Copenhagen Beer Celebration 2013

Fyrir rúmri viku síðan var Copenhagen Beer Celebration (CBC) 2013. Þar tóku ýmis flott brugghús þátt og voru mörg þeirra með sérbruggaða bjóra fyrir viðburðinn. Miðarnir á viðburðinn fóru í sölu nokkrum mánuðum fyrir og seldust allir á mjög skömmum tíma. Við vorum þó búin að tryggja okkur miða og vorum mætt rétt fyrir hádegi á laugardeginum.

Kvöldið áður hitum við upp fyrir viðburðinn og gerðum okkur The Rhinelander frá Cheeseandburger-síðunni en sá hamborgari er með bjórsinnepi og brauðið er sama deig og fyrir mjúku saltkringlurnar sem við gerðum til þess að hafa með í nesti á CBC (uppskriftin er hér).

hamborgari

kringlur

astaogpetur

bjorbleikur

Anchorage – Love Buzz / Amager Bryghus – Fruiticus lambicus raspberry

blaberogdokkur

/ Mikkeller – SpontanDoubleBlueberry

Viðburðurinn er hugmynd og barn hans Mikkels á Mikkellerbarnum og var haldinn nú í annað skipti eftir að hafa vakið frábæra lukku í fyrra. Viðburðurinn fór þannig fram að 30 úrvals brugghús voru hver með sinn bás og buðu hver upp á 3 mismunandi bjóra sem ýmist eru stolt þess brugghús eða höfðu verið sérstaklega bruggaðir fyrir viðburðinn. Við innganginn fengum við lítið glas og síðan gengum við um og smökkuðum að vild í 5 klukkutíma, sem er sá tími sem hver seta varir. Í heildina var boðið upp á 3 setur yfir 2 daga en við létum þó eina setu duga.

Það voru 90 bjórar í boði og því var ekki lítið verk hjá okkur að reyna smakka sem flesta en allt í allt náðum við að smakka 43 bjóra sem er tæpur helmingur af því sem var í boði. Bjórarnir voru úr öllum mögulegum og ómögulegum flokkum bjórheimsins. Hér að ofan má sjá þá 3 sem lentu í toppsætunum hjá okkur eftir harða en sanngjarna keppni.

Í 1. sæti var MikkellerSpontanDoubleBlueberry. Sá bjór smakkaðist ótúlega vel, þvílíkt bláberjabragð og villigerinn kom skemmtilega fram líka. Í 2. sæti voru nágrannar okkar hér á Amager með 3 ára lambic bjór, Fruiticus lambicus raspberry, sem fékk síðan góðan skammt af hindberjum til að vekja hann úr dvalanum. 3. sætið fekk Love buzz frá Anchorage brugghúsinu í Alaska. Ótrúlega góður saison sem er meðal annars bruggaður með piparkornum.

Fyrir utan þessa þrjá bjóra smökkuðum við himinn og haf af öðrum úrvalsbjórum og nutum þess að labba á milli bása. Stemningin var góð, rólegt og notalegt og allir frekar slakir á því.

bjorsmokkun

Við gerðum þó líka annað en að smakka alls konar bjóra því á staðnum voru nokkrir matsölubásar sem buðu upp á kræsingar með bjórsmökkuninni. Við fengum okkur pylsur hjá John´s Hotdog deli en þeir voru m.a. með þeirra eigið bjórsinnep og sultaðan rauðlauk í bjór sem þeir gerðu sérstaklega fyrir CBC. Pylsurnar frá John´s Hotdog deli eru alltaf góðar en þessar voru snilld!

pylsur

johnspylsur

pylsur2

Unika bauð upp á ostaþrennu þar sem ostarinir voru látnir liggja í þremur mismunandi bjórum og bragðið eftir því. Við vorum hrifnust af ostinum sem hafði legið í stout en hann var alveg hreint æðislegur. Síðar buðu þeir upp á gráðaost sem við ákváðum að smakka líka og vorum mjög sátt.

