Taco með flatiron steik

Það er kominn tími á nýja bloggfærslu! Við vorum að koma heim úr dásamlegu ferðalagi um Ísland og erum endurnærð eftir þrjár góðar vikur í íslenskri náttúru. Áður en við fórum í sumarfrí fórum við í Matarbúrið hjá Dodda og keyptum fallega Flatiron nautasteik. Um helgina skelltum við steikinni á grillið og gerðum steikartacos með öllu tilheyrandi!

Steikskorintacos

Steikartacos

Steikin var það falleg að við vildum ekki gera of mikið við hana. Þess vegna létum við salt og pipar duga og grilluðum hana síðan í 3 mín á hverri hlið á miðlungsheitum kolum. Það skilar steikinni rétt yfir medium rare, sem passar fínt þar sem hún er skorin vel þunnt og gefur líka bestu áferðina á kjötinu í taco-inu.

SteikinDoddi

steikoggrænmeti

Meðlætið var sultaður rauðlaukur (uppskriftin er hér), guacamole (uppskriftin er hér), grillaður ferskur maís og chimichurri (uppskriftin er hér). Við vorum nýbúin að taka upp litla ferska lauka sem við ræktum í potti á svölunum okkar og okkur fannst því tilvalið að grilla þá líka.

laukur

Steiktacos

Mexíkósku flatkökurnar (tacos) gerðum við líka sjálfar (uppskriftin er hér). Til þess notuðum við nýju tortillupressuna sem við keyptum í New York í maí. Pressan léttir verkið töluvert og flatkökurnar verða fallegar og jafnar! Plastfilma er sett í pressuna til þess að deigið festist ekki í pressunni.

tacopressa

tacosdeig

Steikartacos

Sumarlegur og góður matur!

Súrdeigsbrauð frá San Francisco

Í desember eignaðist áhugabakarinn á heimilinu bókina Tartine Bread þar sem bakarinn Chad Robertson fjallar ítarlega um súrdeig og gefur upp uppskriftir af súrdeigsbrauði sem hann bakar í bakaríinu sínu í San Francisco. Brauðbakstur á heimilinu tók því stórt stökk og nú er það algjör undantekning að það fari ger í deigið þegar við bökum!

Við notum uppskriftina hans Chad Robertson en erum búin að lagfæra hana örlítið eftir þörfum. Chad notar t.d. ekki hrærivél en þar sem við eigum fína og öfluga Kenwood hrærivél notum við hana til þess að hnoða deigið. Hitastig á vatni sem fer í deigið fer auðvitað eftir umhverfinu en okkar reynsla er sú að við þurfum að nota frekar heitt vatn til þess að deigið kólni ekki of hratt.

1017657_10151917623510913_1424541255_n

Súrdeig

Hingað til höfum við verið að notað súrdeig úr brauðbók Claus Meyer en það er nokkuð þunnt og þarf lítið að passa. Súrdeigið notuðum við aðallega sem bragðbætir og notuðum þá alltaf ger líka. Chad notar hins vegar súrdeig sem er þykkt eins og brauðdeig. Súrdeigið þarf að passa vel og „þjálfar“ það með því að bæta út í það hveiti, heilhveiti og vatn á hverjum degi. Þannig má sjá súrdeigið rísa og falla eftir því hversu langur tími er liðinn frá því að hveiti og vatn var bætt út í súrdeigið. Hitastigið á vatninu og því umhverfinu sem súrdeigið er í skiptir öllu máli og því er nauðsynlegt að eiga góðan og nákvæman hitamælir!

Eftir að hafa lesið ítarlegar lýsingar í bókinni hans Chad vorum við tilbúin að taka stökkið – og búa til alvöru súrdeigsbrauð!

surdeig2

Súrdeig

Grunnuppskriftin fyrir súrdeigið er einföld og það þarf ekki að mæla hitastig né grömm.

  • glerkrukka eða skál
  • volgt vatn
  • hveiti
  • heilhveiti

Blanda saman hveiti og heilhveiti (helmingi minni af hveilhveiti á móti hveitinu). Fyllið hálfa glerkrukkuna með volgu vatni og takið góða lúkufylli af hveitiblöndunni látið út í vatnið. Notið höndina til þess að hræra saman hveiti og vatni. Deigið á að vera þykkt en ekki þurrt (ef deigið er of þunnt bætið þá við hveitiblöndu eftir þörfum). Breiðið eldhúspappír yfir krukkuna og leyfið deiginu að standa við stofuhita í 2 til 3 daga.

