Taco með flatiron steik

Það er kominn tími á nýja bloggfærslu! Við vorum að koma heim úr dásamlegu ferðalagi um Ísland og erum endurnærð eftir þrjár góðar vikur í íslenskri náttúru. Áður en við fórum í sumarfrí fórum við í Matarbúrið hjá Dodda og keyptum fallega Flatiron nautasteik. Um helgina skelltum við steikinni á grillið og gerðum steikartacos með öllu tilheyrandi!

Steikskorintacos

Steikartacos

Steikin var það falleg að við vildum ekki gera of mikið við hana. Þess vegna létum við salt og pipar duga og grilluðum hana síðan í 3 mín á hverri hlið á miðlungsheitum kolum. Það skilar steikinni rétt yfir medium rare, sem passar fínt þar sem hún er skorin vel þunnt og gefur líka bestu áferðina á kjötinu í taco-inu.

SteikinDoddi

steikoggrænmeti

Meðlætið var sultaður rauðlaukur (uppskriftin er hér), guacamole (uppskriftin er hér), grillaður ferskur maís og chimichurri (uppskriftin er hér). Við vorum nýbúin að taka upp litla ferska lauka sem við ræktum í potti á svölunum okkar og okkur fannst því tilvalið að grilla þá líka.

laukur

Steiktacos

Mexíkósku flatkökurnar (tacos) gerðum við líka sjálfar (uppskriftin er hér). Til þess notuðum við nýju tortillupressuna sem við keyptum í New York í maí. Pressan léttir verkið töluvert og flatkökurnar verða fallegar og jafnar! Plastfilma er sett í pressuna til þess að deigið festist ekki í pressunni.

tacopressa

tacosdeig

Steikartacos

Sumarlegur og góður matur!

Grilluð flank steik og chimichurri

Annar mikill kostur við það að vera komin aftur heim til Íslands er að komast í mat beint frá býli. Einn af þeim bóndum sem við höfum heimsótt oft er hann Doddi í Matarbúrinu en Doddi selur frábært nautakjöt og er með flott úrval af vöðvum.

Í síðustu heimsókn okkar til Dodda keyptum við Flank steik sem er úr síðunni á nautinu. Kjötið er grófara og bragðmeira en hinir svokölluðu „prime cuts“ en á sama tíma líka töluvert ódýrari.

steikagrillinu

Við ákváðum að grilla kjötið en til að það takist vel þarf að gera tvennt; marinera kjötið (til að brjóta niður vöðvann) og elda það við háan hita.

Marineringin: Við skárum steikina niður í smærri bita til að hafa hana meðfærilegri á grillinu. Síðan settum við kjötið í marineringu. Marineringin er tælensk fiskisósa og smá pipar. Piprið kjötið og komið fyrir í fati. Hellið fiskisósu yfir þannig rétt fljóti yfir kjötið. Látið inn í ísskáp og leyfið því að vera þar í tæpan sólahring. Marinering gerir kjötið bæði meyrara ásamt því að dýpka bragðið af kjötinu.

grillhiti

Hár hiti: Kjötið á að grilla á eins háum hita og hægt er og þá örstutt (steikurnar sem við vorum með fengu 2 og hálfa mínútu á hverri hlið). Þannig verður það stötkt að utan , medium rare inn við miðju og mjög meyrt. Til að ná sem hæstum hita á grillinu prófaði ég að nota ný viðarkol frá Weber. Með viðarkolunum ásamt því að vera duglegur að blása á grillið náðum við hitanum upp í góðar 350°c og það var kjörið hitastig fyrir þessa tilraun. Þegar búið er að grilla kjötið þarf að leyfa því að hvíla í sirka 5-10 min. Loks er það skorið niður í þunnar sneiðar og þá er mjög mikilvægt að skera þvert á vöðvaþræðina!

steikoskorin

steiktilbuin

Með kjötinu grilluðum við grænmeti og gerðum chimichurri sósu (það gleymdist alveg að taka mynd af sósunni!). Sósan kemur frá Argentínu og nota þeir hana mikið með steikum og passaði hún alveg ljómandi með flank steikinni. Það er mjög auðvelt að leika sér með mismunandi hráefni í sósuna en uppistaða sósunnar er steinselja, olífuolía, einshvers konar sýra (t.d. edik eða sítróna) og hvítlaukur.

maisoglaukur

Auðveld chimichurri

 • Eitt búnt af steinselju
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 2-3 msk af olífuolíu
 • sítrónusafi eftir smekk
 • salt og pipar eftir smekk

Saxið steinselju og hvítlauku smátt og blandið saman. Hellið olíunni út í og hrærið mjög vel. Magn olíu fer eftir því hvernig steinseljan er og hversu fljótandi þið viljið sósuna. Sósan er síðan smökkuð til með sítrónusafa og salt og pipar. Góðar viðbætur út í sósuna er t.d. ferskt oreganó, chilí flögur, rauðvínsedik og shallotlaukur.

