Við vorum ansi dugleg um helgina og hjóluðum rúma 45 km. í alls konar veðri. Á laugardaginn bökuðum við alveg hreint syndsamlega góða Sticky Buns, þ.e. kanilsnúðar bakaðir í karamellu og pekanhnetum. Og vá, hvað við vorum sátt með útkomuna!
Í deig fyrir 7 snúða þarf: 1/3 bolli nýmjólk (volg), 2 1/2 msk. sykur, 1 tsk. þurrger (ég notaði þó fersk pressuger), 1 stórt egg, 1 1/3 bolli hveiti, 1/2 tsk. salt og 1/4 bolli mjúkt ósaltað smjör.

Hitið mjólkina örlítið. Hrærið síðan geri og 1 msk. af sykri út í mjólkina og leyfið gerinu að leysast upp í mjólkinni. Bætið þarnæst eggi út í og hrærið. Setjið hveiti, salt, 1 1/2 msk. sykur í skál og hellið mjólkurblöndunni út í. Hnoðið í smá stund. Setjið smjörið út í deigið í nokkrum skömmtum og hnoðið þar til deigið verður teygjanlegt og slétt (tekur sirka 5 min. í hrærivél). Látið deigið í skál og inn í ísskáp í tvo klukkutíma. Eftir tvo tíma í ísskápnum er hægt að fletja út deigið.

Deigið eftir fáar min. / Deigið eftir hnoðun
Það má gera deigið og snúðana kvöldið áður og geyma í ísskápnum yfir nótt. Daginn eftir þarf þá bara taka snúðana út og leyfa þeim að lyfta sér á hlýjum stað í u.þ.b. 2 klukkutíma. Þetta gerðum við og gátum því bakað snúðana um leið og við komum heim úr hjólaferðinni okkar.
Næst þarf að huga að karamellunni því hún þarf að vera orðin köld áður en snúðarnir eru gerðir. Hráefnin í karamelluna eru: 1/4 bolli ósaltað smjör, rúmlega 1/4 bolli púðursykur, rúmlega 1/4 bolli rjómi, tæplega 1/4 bolli hunang, 1/8 tsk. salt og 1/8 tsk. rifinn appelsínu börk (má sleppa en gefur ótrúlega ferskt bragð). Hráefnin í pott og látið karamelluna sjóða í sirka 5 min.

Hellið karamellu í fatið sem þið ætlið að baka snúðana í svo botninn verður þakinn (sirka helmingur af karamellunni) og geymið hinn helminginn af karamellunni því hún fer ofan á snúðana.
Í fyllinguna þarf: 1/4 bolli mjúkt ósaltað smjör, 1/4 bolli púðursykur, rúmlega 1/4 tsk. kanill, 1/4 tsk. múskat og smá salt. Þar að auki tæplega 1 bolli pekanhnetur, hakkaðar og síðan ristaðar í ofni.

Hráefnin í skál og þeytið þar til fyllingin er orðin létt og frekar ljós á litinn. Fletjið út deigið í 5 mm. þykkt, smyrjið fyllinguna jafnt yfir deigið og dreifið 1/2 bolla pekanhnetum yfir. Rúllið deiginu í lengju og skerið í 7 jafna bita.

Dreifið 1/4 bolla pekanhnetum yfir karamelluna í fatinu og raðið snúðunum jafnt í fatið. Snúðarnir mega ekki snertast því þeir stækka mikið! Látið snúðana lyfta sér á hlýjum stað í 2 klukkutíma. Bakið við 180°C í 30-40 min. (fylgist vel með snúðunum eftir 25 min. og passið að baka þá ekki of lengi), eða þarf til snúðarnir eru fallega gylltir og karamellan vel bökuð. Ef snúðarnir verða fljótt dökkir að ofan er fínt að setja álpappír yfir til þess að brenna þá ekki.


Takið snúðana út úr ofninum og leyfið að kólna í smá stund. Hellið karamellu yfir snúðana, pekanhnetum og nokkrum grófum saltflögum.

Namm!
Líkar við:
Líka við Hleð...