ostur

osturogbjor

Bjórsmökkunin var tekin mjög alvarlega og því voru mjög margir með lista yfir bjóra á viðburðinum sem þeir skrifuðu athugasemdir við og gáfu jafnvel einkunn. Við vorum ekki alveg jafn fagmannleg en voru þó með lista yfir hvaða bjórar yrðu í boði og merktum við þá sem við náðum að smakka.

smokkun

peturCBC

Samlokubrauð með stökkri skorpu

Þegar við gerðum kjúklingasamlokuna um daginn bökuðum við brauðbollur fyrir samlokuna. Þær voru einstaklega góðar þannig að um helgina gerðum við brauð eftir sömu uppskrift. Brauðið er dásamlegt alveg nýbakað en er líka ótrúlega gott ristað! Það geymist líka vel án þess að verða of þurrt.

braudskorid

Samlokubrauð
  • 500 g hveiti (við notuðum 50 g heilhveiti og 450 g hveiti í þetta skiptið)
  • 300 ml vatn
  • 7 g salt
  • 5 g ferskt pressuger

Setjið hveiti og vatn í skál og hnoðið í 2 min (bara rétt svo til þess blanda hveitinu og vatninu vel saman). Breiðið yfir skálina og leyfið að standa í 30 min.

Setjið síðan salt og ger út í og hnoðið í 15 min, eða þar til deigið er vel teygjanlegt (etv. að gera glútenpróf eins og hér) og slétt. Rakt stykki eða plast yfir deigið og látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast á stærð (tekur u.þ.b. 3 klukkutíma).

Sláið deigið niður og látið hefast í klukkutíma áður en þið mótið brauðið. Ef þið ætlið að gera braubollur þarf að skipta deiginu í bita á þessum tímapunkti.

brauddeigbraudhefastdeigskorid

Mótið brauð úr deiginu og látið það í brauðform. Látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast á stærð (tekur u.þ.b. 45 min) og bakið síðan í 220 °C heitum ofni í 20-30 min., eða þar til brauðið er orðið vel gyllt og fallegt á litinn. Leyfið brauðinu að kólna og njótið síðan.

samlokubraud

braudsneidarVerði ykkur að góðu!

Djúsí kjúklingasamloka

Við kaupum okkur mjög sjaldan skyndibitamat enda finnst okkur lang skemmtilegast að elda sjálf. Af og til langar okkur samt í eitthvað „djúsí“ og þá er fátt sem slær út djúpsteiktum mat. Við sáum þessa samloku með djúpsteiktum kjúklingabringum í Bon Appetit, myndin var hreinlega svo girnileg að við urðum að prófa! Samlokan var gómsæt og kjúklingurinn ofboðslega mjúkur og safaríkur. Hrásalatið er ferskt og með mikla sýru sem vegur vel á móti djúpsteiktu kjúklingabringunum. Síðan er chillí majónesið bara punkturinn yfir i-ið!

Fyrr sama dag vorum við búin að baka ljósar brauðbollur fyrir samlokuna.

braudbollur

Chillí majónes
  • 1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður
  • 1 dl majónes
  • 1 msk sterk chillísósa

Hrærið hráefnum saman og geymið.

Hrásalat
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 jalapeño
  • 1/2 lítill haus af hvítkáli
  • 1 dl af súrum gúrkum
  • 1/2 dl af vökva frá súrsuðu gúrkunum(e. pickle juice)

Skerið rauðlauk, jalapeño og hvítkálið mjög þunnt og setjið í skál. Setjið súrar gúrkur út í og vökva frá gúrkunum. Blandið vel saman og kælið.

Djúpsteikir kjúklingabitar
  • hveiti
  • salt og pipar eftir smekk
  • AB mjólk
  • 2 stórar kjúklingabringur, hver skorin í 4 bita
  • olía til steikingar

Setjið hveiti og salt og pipar eftir smekk í skál og látið AB mjólk í aðra skál. Hitið olíu í 180°C í potti. Dýfið bitunum fyrst í hveiti, síðan AB mjólk og að lokum aftur hveiti. Steikið síðan í heitri olíu í nokkrar min., eða þar til bitarnir eru fallega gylltir á litinn. Setjið svo á rist, salt eftir smekk og leyfið síðan aðeins að kólna.

kjuklingurhveiti

kjuklingabitar

Smyrjið brauðið með chillí majónesi, látið síðan kjúklingabita ofan á og að lokum hrásalat.

kjuklingasamloka

Bon appetit!