Kjötið var algjört lostæti og eldunin fljótleg og einföld – sannkallaður skyndibiti. Afgangarnir eru síðan frábærir í steikarsamloku daginn eftir!

Sumarlegt smørrebrød

Hvað er meira danskt en gott smørrebrød? Það þarf ekki mikið meira en nokkur góð hráefni til þess að búa til smørrebrød og það er alltaf svo skemmtilegt að borða fallega skreytt brauð með góðu áleggi. Hér eru nokkrar hugmyndir að smørrebrød með sumarlegu áleggi.

smörrebröd

Grænn aspas og linsoðið egg
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Grænn aspas
 • Linsoðin egg
 • Stökk svínapurra, mulin
 • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Smjörsteikið aspasinn í smá stund á heitri pönnu og raðið honum síðan á brauðið. Skerið linsoðið egg í tvennt og setjið ofan á aspasinn. Salt og pipar eftir smekk og stráið síðan smá af svínapurru yfir. Við vorum sérlega sátt með þetta smørrebrød. Aspasinn er enn smá stökkur og góður og samsetningin er æðisleg!

aspasogegg

Tómatar, camembert og beikon
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Tómatar
 • Þroskaður camembert
 • Beikon, stökkt
 • Karsi eða graslaukur
 • Salt og pipar

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið tómatana í sneiðar og raðið ofan á brauðið. Salt og pipar eftir smekk. Væn sneið af camembert ofan á tómatasneiðarnar og síðan ein sneið af stökku beikoni. Stráið að lokum karsa eða graslauk á brauðið. Tómatar, camembert og beikon er samsetning sem klikkar aldrei!

tomatarogbeikon

Nýjar kartöflur, steiktur laukur og sinnepsmajónes
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
 • Steiktur laukur
 • Majónes
 • Gróft sinnep
 • Karsi

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflurnar í sneiðar og raðað á brauðið. Hrærið majónesi og sinnepi eftir smekk saman og setjið smá á brauðið. Síðan karsa eftir smekk og steikur laukur efst.

nýjarkartölflur

Nýjar kartöflur, radísur og stökkar kartöflur
 • Rúgbrauð
 • Smjör
 • Nýjar kartöflur, soðnar og kældar
 • Radísur
 • Salt og pipar
 • Stökkar kartöfluflögur
 • Sítrónumajónes
 • Ferskt dill

Smyrjið rúgbrauðsneið með smjöri. Skerið kartöflur og radísur í sneiðar og raðað á brauðið. Sítrónumajónes og salt og pipar eftir smekk. Raðið síðan stökkum kartöfluflögum ofan á og skeytið með fersku dilli.

radísurogkartöflur

Njótið með góðum pilsner!

Falafel – Gómsætar kjúklingabaunabollur

Falafel – þessar litlu kjúklingabaunabollur sem eru stökkar að utan og mjúkar og safaríkar að innan klikkar ekki! Við höfum gert þessar kjúklingabaunabollur nokkrum sinnum og borðum þær í pítubrauði með gúrkum, papríku og salati og gerum einfalda jógúrtsósu með kryddjurtum með. Léttur og bragðgóður matur!

falafelpita

Falafel – kjúklingabaunabollur
 • 200 g þurrkaðar kjúklingabaunir, lagðar í bleyti í 12 klukkustundir
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 1 laukur
 • 1 tsk kóríanderduft
 • 2 tsk cuminduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1 lítil kartafla, rifin
 • 2 egg
 • 2 msk brauðmylsna
 • 1/4 tsk chillíduft
 • 1 msk sítrónusafi
 • Steinselja eftir smekk

Kjúklingabaunirnar eru lagðar í bleyti í 12 klukkustundir en þær eru ekki soðnar. Hellið vatninu frá og setjið í matvinnsluvél.

kjuklingabaunir

Látið öll hráefni í matvinnsluvélina og hakkið þar til úr verður frekar mjúkt og blautt deig. Hitið olíu í potti. Mótið litlar bollur úr deiginu með matskeið og steikið í olíunni þar til kjúklingabollurnar eru fallega gylltar. Látið á eldhúsrúllu, smá salt yfir og leyfið að kólna örlítið.

