Eins og við höfum nefnt áður horfum við á ýmsa matreiðsluþætti í sjónvarpinu. Masterchef Australia hefur t.d. verið í miklu uppáhaldi hjá okkur aðallega vegna þess að þar er maturinn í aðalhlutverki en lítið um rifridli milli þátttakenda. Þar fáum við líka nýjar hugmyndir af mat sem okkur langar að prófa en færsla dagsins er einmitt um þannig rétt.
Ravíóló er ravíólí fyllt með ricotta og heilli eggjarauðu. Pastakoddarnir eru síðan soðnir þannig að eggjarauðan er rétt byrjuð að eldast en er samt enn svolítið fljótandi.
Ravíóló (4 stórir pastakoddar)
- 200 g ferskt pasta
- 150 g ricotta
- 45 g af rifnum parmesan osti
- múskat, salt og pipar eftir smekk
- 4 eggjarauður
Fletjið pastadeigið út í tvær 50 cm plötur og hafið þær eins þunnar og mögulegt er (hjá okkur stilling 8 af 9 á pastavélinni). Hrærið saman ricotta, parmesan osti, múskat og salt og pipar eftir smekk. Setjið ricotta blönduna síðan í sprautupoka og sprautið 4 hringi á aðra pastaplötuna með gati í miðjunni fyrir eggjarauðuna (passið að hafa bil á milli hringanna).
Brjótið eitt egg í einu og skiljið eggjarauðuna frá eggjahvítunni. Komið eggjarauðunni varlega fyrir í miðjunni á hringnum og endurtakið síðan með hin eggin. Pennslið með hrærðu eggi í kringum hverja fyllingu og leggið síðan hina pastaplötuna yfir. Þrýstið á pastaplötuna svo það lokist vel um hverja fyllingu fyrir sig og reynið á sama tíma að fá sem mest loft úr koddunum. Skerið síðan út 4 pastakodda og setjið á lítinn disk sem búið er að strá smá pastahveiti á. Þrýstið með gafli á endana á pastanu til að tryggja að það haldist lokað. Sjóðið síðan 5 lítra af vatni í stórum potti og saltið vel. Setjið smá olíu út í og rennið síðan koddunum varlega út í vatnið af diskunum og sjóðið í 2,5 mínútu. Veiðið síðan koddana úr pottinum og færið strax á disk.
Við bárum ravíólóið fram með brenndu salvíusmjöri. Það var ljúffengt!
Verði ykkur að góðu!