Panang karrí kjúklingur

Um daginn kom yfir okkur alveg svakaleg löngun í einhvern góðan taílenskan rétt enda gott að fá smá hita í sig þegar hitin úti er byrjaður að mælast í bláum tölum.

Þá fór smá rannsóknarvinna af stað og fundum við meðal annars þetta fína taí blog. Þar fengum við fullt af hugmyndum sem var frábært því allar matreiðslubækurnar eru enn í geymslu með restinni af búslóðinni okkar.

Við ákváðum að elda þennan dásamlega og einfalda panang karrí kjúkling og vorum mjög sátt.

panaengkjuklingur

Þegar við höfum eldað taílenskan mat höfum við bæði prófað að búa til okkar eigið karrí mauk (e. curry paste) og að kaupa það tilbúið. Reynslan okkar er sú að ef maður er svo heppinn að finna öll þau hráefni sem eiga vera í maukinu þá getur það verið virkilega gott ásamt því að það er mjög gaman að sjá og fá tilfinningu fyrir hráefnunum í karríinu. Tilbúið karrí mauk er hins vegar alls ekki síðra! Það er margfalt fljótlegra að nota tilbúið mauk, það geymist vel í ísskápnum og svo er það töluvert ódýrara en að kaupa öll hráefnin sjálf. Við notuðum því tilbúið karrí mauk í þetta skiptið.

Panang Karrí kjúklingur
  • 1,2 kg beinlaus kjúklingur skorinn niður í munnbita (við keyptum 2 hæfilega litla kjúklinga og úrbeinuðum – bringurnar og lærin voru notuð og svo eigum við leggi í frystinum)
  • 400 gr kartöflur, afhýddar og skornar í munnbita
  • 1 dl Panang karrí mauk
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4 msk ósætt hnetusmjör (t.d. Himneskt gróft hnetusmjör)
  • 2-3 stk jalapeno chilí, skorið niður í þunna strimla
  • 6 kaffir lime laufblöð, frosin eða þurrkuð.
  • 1/2 dl fiskisósa
  • 2 msk pálmasykur (eða púðursykur)

Byrjið á því að steikja karríið og þykka partinn af kókosmjólkinni (það sem er efst í dósinni) á pönnu. Hrærið duglega saman þar til kókosmjólkin byrjar að skilja sig leyfið þá að malla í smá stund.

Hækkið hitann, bætið kjúklingi úti og steikið í smá stund. Bætið því næst restinni af kókosmjólkinni (kókosvatninu) útí ásamt nóg af vatni svo fljóti yfir kjúklinginn. Setjið fiskisósuna og sykurinn úti og náið upp suðu. Bætið kaffir laufum út í. Um leið og suðan er komin lækkið þá hitann og leyfið þessu að malla í sirka 30 mínútúr (þá á kjúklingurinn að vera fulleldaður).

Látið hnetusmjör og chilí í réttinn og hrærið vel. Ef sósan er mjög þunn er gott að þykkja hana með því að sjóða örlítið niður eða bæta smá sósujafnara í sósuna. Fiskisósa og sykur eftir smekk. Berið fram með nóg af hrísgrjónum.

panaeng

Verið ykkur að góðu!

Taílenskur kjúklingur í Massaman karrí

Kristín og Steinar fóru til Taílands í fyrra og fóru þá meðal annars á námskeið í taílenskri matargerð. Þegar þau komu heim gáfu þau mér hefti með taílenskum uppskriftum en það hefur verið notað töluvert á þessu heimili síðan!

Hér er uppskrift að kjúklingi í Massaman karrí með kartöflum, lauki og hnetum. Rétturinn getur verið frekar sterkur en er ofboðslega bragðgóður!

Fyrst þarf að búa til kryddblönduna/karríið: 1/4 tsk. kóríanderfræ, 1/4 tsk. cuminfræ, 1 1/4 tsk. svört piparkorn, 1/4 tsk. negull, 1/2 þurrkaður chillí (fjarlægja fræin), 1/4 msk. sítrónugras (saxað), 1/4 msk. engiferrót (söxuð), 1/4 msk. hvítlaukur (saxaður), 1 shallot laukur (saxaður) og 1/4 tsk. salt.

Látið hráefnin í kryddkvörn eða mortél og maukið vel.

Hráefni í réttinn eru: 300 gr. kjúklingabringur skornar í bita, 1 dós kókósmjólk (ath. EKKI hrista áður en dósin er opnuð!!), 200 gr. kartöflur, 1 stór laukur skorinn í bita, 2 msk. jarðhnetum (má líka nota kasjúhnetur), 5 heilar karimommur, 2 kanilstangir (5 cm. á lengd), 3 lárviðarlauf, 1 msk. fiskisósa, 2 tsk. sykur og 3 msk. tamarindsafi (tamarindmauk og vatn).

Kryddblanda / Tamarind

Skrælið og skerið kartöflurnar í bita og sjóðið þar til þær eru mjúkar. Takið efsta lagið af kókósmjólkinni (sem er alveg hvítt og þykkt – eiginlega eins og rjómi) með skeið og látið í skál til hliðar. Hellið restinni af kókósmjólkinni í pott og látið suðu koma upp. Látið kjúklinginn út í kókósmjólkina og látið malla í smá stund. Hitið kókósrjómann (efsta lagið af kókósmjólkinni sem þið settuð til hliðar) og látið síðan út í kókósmjólkina og kjúklinginn ásamt kryddblöndunni, kardimommum, lárviðarlaufi, kanilstöngum, jarðhnetum og lauknum. Fiskisósa, sykur og tamarindsafi út í og leyfið þessu að malla þar til kjúklingurinn er eldaður.

Berið fram með hrísgrjónum og einföldu salati.