Blinis með steinbítshrognum, reyktum osti og karsa

Í Torvehallerne keyptum við falleg og fersk steinbítshrogn sem við borðuðum í hádeginu í dag ofan á blinis (litlum pönnukökum sem eru bakaðar með geri) með reyktum osti (d. rygeost) og karsa. Ljúffengur hádegismatur!

blinisoghrogn1

Blinis (u.þ.b. 30 litlar pönnukökur)
  • 230 g hveiti
  • 1 tsk salt
  • 20 g fersk pressuger
  • 2 dl mjólk
  • 2 egg (eggjarauður og eggjahvítur í sitt hvoru lagi)
  • 2 dl sýrður rjómi (18%)

Sigtið hveiti og salt í skál og látið gerið út í. Hitið mjólkina í potti þar til hún er orðin vel volg. Hrærið saman eggjarauðum og sýrðum rjóma og hellið síðan út í mjólkina. Hrærið vel og hellið síðan eggjablöndunni út í hveitið. Hrærið þar til deigið er slétt og fallegt. Leyfið deiginu að standa á hlýjum stað í 30 min.

Þeytið eggjahvítur og setjið út í deigið. Leyfið deiginu síðan að standa í 20 min. Steikið blinis á heitri pönnu í nokkrar min. á hvorri hlið og geymið.

Álegg
  • steinbítshrogn
  • reyktur ostur (d. rygeost)
  • sýrður rjómi
  • ferskur karsi

Hrærið saman reyktum osti og sýrðum rjóma eftir smekk. Látið smá af ostinum á hverja blini, síðan steinbítshrogn og karsa eftir smekk.

blinisoghrogn4

Verði ykkur að góðu!

Reyktur lax með nýjum kartöflum og piparrótarsósu

Gestir frá Íslandi færðu okkur fallegan reyktan lax. Fyrstu sneiðarnar fóru auðvitað á ristað brauð með smjöri og graflaxasósu en síðan ákváðum við að prófa nýja rétti. Þessi réttur er mjög einfaldur og ofboðslega sumarlegur. Hann verður án efa gerður aftur.

Á móti 200 gr. af reyktum laxi þarf: 300 gr. af nýjum kartöflum, safi og börkur af 1/2 sítrónu, rauðvínsedik og ólífuolía eftir smekk, 1 msk. kapers (saxað smá), 1 1/2 cm. fersk piparrót (líka hægt að nota duft/þurrkað), 1 dl. sýrður rjómi og fersk sólselja (dill) eftir smekk.

Sjóðið kartöflurnar í söltu vatni og leyfið síðan að kólna í smá stund. Látið sítrónubörk, edik og helming af sítrónusafanum í skál. Hellið ólífuolíu út í, síðan kapers og salt og pipar eftir smekk. Kartöflur út í og velt vel upp úr sósunni.

Næst er það piparrótarsósan. Hrærið saman rifinni piparrót og sýrðum rjóma, restin af sítrónusafanum út í og salt og pipar eftir smekk.

Sólselja yfir kartöflurnar sem eru nú orðnar kaldar. Raðið laxinum á disk, kartöflur yfir ásamt piparrótarsósu.

Berið fram með góðu brauði og jafnvel ísköldu hvítvíni!