Humarpasta og tiramisu

Í síðustu viku kláraði Ásta rannsóknarverkefnið sitt og því bar að fagna. Lausnin var Alfreðs humarpasta (e. lobbster alfredo) og tiramisu í eftirrétt.

Kvöldið áður hófst undirbúningur en þá gerði Pétur frumraun sína í tiramisugerð. Á meðan sat eiginkonan sveitt á lokametrum ritgerðarsmíðar.

Aðalrétturinn var humarpasta. Fyrst þarf að hnoða í pastadeig. Það er verulega einfalt; eitt stórt egg á móti 100gr hveiti hnoðað saman og síðan leyft að standa í kæli í u.þ.b. klukkutíma. Aðal matreiðslan felst í því að undirbúa humarinn og sósuna sem hann er eldaður í en þökk sé mægðunum Ástu og Siggu áttum við íslenskan humar í fyrstinum sem við notuðum í réttinn.

Á móti pasta úr 200 gr. af hveiti fer: 1 1/2 dl af humarkjöti skorið í bita, 60gr smjör, 2 tsk saxaður hvítlaukur, 2 1/2 dl af rjóma, 1 1/2 dl af rifnum parmesan, 3 tsk graslaukur skorinn smátt.

Bræðið smjörið og steikið humarinn á heitri pönnu, lækkið svo í miðlungs hita og bætið hvítlauk og rjóma út í og leyfið að malla í smá stund. Loks er ostinum og graslauk bætt út í. Um leið og osturinn er bráðnaður er sósan tilbúin. Bætið þá pasta (soðið) út í. Með þessu var borið fram einfalt salat, bleytt í olíu og balsamik ediki.

Verði ykkur að góðu!