Beikonsulta

Fyrir þónokkru rákumst við á uppskrift af beikonsultu og hugsuðum með okkur að þetta þyrftum við að prófa. Hvaða tilefni er betri en að leyfa sér svona sælgæti en um jólin?

beikonegg

Það eru til margar útfærslur af beikonsultum. Okkar sulta varð frekar sæt og við vorum virkilega sátt með hana (sem og þeir sem fengu beikonsultu í jólagjöf!) en í næstu tilraun verður prófuð beiskari útgáfa þar sem notað er minna af sykri og síðan er sett sterkt kaffi út í hana líka.

Beikonsulta
  • 500 g þykkt beikon
  • 2 laukar, sneiddir þunnt
  • 1 dl hlynsíróp
  • 1 dl vatn
  • 3 msk balsamik edik
  • 2 msk dijon sinnep
  • 2 tsk Worcestershire sósa
  • salt og pipar eftir smekk

Skerið niður beikon í 1 cm strimla og steikið í góðum þykkbotna potti við miðlungs háan hita í 15-20 min., eða þar til beikonið er að verða stökkt. Hellið helmingnum af fitunni úr pottinum (það má geyma fituna og nota í eitthvað annað). Setjið lauk út í pottinn og steikið í 10 min., eða þar til hann er orðinn vel mjúkur. Látið síróp, vatn, balsamik edik, sinnep og Worcestershire sósu út í og náið upp suðu. Salt og pipar eftir smekk og látið síðan malla í tæpan klukkutíma. Áferðin á sultunni á þá að vera orðin klístuð. Leyfið sultunni að kólna örlítið og komið síðan fyrir í matvinnsluvél. Maukið þar til ásættanleg áferð er náð og hellið sultunni í krukkur.

beikon1

laukurogbeikon

Sultan geymist vel í kæli í mánuð en þegar hún er borin fram þarf að leyfa henni að ná stofuhita fyrst (eða setja hana á heitt brauð). Setjið beikonsultu á gott brauð eða vöfflur og skellið jafnvel steiktu eggi ofan á – það er æðislegt!!

beikonsulta1

beikonsulta2Verði ykkur að góðu!

Svínasíða Adobo elduð í þrýstisuðupotti

Pétur varð 31 árs núna fyrir stuttu og fékk forlátan þrýstisuðupott í afmælisgjöf. Til að vígja pottinn þurfti einhverja flotta og skemmtilega uppskrift og fyrir valinu varð filipseysk svínasíða (e. pork belly)

Fyrsta verkefnið var að finna gott stykki af svínasíðu. Við fengum flottan lífrænan grís hjá Cleavers í Torvehallerne (skyldustopp fyrir matarglaða gesti í Kaupmannahöfn). Stykkið var reyndar feitara en góðu hófi gengdi þannig það var ekkert annað en að skera hluta af hvíta gullinu af. Flotta stykkið sem við skárum af er í augnablikinu í ísskápnum vonandi að breytast í Lardo (mikil tilhlökkun!). Annar afskurður var hakkaður í matvinnsluvélinni og brætt á miðlungsheitri pönnu til að fá úrvals steikingarfeiti. En nóg um það og hér kemur uppskriftin.

porkbelly

Svínasíða Adobo
Fyrsta lota
  • rúmar 2 msk svínafeiti
  • 400 g laukur, smátt saxaður
  • 2 hvítlauksgeirar, smátt skornir
Önnur lota
  • 1 kg svínasíða, skorinn í 3x3cm teninga (má vera með skinni ef hún er ekki of feit)
  • 1,5 dl hrísgrjónaedik
  • 5 msk sojasósa
  • 1/2 dl fiskisósa
  • 40 g  sykur
  • 1 stjörnuanís
  • 15 svört piparkorn
  • 2 lárviðarlauf
Þriðja lota
  • 2 lárviðarlauf
  • 1 stjörnuanís
  • hrísgrjónaedik og svartur piðar eftir smekk

Gerið öll hráefnin klár áður en þið byrjið á matreiðslunni.

svinakjöt

Hitið feitina í miðlungsheitum potti og bætið laukunum út í. Steikið laukinn í 10 min. eða þar til hann er mjúkur og rétt byrjaður brúnaðast. Bætið síðan öllum hráefnum úr annarri lotu út í pottinn, blandið saman ásamt og hækkið hitan á pottinum. Setjið lokið á pottinn og náið upp þrýstingi. Þegar þrýstingnum er náð þarf að leyfa þessu að sjóða í 45 min.

