrétturinn var hvítur aspas frá Søren Wiuff með kanínusalati og myrkli.

Síðan varð pása áður en aðalrétturinn var borinn fram. Í aðalrétt var nauta ribeye með grænu salati og 3 tegundir af sauce.

Eftir aðalréttinn fengum við ost frá Høgelundgaard, myntuhunang og maltkrökkbrauð.

Þegar eftirrétturinn kom varð þögn í salnum. Rétturinn var hápunktur kvöldsins: Anganmörðuís, skyrmousse, „mold“ og sósa úr karamellu, timian og snaps – þvílík samsetning!

Eftir þessa veislu var síðan bíðið upp á súkkulaðikarmellu með sjávarsalti og jurtate.

Að því loknu gengum sæl og södd út og hjóluðum heim.

Bastard í Malmö

Við skelltum okkur til Malmö síðust helgi og vorum þar túristar í heilan dag. Það var einstaklega afslappandi og notalegt og eftir heilmikið labb um bæinn fengum við okkur kvöldverð á veitingastaðnum Bastard.

Staðurinn er mátulega hrár með hvítum flísum á veggjunum og opið eldhús sem maður sér beint inn í. Þjónustan er hlý og heimilisleg þar sem þjóninn sestist hjá okkur við borðið þegar hann tók niður pöntunina.

Við pöntuðum okkar einn forrétt sem við borðuðum saman. Grillað brauð með ferskum geitaosti, hvítlauks- og ólífumauki varð fyrir valinu og var virkilega gott!

Í aðalrétt fengum við Linderödssvín með bökuðum gulrótum, súrsætum lauk, spínati og pólentu.

Hinn aðalrétturinn var franskur maískjúklingur og blóðmör með hvítum baunum og chillí. Ég verð að viðurkenna að þegar ég las orðið „blóðmör“ með maískjúklingnum þá var ég ekki alveg viss. Rétturinn kom hins vegar ótrúlega skemmtilega á óvart og blóðmörinn var það besta á disknum! Mig langar enn í annan skammt af blóðmörnum….

Þegar við vorum búin með aðalréttina vorum við orðin ansi södd. Við ákváðum þó samt að panta okkur einn eftirrétt sem við borðuðum saman í rólegheitum. Eftirrétturinn var Eton Mess og var sérlega ljúffengur!

Eftir þennan glæsilega kvöldverð röltum við aftur að lestarstöðunni og tókum lest til Kaupmannahafnar – alsæl og sátt með daginn í Malmö!

Hvítur aspas með sinneps- og trufflukremi

Maímánuður er mánuður aspasins og í síðustu viku fór að fást danskur hvítur aspas. Ég hef aldrei áður eldað ferkan hvítan aspas og man heldur ekki eftir því að hafa borðað hann þannig. Um síðustu helgi fórum við hins vegar út að borða á Madklubben með góðum gestum frá Íslandi og þar var þessi fíni hvítur aspas í forrétt! Ég bjó síðan til mína útgáfu af réttinum hérna heima sem tókst ansi vel.

Sinneps- og trufflekremið er í rauninni bara majónes með truffluolíu, sýrðum rjóma og dijon sinnepi. Hráefnin í kremið eru: 1 eggjarauða, 1/2 tsk. salt, 1/2 tsk. pipar, 1 1/2 dl. olía, 1 msk. hvítvínsedik, 1 msk. truffluolía (má sleppa ef maður fær hana ekki en hún gefur samt mjög gott bragð), 50 g. sýrður rjómi og u.þ.b. 1/2 tsk. dijon sinnep.

Látið eggjarauðu, salt og pipar í skál og þeytið í smá stund þar til eggjarauðan fer að þykkna. Hellið olíu í mjórri bunu, hægt og rólega, út í eggjarauðuna og þeytið vel á meðan. Þeytið þar til hræran fer að þykkna. Hrærið þá edik og truffluolíu út í, sýrður rjómi og dijon sinnep út í að lokum.

Skrælið aspasinn (5 cm frá toppinum og alveg niður). Sjóðið í vatni með 1 tsk. salti, 1/2 tsk. sykur og smá smjöri þar til aspasinn er mátulega mjúkur.

Setjið sinneps- og trufflukrem á disk, raðið aspasinum ofan á kremið. Smá pipar og steinselja yfir að lokum.

Verði ykkur að góðu!

Noma

Eitt af markmiðum okkar hér í Kaupmannahöfn er að prófa sem mest af mismunandi mat og spennandi matsölustaði. Meðal draumastaðanna til þess að borða á er að sjálfsögðu Noma. Við vorum það heppinn að fá borð á Noma núna þessa helgi, eða laugardaginn þann 10. mars, og því fórum við þangað að borða. Vert er að nefna að ferðin á Noma var í tilefni þrítugsafmæli Péturs, en hann verður þrítugur þann 13. mars næstkomandi.

