Grillað lambakjöt og blaut súkkulaðikaka

Sumarið er svo sannarlega að koma til Kaupmannahafnar og sem sönnum Íslendingum ákváðum við að taka því fagnandi með grilluðu íslensku lambi.

Uppskriftin er ekki flókin en löngu orðin klassísk á okkar heimili. Úrbeinað læri er snyrt og skorið í mátulega stóra bita. Síðan er það sett í kryddlög sem samanstendur af Bezt á lambið og Caj P (kryddsósu). Með þessu grilluðum við síðan sveppi og papriku og höfðum bakaðar franskar kartöflur.

Þar sem það er ekki hægt að kaupa Argentínu grillsósurnar hér í búð (ótrúlegt en satt) þá var brugðið á ráð að stela og stílfæra aðeins. Sósan samanstóð af eftirfarandi: Sýrður rjómi, dijon sinnep, graslaukur, salt, hunang og smá sítrónusafi.

Allt í allt einföld matreiðsla en með jafn góðu hráefni og íslensku lambi þarf hreinlega ekkert meira til.

Í eftirrétt var boðið upp á syndsamlega súkkulaðiköku og vanilluís.

Í súkkulaðiköku fyrir 2 þarf: 65 g 70% súkkulaði, 43 g smjör í bitum, 20 g. hveiti, 7 g kartöflumjöl, 7 g kakóduft, 43 g sykur (sett í matvinnsluvél í smá stund) og 1 egg.

Bræðið súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði. Hrærið sykur og egg út í súkkulaðiblönduna, síðan hveiti, kakódufti og kartöflumjöli. Látið í smurð form og geymið í ísskáp í a.m.k. 30 min. – helst lengur!

Bakið við 200 °C í u.þ.b. 10 min. (fer samt mjög mikið eftir stærð á forminu en það er mikilvægt að baka kökuna ekki of mikið!!).

Namm!

Ítölsk veisla

Sunnudagur var dekurdagur hjá okkur – enda áttum við það svo sannarlega skilið eftir langa og mikla vinnuviku hjá okkur báðum. Við vöknuðum um hálf tíu leytið og hjóluðum í Øbrohallen. Þar slökuðum við á í heita pottinum og gufunni í rúman klukkutíma og hjóluðum svo heim endurnærð og sæl.

Um kvöldið var sönnkölluð ítölsk veisla sem hófst á antipasti. Í aðalrétt var ravíólí með spínat og ricotta fyllingu í ljúffengri tómatsósu en í eftirrétt var panna cotta með karamellusósu. Hér er uppskriftin af ravíólíinu en færsla um ricotta og panna cotta verður birt síðar.

Tómatsósan er lang best ef hún fær að malla lengi og því er best að byrja á henni. Hráefnin í sósuna eru: 1 laukur, 3 hvítlauksgeirar, u.þ.b. 1 kg tómar (líka hægt að nota tómata í dós), 1 msk. tómatpuré, 2 lárviðarlauf,  ferskar kryddjurtir (t.d. basil, timían, oreganó), salt og pipar. Þar að auki notaði ég hálfþurrkaða tómata (uppskriftin er hér) í sósuna, þeir eru svo sætir og bragðmiklir og alveg hreint dásamlegir í sósuna.

Saxið lauk og hvítlauk fínt. Steikið í smá olíu þar til laukurinn er vel mjúkur. Skerið tómatana í litla bita (eða notið tómata úr dós) og látið þá út í pottinn ásamt kryddjurtum og lárviðarlaufum. Látið sjóða í smá stund, bætið þá tómapuré út í (ef notaðir eru hálfþurrkaðir tómatar þá fara þeir í sósuna hér). Leyfið sósunni að malla í dágóðan tíma, salt og pipar eftir smekk (ef sósan er svolítið súr er gott að setja smá sykur í hana. Það er mjög misjafnt hversu sætir tómatar eru).

Við gerðum okkar eigið pasta en það er rosalega einfalt og margfalt betra en keypt pasta! Uppskriftin er einföld; 180 gr. pastahveiti og 2 egg. Hnoðið, látið plastfilmu utan um deigið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.

Hráefnin í fyllinguna eru: 1  1/2 bolli ricotta, 1 poki ferskt spínat, múskat, salt og pipar. Látið spínatið í sjóðandi vatn í nokkrar mín. og látið svo í sigti svo allur vökvi leki af því. Setjið spínatið í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Hrærið út í ricotta, kryddið með múskati, salti og pipar.

Fletjið út pastadeigið frekar þunnt, setjið fyllinguna á flötina, penslið kantana með vatni eða eggi og lokið. Hér ræður fólk sjálft hvað koddarnir eru stórir, okkar koddar eru almennt frekar stórir, eða um það bil 2-3 munnbitar. Skerið síðan í sundur og passið að allir endar séu lokaðir, súrt að fá þessa góðu fyllingu bara út í pastavatnið.  Sjóðið í stórum potti í söltu vatni þar til tilbúið (tekur sirka 3-4 mínútur).

Tómatsósa á ravíóliið og rifinn parmesanostur!