Hleypið þrýstingnum af pottinum, opnið pottinn og veiðið kjötið varlega upp úr (það er mjög mjúkt). Látið soðið renna gegnum sigti og hendið „gumsinu“. Fleytið síðan fitu af soðinu. Setjið 2 dl af soði og kjötið á miðlungsheita pönnu og steikið í 15 min, eða þar til sósan er orðin vel klistruð og kjötið vel brúnað og dásamlegt. Á sama tíma hellið restinni af soðinu í pott ásamt hráefnum úr þriðju lotu og náið upp suðu. Takið af hitanum, leyfið að hvíla í 10 min. og látið síðan renna gegnum sigti.

Setjið kjötið í skál og hellið soðinu yfir. Við borðuðum kjötið með saffranhrísgrjónum og sultuðu fersku grænmeti.

porkbellyrettur

Svínakjötið var alveg ótrúlega gott, ólýsanleg umami upplifun!

Belgískar vöfflur með skinku og osti

Við hjónin vorum í dásamlegu fríi á Íslandi um páskana. Við fórum í fjallgöngur, lágum í heita pottinum á hverjum degi og borðuðum gómsætan mat með fjölskyldunni. Einn morgunninn gerðum við belgískar vöfflur sem við sáum í Bon Appetit fyrir u.þ.b. ári síðan og þær slógu svo sannarlega í gegn! Vöfflurnar eru svokallaðar Brussels vöfflur, þær eru stökkar að utan en léttar og loftkenndar að innan. Við settum síðan skinku og cheddar ost á vöfflurnar og það var ljúfengt.

belgiskarvöfflurogsirup

Belgískar vöfflur (12 stk)
  • 220 g hveiti
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 3 stór egg, eggjahvítur og eggjarauður í sitt hvoru lagi
  • 200 g brætt smjör
  • 225 ml ab-mjólk
  • 200 ml sódavatn
  • Góð skinka, skorin í bita
  • Cheddar ostur, rifinn

Setjið hveiti, sykur, lyftiduft, matarsódi og salt í skál. Stífþeytið eggjahvítur og geymið. Hrærið saman eggjarauður, brætt smjör, ab-mjólk og sódavatn í skál og blandið síðan við hveitiblönduna í nokkrum umferðum þar til deigið er fallega slétt. Setjið síðan eggjahvítur út í og blandið þessu vel saman.

belgiskar

vöfflur

Hitið vöfflujárnið og látið eina ausu af deigi í járnið (magn fer auðvitað eftir stærðinni á vöfflujárninu). Stráið u.þ.b. 1 msk af skinku og 1 msk af rifnum osti yfir deigið. Bakið þar til vafflan, osturinn og skinkan er stökk.

belgiskarvöfflur

Við borðuðum vöfflurnar með örlítið af smjöri og maple sírópi. Þvílíkt sælgæti!

Verði ykkur að góðu!

Egg Benedict og spínatbrauð

Á laugardaginn gerðum við Egg Benedict á spínatbrauði en við fengum hugmyndina hjá The Fabulous Baker Brothers, sjónvarpsþættir sem er verið að sýna núna á föstudögum hérna í DK. Spínatbrauðið (e. spinach muffin) kom skemmtilega á óvart, það var einfalt og ofboðslega bragðgott, en hleypt egg og góð hollandaise sósa stendur svo sannarlega alltaf fyrir sínu!

eggbenedictspinat

Spínatbrauð 4 stk
  • 15 g smjör
  • 1 tsk sykur
  • 1 1/2 dl mjólk
  • 5 g ferskt pressuger
  • u.þ.b. 100 g ferskt spínat
  • múskat eftir smekk
  • 225 g hveiti
  • salt eftir smekk

Bræðið smjör og sykur í potti, hellið mjólkinni út í og síðan geri. Hærið vel. Setjið spínat út í heitu mjólkina, múskat og salt eftir smekk og takið af hitanum. Látið hveiti í hræriskál og hellið mjólkinni með spínatinu út í hveitið. Hnoðið deigið í 10 min á frekar hægum hraða. Deigið verður eiturgrænt og fallegt! Látið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að lyftast í 30 min á hlýjum stað.

deigid

Stráið hveiti yfir deigið og fletjið það örlítið út svo það verði um 1 cm á þykkt. Notið lítið hringform til þess að stinga út 4 brauð. Eldið brauðin á þurri pönnu í 5 min á hvorri hlið og leyfið þeim síðan að kólna örlítið.

spinatbollur

Hollandaise sósa
  • 125 g smjör
  • 1/2 tsk hvítvínsedik
  • 1 eggjarauða
  • salt og pipar eftir smekk
  • smá sítrónusafi

Bræðið smjör í potti. Setjið eggjarauðu, edik og salt í skál og hitið yfir vatnsbaði og þeytið eggjarauðurnar þar til blandan þykknar. Hellið nú smjörinu út í eggjablönduna í mjórri bunu og þeytið vel á meðan. Salt og pipar ásamt sítrónusafa eftir smekk og þá er hollandaise sósan tilbúin.