Það er lítið mál að frysta kjúklingabaunabollurnar og hita þær síðan bara örlítið í heitum ofni áður en þær eru bornar fram.

steiking

falafel

Verði ykkur að góðu!

Rauðrófuravíólí með geitaostafyllingu

Okkur finnst alltaf gaman að gera ravíólí og stundum er gaman að leika sér aðeins og prófa eitthvað nýtt. Um daginn gerðum bleikt pasta í fyrsta skipti  og fylltum með ljúffengri geitaostafyllingu. Bleiki liturinn kemur frá rauðrófumauki sem er sett í pastadeigið. Bragðið verður líka örlítið sætara en þegar notað er venjulegt pastadeig en það passaði vel við geitaostafyllinguna.

raudrofuravioli

Rauðrófuravíólí (f. 3-4)
 • 1 stór rauðrófa (eða 2 litlar)
 • 200 g pastahveiti
 • 1-2 egg

Fyrst þarf að elda rauðrófuna. Afhýðið og skerið rauðrófuna í litla bita (etv. smá olía svo hún verði ekki of þurr). Bakið í við 180°C þar til bitarnir eru vel mjúkir og leyfið síðan að kólna. Setjið rauðrófubitana í matvinnsluvél (eða notið töfrasprota) ásamt einu eggi og maukið þar til blandan er orðin silkimjúk. Látið pastahveiti í skál og setjið rauðrófumaukið út í og hnoðið. Ef deigið er mjög þurrt bætið á öðru eggi út í. Hnoðið vel, látið plastfilmu utan um deigið og kælið í u.þ.b. klukkustund.

bleiktpasta

raviolibleikt

ravioli

Geitaostafylling
 • lítill vel þroskaður geitaostur (hvítmyglan skorin af)
 • 250 g ricottaostur
 • múskat eftir smekk
 • rifinn börkur af hálfri sítrónu
 • salt og pipar eftir smekk

Skerið geitaostinn í litla bita og hrærið saman við ricottaostinn. Látið ostablönduna í eldfast mót og bakið í 10 min., eða þar til geitaosturinn er bráðnaður. Hrærið vel í ostablöndunni og setjið síðan múska, sítrónubörk og salt og pipar eftir smekk.

Flejtið út pastadeigið, skammtið geitaostafyllingunni jafnt á deigið og búið til pastakodda. Sjóðið í söltu vatni og berið fram heitt. Við settum smá brennt smjör með örlítið af sítrónuberki og rifinn parmesan á ravíólíið. Það var fullkomið!

raviolirautt

Verði ykkur að góðu!

Egg Benedict og spínatbrauð

Á laugardaginn gerðum við Egg Benedict á spínatbrauði en við fengum hugmyndina hjá The Fabulous Baker Brothers, sjónvarpsþættir sem er verið að sýna núna á föstudögum hérna í DK. Spínatbrauðið (e. spinach muffin) kom skemmtilega á óvart, það var einfalt og ofboðslega bragðgott, en hleypt egg og góð hollandaise sósa stendur svo sannarlega alltaf fyrir sínu!

eggbenedictspinat

Spínatbrauð 4 stk
 • 15 g smjör
 • 1 tsk sykur
 • 1 1/2 dl mjólk
 • 5 g ferskt pressuger
 • u.þ.b. 100 g ferskt spínat
 • múskat eftir smekk
 • 225 g hveiti
 • salt eftir smekk

Bræðið smjör og sykur í potti, hellið mjólkinni út í og síðan geri. Hærið vel. Setjið spínat út í heitu mjólkina, múskat og salt eftir smekk og takið af hitanum. Látið hveiti í hræriskál og hellið mjólkinni með spínatinu út í hveitið. Hnoðið deigið í 10 min á frekar hægum hraða. Deigið verður eiturgrænt og fallegt! Látið plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að lyftast í 30 min á hlýjum stað.