Súrdeigsbrauð með valhnetum

Við höfum verið að nota súrdeigið okkar mikið undanfarnar vikur og um daginn gerðum við æðislegt súrdeigsbrauð með valhnetum. Brauðið þarf að lyfta sig mjög lengi og því þarf maður að vera mjög þolinmóður. Það er hins vegar alveg þess virði því brauðið er æðislegt!

braudsurdeig

braudskorid

Súrdeigsbrauð með valhnetum
  • 350 g hveiti
  • 50 g maltmjöl (má sleppa og nota þá alls 400 g hveiti)
  • 25 g rúgmjöl
  • 25 g heilhveiti
  • 15 g maltsíróp (má nota venjulegt síróp í staðinn)
  • 300 ml vatn
  • 1 dl súrdeig
  • 7 g salt
  • 5 g ferskt pressuger
  • 50 g valhnetur

valhnetur

siropmalt

Setjið hveiti, maltmjöl, rúgmjöl, heilhveiti, síróp og vatn í skál og hrærið í 2 min. Látið plastfilmu eða rakt stykki yfir skálina og leyfið að standa í 30 min. Þetta er gert til þess að stytta hnoðunartímann.

deigid

Setjið síðan ger og salt í deigið og hnoðið í 15 min, eða þar til deigið er vel teygjanlegt (gerið glútenprufu – sjá hér). Látið síðan valhnetur í deigið og hnoðið í 2 min. Smyrjið skál með örlítið af olíu, setjið deigið í skálina og breiðið yfir. Leyfið að standa á hlýjum stað þar til deigið hefur tvöfaldast í stærð (það getur tekið allt að 3 klukkutímum). Sláið síðan deigið niður og leyfið að lyftast í klukkutíma áður en brauðið er mótað.

Mótið brauð úr deiginu, stráið hveiti yfir brauðið og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír. Plast eða rakt stykki yfir og leyfið brauðinu að lyfta sig á hlýjum stað þar til það hefur tvöfaldast í stærð. Hitið ofninn í 225°C á meðan.

Rétt áður en brauðið fer í ofninn er hægt að skera í brauðið og búa þannig til mynstur. Setjið inn í heitan ofn, látið skál með smá vatni í botninn af ofninum (til þess að búa til gufu) og bakið í u.þ.b. 40 min, eða þar til brauðið er vel stökkt og fallegt. Þegar brauðið er alveg að verða tilbúið er gott að opna ofnhurðina og hafa hana þannig í nokkrar min. til þess að hleypa gufunni út. Þá verður skorpan stökk og góð.

valhnetubraudofan

Brauðið er dásamlegt með góðu smjöri og jafnvel mildum osti. Það er líka gott ristað.

valhnetubraud

Verði ykkur að góðu!

Rauðrófuravíólí með geitaostafyllingu

Okkur finnst alltaf gaman að gera ravíólí og stundum er gaman að leika sér aðeins og prófa eitthvað nýtt. Um daginn gerðum bleikt pasta í fyrsta skipti  og fylltum með ljúffengri geitaostafyllingu. Bleiki liturinn kemur frá rauðrófumauki sem er sett í pastadeigið. Bragðið verður líka örlítið sætara en þegar notað er venjulegt pastadeig en það passaði vel við geitaostafyllinguna.

raudrofuravioli

Rauðrófuravíólí (f. 3-4)
  • 1 stór rauðrófa (eða 2 litlar)
  • 200 g pastahveiti
  • 1-2 egg

Fyrst þarf að elda rauðrófuna. Afhýðið og skerið rauðrófuna í litla bita (etv. smá olía svo hún verði ekki of þurr). Bakið í við 180°C þar til bitarnir eru vel mjúkir og leyfið síðan að kólna. Setjið rauðrófubitana í matvinnsluvél (eða notið töfrasprota) ásamt einu eggi og maukið þar til blandan er orðin silkimjúk. Látið pastahveiti í skál og setjið rauðrófumaukið út í og hnoðið. Ef deigið er mjög þurrt bætið á öðru eggi út í. Hnoðið vel, látið plastfilmu utan um deigið og kælið í u.þ.b. klukkustund.