Eftir 3 daga ætti að vera komin súr lykt af deiginu og loftbólur byrja að myndast á yfirborði deigsins – þá er súrdeigið tilbúið í þjálfunina! Ef lyktin er ekkert súr og engar loftbólur á yfirborði deigsins þarf það að standa lengur.

Þjálfun

Chad talar um að þjálfa súrdeigið við að henda 80% af deiginu í krukkunni og láta jafnmikið af jöfnum hlutföllum af hveitiblöndu (hveiti og heilhveiti) og vatni í staðinn. Magnið af hveiti og vatni í þjálfuninni skiptir ekki öllu máli en súrdeigið á að vera þykkt og fylla 1/3 af krukkunni. Eftir nokkra klukkutíma myndast fullt af litlum loftbólum í súrdeiginu og deigið lyftist upp – og fyllir jafnvel alla krukkuna! Þetta þarf að endurtaka á hverjum degi og þegar súrdeigið lyftist og fellur saman á fyrirsjáanlegan hátt er það tilbúið!

surdeig1

Súrdeigsbrauðið

Kvöldið áður en það á að baka þarf að undirbúa súrdeigið. Uppskriftin gerir 2 stór súrdeigsbrauð.

Kvöldið áður
  • 1 msk súrdeig
  • 200 g vatn (26°C)
  • 150 g hveiti
  • 50 g heilhveiti

Hræra saman og láta standa við stofuhita yfir nótt. Um morguninn (eða þegar það á að búa til deigið) þarf að athuga hvort súrdeigið sé ekki örugglega tilbúið. Það er gert með því að láta 1 msk af súrdeigi ofan í volgt vatn. Súrdeigið á að fljóta ofan á vatninu en ef það sekkur er súrdeigið ekki tilbúið til notkunar. Þá þarf það að standa í nokkra klukkutíma til viðbótar við stofuhita.

Súrdeigsbrauð
  • 1000 g vatn (27°C) + 50 g vatn sem fer í deigið eftir fyrstu 30 min.
  • 300 g súrdeig
  • 1350 g hveiti
  • 150 g heilhveiti
  • 30 g salt

Látið súrdeig, vatn og hveiti í skál og hnoðið örlítið saman. Leyfið deiginu að hvíla í 30-40 min. Bætið salt og 50 g af vatni út í deigið og hnoðið þar til deigið helst vel saman og er orðið teygjanlegt og slétt. Deigið þarf nú að standa í 3-4 klukkustundir við 25-27°C þar til það hefur stækkað um 20-30% í skálinni og er orðið mjúkt og loftkennt. 3-4 klukkustundir eru bara viðmið en þetta getur alveg tekið styttri eða lengri tíma!

deigbraud

Að móta súrdeigsbrauð

Blandið saman 1 dl af hveiti og 1 dl af hrísmjöli í skál. Stráið smá af blöndunni á borðið og komið deiginu þar fyrir. Skiptið deiginu í tvo jafna hluta og mótið tvö brauð með því að brjóta deig saman, toga örlítið í það og þrýsta niður. Komið brauðinum fyrir í „hævekurv“ eða skálum og leyfið að lyftast í 1-2 tíma við stofuhita, eða þar til þau eru orðin vel stór. Það má líka kæla brauðin á þessu stigi yfir nótt og baka þau næsta dag. Brauðin verða samt fallegust og best ef þau eru bökuð sama dag.

braudlyfta

Að baka súrdeigbrauð í steypujárnspotti

Chad bakar súrdeigsbrauðið í steypujárnspotti með loki. Steypujárnið verður ótrúlega heitt og það þarf mikinn hita til þess að ná góðri skorpu. Bakarar nota ofna sem úða vatni til þess að ná upp réttu rakastigi þegar verið er að baka brauð. Það er ekki hægt í venjulegum ofni en rakinn næst samt í steypujárnspottinum við það að hafa lokið á fyrstu 20 min. af bakstrinum.

