Beikonsulta

Fyrir þónokkru rákumst við á uppskrift af beikonsultu og hugsuðum með okkur að þetta þyrftum við að prófa. Hvaða tilefni er betri en að leyfa sér svona sælgæti en um jólin?

beikonegg

Það eru til margar útfærslur af beikonsultum. Okkar sulta varð frekar sæt og við vorum virkilega sátt með hana (sem og þeir sem fengu beikonsultu í jólagjöf!) en í næstu tilraun verður prófuð beiskari útgáfa þar sem notað er minna af sykri og síðan er sett sterkt kaffi út í hana líka.

Beikonsulta
  • 500 g þykkt beikon
  • 2 laukar, sneiddir þunnt
  • 1 dl hlynsíróp
  • 1 dl vatn
  • 3 msk balsamik edik
  • 2 msk dijon sinnep
  • 2 tsk Worcestershire sósa
  • salt og pipar eftir smekk

Skerið niður beikon í 1 cm strimla og steikið í góðum þykkbotna potti við miðlungs háan hita í 15-20 min., eða þar til beikonið er að verða stökkt. Hellið helmingnum af fitunni úr pottinum (það má geyma fituna og nota í eitthvað annað). Setjið lauk út í pottinn og steikið í 10 min., eða þar til hann er orðinn vel mjúkur. Látið síróp, vatn, balsamik edik, sinnep og Worcestershire sósu út í og náið upp suðu. Salt og pipar eftir smekk og látið síðan malla í tæpan klukkutíma. Áferðin á sultunni á þá að vera orðin klístuð. Leyfið sultunni að kólna örlítið og komið síðan fyrir í matvinnsluvél. Maukið þar til ásættanleg áferð er náð og hellið sultunni í krukkur.

beikon1

laukurogbeikon

Sultan geymist vel í kæli í mánuð en þegar hún er borin fram þarf að leyfa henni að ná stofuhita fyrst (eða setja hana á heitt brauð). Setjið beikonsultu á gott brauð eða vöfflur og skellið jafnvel steiktu eggi ofan á – það er æðislegt!!

beikonsulta1

beikonsulta2Verði ykkur að góðu!

Bleikir marengstoppar með piparmyntu

Fyrir jólin bökum við nokkrar tegundir af smákökum sem okkur finnst góðar. Hér er ein tegund sem við höfum gert undanfarin ár; bleikir marengstoppar með piparmyntubragði. Uppskriftin er frekar einföld og marengstopparnir geymast vel (ef maður borðar þá ekki strax). Síðan eru þeir líka alveg hrikalega krúttlegir á kökudisknum í desember!

marengstoppar3

Bleikir marengstoppar (u.þ.b. 30 stk)

  • 2 stórar eggjahvítur við stofuhita
  • smá salt
  • 60 g sykur
  • 60 g flórsykur
  • 1/2 tsk piparmyntudropar frá Kötlu
  • u.þ.b. 1 tsk rauður matarlitur

Hitið ofninn í 100 °C án blásturs og setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur. Þeytið eggjahvítur og salt þar til eggjahvíturnar eru loftkenndar (u.þ.b. 1 min). Látið sykur (ekki flórsykur) út í í 3 skömmtum og haldið áfram að þeyta þar til mjúkir toppar myndast í marengsinum. Setjið þá flórsykur og piparmyntudropa út í marengsinn og þeytið örlítið til þess að blanda þessu vel saman. Látið að lokum matarlit í margensinn en hrærið eins lítið og hægt er – liturinn dreifist í sprautupokanum.

marengs

marengslitadur

Setjið marengs í sprautupoka og sprautið litla marengstoppa á bökunarplöturnar. Bakið í u.þ.b. 2 klukkutíma, eða þar til marengstopparnir eru orðnir þurrir og léttir. Leyfið að kólna og njótið síðan.

marengstoppar1

marengstoppar2

marengstoppar4

Verði ykkur að góðu!