bleiktpasta

raviolibleikt

ravioli

Geitaostafylling
  • lítill vel þroskaður geitaostur (hvítmyglan skorin af)
  • 250 g ricottaostur
  • múskat eftir smekk
  • rifinn börkur af hálfri sítrónu
  • salt og pipar eftir smekk

Skerið geitaostinn í litla bita og hrærið saman við ricottaostinn. Látið ostablönduna í eldfast mót og bakið í 10 min., eða þar til geitaosturinn er bráðnaður. Hrærið vel í ostablöndunni og setjið síðan múska, sítrónubörk og salt og pipar eftir smekk.

Flejtið út pastadeigið, skammtið geitaostafyllingunni jafnt á deigið og búið til pastakodda. Sjóðið í söltu vatni og berið fram heitt. Við settum smá brennt smjör með örlítið af sítrónuberki og rifinn parmesan á ravíólíið. Það var fullkomið!

raviolirautt

Verði ykkur að góðu!

Sjónvarpskaka með marsípani

Sjónvarpskaka er sígild kaka sem flestir þekkja og er ofboðslega góð ef kakan er nógu létt, mjúk og með nóg af kókoskaramellubráð ofan á. Um helgina bökuðum við sjónvarpsköku til þess að hafa með kaffinu og prófuðum að setja rifið marsípan í deigið. Það var ótrúlega gott og maður fann alveg bragðið af marsípaninu sem passaði ótrúlega vel við kökuna.

Það er ekki mikið mál að skella í eina sjónvarpsköku og tekur undir klukkustund. Aðalmálið er að bíða eftir því að kakan verður orðin nógu köld svo hægt sé að borða hana án þess að brenna sig! Mamma gerði oft sjónvarpsköku þegar ég var lítil og hún setti alltaf haframjöl á móti kókosmjölinu í kókoskaramellubráðinni og mér finnst það virka vel. Kókoskaramellubráðin er því með kókosmjöli og haframjöli hér.

sjonvarpskaka

Sjónvarpskaka með marsípani
  • 125 g hveiti
  • 25 g smjör
  • 100 g sykur
  • 50 g rifið marsípan (ren rå marcipan med 60% mandler frá Odense Marcipan)
  • 2 egg
  • 1 dl nýmjólk
  • 1 1/4 tsk lyftiduft
  • baunir úr 1/2 vanillustöng

Hitið ofn í 200°C. Þeytið saman egg, vanillubaunir og sykur. Setjið hveiti, lyftiduft og rifið marsípan út í eggjablönduna og hrærið örlítið. Látið mjólk og smjör í pott og náið upp suðu. Hellið þá strax í deigið og hrærið vel. Látið í smurt kökuform og bakið í 15-20 min , eða þar til kakan er bökuð í miðjunni (fer eftir stærðinni á forminu). Það er mikilvægt að baka kökuna ekki of mikið því þá verður hún þurr en hún má auðvitað heldur ekki vera óbökuð.

hraefni

Kókoskaramellubráð
  • 150 g smjör
  • 150 g kókosmjöl
  • 50 g haframjöl
  • 250 g púðursykur
  • 50 g sykur (má sleppa og nota þá 300 g púðursykir allt í allt)
  • 3/4 dl mjólk
  • 2 tsk vanillusykur

Látið hráefnin í pott og hitið þar til úr verður falleg karamellubráð. Hellið yfir kökuna og bakið í 5-10 min, eða þar til karamellubráðin er fallega gyllt á litinn. Leyfið að kólna og njótið síðan.

sjonvarpskaka2

Verði ykkur að góðu!

Safaríkur marokkóskur kjúklingur

Ásta átti afmæli í janúar og fékk marokkósku matreiðslubókina The Food of Morocco eftir Paula Wolfert í afmælisgjöf. Bókin er ótrulega falleg með fullt af myndum af marokkóskum mat og menningu. Okkur líður eiginlega bara eins og við séum komin aftur til Marokkó þegar við skoðum bókina.