Með þessu drukkum við mjög fínt rauðvín sem við fengum í brúðkaupsgjöf.

Frábært kvöld með ljúffengum mat!

Sterk paprikusúpa og pestóbrauð

Á virkum dögum eldum við oft eitthvað létt og notum mikið af grænmeti. Við höfum því oftast grænmetissúpu einu sinnu í viku því það er svo einfalt og gott – og svo er það líka frekar ódýr máltíð. Í gær eldaði ég til ofboðslega góða paprikusúpu og bakaði pestóbrauð sem passaði mjög vel með súpunni.

Hráefnin í súpuna eru (f. 2): 4 rauðar paprikur (ég notaði „sætar paprikur“ sem eru ekki eins stórar og venjulegar. Það má auðvitað nota hvaða tegund og lit sem er), 1 stór laukur, 3 hvítlauksgeirar, 1 kartafla (skorin í litla bita),  u.þ.b. 1 liter grænmetissoð (grænmetiskraftur og vatn), cayenne pipar, salt og svartur pipar eftir smekk.

Fyrst þarf að grilla paprikurnar í ofni á 200 °C þar til þær voru orðnar vel mjúkar og hýðið orðið vel dökkt. Paprikurnar eru síðan kældar og þá er hægt að taka hýðið af þeim.

Saxið lauk og hvítlauk og steikið í smá olíu þar til laukurinn er orðin vel mjúkur. Hreinsið fræ úr paprikunum og skerið í bita. Setjið út í pottinn ásamt kartöflunni. Kryddið eftir smekk og látið soð út í pottinn. Leyfið súpunni að sjóða þar til kartaflan er orðin mjúk.

Maukið súpuna í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til áferðin er silkimjúk. Berið fram með sýrðum rjóma eða jógúrti.

Í pestóbrauðið bjó ég til pitsudeig (uppskriftin er hér). Setti það þó ekki inn í ísskáp en lét það lyfta sér á hlýjum stað í 2 klukkutíma. Fletjið deigið og smyrjið pestói (t.d. þetta pestó) jafnt yfir flötina (það má einnig setja smá ost). Rúllið upp og leyfið brauðinu að lyfta sér í u.þ.b. klukkustund. Bakið við 230°C í sirka 20 min., eða þar til brauðið hefur tekið fallegan lit.

Verði ykkur að góðu!

Rúgbrauðs orkustykki

Við erum afar hrifin af dönsku rúgbrauði, sérstaklega ef það er gróft með mikið af fræjum og kjörnum. Eins og á Íslandi fá Danir sér gjarnan orkustykki milli mála en hér eru svokallaðir „rugbarer“ úr rúgbrauðsdeigi, með hnetum og þurrkuðum ávöxtum mjög vinsælir.

Fyrst þarf að búa til rúgbrauðsdeigið (í rauninni má nota hvaða danska rúgbrauðsdeig sem er): 1 1/2 dl. vatn, 1/2 dl. kærnemælk, 3 gr ferskt pressuger, 3 gr salt, 60 gr rúgkjarnar (leggja í bleyti fyrst), 55 gr hörfræ, 35 gr sólblómafræ eða graskersfræ, 30 gr sesamfræ og 140 gr rúgmjöl. Deigið á að vera eins og þykkur grautur.

Hrærið saman geri, vökva og salti. Svo fræ og rúgmjöl út í og hnoðið í u.þ.b. 10 min.

Út í rúgrauðsdeigið fer: 100 gr þurrkaðir ávextir (ég notaði trönuber, rúsínur og döðlur), 100 gr hesilhnetur (eða hvaða hnetur sem er), 25 g haframjöl og 25 g hunang.

Setjið hráefnin í rúgbrauðsdeigið og hnoðið í smá stund eða þar til deigið er orðið jafnt. Skiptið deiginu jafnt í lítil smurð form (ég notaði lítil bollakökuform en það er hægt að nota hvað sem er) og leyfið að standa í a.m.k. 1 klukkutíma – gjarnan yfir nótt í ísskápnum. Deigið stækkar ekkert á þessum tíma en bragðið verður best ef deigið fær að standa yfir nótt.

Bakið í sirka 20 min. við 180°C, eða þar til rúgbrauðsstykkin eru orðin fallega brún og stökk að utan (fer mjög mikið eftir stærðinni á stykkjunum).

Hollt og gott nesti í fjallgöngu, hjólaferð, skólann eða vinnuna!

Páskar í Brussel og Brugge

Í páskafríinum okkar vorum við túristar í Belgíu. Eftir vinnu á miðvikudegi fyrir páska löbbuðum við út á metróstöð og enduðum á Kastrup flugvelli. Nokkrum klukkustundum síðar vorum við lent í Brussel, hungruð í belgískar vöfflur, frönskur, súkkulaði og endalaust af belgískum bjór!