deigid

Stráið hveiti yfir deigið og fletjið það örlítið út svo það verði um 1 cm á þykkt. Notið lítið hringform til þess að stinga út 4 brauð. Eldið brauðin á þurri pönnu í 5 min á hvorri hlið og leyfið þeim síðan að kólna örlítið.

spinatbollur

Hollandaise sósa
 • 125 g smjör
 • 1/2 tsk hvítvínsedik
 • 1 eggjarauða
 • salt og pipar eftir smekk
 • smá sítrónusafi

Bræðið smjör í potti. Setjið eggjarauðu, edik og salt í skál og hitið yfir vatnsbaði og þeytið eggjarauðurnar þar til blandan þykknar. Hellið nú smjörinu út í eggjablönduna í mjórri bunu og þeytið vel á meðan. Salt og pipar ásamt sítrónusafa eftir smekk og þá er hollandaise sósan tilbúin.

Rífið (eða skerið) spínatbrauðin í tvennt. Setjið góða skinku ofan á brauðið, síðan hleypt egg og hollandaise sósu á eggið. Verði ykkur að góðu!

Mexíkósk veisla

Eins og áður hefur komið fram og lesa má af þessu bloggi þá finnst okkur mjög gaman af mat – hvort sem það er að elda hann, borða, skrifa um eða lesa sér til um mat en síðan horfum við líka á mismunandi matreiðsluþætti. Á einni sjónvarpsstöðinni hérna í DK er verið að sýna 3. seríu af ástralska Masterchef – þættir sem eru virkilega skemmtilegir og ofboðslega jákvæðir. Þar er sko enginn Gordan Ramsay öskrandi á fólk.

Einn af keppundum í þáttunum hefur mikið dálæti af mexíkóskri matargerð og hefur galdrað fram marga mjög girnilega rétti. Með þessi rétti sem innblástur ákváðum við að gera okkar eigin mexíkóska veislu hérna heima sem tókst barasta svona ljómandi vel.

Stjörnurnar í þessari máltíð eru svínakjötið og heimagerðu mexíkönsku flatkökurnar en það óvænta var hins vegar hversu vel sultaði rauðlaukurinn náði að fullkomna samsetninguna af þessu hráefnum.

taco
Hægeldaður svínahnakki (e. pulled pork)
 • 2 þurrkaðir ancho chillí
 • 2 þurrkaðir de árbol chillí
 • 2 msk sykur
 • 1 msk limesafi
 • 1,5 kg svínahnakki
 • duglega af salti
 • 2 msk olíu
 • 2 miðlungs laukar
 • 3 hvílauksgeira
 • 2 lárviðarlauf
 • 2 tsk oreganó
 • 2 tsk kóríander
 • 2 tsk cuminduft
 • 1/2 tsk allspice
 • flaska af dökkum bjór

Hellið sjóðandi heitu vatni yfir þessar tvær tegundir af chillí og leyfið að liggja í bleyti í 30 min. Passið að vatnið þeki vel, t.d. með því að þrysta chillí niður með skál. Saltið svínahnakkann duglega á meðan.

Takið chillí upp úr vatninu en geymið 1/2 dl af vatninu. Setjið chillí, limesafa og sykur í matvinnsluvél og maukið vel. Berið mauk á svínahnakkann og leyfið að standa í a.m.k. klukkustund. Best er þó að leyfa þessu að standa í kæli yfir nótt.

Saxið lauk og hvítlauk og hitið olíu á pönnu. Steikið lauk og krydd í olíunni þar til laukurinn er orðinn vel mjúkur, u.þ.b. 10 min. Hellið nú bjór yfir laukinn á pönnunni og náið upp suðu. Setjið svínahnakka út í, látið lok á pönnuna og náið aftur upp suðu. Færið pönnuna inn í 115 °C heitan ofn og bakið í 4 1/2 – 6 klukkutíma, eða þar til kjarnhiti svínsins er 91 °C.

Þegar svínahnakkinn er tilbúinn leyfið honum þá að standa við stofuhita í 30 min. Færið kjötið yfir í fat og notið tvo gaffla til þess að rífa kjötið niður. Hellið sósuna af pönnunni út í kjötið þar til kjötið er vel safaríkt.