Rífið (eða skerið) spínatbrauðin í tvennt. Setjið góða skinku ofan á brauðið, síðan hleypt egg og hollandaise sósu á eggið. Verði ykkur að góðu!

Mexíkósk veisla

Eins og áður hefur komið fram og lesa má af þessu bloggi þá finnst okkur mjög gaman af mat – hvort sem það er að elda hann, borða, skrifa um eða lesa sér til um mat en síðan horfum við líka á mismunandi matreiðsluþætti. Á einni sjónvarpsstöðinni hérna í DK er verið að sýna 3. seríu af ástralska Masterchef – þættir sem eru virkilega skemmtilegir og ofboðslega jákvæðir. Þar er sko enginn Gordan Ramsay öskrandi á fólk.

Einn af keppundum í þáttunum hefur mikið dálæti af mexíkóskri matargerð og hefur galdrað fram marga mjög girnilega rétti. Með þessi rétti sem innblástur ákváðum við að gera okkar eigin mexíkóska veislu hérna heima sem tókst barasta svona ljómandi vel.

Stjörnurnar í þessari máltíð eru svínakjötið og heimagerðu mexíkönsku flatkökurnar en það óvænta var hins vegar hversu vel sultaði rauðlaukurinn náði að fullkomna samsetninguna af þessu hráefnum.

taco
Hægeldaður svínahnakki (e. pulled pork)
  • 2 þurrkaðir ancho chillí
  • 2 þurrkaðir de árbol chillí
  • 2 msk sykur
  • 1 msk limesafi
  • 1,5 kg svínahnakki
  • duglega af salti
  • 2 msk olíu
  • 2 miðlungs laukar
  • 3 hvílauksgeira
  • 2 lárviðarlauf
  • 2 tsk oreganó
  • 2 tsk kóríander
  • 2 tsk cuminduft
  • 1/2 tsk allspice
  • flaska af dökkum bjór

Hellið sjóðandi heitu vatni yfir þessar tvær tegundir af chillí og leyfið að liggja í bleyti í 30 min. Passið að vatnið þeki vel, t.d. með því að þrysta chillí niður með skál. Saltið svínahnakkann duglega á meðan.

Takið chillí upp úr vatninu en geymið 1/2 dl af vatninu. Setjið chillí, limesafa og sykur í matvinnsluvél og maukið vel. Berið mauk á svínahnakkann og leyfið að standa í a.m.k. klukkustund. Best er þó að leyfa þessu að standa í kæli yfir nótt.

Saxið lauk og hvítlauk og hitið olíu á pönnu. Steikið lauk og krydd í olíunni þar til laukurinn er orðinn vel mjúkur, u.þ.b. 10 min. Hellið nú bjór yfir laukinn á pönnunni og náið upp suðu. Setjið svínahnakka út í, látið lok á pönnuna og náið aftur upp suðu. Færið pönnuna inn í 115 °C heitan ofn og bakið í 4 1/2 – 6 klukkutíma, eða þar til kjarnhiti svínsins er 91 °C.

Þegar svínahnakkinn er tilbúinn leyfið honum þá að standa við stofuhita í 30 min. Færið kjötið yfir í fat og notið tvo gaffla til þess að rífa kjötið niður. Hellið sósuna af pönnunni út í kjötið þar til kjötið er vel safaríkt.

Mexíkóskar flatkökur
  • 250 g masa harina hveiti (maíshveiti)
  • 330 ml heitt vatn
  • smá salt

Hveiti og salt í skál og hellið heitu vatni út í. Hrærið vel, setjið plast yfir og leyfið deiginu að standa í 15 min. Mótið litlar kúlur úr deiginu og fletjið í tortillupressu eða með kökukefli á milli tveggja arka af bökunarpappír (eða plastpoka). Deigið er mjög viðkvæmt og það er ekki hægt að snerta það mikið. Penslið með smá olíu og steikið á heitri pönnu í 1-2 min á hverri hlið.

Sultaður rauðlaukur
  • 1 dl eplaedik
  • 1 msk sykur
  • 1 1/2 tsk salt
  • 1 rauðlaukur, þunnt skorinn

Eplaedik, sykur og salt í skál og hrærið vel svo sykur og salt leysist vel upp í vökvanum. Setjið rauðlauk ofan í vökvann og leyfið að standa í klukkustund við stofuhita áður en laukurinn er borinn fram. Þá á laukurinn að vera orðinn fallega bleikur á litinn. Það er vel hægt að gera laukinn fyrr og geyma hann í kæli.