Stökkar vöfflur með geri

Það er liðinn alltof langur tími síðan við blogguðum síðast. Nóvembermánuður hefur liðið hratt en við fluttum loksins í íbúðina okkar í byrjun nóvember og síðustu vikurnar hafa farið í að koma okkur almennilega fyrir. Það hefur ekki verið mikill tími til þess að eyða miklum tíma í eldhúsinu undanfarið og enn minna verið um myndatöku af mat.

Um helgina tókum við okkur þó dágóða stund við morgunverðinn og gerðum ljúffengar stökkar vöfflur sem við sáum í Bon Appetit. Vöfflurnar eru ekki eins og hefðbundnu íslensku vöfflurnar; vöffludeigið er gert 8-12 tímum áður en vöfflurnar eru bakaðar og deigið inniheldur ger og brúnað smjör. Vöfflurnar eru ekki sætar og okkur fannst þær því ótrúlega góðar með skinku og osti. Gerið í deiginu gerir það að verkum að vöfflurnar eru einstaklega léttar og stökkar að utan og eru bestar nýbakaðar.

vöfflur1

Stökkar vöfflur með geri

  • 170 g smjör
  • 500 ml mjólk, volg
  • 125 ml súrmjólk
  • 2 msk sykur
  • 20 g ferskt pressuger
  • 1 1/4 tsk salt
  • 350 g hveiti
  • 2 stór egg
  • 1/4 tsk matarsódi

voffludeig

vöfflur2

Bræðið smjör í potti og látið það verða örlítið brúnt. Látið síðan kólna í smá stund. Mjólk, súrmjólk, sykur, ger og salt í skál og hrærið vel. Hellið síðan hveiti og smjörinu út í og hrærið þar til deigið er jafnt. Setjið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa við stofuhita í 8-12 klukkutíma (Það er kjörið að búa til deigið kvöldið áður og baka síðan vöfflur um morguninn eftir).

Hitið vöfflujárnið. Hrærið egg og matarsóda í deigið og bakið vöfflurnar í heitu vöfflujárninu. Berið fram strax með góðu áleggi.

 

voffluhjarta

Verði ykkur að góðu!

Panang karrí kjúklingur

Um daginn kom yfir okkur alveg svakaleg löngun í einhvern góðan taílenskan rétt enda gott að fá smá hita í sig þegar hitin úti er byrjaður að mælast í bláum tölum.

Þá fór smá rannsóknarvinna af stað og fundum við meðal annars þetta fína taí blog. Þar fengum við fullt af hugmyndum sem var frábært því allar matreiðslubækurnar eru enn í geymslu með restinni af búslóðinni okkar.

Við ákváðum að elda þennan dásamlega og einfalda panang karrí kjúkling og vorum mjög sátt.

panaengkjuklingur

Þegar við höfum eldað taílenskan mat höfum við bæði prófað að búa til okkar eigið karrí mauk (e. curry paste) og að kaupa það tilbúið. Reynslan okkar er sú að ef maður er svo heppinn að finna öll þau hráefni sem eiga vera í maukinu þá getur það verið virkilega gott ásamt því að það er mjög gaman að sjá og fá tilfinningu fyrir hráefnunum í karríinu. Tilbúið karrí mauk er hins vegar alls ekki síðra! Það er margfalt fljótlegra að nota tilbúið mauk, það geymist vel í ísskápnum og svo er það töluvert ódýrara en að kaupa öll hráefnin sjálf. Við notuðum því tilbúið karrí mauk í þetta skiptið.

Panang Karrí kjúklingur
  • 1,2 kg beinlaus kjúklingur skorinn niður í munnbita (við keyptum 2 hæfilega litla kjúklinga og úrbeinuðum – bringurnar og lærin voru notuð og svo eigum við leggi í frystinum)
  • 400 gr kartöflur, afhýddar og skornar í munnbita
  • 1 dl Panang karrí mauk
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4 msk ósætt hnetusmjör (t.d. Himneskt gróft hnetusmjör)
  • 2-3 stk jalapeno chilí, skorið niður í þunna strimla
  • 6 kaffir lime laufblöð, frosin eða þurrkuð.
  • 1/2 dl fiskisósa
  • 2 msk pálmasykur (eða púðursykur)

Byrjið á því að steikja karríið og þykka partinn af kókosmjólkinni (það sem er efst í dósinni) á pönnu. Hrærið duglega saman þar til kókosmjólkin byrjar að skilja sig leyfið þá að malla í smá stund.