Ofninn þarf að vera HEITUR! 20 min. áður en það á að baka brauðin þarf að hita ofninn í 260°C. Setjið steypujárnspott (við notum stóran steypujárnspott úr IKEA) inn í ofninn um leið og þið kveikið á ofninum og leyfið pottinum að hitna í þessar 20 min. Takið síðan pottinn út úr ofninum en leyfið lokinu að vera áfram inni í honum. Stráið smá af 50/50 blöndunni í pottinn (svo brauðið festist ekki í pottinum) og komið brauðdeiginu fyrir. Skerið í brauðið, látið lok á pottinn og komið honum fyrir í ofninum. Lækkið hita niður í 230°C og bakið í 20 min. Takið síðan lokið af eftir 20 min. og bakið áfram í 20-25 min., eða þar til brauðið er vel stökkt og fallega gyllt á litinn.

surdeigsbraudheilt

Til þess að baka brauð nr. 2 þarf að hita pottinn með lokinu aftur í 10 min. við 260°C. Komið síðan brauðdeiginu fyrir í pottinum rétt eins og með fyrsta brauðið og bakið með loki í 20 min. við 230°C – og í 20-25 min. án loks.

Leyfið brauðinu að kólna áður en það er skorið. Njótið með smjöri eða góðu áleggi. Brauðið geymist vel í frysti og er líka dásamlegt ristað. Mmmmm…..!

surdeigsbraud1

surdeigsbraudsneidar

Matur í Frakklandi 2013 – Auberge de Chassignolles

Auberge de Chassignolles

Eftir tvo daga í Beaune keyrðum við til Chassignolles. Chassingolles er pínu lítið þorp, kirkjan í hjarta þorpsins og á móti er Auberge de Chassignolles. Hótelið er rekið af breskum hjónum, Harry og Ali, og hafa þau verið með það í þónokkurn tíma núna. Pétur hafði gist á hótelinu eina nótt árið 2008 og hafði síðan þá langað að fara aftur – svo frábær var staðurinn, maturinn og vínið! Og eftir ekki nema 5 ára eftirvæntingu stóðst staðurinn hana ekki – heldur fór hann langt fram úr henni eins og lesa má hér fyrir neðan.

Aubergeyfirlit

Kvöldið sem við komum var mánudagskvöld. Á mánudögum er eldhúsið lokað og við fengum okkur því charcuteri á veröndinni ásamt köldu hvítvíni og nutum útsýnisins.

auberge

Við vorum í fullu fæði hjá Auberge de Chassignolles sem þýðir að við fengum morgunmat, hádegismat og kvöldmat á staðnum.

Morgunmaturinn var fallegasta morgunverðarhlaðborðið hlaðið ferskum og gómsætum mat úr sveitinni. Á borðinu var nýbakað brauð, smjör, ostur, ferskt jógúrt og mjólk úr sveitinni, croissant, fersk og dísæt kirsuber, ferskar apríkósur, ferskur eplasafi og æðislegar heimargerðar sultur.

morgunverdur

smjörosturMeð morgunmatnum bjó Ali til expressó á fínu kaffivélinni sinni.

kaffi

Til þess að vinna upp matarlyst fyrir kvöldmatinn fórum við í gönguferðir í skógi í hæðunum í kringum þorpið. Við tókum því hádegismatinn með okkur í göngunar og borðuðum hann í skóginum.

Nýbakað brauð, smjör, charcuteri, ostar, ferskar radísur og dísæt jarðarber.

nesti

1. kvöldverður á staðnum. Um er að ræða set menu sem bæði hótelgestir og nærsveitungar borða. Matseðillinn byggir á því hvað var ferskast á sveitamarkaðinum þann daginn. Fyrsta kvöldið fengum við einmitt ótrúlega góðar nautakinnar og frábær vín úr héraðinu. Dásamleg máltíð! Allur matur á staðnum er fullkominn slow food og þekkja þau alla þá bændur sem þau versla hrávörurnar sínar af.

1.kvöld

nautakinnar

2. kvöldverður var ekki síðri þar sem við fengum ótrúlega góðar og sumarlegar tartalettur – eitthvað sem okkur Íslendingunum hefði ekki einu sinni dottið í hug að væri hægt að gera 🙂 Og síðan ostaplatta eins og með öllum okkar máltíðum (Eins gott að ferðinni var heitið í 7 daga fjallgöngu eftir þessi herlegheit!).

ciderogtafla

kvoldmatur

osturogdessertÞvílíkt himnaríki sem Auberge de Chassignolles er!