Guacamole með fersku kóríander
  • 2 avókadó, vel þroskuð
  • ferskur kóríander eftir smekk
  • salt eftir smekk
  • limesafi eftir smekk

Skerið avókadóin í tvennt, takið steininn úr og fjarlægið hýðið. Skerið ávaxtakjötið í nokkra bita og setjið í matvinnsluvél (eða töfrasprota) ásamt kóríender og maukið vel. Salt og limesafi eftir smekk.

Ferskt tómatsalsa
  • 1/2 laukur, skorinn þunnt og í litla bita
  • u.þ.b. 500 g tómatar, skornir í litla bita
  • ferskur kóríander eftir smekk, saxaður
  • salt eftir smekk

Skerið laukinn og hellið síðan örlítið af sjóðandi vatni fyrir hann. Það tekur sterka laukbragðið af lauknum. Látið vatn renna af lauknum og setjið hann síðan í skál ásamt tómötum, kóríander og salt eftir smekk. Hrærið vel.

Síðan er bara að raða smá af svínahnakka á flatköku (einnig er gott að setja smá af osti neðst), guacamole, tómatsalsa og sultaður rauðlaukur með. Ferskur limesafi eftir smekk og rétturinn er fullkominn!

tacos

Grilluð Svínarif

Fyrir ekki svo löngu síðan fórum við okkar fyrstu heimsókn á Jægerborgsgötu en í þeirri götu er heill hellingur af skemmtilegum búðum og matsölustöðum. Ein af búðunum er kjötverslun sem bóndi hér á Sjálandi er með. Búðin er bara opin 3 daga í viku en þar selur bóndinn svínakjöt frá eigin býli og kjúkling, nauta- og kálfakjöt frá nærliggjandi bæjum. Við keyptum alveg ótrúlega flott „baby back“ svínaríf og notuðum eina alveg skothelda aðferð til að gera súper djúsí rif.

Matreiðslan er í tveimum stigum þar sem rifin er fyrst bökuð og síðan grilluð. Best er að láta dag líða á milli því þá nær bragðið að þroskast betur. Einnig er auðveldara að grilla rifin þegar maður leyfir þeim að kólna fyrst – að öðrum kosti er hætta á að þau detti bara í sundur á grillinu þar sem þau eru einfaldlega það djúsí!

Svínarif

Dagur 1

Byrjum á að setja kryddblöndu yfir rifin (eftirfarandi hlutföll miðað við 1,5kg af svínarifjum)

  • 1 msk. salt
  • 1/2 msk. sinnepsduft
  • 1/2 msk. paprika
  • 1/4 tsk. cayenne pipar
  • 1/4 tsk. nýmalaður svartur pipar

Hverju rifi er pakkað í álpappír og síðan bökuð við 180°c í ofni í 2 klukkustundir. Rifin eru þá u.þ.b. við það að detta í sundur! Nú þarf að opna hvern álpappírspakka með rifi og hella soðinu sem rifið liggur í í bolla (Þetta er vonandi 1 1/2 dl af soði). Geymið soðið! Rifin eru aftur pökkuð í álpappír og sett í kæli.

Dagur 2

Fyrst er undirbúa BBQ sósuna. Hitið soðið frá því í gær í litlum potti og látið 1 1/2 dl. af uppáhalds BBQ sósunni þinni út í. 2/3 af sósunni er notuð til þess að pensla rifin en 1/3 af henni er borin fram með rifjunum eftir grillun (geymið því 1/3 af sósunni).

Rifin eru grilluð á miðlungs heitu grilli, pensluð með sósunni, lítið í einu. Snúið þeim reglulega þar sem þau brenna auðveldlega út af sósunni. Það tekur u.þ.b. 10 min. að hita rifin alveg í gegn.

Rifin eru nú tilbúin og borin fram með 1/3 af sósunni og góðu meðlæti, t.d. maís og ferskt salat.

Verði ykkur að góðu!

Beikonvafin svínalund með plómuchutneyi

Nýtt blað af „Verði þér að góðu“ kom í hús um daginn. Í blaðinu er mikið fjallað um ávexti og grænmeti árstíðarinnar en núna er tíminn fyrir steinaldin hér í DK og því völdum við eitt kvöldið að elda bæði aðal- og eftirrétt með plómum.