Til að undirbúa okkur fyrir veisluna miklu vöknuðum við snemma og fengum okkur léttan morgunverð. Síðan hjóluðum við í sundlaugina góðu, böðuðum okkur og unnum þannig upp matarlyst. Að því loknu hjóluðum við yfir í Christianshavn og vorum komin inn á Noma eina mínútu yfir eitt. Þar tók hópur þjóna á móti okkur og þegar við vorum sest einni mínútu seinna voru 7 þjónar búnir að sinna okkur. Stemmingin var góð og þegar við litum yfir staðinn voru þjónar á hverju borði að útskýrandi rétti og berandi mat. Þetta stefndi allt í góða máltíð.

Noma keyrðir einn matseðill hverju sinni, s.s. sami matseðill að hádegi og kvöldi. Því var spurning þjónsins mjög einföld: „Má færa ykkur kampavín og eru þið með ofnæmi fyrir einhverju?” Okkar svör voru enn einfaldari, eða „já“ og „nei”.

Fínu smjörhnífarnir

Næst útskýrði þjónninn fyrir okkur hvernig þetta allt yrði; Við myndum byrja á ýmiss konar litlum réttum, oftast einn eða tveir munnbitar í einu, sem borðaðir yrðu með fingrunum og síðan tæki við hefðbundinn matseðill. Okkur leist stórvel á þetta allt saman og ekki leið langur tími fyrr en fyrsti rétturinn var borinn fram – blómaskreytingin á borðinu okkar. Fyrsti réttur setti línuna fyrir hina sem á eftir komu en þetta endaði í 12 mismunandi litlum réttum á borðinu hjá okkur. Með þessum réttum var borið fram ofboðslega fínt en létt kampavín sem hreinsaði vel bragðlaukana á milli rétta.

Litlu réttirnir voru eftirfarandi:

Malt hrökkbrauð og einiber

Mosi og Karl-Jóhann sveppir

Svínapurra og sólber

Bláskel og sellerí

Ostasmákökur og kryddjurtastönglar

Kartafla og kjúklingalifur - Rúgbrauð, kjúklingaskinn og steinbíts hrogn

Þurrkuð gulrót og brennt hey - Mjólk og frosin þorskalifur

Sultuð og reykt fasanaegg (da. vagtelæg)

Radísur, gulrætur, mold og gras

Jurtir og reykt þorskahrogn

Hér varð síðan smá pása áður en farið var í hefðbundna matseðilinn, sem betur fer. Með matseðlinum var borið fram sérvalið vín sem á einn eða annan máta átti að passa vel með hverjum rétti. Réttirnir voru samtals 10 en það skemmtilega við þá var að ekki nema einn þeirra var úr spenndýraheimi – 7. réttur sem var beinmergur. Restin var ýmist sjávar, fiðurfé eða grænmeti. Því var einungis borðið fram ein tegund af rauðvíni á móti nokkuð mörgum hvítvínum.

Brauð, þeytt smjör og svínafeiti

Réttirnir voru:

Sellerírót, óþroskuð slåenbær, hvít rifsber og greni

Töskukrabi, eggjarauður og jurtir

Þurrkaður hörpudiskur, grjón og vætukarsi

Límfjarðar ostrur, þang, stikkilsber og kærnemælk

Blómkál, greni, rjómi og piparrót

Sandart, stönglar, græn hyldebær og sellerírót

Sultað rótargrænmeti, beinmergur, brúnað smjör og steinselja

 Hér var örstutt pása og fengum við þá þessa skemmtilegu dálka:

Gráönd, rauðrófur, birki og malt

Síðan koma tveir eftirréttir:

Gammel Dansk ís

Perutré

Nærmynd af perunni

Þegar við vorum búin með perutréið var okkur boðið í betri stofuna en þar beið okkur kaffi og með því.

Kósí í betri stofunni

Kaffið var ansi fín uppáhelling og til viðbótar var boðið upp á bjór. Bjórinn brugga þeir sjálfir á Noma og er merkilegur að því leiti að ekki er notað vatn við gerð hans heldur safi úr birkitréi, sem gerir bjórinn ansi sætan en síðan er hann kryddaður með brenninetlulaufum.

Pétur slakur með kaffi og bjór í betri stofunni

Svaka fínt kaffiborð

Með drykkjunum borðuðum við síðan síðustu 3 réttina:

Súkkulaðihúðaðar kartöfluflögur kryddaðar með fenneli

Heimagerðar flødeboller

Beinmergskarmella (karmella úr beinmerg í stað smjörs)

Þegar síðasti sopinn var tekinn var klukkan orðin 5 og á þessum 4 klukkutímum sem við vorum á Noma borðuðum við allt í allt 25 mismunandi rétti og vorum því tilbúin að yfirgefa staðinn alsæl og glöð. Á leiðinni út var okkur hinsvegar “boðið” í skoðunarferð um eldhúsin (já, í fleirtölu!) og tilraunaaðstöðu þeirra sem við þáðum með þökkum og fengum því að sjá hvar þessi ævintýralega máltíð varð til með eigin augum.

Allt búið

Það má svo sannalega segja að 30. afmælismáltíð Péturs hafi alls ekki verið leiðinleg upplifun!