Matur í Frakklandi 2013

Þegar við vorum búin að pakka búslóðinni okkar og tæma íbúðina í Kaupmannahöfn fórum við í tveggja vikna langt ferðalag til Frakklands. Fyrstu vikuna nutum við þess að vera til, slökuðum á, borðuðum endalaust af góðum mat og drukkum dásamleg frönsk vín. Lífið var svo sannarlega ljúft! Seinni vikuna vorum við í frönsku Ölpunum og klifum Mont Blanc. Okkur veitti því ekki af vikunni þar á undan til þess að safna orku fyrir fjallgönguna og við stóðum okkur sérlega vel að safna næga orku fyrir átökin.

Þessi færsla verður einhvers konar myndablogg. Engin uppskrift en fullt af myndum af fallegum og ótrúlega girnilegum mat.

Lyon

Á fyrsta degi í Frakklandi stoppuðum við í Les Halles de Lyon. Les Halles de Lyon er algjört himnaríki fyrir fólk sem elskar mat og þar fengum við okkur að borða og keyptum okkur smá nesti – litlar pylsur og fullkomnar franskar makkarónur. Í höllinni var líka ótrúlegt úrval osta.

LesHalles1

La Ferme Modéle

Fyrstu nóttina gistum við í bóndagistingu hjá honum Pierre. Við borðum kvöldmat hjá þeim sem þau elduðu sjálf á staðnum. 4 rétta kvöldverður: Tómatasalat með kryddjurtum úr garðinum í forrétt, sítrónukjúkling í aðalrétt, ostar í millirétt og dásamlega ferskur ís borinn fram með heimgerðum sultum í eftirrétt. Með matnum var borðið fram vín hússins sem húsbóndinn fyllti á flöskurnar jafnóðum og þær tæmdust. Við vorum í skýjunum eftir þetta kvöld!

bordvinDagur 2 keyrðum við til Dijion. Á leiðinni stoppuðum við á sveitamarkaði í Louhans sem er stærsti markaðurinn haldinn er á svæðinu. Þar keyptum við ferskar apríkósur, hestabaunir, pylsur, osta og nýbakað brauð. Matinn borðuðum við í hádeginu þegar við stoppuðum við huggulegt stopp á þjóðveginum.

markadur

picnic

Beaune

Næstu tvo daga vorum við túristar í Beaune, krúttlegum litlum bæ í hjarta Bourgogne. Við gistum á B&B rétt fyrir utan bæjarmúrinn.

vinogkökur

Í Beaune borðuðum við á Le Goret – himnaríki fyrir svínakjötsaðdáendur. Eigandi staðarins elskar svín og svínakjöt er það eina á matseðilinum (sem er ekki til í prenti og er bara á frönsku!). Skammtarnir þar voru rosalegir en þessir tveir réttir sem við fengum á borðið innihéldu ekki minna en 1 kg af kjöti. En svakalegt hvað þetta var gott og stemmingin verður seint endurtekin.

LeGoret

Á degi 2 í Beaune fórum við í vínsmökkun í vínkjallara Patriarche Père et Fils. Það eru víst stærsti vínkjallarinn í Bourgogne og samanstendur hann samtals af 5 km löngum göngum. Þar var gott að komast í skjól frá sólinni sem hafði verið að baka okkur ofanjarðar og skýldum við okkur þar í duglega stund og supum fjöldan allan af vínum.

vinsmökkun

Eftir vínsmökkunina enduðum við á vínbarnum Les Caves de l’Abbaye þar sem Guilaume fræddi okkur um vín allt kvöldið. Kvöldstundin sem við áttum með honum er með þeim eftirminnilegustu í ferðinni og mælum við hiklaust með því að fólk stoppi hjá honum ef það á leið hjá í Beaune.

Vinbar

Uova da Raviolo – pasta fyllt með eggjarauðu

Eins og við höfum nefnt áður horfum við á ýmsa matreiðsluþætti í sjónvarpinu. Masterchef Australia hefur t.d. verið í miklu uppáhaldi hjá okkur aðallega vegna þess að þar er maturinn í aðalhlutverki en lítið um rifridli milli þátttakenda. Þar fáum við líka nýjar hugmyndir af mat sem okkur langar að prófa en færsla dagsins er einmitt um þannig rétt.

ravioloeggjarauda

Ravíóló er ravíólí fyllt með ricotta og heilli eggjarauðu. Pastakoddarnir eru síðan soðnir þannig að eggjarauðan er rétt byrjuð að eldast en er samt enn svolítið fljótandi.