Aðalrétturinn:

Aðalrétturinn var beikonvafin svínalund. Hér er um mjög einfalda matreiðslu að ræða en fyrst er svínalundin himnu-hreinsuð og sett í fat. Síðan er hún smurð með kryddjurtablöndu og loks vafinn í panchettu (panchetta er ítalskt óreykt beikon sem er mjög þunnt skorið). Kryddjurtablandan samanstendur af: 2 tsk ólífu olíu, 1 msk skorinn ferskt rósmarín og 2 tsk herbes de Provence (blanda af ítölskum grænkryddum). Síðan er svínalundin vafin með sláturgarni þannig að beikonið haldist á sínum stað.

Grillið svínalundina fyrstu 8 mín á háum hita og færið síðan yfir á lægri hita og leyfið henni að klára sig þannig u.þ.b. 15 mín eða þanngað til hún er kominn í 61°C í kjarnhita. Svo þarf að leyfa svínalundinni að standa vel, allveg 10 mín áður en hún er skorinn í þunnar sniðar (munið samt að taka spottan af áður)

Chutney
  • 4 plómur
  • 1 msk ólífu olía
  • 1 shallotlaukur, sneiddur á lengdina
  • 1 dl púðursykur
  • 1/2 dl epla edik
  • 1/2 dl vatn
  • 1 msk saxaðu hvítlaukur
  • 1 msk sinnepsfræ
  • 2 tsk rifinn engifer
  • 1/2 tsk malaður svartur pipar
  • 1 lárviðarlauf
  • salt eftir smekk

Aðferð: Afhýðið(*) plómurnar og skerið í 1 cm sneiðar. Setjið olíu í 3l pott og hitið á miðlungs hita. Mýkið laukinn í pottinum en það tekur um sirka 2 mín. Setjið síðan öll hráfni nema plómur út í og eldið í aðrar 2 mín. Því næst er plómum bætt út í og lok sett yfir pottinn og þessu leyft að krauma í 8 mín. Hrærið öðru hvoru. Takið lokið af og haldið áfram að elda á sama hita í 20-25 mín þar til plómur eru orðnar mjúkar og sósan orðin þykk.

Með svínalundinni og chutneyinu bárum við fram grillað grænmeti.

(*) Til að afhýða plómur og önnur steinaldin er eftirfarandi aðferð mjög góð. Skerið 2 cm djúpan kross í botninn á ávextinum og látið í sjóðandi vatn í tæpa mínútu. Færið síðan strax í kalt vatn og þá á skinnið að fara auðveldlega af.

Vetur í Kaupmannahöfn

Veturinn kom til Kaupmannahafnar í síðustu viku og um helgina kom svo fyrsti snjórinn. Á sunnudaginn fórum við snemma á fætur, klæddum okkur vel og skelltum okkur í hjólaferð í Øbro-hallen (Østerbro svømmehal) en þar komumst við í heitan pott og góða gufu.

Í kuldanum og snjónum var alveg upplagt að elda eitthvað vetrarlegt, þ.e. eldað í hægum takti. Á leiðinni heim stoppuðum við í Torvehallerne og keyptum þessar fínu svínakinnar sem við hægelduðum í dökku öli (dark ale) í nýja Le Creuset pottinum okkar sem við fengum í brúðkaupsgjöf frá Deloitte. Með svínakinnunum höfðum við hvítlaukskartöflumús eftir hana Julia Child og ferskt salat. Uppskriftin að svínakinnunum var fengin úr bókinni hans Claus Meyers, Almanak, sem er í miklu uppáhaldi þessa stundina. Hráefni í réttin eru: 500 gr. svínakinnar, ½ gulrót (eða ein lítil), ½ laukur, 1 hvítlauksgeiri, 3 greinar ferskt timjan, 1 dl. dökkt öl (dark ale), salt og pipar, 500 ml. kjúklingasoð, 5 gr. smjör og 1 msk. edik.

Kinnarnar eru snyrtar eins og til þarf og síðan brúnaðar í pottinum og grænmetið skorið niður. Grænmetið er síðan sett út í pottinn og brúnað í smá stund. Svo timjan, bjór og salt og pipar og það soðið niður um helming. Loks er soðinu bætt út í og herlegheitin sett í 150 °C heitan ofn og leyft að malla þar í 1 ½ – 2 tíma, eða þar til kinnarnar næstum því detta í sundur! Kinnarnar eru veiddar upp úr soðinu og það sigtað og soðið niður þangað til það er orðið hálf klístrað og síðan smakkað til með smjéri og ediki.

Hér má sjá myndir af þessu öllu saman:

Hráefni

Kinnar, dark ale og grænmeti

Rétturinn tilbúinn!

Kveðjum við í bili með ódauðlegum orðum Juliu Child, Bon appétit!