Svínasíða Adobo elduð í þrýstisuðupotti

Pétur varð 31 árs núna fyrir stuttu og fékk forlátan þrýstisuðupott í afmælisgjöf. Til að vígja pottinn þurfti einhverja flotta og skemmtilega uppskrift og fyrir valinu varð filipseysk svínasíða (e. pork belly)

Fyrsta verkefnið var að finna gott stykki af svínasíðu. Við fengum flottan lífrænan grís hjá Cleavers í Torvehallerne (skyldustopp fyrir matarglaða gesti í Kaupmannahöfn). Stykkið var reyndar feitara en góðu hófi gengdi þannig það var ekkert annað en að skera hluta af hvíta gullinu af. Flotta stykkið sem við skárum af er í augnablikinu í ísskápnum vonandi að breytast í Lardo (mikil tilhlökkun!). Annar afskurður var hakkaður í matvinnsluvélinni og brætt á miðlungsheitri pönnu til að fá úrvals steikingarfeiti. En nóg um það og hér kemur uppskriftin.

porkbelly

Svínasíða Adobo
Fyrsta lota
  • rúmar 2 msk svínafeiti
  • 400 g laukur, smátt saxaður
  • 2 hvítlauksgeirar, smátt skornir
Önnur lota
  • 1 kg svínasíða, skorinn í 3x3cm teninga (má vera með skinni ef hún er ekki of feit)
  • 1,5 dl hrísgrjónaedik
  • 5 msk sojasósa
  • 1/2 dl fiskisósa
  • 40 g  sykur
  • 1 stjörnuanís
  • 15 svört piparkorn
  • 2 lárviðarlauf
Þriðja lota
  • 2 lárviðarlauf
  • 1 stjörnuanís
  • hrísgrjónaedik og svartur piðar eftir smekk

Gerið öll hráefnin klár áður en þið byrjið á matreiðslunni.

svinakjöt

Hitið feitina í miðlungsheitum potti og bætið laukunum út í. Steikið laukinn í 10 min. eða þar til hann er mjúkur og rétt byrjaður brúnaðast. Bætið síðan öllum hráefnum úr annarri lotu út í pottinn, blandið saman ásamt og hækkið hitan á pottinum. Setjið lokið á pottinn og náið upp þrýstingi. Þegar þrýstingnum er náð þarf að leyfa þessu að sjóða í 45 min.

Hleypið þrýstingnum af pottinum, opnið pottinn og veiðið kjötið varlega upp úr (það er mjög mjúkt). Látið soðið renna gegnum sigti og hendið „gumsinu“. Fleytið síðan fitu af soðinu. Setjið 2 dl af soði og kjötið á miðlungsheita pönnu og steikið í 15 min, eða þar til sósan er orðin vel klistruð og kjötið vel brúnað og dásamlegt. Á sama tíma hellið restinni af soðinu í pott ásamt hráefnum úr þriðju lotu og náið upp suðu. Takið af hitanum, leyfið að hvíla í 10 min. og látið síðan renna gegnum sigti.

Setjið kjötið í skál og hellið soðinu yfir. Við borðuðum kjötið með saffranhrísgrjónum og sultuðu fersku grænmeti.

porkbellyrettur

Svínakjötið var alveg ótrúlega gott, ólýsanleg umami upplifun!