Belgískar frönskur eru dásamlegar. Þær bestu eru steiktar í nautafeiti og bornar fram með majónesi! Við smökkuðum nokkrar:

Listaverk / Vinsæll staður og löng biðröð eftir belgískum frönskum

Við borðuðum stökkar en léttar Brussel vöfflur með flórsykri og heitar Liege vöfflur úr vöffluvögnum:

Brussel vöfflur eru ferkantaðar, stökkar að utan en mjúkar og loftkenndar að innan og eru borðaðar með flórsykri / Liege vöfflur eru úr gerdeigi og eldaðar með sykri sem myndar stökka og sæta húð. Belgar borða þessar vöfflur án meðlætis

Ásta ofurspennt með vöfflu við vöffluvagninn

Túristar við atómið að borða vöfflur

Við heimsóttum bari og drukkum himneska belgíska bjóra:

Moeder Lambic Fontainas

Kriek bjór

Bjór hjá Daisy á 't Brugs Beertje

Stundum fengum við okkur eitthvað með bjórnum:

Við skoðuðum einnig bjórbúðir og blúndur í glugga:

Og skelltum okkur í dagsferð til Brugge:

Ekki má gleyma belgísku súkkulaðinu:

Og svo fengum við sjúklega góðar makkarónur hjá Paul:

Yndisleg ferð og dásamlegur staður – páskarnir voru æði!

Sticky Buns á laugardegi

Við vorum ansi dugleg um helgina og hjóluðum rúma 45 km. í alls konar veðri. Á laugardaginn bökuðum við alveg hreint syndsamlega góða Sticky Buns, þ.e. kanilsnúðar bakaðir í karamellu og pekanhnetum. Og vá, hvað við vorum sátt með útkomuna!

Í deig fyrir 7 snúða þarf: 1/3 bolli nýmjólk (volg), 2 1/2 msk. sykur, 1 tsk. þurrger (ég notaði þó fersk pressuger), 1 stórt egg,  1 1/3 bolli hveiti, 1/2 tsk. salt og 1/4 bolli mjúkt ósaltað smjör.

Hitið mjólkina örlítið. Hrærið síðan geri og 1 msk. af sykri út í mjólkina og leyfið gerinu að leysast upp í mjólkinni. Bætið þarnæst eggi út í og hrærið. Setjið hveiti, salt, 1 1/2 msk. sykur í skál og hellið mjólkurblöndunni út í. Hnoðið í smá stund. Setjið smjörið út í deigið í nokkrum skömmtum og hnoðið þar til deigið verður teygjanlegt og slétt (tekur sirka 5 min. í hrærivél). Látið deigið í skál og inn í ísskáp í tvo klukkutíma. Eftir tvo tíma í ísskápnum er hægt að fletja út deigið.

Deigið eftir fáar min. / Deigið eftir hnoðun

Það má gera deigið og snúðana kvöldið áður og geyma í ísskápnum yfir nótt. Daginn eftir þarf þá bara taka snúðana út og leyfa þeim að lyfta sér á hlýjum stað í u.þ.b. 2 klukkutíma. Þetta gerðum við og gátum því bakað snúðana um leið og við komum heim úr hjólaferðinni okkar.

Næst þarf að huga að karamellunni því hún þarf að vera orðin köld áður en snúðarnir eru gerðir. Hráefnin í karamelluna eru: 1/4 bolli ósaltað smjör, rúmlega 1/4 bolli púðursykur, rúmlega 1/4 bolli rjómi, tæplega 1/4 bolli hunang, 1/8 tsk. salt og 1/8 tsk. rifinn appelsínu börk (má sleppa en gefur ótrúlega ferskt bragð). Hráefnin í pott og látið karamelluna sjóða í sirka 5 min.

Hellið karamellu í fatið sem þið ætlið að baka snúðana í svo botninn verður þakinn (sirka helmingur af karamellunni) og geymið hinn helminginn af karamellunni því hún fer ofan á snúðana.

Í fyllinguna þarf: 1/4 bolli mjúkt ósaltað smjör, 1/4 bolli púðursykur, rúmlega 1/4 tsk. kanill, 1/4 tsk. múskat og smá salt. Þar að auki tæplega 1 bolli pekanhnetur, hakkaðar og síðan ristaðar í ofni.

Hráefnin í skál og þeytið þar til fyllingin er orðin létt og frekar ljós á litinn. Fletjið út deigið í 5 mm. þykkt, smyrjið fyllinguna jafnt yfir deigið og dreifið 1/2 bolla pekanhnetum yfir. Rúllið deiginu í lengju og skerið í 7 jafna bita.

Dreifið 1/4 bolla pekanhnetum yfir karamelluna í fatinu og raðið snúðunum jafnt í fatið. Snúðarnir mega ekki snertast því þeir stækka mikið! Látið snúðana lyfta sér á hlýjum stað í 2 klukkutíma. Bakið við 180°C í 30-40 min. (fylgist vel með snúðunum eftir 25 min. og passið að baka þá ekki of lengi), eða þarf til snúðarnir eru fallega gylltir og karamellan vel bökuð. Ef snúðarnir verða fljótt dökkir að ofan er fínt að setja álpappír yfir til þess að brenna þá ekki.

Takið snúðana út úr ofninum og leyfið að kólna í smá stund. Hellið karamellu yfir snúðana, pekanhnetum og nokkrum grófum saltflögum.

Namm!