Grillaður lambahryggvöðvi

Fátt er nokkuð betra en íslenska lambakjötið.

Veðrið núna síðustu daga er búið að vera alveg frábært og til að fagna því þá ákváðum við að grilla okkur íslenskt lambakjöt sem við áttum í frystinum. Kjötið var síðan borið fram með syndsamlega góðum kartöflum, sinneps- og graslaukssósu og einföldu salati.

Kjötið

Fyrst er að vinna lambakjötið. Fitulagið ofan á kjötinu er um það bil besti parturinn þegar það er rétt eldað, þ.e. þegar hún er orðin að stökkri purru. Til þess að fá hana þannig þarf að fjarlægja efstu himnuna af fitunni (þar liggur lopabragðið sem fer í svo marga). Skerið síðan teninga í fituna (eða eitthvað annað form sem ykkur girnist). Passið að mynstrið sé þétt skorið og ekki sé skorið niður í kjötið.

Næst þarf að krydda kjötið. Við höfðum þetta einfalt og notuðum ferskar kryddjurtir úr kryddjurtagarðinum okkar og smá pipar. Kryddjurtirnar voru rósmarín, timjan, graslauk, steinselju og örlítið af myntu, en það má auðvitað nota hvaða kryddjurtir sem er. Hellið smá olíu yfir kjötið og nýmalaður pipar yfir. Saxið kryddjurtirnar gróft og stráið þeim síðan yfir kjötið. Leyfið kjötinu að standa a.m.k. 1 klukkustund en best er að gera þetta kvöldið áður og leyfa kjötinu að standa yfir nótt.

Grillið lambakjötið á heitu grilli – meirihluta tímans á fitunni. Eldunartíminn fer auðvitað eftir hitastigi grillsins og stærð kjötsins en við grilluðum okkar í 8 min. og leyfðum því síðan að jafna sig í 10 min. áður en það var skorið.

Með kjötinu höfðum við Önnu kartöflur (Pommes Anna), þunnskornar kartöflur bakaðar í ljúffengu kryddsmjöri, og heimagerða sinneps- og graslaukssósu (uppskriftin er hér). Uppskriftin að Önnu kartöflunum verður birt síðar.

Sönn íslensk veisla!

Graskerssúpa og hvítlauks- og ostaslaufur

Í vikunni keyptum við hokkaido grasker og elduðum þessa ljúffengu graskerssúpu á köldum haustdegi. Við höfum ekki eldað mikið úr graskerum enda eru grasker kannski ekki eins algeng á Íslandi og í öðrum löndum. En nú er hins vegar kjörið tækifæri fyrir okkur að prófa sig áfram því allar búðir eru fullar af alls konar litríkum og skrautlegum graskerum!

Graskerssúpa (fyrir 4-5 manns)
 • Hokkaido grasker (eða önnur tegund), u.þ.b. 1 kg á þyngd
 • 4 hvítlauksgeirar (með hýði)
 • 1 laukur
 • 1 1/2 l. kjúklingasoð
 • 1 dl. matreiðslurjómi eða mjólk
 • 100 gr. rjómaostur
 • 2 msk. brúnn muscovado sykur (eða púðursykur)
 • 1 rauður chilí
 • 2 tsk. karrí
 • 1/2 tsk. kóríander
 • salt eftir smekk

Skerið graskerið í sundur og notið skeið til þess að ná fræjum út. Skerið graskerið í litla bita – athugið að það er mjög hart og því er nauðsynlegt að nota góðan og stóran hníf í verkið. Látið á bökunarplötu með bökunarpappír ásamt hvítlauksgeirum (með hýði!) og hellið örlítið af olíu yfir. Bakið við 190°C. Takið hvítlauksgeirana út eftir 15-20 min. og geymið, en graskerið þarf u.þ.b. 50 min. í ofninum. Tíminn fer auðvitað eftir stærð á graskersbitunum en þeir eiga vera vel mjúkir og jafnvel smá brúnir að ofan.

Saxið lauk og chilí og steikið á pönnu í smá olíu þar til laukurinn er orðinn örlítið mjúkur. Karrí og kóríander út í og steikið í smá stund. Látið nú hvítlaukinn (án hýði), rjómaostinn, matreiðslurjómann, kjúklingasoðið, sykur, salt og graskersbitana út í og leyfið þessu að malla í 15 min.
Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til áferðin er silkimjúk. Ótrulega bragðgóð og seðjandi súpa!