Hækkið hitann, bætið kjúklingi úti og steikið í smá stund. Bætið því næst restinni af kókosmjólkinni (kókosvatninu) útí ásamt nóg af vatni svo fljóti yfir kjúklinginn. Setjið fiskisósuna og sykurinn úti og náið upp suðu. Bætið kaffir laufum út í. Um leið og suðan er komin lækkið þá hitann og leyfið þessu að malla í sirka 30 mínútúr (þá á kjúklingurinn að vera fulleldaður).

Látið hnetusmjör og chilí í réttinn og hrærið vel. Ef sósan er mjög þunn er gott að þykkja hana með því að sjóða örlítið niður eða bæta smá sósujafnara í sósuna. Fiskisósa og sykur eftir smekk. Berið fram með nóg af hrísgrjónum.

panaeng

Verið ykkur að góðu!

Rifsberjabaka með óbökuðum marengs

Eitt af haustverkunum í ár var að tína ber af berjarunnum. Rifsberjarunninn hjá mömmu (Péturs) var svo öflugur í ár að þegar búið var að sulta í ársskammt af risfberjahlaupi voru enn töluvert af berjum eftir á runnanum.

rifsberljos

Rifsberjahlaup er alltaf gott en okkur langaði samt að prófa eitthvað nýtt, gera eitthvað annað gómsætt úr berjunum. Eftir nokkra leit suðum við saman þessa uppskrift – ljúffeng og falleg rifsberjabaka með óbökuðum marengs. Við munum klárlega endurtaka leikinn næsta haust!

skorin

Botn (20-22 cm form)

  • 90 g mjúkt smjör
  • 50 g sykur
  • smá salt
  • korn úr 1 vanillustöng
  • 1 egg
  • 20 g möndlumjöl (malaðar möndlur)
  • 160 g hveiti

Látið smjör, sykur, salt og vanillubaunir í skál og hrærið vel saman. Setjið egg út í smjörblönduna og hrærið. Blandið saman hveiti og möndlumjöli. Látið út í smjör- og eggjablönduna og hnoðið þar til deigið helst saman. Látið plast utan um deigið, fletjið örlítið með höndunum og látið inn í kæli í a.m.k. klukkustund.

botn

Fletjið deigið út svo það passi í bökuformið (best að nota form með lausan botn því þá losnar bakan auðveldlega úr forminu). Komið deiginu fyrir í forminu og gatið á nokkrum stöðum með gaffli. Setjið bökunarpappír á botninn og fyllið með þurrkuðum baunum eða leirkúlum. Bakið botninn svona í 10 min, fjarlægið síðan baunirnar/leirkúlurnar og bökunarpappírinn og bakið áfram í ca. 10 min, eða þar til botninn hefur tekið lit.

rifsberskal

Rifsberjafylling

  • 300 g fersk eða frosin rifsber
  • 90 g sykur
  • 3 egg
  • 3/4 dl rjómi

Skolið berin vel (ef þau eru fersk) og látið í pott. Sjóðið þar til berin í nokkrar min. og notið sleifu til þess að merja berin á meðan svo saftið kreistist úr þeim. Látið saft renna í gegnum sigti og notið sleif til þess að kreista úr hratinu. Úr rifsberjunum fáið þið u.þ.b. 160 g rifsberjasaft.

rifsbersodin

Sykur og egg í skál og hrærið saman (ekki þeyta því þá myndast loftbólur í fyllingunni). Látið 130 g (geymið rest fyrir marengsinn) rifsberjasaft út í og hrærið vel. Bætið við rjóma að lokum og hrærið þar til blandan er jöfn. Hellið í bökubotninn og bakið við 120°C við blástur í u.þ.b. 30 min, eða þar til fyllinginn er orðin föst. Leyfið að kólna.

botnmedfyllingu

Bleikur marengs

  • 3 eggjahvítur
  • 180 g sykur
  • Restin af rifsberjasaftinu

Eggjahvítur og u.þ.b. 60 g sykur í skál og þeytið. Bætið sykur út í hægt á meðan og síðan rifsberjasaftinu. Þeytið þar til marengsinn er orðin vel stífur.

rifsberjabaka

Sprautið marengs á rifsberjabökuna þegar hún er orðin alveg köld. Notið brennara (e. flamer) til þess að brenna marengsinn örlítið (má sleppa) og berið síðan fram.

rifsberjabakaskorin

Verði ykkur að góðu!

