Fyrir þónokkru rákumst við á uppskrift af beikonsultu og hugsuðum með okkur að þetta þyrftum við að prófa. Hvaða tilefni er betri en að leyfa sér svona sælgæti en um jólin?
Það eru til margar útfærslur af beikonsultum. Okkar sulta varð frekar sæt og við vorum virkilega sátt með hana (sem og þeir sem fengu beikonsultu í jólagjöf!) en í næstu tilraun verður prófuð beiskari útgáfa þar sem notað er minna af sykri og síðan er sett sterkt kaffi út í hana líka.
Beikonsulta
- 500 g þykkt beikon
- 2 laukar, sneiddir þunnt
- 1 dl hlynsíróp
- 1 dl vatn
- 3 msk balsamik edik
- 2 msk dijon sinnep
- 2 tsk Worcestershire sósa
- salt og pipar eftir smekk
Skerið niður beikon í 1 cm strimla og steikið í góðum þykkbotna potti við miðlungs háan hita í 15-20 min., eða þar til beikonið er að verða stökkt. Hellið helmingnum af fitunni úr pottinum (það má geyma fituna og nota í eitthvað annað). Setjið lauk út í pottinn og steikið í 10 min., eða þar til hann er orðinn vel mjúkur. Látið síróp, vatn, balsamik edik, sinnep og Worcestershire sósu út í og náið upp suðu. Salt og pipar eftir smekk og látið síðan malla í tæpan klukkutíma. Áferðin á sultunni á þá að vera orðin klístuð. Leyfið sultunni að kólna örlítið og komið síðan fyrir í matvinnsluvél. Maukið þar til ásættanleg áferð er náð og hellið sultunni í krukkur.
Sultan geymist vel í kæli í mánuð en þegar hún er borin fram þarf að leyfa henni að ná stofuhita fyrst (eða setja hana á heitt brauð). Setjið beikonsultu á gott brauð eða vöfflur og skellið jafnvel steiktu eggi ofan á – það er æðislegt!!