Ravíóló (4 stórir pastakoddar)
  • 200 g ferskt pasta
  • 150 g ricotta
  • 45 g af rifnum parmesan osti
  • múskat, salt og pipar eftir smekk
  • 4 eggjarauður

Fletjið pastadeigið út í tvær 50 cm plötur og hafið þær eins þunnar og mögulegt er (hjá okkur stilling 8 af 9 á pastavélinni). Hrærið saman ricotta, parmesan osti, múskat og salt og pipar eftir smekk. Setjið ricotta blönduna síðan í sprautupoka og sprautið 4 hringi á aðra pastaplötuna með gati í miðjunni fyrir eggjarauðuna (passið að hafa bil á milli hringanna).

raviolopasta

raviolodeig2

raviolo3

Brjótið eitt egg í einu og skiljið eggjarauðuna frá eggjahvítunni. Komið eggjarauðunni varlega fyrir í miðjunni á hringnum og endurtakið síðan með hin eggin. Pennslið með hrærðu eggi í kringum hverja fyllingu og leggið síðan hina pastaplötuna yfir. Þrýstið á pastaplötuna svo það lokist vel um hverja fyllingu fyrir sig og reynið á sama tíma að fá sem mest loft úr koddunum. Skerið síðan út 4 pastakodda og setjið á lítinn disk sem búið er að strá smá pastahveiti á. Þrýstið með gafli á endana á pastanu til að tryggja að það haldist lokað. Sjóðið síðan 5 lítra af vatni í stórum potti og saltið vel. Setjið smá olíu út í og rennið síðan koddunum varlega út í vatnið af diskunum og sjóðið í 2,5 mínútu. Veiðið síðan koddana úr pottinum og færið strax á disk.

ravioloeggjarauda2

Við bárum ravíólóið fram með brenndu salvíusmjöri. Það var ljúffengt!

Verði ykkur að góðu!

Pönnupítsur á föstudagskvöldi

Föstudagskvöld eru pítsukvöld hjá okkur en við förum alltaf annaðhvort í pítsu til foreldra Péturs eða búum okkur sjálf til pítsu hérna heima. Síðasta föstudag gerðum við pönnupítsur en þá eru pítsurnar settar á heita steypujárnspönnu og beint inn í sjóðheitan ofn. Pítsubotninn verður vel stökkur en pítsan er samt ótrúlega létt og ljúffeng! pitsaananasbökud

pitsusneid

Það er lykilatriði að setja ekki of mikið á pítsuna og 175 g af áleggi (sósa, álegg og ostur) er algjört hámark. Við gerðum eina margherita pítsu og eina með ananas og skinku. Þær voru báðar ótrúlega góðar.

Pönnupítsa
  • 100 g pítsudeig (við gerðum deigið kvöldið áður en létum það standa við stofuhita)
  • 175 g álegg (pítsusósa, rifinn mozzarella ostur og annað álegg)
  • 85 ml hitaþolin olía

Hitið ofninn í 240-260°C (eins hátt og hægt er). Best er að kveikja á ofninum klukkutíma áður en það á að baka pítsurnar því ofninn þarf að vera mjög heitur. Fletjið pítsudeigið þunnt og látið deigið á pítsuspaða (við eigum ekki þannig en notuðum skurðarbretti í staðinn – þá þarf að passa að hafa hveiti á brettinu). Setjið álegg á pítsubotninn. Hellið olíu á steypujárnspönnu og hitið þar til það rýkur úr olíunni. Látið pítsuna þá renna af pítsuspaðanum á pönnuna (passið ykkur á olíunni því hún er rjúkandi heit!!) og setjið pönnuna strax inn í ofn. Bakið í u.þ.b. 5 min., eða þar til pítsan er tilbúin.

Náið pítsunni af pönnunni og komið henni fyrir á eldhúspappír á meðan hún kólnar örlítið. Skerið síðan í sneiðar og njótið.

pitsaananas

pitsamargherita

pitsamargheritabökud

pitsaskorin

Verði ykkur að góðu!