Við erum ekki búin að elda mikið upp úr henni enda ákváðum við að taka okkur smá hlé frá marokkóskri matargerð eftir ferðalagið okkur til Marokkó um áramótin – svona til þess að hafa matargerðina spennandi og pínu spari.

Um helgina kom upp mikil löngun í marokkóskan kjúkling og við völdum okkur því uppskrift í fínu bókinni. Kjúklingurinn er hægeldaður í sósu úr tómötum, rauðlauk, saffran, kanil og marokkóskri kryddblöndu. Einföld matreiðsla og kjúklingurinn var ótrúlega safaríkur og gómsætur!

marokkoskurkjulli

Marokkóskur kjúklingur

Fyrsta lota
  • stór heill kjúklingur (1,6 – 1,8 kg helst „hamingjusamur kjúklingur“ (e. free-range)), bútaður niður í 4 bita, bringur með beini og siðan legg og læri. Leyfið skinninu að vera á.
  • 900 g tómatar, fræhreinsaðir
  • 1 meðalstór rauðlaukur
  • 1/4 tsk engiferduft
  • 1/4 tsk túrmerik
  • 1/4 tsk hvítur pipar
  • 1/8 tsk kanilduft
  • smá múskat
  • nokkrir saffranþræðir, leggið í bleyti í 2 msk af vatni
  • salt eftir smekk
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 lítil kanilstöng (u.þ.b. 7,5 cm)
Önnur lota
  • 1/2 tsk kanilduft
  • 2-3 msk hrásykur

kjuklingur

Hitið ofnin í 140 °C.

Þerrið kjúklingin örlítið með eldhúspappír og setjið í stóra skál. Kjúklingurinn er enn með skinni til þess að hann þorni ekki við eldun. Setjið tómata (fræhreinsaðir) í matvinnsluvél og „púlsið“ þar til tómatarnir eru vel hakkaðir. Gerið það sama við rauðlaukinn. Það er auðvitað alveg hægt að gera þetta í höndunum líka, þ.e. að hakka tómatana og rauðlaukinn.

Setjið í skálina með kjúklingnum. Látið engiferduft, túrmerik, pipar, kanilduft (1/8 tsk), múskat, kanilstöng, saffranþræði og vatnið sem þeir lágu í, salt eftir smekk og ólífuolíu í skálina og blandið þessu vel saman. Raðið kjúklingnum í fat svo skinnið á kjúklingnum snúi upp á við og hellið restinni úr skálinni á kjúklinginn.

Setjið fatið inn í ofninn og eldið í 1 klukkustund og 45 min.

tomatar

tomatarsaxadir

raudlaukur

kjuklingurfat

Takið fatið úr ofninum og síið vökvan frá. Hellið vökvan í lítinn pott og hrærið út í 1/2 tsk kanilduft og 2-3 msk hrásykur (uppskriftin segir 3 msk og það er það sem við gerðum en ef maður vill ekki hafa sósuna mjög sæta má minnka magnið). Hrærið vel og náið upp suðu. Sjóðið þar til sósan þykknar vel.

Hækkið hitan á ofninum, helst upp í grillhita. Skinnið á kjúklingnum er ekki stökkt (og því óætt) og því má e.t.v. fjarlægja það hér. „Smyrjið“ tómat- og rauðlauksmaukinu ofan á kjúklinginn og hellið síðan sósunni yfir. Látið inn í mjög heitan ofn og grillið kjúklinginn með maukinu þar til hálfgerð sykurbráð myndast. Berið fram með góðu kúskúsi.

marokkoskurkjuklingur

Bon appetit!

Brioche au chocolat

Um helgar finnst okkur gott að búa til góðan morgunverð og eyða dágóðri stund við morgunverðarborðið. Við fáum okkur alltaf góðan espressóbolla og yfirleitt ristað brauð og ávexti. Á laugardaginn langaði okkur í eitthvað sætt með morgunkaffinu og því skelltum við í brioche brauð með súkkulaði og vanillufyllingu. Það var sko alls ekki slæmt!

briochesukkuladi

Við byrjuðum reyndar á deiginu kvöldinu áður því það þarf að standa í ísskápnum yfir nótt. Ástæðan er sú að deigið er mjög blautt útaf smjörinu í því en þegar það fær að kólna í ísskápnum yfir nótt verður deigið viðráðanlegt. Hvíldin í ísskápnum hefur eflaust líka áhrif á bragðið af brauðinu en það er alveg hreint dásamlegt.