Mexíkóskar flatkökur
 • 250 g masa harina hveiti (maíshveiti)
 • 330 ml heitt vatn
 • smá salt

Hveiti og salt í skál og hellið heitu vatni út í. Hrærið vel, setjið plast yfir og leyfið deiginu að standa í 15 min. Mótið litlar kúlur úr deiginu og fletjið í tortillupressu eða með kökukefli á milli tveggja arka af bökunarpappír (eða plastpoka). Deigið er mjög viðkvæmt og það er ekki hægt að snerta það mikið. Penslið með smá olíu og steikið á heitri pönnu í 1-2 min á hverri hlið.

Sultaður rauðlaukur
 • 1 dl eplaedik
 • 1 msk sykur
 • 1 1/2 tsk salt
 • 1 rauðlaukur, þunnt skorinn

Eplaedik, sykur og salt í skál og hrærið vel svo sykur og salt leysist vel upp í vökvanum. Setjið rauðlauk ofan í vökvann og leyfið að standa í klukkustund við stofuhita áður en laukurinn er borinn fram. Þá á laukurinn að vera orðinn fallega bleikur á litinn. Það er vel hægt að gera laukinn fyrr og geyma hann í kæli.

Guacamole með fersku kóríander
 • 2 avókadó, vel þroskuð
 • ferskur kóríander eftir smekk
 • salt eftir smekk
 • limesafi eftir smekk

Skerið avókadóin í tvennt, takið steininn úr og fjarlægið hýðið. Skerið ávaxtakjötið í nokkra bita og setjið í matvinnsluvél (eða töfrasprota) ásamt kóríender og maukið vel. Salt og limesafi eftir smekk.

Ferskt tómatsalsa
 • 1/2 laukur, skorinn þunnt og í litla bita
 • u.þ.b. 500 g tómatar, skornir í litla bita
 • ferskur kóríander eftir smekk, saxaður
 • salt eftir smekk

Skerið laukinn og hellið síðan örlítið af sjóðandi vatni fyrir hann. Það tekur sterka laukbragðið af lauknum. Látið vatn renna af lauknum og setjið hann síðan í skál ásamt tómötum, kóríander og salt eftir smekk. Hrærið vel.

Síðan er bara að raða smá af svínahnakka á flatköku (einnig er gott að setja smá af osti neðst), guacamole, tómatsalsa og sultaður rauðlaukur með. Ferskur limesafi eftir smekk og rétturinn er fullkominn!

tacos

Laukbaka með geitaosti

Eins og kom fram í færslunni okkar um lauksúpuna keyptum við 5 kg af lauk um daginn. Við eigum enn nokkur kíló eftir og því gerðum við þessa gómsætu laukböku með geitaosti sem sló rækilega í gegn!

laukbakaheil

Laukbaka með geitaosti

Botninn:
 • 90 g smjör
 • 1 msk olía
 • 3 msk vatn
 • 1/4 tsk salt
 • 200 g hveiti

Látið smjör, olíu, vatn og salt í eldfast mót. Komið eldföstu mótinu fyrir í 210°C heitum ofni og hitið þar til smjörið er farið að verða örlítið brennt. Passið ykkur vel þegar þið takið eldfasta mótið út úr ofninum því smjörið er MJÖG heitt!

Stráið hveiti yfir smjörblönduna og hrærið vel. Leyfið deiginu að kólna aðeins og setjið það síðan í bökumót. Þrýstið deiginu jafnt í mótið svo botninn verði sléttur og fallegur. Gatið deigið hér og þar með gaffli og bakið síðan í 20 min. við 200°C.

Fylling:
 • 4-5 stórir laukar
 • u.þ.b. 20 g smjör
 • 1 tsk sykur (laukurinn verður fyrr gylltur)
 • 1 msk balsamik edik
 • Geitaostur

Skerið laukana í þunnar sneiðar. Brærið smjör á pönnu og steikið laukinn með sykri á vægum hita þar til laukurinn er orðinn vel mjúkur og gylltur á litinn. Hrærið þá balsamik ediki út í og hitið í 1 min.

Hellið fyllingunni í bökumótið og raðið sneiðum af geitaosti ofan á. Bakið við 200 °C í u.þ.b. 20 min, eða þar til geitaosturinn er bráðnaður og fallega gylltur.

bakaskorin

laukbakasneid

Mmmmmm….