Grilluð flank steik og chimichurri

Annar mikill kostur við það að vera komin aftur heim til Íslands er að komast í mat beint frá býli. Einn af þeim bóndum sem við höfum heimsótt oft er hann Doddi í Matarbúrinu en Doddi selur frábært nautakjöt og er með flott úrval af vöðvum.

Í síðustu heimsókn okkar til Dodda keyptum við Flank steik sem er úr síðunni á nautinu. Kjötið er grófara og bragðmeira en hinir svokölluðu „prime cuts“ en á sama tíma líka töluvert ódýrari.

steikagrillinu

Við ákváðum að grilla kjötið en til að það takist vel þarf að gera tvennt; marinera kjötið (til að brjóta niður vöðvann) og elda það við háan hita.

Marineringin: Við skárum steikina niður í smærri bita til að hafa hana meðfærilegri á grillinu. Síðan settum við kjötið í marineringu. Marineringin er tælensk fiskisósa og smá pipar. Piprið kjötið og komið fyrir í fati. Hellið fiskisósu yfir þannig rétt fljóti yfir kjötið. Látið inn í ísskáp og leyfið því að vera þar í tæpan sólahring. Marinering gerir kjötið bæði meyrara ásamt því að dýpka bragðið af kjötinu.

grillhiti

Hár hiti: Kjötið á að grilla á eins háum hita og hægt er og þá örstutt (steikurnar sem við vorum með fengu 2 og hálfa mínútu á hverri hlið). Þannig verður það stötkt að utan , medium rare inn við miðju og mjög meyrt. Til að ná sem hæstum hita á grillinu prófaði ég að nota ný viðarkol frá Weber. Með viðarkolunum ásamt því að vera duglegur að blása á grillið náðum við hitanum upp í góðar 350°c og það var kjörið hitastig fyrir þessa tilraun. Þegar búið er að grilla kjötið þarf að leyfa því að hvíla í sirka 5-10 min. Loks er það skorið niður í þunnar sneiðar og þá er mjög mikilvægt að skera þvert á vöðvaþræðina!

steikoskorin

steiktilbuin

Með kjötinu grilluðum við grænmeti og gerðum chimichurri sósu (það gleymdist alveg að taka mynd af sósunni!). Sósan kemur frá Argentínu og nota þeir hana mikið með steikum og passaði hún alveg ljómandi með flank steikinni. Það er mjög auðvelt að leika sér með mismunandi hráefni í sósuna en uppistaða sósunnar er steinselja, olífuolía, einshvers konar sýra (t.d. edik eða sítróna) og hvítlaukur.

maisoglaukur

Auðveld chimichurri

  • Eitt búnt af steinselju
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2-3 msk af olífuolíu
  • sítrónusafi eftir smekk
  • salt og pipar eftir smekk

Saxið steinselju og hvítlauku smátt og blandið saman. Hellið olíunni út í og hrærið mjög vel. Magn olíu fer eftir því hvernig steinseljan er og hversu fljótandi þið viljið sósuna. Sósan er síðan smökkuð til með sítrónusafa og salt og pipar. Góðar viðbætur út í sósuna er t.d. ferskt oreganó, chilí flögur, rauðvínsedik og shallotlaukur.

Kjötið var algjört lostæti og eldunin fljótleg og einföld – sannkallaður skyndibiti. Afgangarnir eru síðan frábærir í steikarsamloku daginn eftir!

Bláberjamúffur

Tveir mánuðir eru liðnir frá því að við blogguðum síðast. Haustið er komið og þótt ekkert hafi verið bloggað þá höfum við nú ekki setið á hakanum. Í sumar ferðuðumst við um Frakkland. Við borðuðum dásamlegan mat og drukkum æðisleg vín – við munum blogga um þetta allt saman við tækifæri en óhætt er þó að segja að þar hafi margar góðar hugmyndir kviknað og verða vonandi framkvæmdar sem fyrst.