Brioche brauð er líka fullkomið í franskt eggjabrauð (e. French toast) þar sem það sýgur eggjablönduna vel til sín og er létt og gott. Við notum einnig brioche brauð sem hamborgarabrauð þegar við gerum The Camelot eða The Miss Daisy frá síðunni cheeseandburger.com. Þá er bara að móta hamborgarabrauð eða baka brauðið í brauðformi í staðinn.

Brioche au chocolat (u.þ.b. 8 stk)
  • 200 g hveiti
  • 3/4 tsk salt
  • 10 g ferskt pressuger
  • 1 msk sykur
  • 1/2 dl volg mjólk
  • 2 egg
  • 50 g mjúkt smjör

Setjið ger, salt, sykur og mjólk í skál og hrærið saman. Látið síðan hveiti út í og hnoðið örlítið. Setjið síðan eitt egg út í deigið í einu og hnoðið þar til allir hekkir eru horfnir. Haldið áfram að hnoða og bætið smjörinu við í nokkrum umferðum og hnoðið þar til deigið er slétt og teygjanlegt. Smyrjið skál með smá olíu (þá er auðveldara að ná deiginu úr skálinni síðar) og látið deigið í skálina. Breiðið yfir deigið og geymið í ísskáp yfir nótt.

briochedeig

Fyllingin er vanillukrem og dökkt súkkulaði. Vanillukremið þarf að vera kalt þegar það er notað en það er ekkert mál að gera það kvöldið áður og geyma það í ísskáp yfir nótt.

Vanillukrem
  • 2 1/2 dl nýmjólk
  • 50 g sykur
  • 2 egg
  • baunir úr einni vanillustöng
  • 2 msk maizenamjöl (til þess að þykkja kremið)

Setjið 2 dl af mjólk, sykur, egg og vanillubaunir í pott og hitið á vægum hita. Hrærið saman 1/2 dl af mjólk og maizenamjölið og látið síðan út í pottinn. Sjóðið kremið á vægum hita þar til kremið er orðið hægilega þykkt. Hrærið vel á meðan! Kælið kremið.

Fletjið út deigið frekar þunnt (það lyftist mikið í ofninum!) og skerið út ferkönntuð stykki. Þið ráðið sjálf stærðinni. Sprautið rönd af vanillukremi öðru megin á deigið og stráið yfir dökkt súkkulaði eftir smekk. Brjótið deiginu saman svo fyllingin sjáist ekki og leyfið að lyfta sér á hlýjum stað í 30 min.

fylling

briochelyfta

Penslið með eggi og bakið síðan við 200 °C þar til fallega gyllt á litinn.

briochebraud

Njótið!

Svínasíða Adobo elduð í þrýstisuðupotti

Pétur varð 31 árs núna fyrir stuttu og fékk forlátan þrýstisuðupott í afmælisgjöf. Til að vígja pottinn þurfti einhverja flotta og skemmtilega uppskrift og fyrir valinu varð filipseysk svínasíða (e. pork belly)

Fyrsta verkefnið var að finna gott stykki af svínasíðu. Við fengum flottan lífrænan grís hjá Cleavers í Torvehallerne (skyldustopp fyrir matarglaða gesti í Kaupmannahöfn). Stykkið var reyndar feitara en góðu hófi gengdi þannig það var ekkert annað en að skera hluta af hvíta gullinu af. Flotta stykkið sem við skárum af er í augnablikinu í ísskápnum vonandi að breytast í Lardo (mikil tilhlökkun!). Annar afskurður var hakkaður í matvinnsluvélinni og brætt á miðlungsheitri pönnu til að fá úrvals steikingarfeiti. En nóg um það og hér kemur uppskriftin.