Frönsk lauksúpa

Um daginn fórum við í verslunarferð í Bilka og keyptum m.a. 5 kg af lauk því hann var á mjög fínu verði! Þess vegna höfum við verið dugleg að elda rétti með lauk og eitt kvöldið gerðum við þessa dásamlegu frönsku lauksúpu eftir Juliu Child.

Lauksúpa (f. 4)
 • u.þ.b. 350 g laukur, skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 1/2 msk smjör
 • 1/2 msk olía
 • 1/2 tsk salt
 • 1/8 tsk sykur (svo laukurinn verði fallega brúnn)
 • 1 1/2 msk hveiti
 • 1 liter nautasoð
 • 1/2 dl hvítvín (má sleppa)
 • u.þ.b. 1 msk koníak (má sleppa)

Steikið lauk í smjöri og olíu á lágum hita með loki í u.þ.b. 15 min. Takið þá lokið af, hækkið hitann og hrærið salti og sykur út í. Steikið laukinn í 30 – 40 min., eða þar til hann er orðinn fallega brúnn og vel mjúkur. Passið að hræra ekki alltof mikið í lauknum á meðan því þá verður hann að mauki.

Hrærið hveiti út í og eldið áfram í 3 min. svo hveitibragðið hverfi. Látið nú nautasoð, hvítvín og salt út í og leyfið þessu að malla í 30 – 40 min. Koníak út í súpuna og hrærið vel.

Ostabrauð
 • Gott brauð, skorið í brauðsneiðar
 • Rifinn ostur eftir smekk

Ristið brauðsneiðarnar í ofni á 200 °C þar til þær eru orðnar vel dökkar á litinn (ekki brenna samt!). Það er mikilvægt að brauðið sé vel ristað því annars verður það strax mjúkt þegar það fer í súpuna. Látið rifinn ost yfir og bakið þar til osturinn er bráðnaður og fallega gylltur. Ausið súpu í skál og ostabrauð ofan á.

Bon appetit!

Ravíólí með sætum kartöflum, prosciutto og parmesanosti

Fyrsta kvöldmáltíðin eftir góða heimsókn heim til Íslands síðustu daga var þetta dýrindis ravólí með sætum kartöflum, prosciutto og parmesanosti.

Við erum búin að vera með ravíólívél í pössun í nokkurn tíma en höfum aldrei komist í það að prófa vélina. Þar sem komið var að því að skila henni núna um helgina var tækifærið notað og við skelltum í pasta. Við völdum fyllingu sem yðri mátulega mjúk en þó ekki fljótandi því við héldum að þá myndi vélin virka hvað best. Tilraunin tókst prýðilega og allir koddarnir urðu eins en þegar við gerum þá sjálf verða þeir misstórir og eru þá oftast um 3 munnbitar á stærð.

Pastadeig (ravíólí fyrir 3)
 • 250 gr. pastahveiti
 • 3 egg

Hnoðið, látið plastfilmu utan um deigið og geymið í ísskáp í um klukkutíma.

Fylling (ravíólí fyrir 3)
 • 400 gr. sætar kartöflur
 • 1 makkaróna (ekki þessar með fyllingu! má sleppa og nota smá sykur í staðinn)
 • 1 lítil eggjarauða
 • 1 1/2 msk. prosciutto, skorin í litla bita
 • 85 gr. rifinn parmesanostur
 • 1 1/2 msk. steinselja, söxuð
 • múskathneta eftir smekk
 • salt eftir smekk

Skrælið kartöflurnar og skerið í nokkra bita. Látið á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið við 200°C þar til kartaflan er orðin mjúk. Myljið makkarónukökuna og látið í matvinnsluvél ásamt kartöflunni, steinselju, prosciutto, parmesanosti og eggjarauðu og maukið vel. Salt og múskat eftir smekk.

Fletjið pastadeigið frekar þunnt, setjið fyllinguna á flötina, penslið kantana með vatni eða eggi og lokið. Skerið síðan í sundur og passið að allir endar séu lokaðir, súrt að fá þessa góðu fyllingu bara út í pastavatnið.  Sjóðið í stórum potti í söltu vatni þar til tilbúið (tekur sirka 3-4 mínútur). Að þessu sinni notuðum við pastavél til þess að fylla koddana (eins og sést á myndinni).

Með þessu höfðum við einfalda rjóma- og smjörsósu, rifinn parmesanostur yfir, einfalt salat og kalt hvítvín með.

Ljúffengur kvöldverður!