Við erum flutt aftur heim til Íslands og höfum notið sumarsins vel. Íslenskt grænmeti, ferskur fiskur og ekki gleyma ófáum nóttum i tjaldinu góða í íslenskri náttúru – það er gott að vera komin heim.

Eitt af því sem við vorum spenntust fyrir við íslenska sumarið í ár var að komast í berjamó. Í ferðalögum okkar um allt land í sumar vorum við stöðugt með augun opin fyrir berjum en berjasprettan fór seint af stað og við tíndum því engin ber.

Síðustu helgi vorum við þó staðráðin í að fara í berjamó þrátt fyrir lélega veðurspá og fréttir um að nánast engin ber væri að finna í ár. Við klæddum okkur vel, tókum með okkur nesti og keyrðum út úr bænum í leit að einhverjum berjum.

Veðrið reynist mun betri en við áttum von á og við fyrstu tilraun fundum við góðan slatta af fallegum aðalbláberjum og fullt af krækiberjum. 3 klukkustundum síðar vorum við komin með 1,5 kg af aðalbláberjum og 2,6 kg af krækiberjum og vorum verulega sátt.

adalblaber

berjamo

Aðalbláberin eiga fara í sultu og bláberjaleður en úr krækiberjunum munum við búa til krækiberjasaft. Á sunnudaginn gerðum við þessar ljúffengu bláberjamúffur með bláberja ostakremi. Uppskriftin er frá Agnes Cupcakes og er mjög einföld. Múffurnar eru ótrúlega mjúkar og bragðgóðar!

blaberjamuffins

Bláberjamúffur (12 múffur)

  • 250 g hveiti
  • 250 g hrásykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • 250 g smjör, brætt
  • 4 egg
  • korn úr 1 vanillustöng
  • 1 dl nýmjólk
  • 1 msk appelsínusafi
  • 2 tsk rifinn appelsínubörkur
  • u.þ.b. 80 g bláber

Látið hveiti, hrásykur, lyftiduft og salt í skál og blandið saman. Mjólk, smjör, appelsínusafi, vanilla og appelsínubörkur í aðra skál og hrærið síðan eggjum út í. Hellið vökva hægt út í hveitiblönduna og hrærið vel. Látið að lokum bláber út í deigið og hrærið varlega.

Látið deigið í sprautupoka og sprautið deig í 12 múffuform. Fyllið formin nánast alveg. Bakið í 15-20 min (mínar þurftu sirka 16 min) við 200°C en passið að bakaðar ekki of mikið því þá verða þær þurrar. Leyfið þeim síðan að kólna alveg.

muffur

Bláberja ostakrem:

  • 100 g mjúkt smjör
  • 100 g rjómaostur
  • u.þ.b. 250 g flórsykur
  • korn úr 1/2 vanillustöng
  • appelsínubörkur eftir smekk
  • nokkur bláber

Hrærið saman smjöri og rjómaosti. Látið síðan vanillu, appelsínubörk og bláber út í, og að lokum flórsykur. Þeytið þar til kremið er mjúkt og loftkennt (ef kremið er of þunnt þarf meiri flórsykur).

Notið sprautupoka til þess að sprauta krem á múffurnar og skreytið með bláberjum.

muffurbiti

Verði ykkur að góðu!

Sumarfrí

Tveggja ára veru okkur hér í Kaupmannahöfn er nú lokið. Síðustu vikur hafa snúist um að klára meistararitgerð, ljúka síðustu vinnuverkefnum og loks að pakka einni íbúð niður í kassa.

photo

Framundan er verðskuldað sumarfrí þar sem við munum njóta lífsins og vera dugleg að borða góðan mat og drekka góð vín. Það verður því afar rólegt á blogginu okkar á meðan en við hlökkum til að snúa aftur í haust – og þá í nýju eldhúsi á nýjum stað heima á Íslandi.