porkbelly

Svínasíða Adobo
Fyrsta lota
  • rúmar 2 msk svínafeiti
  • 400 g laukur, smátt saxaður
  • 2 hvítlauksgeirar, smátt skornir
Önnur lota
  • 1 kg svínasíða, skorinn í 3x3cm teninga (má vera með skinni ef hún er ekki of feit)
  • 1,5 dl hrísgrjónaedik
  • 5 msk sojasósa
  • 1/2 dl fiskisósa
  • 40 g  sykur
  • 1 stjörnuanís
  • 15 svört piparkorn
  • 2 lárviðarlauf
Þriðja lota
  • 2 lárviðarlauf
  • 1 stjörnuanís
  • hrísgrjónaedik og svartur piðar eftir smekk

Gerið öll hráefnin klár áður en þið byrjið á matreiðslunni.

svinakjöt

Hitið feitina í miðlungsheitum potti og bætið laukunum út í. Steikið laukinn í 10 min. eða þar til hann er mjúkur og rétt byrjaður brúnaðast. Bætið síðan öllum hráefnum úr annarri lotu út í pottinn, blandið saman ásamt og hækkið hitan á pottinum. Setjið lokið á pottinn og náið upp þrýstingi. Þegar þrýstingnum er náð þarf að leyfa þessu að sjóða í 45 min.

Hleypið þrýstingnum af pottinum, opnið pottinn og veiðið kjötið varlega upp úr (það er mjög mjúkt). Látið soðið renna gegnum sigti og hendið „gumsinu“. Fleytið síðan fitu af soðinu. Setjið 2 dl af soði og kjötið á miðlungsheita pönnu og steikið í 15 min, eða þar til sósan er orðin vel klistruð og kjötið vel brúnað og dásamlegt. Á sama tíma hellið restinni af soðinu í pott ásamt hráefnum úr þriðju lotu og náið upp suðu. Takið af hitanum, leyfið að hvíla í 10 min. og látið síðan renna gegnum sigti.

Setjið kjötið í skál og hellið soðinu yfir. Við borðuðum kjötið með saffranhrísgrjónum og sultuðu fersku grænmeti.

porkbellyrettur

Svínakjötið var alveg ótrúlega gott, ólýsanleg umami upplifun!

Belgískar vöfflur með skinku og osti

Við hjónin vorum í dásamlegu fríi á Íslandi um páskana. Við fórum í fjallgöngur, lágum í heita pottinum á hverjum degi og borðuðum gómsætan mat með fjölskyldunni. Einn morgunninn gerðum við belgískar vöfflur sem við sáum í Bon Appetit fyrir u.þ.b. ári síðan og þær slógu svo sannarlega í gegn! Vöfflurnar eru svokallaðar Brussels vöfflur, þær eru stökkar að utan en léttar og loftkenndar að innan. Við settum síðan skinku og cheddar ost á vöfflurnar og það var ljúfengt.

belgiskarvöfflurogsirup

Belgískar vöfflur (12 stk)
  • 220 g hveiti
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 3 stór egg, eggjahvítur og eggjarauður í sitt hvoru lagi
  • 200 g brætt smjör
  • 225 ml ab-mjólk
  • 200 ml sódavatn
  • Góð skinka, skorin í bita
  • Cheddar ostur, rifinn

Setjið hveiti, sykur, lyftiduft, matarsódi og salt í skál. Stífþeytið eggjahvítur og geymið. Hrærið saman eggjarauður, brætt smjör, ab-mjólk og sódavatn í skál og blandið síðan við hveitiblönduna í nokkrum umferðum þar til deigið er fallega slétt. Setjið síðan eggjahvítur út í og blandið þessu vel saman.

belgiskar

vöfflur

Hitið vöfflujárnið og látið eina ausu af deigi í járnið (magn fer auðvitað eftir stærðinni á vöfflujárninu). Stráið u.þ.b. 1 msk af skinku og 1 msk af rifnum osti yfir deigið. Bakið þar til vafflan, osturinn og skinkan er stökk.

belgiskarvöfflur

Við borðuðum vöfflurnar með örlítið af smjöri og maple sírópi. Þvílíkt sælgæti!

Verði ykkur að góðu!