Dásamlegar ljóskur

Stundum er gott að fá sér eitthvað sætt með kaffinu og síðustu helgi bökuðum við þessar dásamlegu ljóskur (e. blondies). Ljóskurnar geymast vel í frysti og það tekur enga stund að kippa nokkrum ljóskum út úr frystinum ef maður fær allt í einu löngun í eitthvað sætt!

ljoskur1

Ljóskur
  • 115 g smjör
  • 230 g púðursykur (þess vegna verða ljóskurnar ljósbrúnar á litinn)
  • 2 egg
  • 1 tsk vanillusykur
  • 125 g hveiti
  • Börkur af einni appelsínu
  • 1 dl pekanhnetur, hakkaðar gróft
  • 2/3 dl hvítt súkkulaði, hakkað gróft
  • 1/3 dl súkkulaði (mjólkursúkkulaði eða dökkt súkkulaði), hakkað gróft

Klæðið bökunarform með bökunarpappír og hitið ofninn í 180°C. Bræðið smjör og púðursykur. Setjið egg út í og hrærið vel saman. Bætið þá hveiti, vanillusykri, appelsínuberki, hnetum og súkkulaði út í og hrærið vel. Hellið í bökunarformið og bakið í 20-25 min., eða þar til góð skorpa er mynduð og deigið er að byrja bakast í miðjunni. Passið samt að baka ekki of mikið!

ljoskurdeig

ljoskurbakadar

Leyfið að kólna alveg (annars er ekki hægt að skera út bita) og skerið síðan í bita.

ljoskur2

Njótið!

Marokkóskt flatbrauð (Khobz)

Í Marokkó borðuðum við brauð með öllum mat. Brauðin voru sérstök flatbrauð með smá skorpu, svolítið eins og pítubrauð og úr durumhveiti en þó ekki eins þunnt og pítubrauð. Marokkóbúar nota brauðin í staðinn fyrir hnífapör – rífa brauðið í sundur og grípa um matinn með því. Á matreiðslunámskeiði í Marrakech lærðum við að út frá brauðgerð fjölskyldna væri auðvelt að segja til um fjárstöðu þeirra. Fjölskylda sem býr til mörg brauð á hverjum degi á stóra fjölskyldu og á þá nóg af peningum.

flatbraud

Fyrstu dagana okkar í Marokkó fórum við í fjallgöngu og borðuðum fullt af gómsætum marokkóskum mat. Brauðið með matnum var bakað af Berbum í fjallaþorpinu áður en við lögðum af stað í fjallgönguna. Síðustu 3 dagana í ferðalaginu okkar eyddum við Marrakech og fengum þar svipað brauð með öllum mat. Við vorum þó algjörlega á því að brauðið í fjallaþorpinu var betra en brauðið í Marrakech. Brauðið í fjallaþorpinu var nefnilega ekki eins þétt og það var góð skorpa á því.

Marokkóskt flatbrauð (6-8 brauð)
  • 300 g hveiti
  • 100 g fínt durumhveiti
  • 100 g gróft durumhveiti
  • 10 g ferskt pressuger
  • 1 tsk salt
  • u.þ.b. 3 dl vatn, volgt

Öll hráefni í skál og hnoðið þar til deigið er orðið mjúkt og slétt. Leggið rakt stykki yfir og leyfið að standa í a.m.k. 1 klukkustund. Skiptið þá deiginu í 6-8 jafna hluta (eftir því hversu stór brauðin eiga vera) og mótið kúlur. Leggið aftur rakt stykki yfir og leyfið deigkúlunum að hvíla í 30 min. (deigkúlurnar stækka svolítið). Fletjið síðan hverja deigkúlu út í u.þ.b. 1 cm á þykkt, raðið á bökunarplötu með bökunarpappír og leyfið að lyftast í 1 klukkustund.

marokkodeig

marokkodeig2

marokkodeig3

marokkodeig4

Hitið ofninn í 200°C. Þrýstið örlítið niður á brauðin með höndunum til þess að koma í veg fyrir að brauðin breytist í pítubrauð í ofninum og bakið síðan þar til brauðin eru fallega gyllt á litinn. Staflið brauðunum strax upp (þá verða brauðin alveg flöt) og berið fram með góðum marokkóskum mat.

flatbraud2

Verði ykkur að góðu!

Marokkóskar kjötbollur (Kefta) í kryddsósu

Við höfum áður skrifað um að nota heilt lambalæri í meira en eina máltíð. Um daginn keyptum við einmitt læri og erum nú þegar búin að búa til tvær gómsætar máltíðir úr því og eigum samt enn innanlærið eftir. Fyrri máltíðin voru marokkóskar kjötbollur eftir mikla löngun og hugsun til ferðalagsins okkar í Marokkó.

kjotbollur2

Um er ræða frekar einfalda matreiðslu og skemmtilega nýtingu á síðri vöðvum en þar sem kjötið er hakkað er það ótrúlega meyrt og gott. Við hökkuðum því síðri vöðvana af lærinu ásamt þindinni sem var enn á lærinu.