Eigið þið gott og matarríkt sumar,

Ásta og Pétur

Sumarlegt smørrebrød

Hvað er meira danskt en gott smørrebrød? Það þarf ekki mikið meira en nokkur góð hráefni til þess að búa til smørrebrød og það er alltaf svo skemmtilegt að borða fallega skreytt brauð með góðu áleggi. Hér eru nokkrar hugmyndir að smørrebrød með sumarlegu áleggi.

smörrebröd

Grænn aspas og linsoðið egg
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Grænn aspas
  • Linsoðin egg
  • Stökk svínapurra, mulin
  • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Smjörsteikið aspasinn í smá stund á heitri pönnu og raðið honum síðan á brauðið. Skerið linsoðið egg í tvennt og setjið ofan á aspasinn. Salt og pipar eftir smekk og stráið síðan smá af svínapurru yfir. Við vorum sérlega sátt með þetta smørrebrød. Aspasinn er enn smá stökkur og góður og samsetningin er æðisleg!

aspasogegg

Tómatar, camembert og beikon
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Tómatar
  • Þroskaður camembert
  • Beikon, stökkt
  • Karsi eða graslaukur
  • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið tómatana í sneiðar og raðið ofan á brauðið. Salt og pipar eftir smekk. Væn sneið af camembert ofan á tómatasneiðarnar og síðan ein sneið af stökku beikoni. Stráið að lokum karsa eða graslauk á brauðið. Tómatar, camembert og beikon er samsetning sem klikkar aldrei!

tomatarogbeikon

Nýjar kartöflur, steiktur laukur og sinnepsmajónes
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
  • Steiktur laukur
  • Majónes
  • Gróft sinnep
  • Karsi

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflurnar í sneiðar og raðað á brauðið. Hrærið majónesi og sinnepi eftir smekk saman og setjið smá á brauðið. Síðan karsa eftir smekk og steikur laukur efst.

nýjarkartölflur

Nýjar kartöflur, radísur og stökkar kartöflur
  • Rúgbrauð
  • Smjör
  • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
  • Radísur
  • Salt og pipar
  • Stökkar kartöfluflögur
  • Sítrónumajónes
  • Ferskt dill

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflur og radísur í sneiðar og raðað á brauðið. Sítrónumajónes og salt og pipar eftir smekk. Raðið síðan stökkum kartöfluflögum ofan á og skeytið með fersku dilli.

radísurogkartöflur

Njótið með góðum pilsner!

Falafel – Gómsætar kjúklingabaunabollur

Falafel – þessar litlu kjúklingabaunabollur sem eru stökkar að utan og mjúkar og safaríkar að innan klikkar ekki! Við höfum gert þessar kjúklingabaunabollur nokkrum sinnum og borðum þær í pítubrauði með gúrkum, papríku og salati og gerum einfalda jógúrtsósu með kryddjurtum með. Léttur og bragðgóður matur!

falafelpita

Falafel – kjúklingabaunabollur
  • 200 g þurrkaðar kjúklingabaunir, lagðar í bleyti í 12 klukkustundir
  • 1 hvítlauksgeiri
  • 1 laukur
  • 1 tsk kóríanderduft
  • 2 tsk cuminduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 lítil kartafla, rifin
  • 2 egg
  • 2 msk brauðmylsna
  • 1/4 tsk chillíduft
  • 1 msk sítrónusafi
  • Steinselja eftir smekk

Kjúklingabaunirnar eru lagðar í bleyti í 12 klukkustundir en þær eru ekki soðnar. Hellið vatninu frá og setjið í matvinnsluvél.

kjuklingabaunir

Látið öll hráefni í matvinnsluvélina og hakkið þar til úr verður frekar mjúkt og blautt deig. Hitið olíu í potti. Mótið litlar bollur úr deiginu með matskeið og steikið í olíunni þar til kjúklingabollurnar eru fallega gylltar. Látið á eldhúsrúllu, smá salt yfir og leyfið að kólna örlítið.

Það er lítið mál að frysta kjúklingabaunabollurnar og hita þær síðan bara örlítið í heitum ofni áður en þær eru bornar fram.

steiking

falafel

Verði ykkur að góðu!