Kjötbollurnar
  • 500 gr lambahakk
  • 2 msk sýrður rjómi
  • 2 tsk paprika
  • 1 tsk malað cumin
  • 1 tsk malaður kóríander
  • 1 tsk kanill
  • 1/4 tsk rifið múskat
  • 1/4 tsk cayenne pipar
  • 2 msk af saxaðri ferskir steinselju og kóríander

Setjið öll hráefni í skál, blandið vel saman og mótið litlar kjötbollur.

kjotbollur1

Sósan
  • 1 rauðlaukur, rifinn í rifjárni
  • 2 msk smjör
  • 4 msk af saffran vatni (4 msk volgt vatn og smá af saffrani)
  • 1 tsk paprika
  • 1/2 tsk malað cumin
  • 1/4 tsk malað engifer
  • 1 dl vatn
  • 4 msk saxaður ferskur kóríander – ekkert að því að nýta stilkana líka.
  • 2 msk sítrónusafi

Setjð öll hráefni nema 1 msk af kóríander og sítrónusafa á stóra pönnu og steikið á meðal háum hita í 10 min. Lækkið niður í meðal lágan hita og bætið kjötbollum út í. Setjið lok á pönnuna og eldið í 30 min. Snúið kjötbollunum eftir 15 min.

Þegar kjötbollurnar eru fulleldaðar bætið þá sítrónusafa út í og salt og pipar eftir smekk. Stráið 1 msk af kóríander yfir og berið fram.

sosa

kjotbollur3

Við borðuðum kjötbollurnar með marokkósku (berber) flatbrauði eins og við fengum í fjöllunum í Marokkó. Uppskriftin kemur í næstu færslu!

Verði ykkur að góðu!

Áramótasteikin

Undanfarin ár höfum við haft matreiðsluna fyrir gamlárskvöld frekar veglega og á því var engin breyting á árinu sem var að líða. Við vorum byrjuð að elda fyrir kvöldið upp úr níu um morguninn og nutum þess að standa í dunda okkur í eldhúsinu allan daginn.

Aðalstjarna máltíðarinnar á gamlárskvöldi var nautasteikin sem var nautaframhryggur á beini (e. rib roast). Við slíka matargerð skiptir gæðin á kjötinu öllu máli og í heimsókn okkar til Dodda í Matarbúrinu í byrjun desember nefndum við þessa steik við hann. Doddi sá um að velja kjötstykkið handa okkur og það fékk svo að þurrhanga hjá honum nánast fram að áramótum. Á gamlársdag var kjötið því búið að hanga í u.þ.b. 6 vikur og leit stórkostlega út – djúprautt og virkilega meyrt.

nautakjot

Matreiðslan á svona fallegu kjöti á ekki að vera flókin. Kjötið var tekið út úr ísskápnum 4 klukkustundum áður en það fór í ofninn til þess að ná stofuhita – enda var það tæp 4 kg. Ofninn var hitaður í 100 °C, salt og pipar á kjötið og kjarnhitamælir stilltur á 50°C stunginn í kjötið. Kjötið fékk síðan að eldast þar til kjarnhitamælirinn hringdi við 50°C en það tók rúma 4 klukkutíma. Þá var kjötið tekið út úr ofninum og við lögðum álpappír og handklæði yfir það. Kjötið heldur þá áfram að eldast og kjarnhitinn hækkaði um heilar 4°C á einum klukkutíma, en það þarf einmitt að leyfa svona stóru stykki að jafna sig í allveg klukkutíma. Að lokum settum við kjötið inn í 250°C heitan ofn til þess að ná góðri skorpu. Það tók tæpar 10 min. hjá okkur.

nauteldad

nautskorid

kjotskorid2

Kjötið var síðan skorið niður í sneiðar og borið fram með soðsósu með mikið af shallotlauk, dijon sinnepi, guðdómlegar pommes anna kartöflur, léttu og fersku waldorfsalati og góðu rauðvíni. Allir voru hrikalega sáttir með matinn!

Gleðilegt nýtt ár!