Ofan á súpuna stráði ég ristuðum graskersfræjum sem ég tók úr graskerinu í byrjun, þreif og ristaði síðan í dágóðan tíma á þurri pönnu.

Hvítlauks- og ostaslaufur
 •  220 gr. hveiti (hægt að nota heilhveiti líka)
 • 1 tsk salt.
 • 5 gr. ferskt pressuger
 • 160 ml. vatn
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 25 gr. smjör
 • 100 gr. rifinn ostur

Vatn og ger í skál og hrærið vel. Salt og hveiti út í hnoðið þar til deigið er slétt og fínt. Leyfið deiginu að lyfta sér á hlýjum stað í 30 min. eða lengur. (Þessa uppskrift nota ég líka þegar ég bý til einfalda og fljótlega heimatilbúna pitsu!) Fletjið deigið hæfilega þunnt. Saxið hvítlauksgeirann og látið í pott ásamt smjöri. Bræðið smjörið og smyrjið jafnt á helminginn af deiginu. Ostur yfir og leggið helminginn af deiginu yfir svo lögin séu nú 2 (sjá mynd). Skerið í 8 lengjur, snúið upp á þær slaufurnar og raðið á bökunarplötu með bökunarpappír. Leyfið slaufunum að lyfta sér í u.þ.b. 30 min.


Bakið við 220°C  í u.þ.b. 15 min, eða þar til fallegur litur er kominn á slaufurnar og osturinn bráðnaður.

Mjúkar saltkringlur

Það er október og haustið er komið til Kaupmannahafnar. Það er búið að vera ansi blautt enda hefur rignt flesta daga undanfarið. Við erum þess vegna búin að vera mikið heima og höfum þá fundið okkur eitthvað skemmtilegt að gera inni á meðan mestu rigningunni stendur á. Síðustu helgi bakaði ég þessar dásamlegu saltkringur sem við borðuðum sennipart dags og drukkum góðan hveitibjór með. Saltkringlurnar eru klárlega uppáhalds bjórsnakkið!

Uppskriftin er með fordeigi sem þarf að búa til kvöldið áður og saltkringlurnar eru bæði soðnar og bakaðar.

Mjúkar saltkringlur (10 stk.):

Fordeig:
 • 50 gr. hveiti
 • 1/2 dl. vatn
 • u.þ.b. 1 gr. ferskt pressuger

Hrærið saman í skál og leyfið að standa við stofuhita yfir nótt.

Deig:
 • fordeig
 • 115 ml. vatn
 • 150 ml. mjólk
 • 10 gr. ferskt pressuger
 • 450 gr. hveiti
 • 10 gr. salt
 • 5 gr. sykur
 • 15 gr. mjúkt smjör

Fordeig, vatn, mjólk og ger í skál og hrærið vel saman. Salt, sykur, hveiti og smjör út í og hnoðið í u.þ.b. 10 min., eða þar til deigið er slétt og fallegt. Leyfið að lyfta sér í 30 min.

Síðan þarf að móta saltkringlurnar. Skiptið deiginu í 10 jafnstóra hluta. Rúllið hvern hluta í mjóa lengju og mótið síðan kringlu. Raðið kringlunum á plötu með bökunarpappír (eða disk með bökunarpappír ef platan passar ekki inn í ísskáp) og látið inn í ísskáp í 30 min. Þetta er gert til þess að kæla deigið svo það sé auðveldara að sjóða þær áður en þær eru bakaðar í ofni.

Blandið 1/2 dl. af matarsóda út í 1 liter af vatni og náið upp suðu. Sjóðið hverja kringlu í 30 sek. og raðið þeim á bökunarplötu með bökunarpappír. Penslið með eggi og stráið grófu salti yfir. Bakið við 225°C í 15-20 min., eða þar til kringlurnar eru orðnar fallega dökkar á litinn.

Njótið með góðum bjór!

Grilluð Svínarif

Fyrir ekki svo löngu síðan fórum við okkar fyrstu heimsókn á Jægerborgsgötu en í þeirri götu er heill hellingur af skemmtilegum búðum og matsölustöðum. Ein af búðunum er kjötverslun sem bóndi hér á Sjálandi er með. Búðin er bara opin 3 daga í viku en þar selur bóndinn svínakjöt frá eigin býli og kjúkling, nauta- og kálfakjöt frá nærliggjandi bæjum. Við keyptum alveg ótrúlega flott „baby back“ svínaríf og notuðum eina alveg skothelda aðferð til að gera súper djúsí rif.

Matreiðslan er í tveimum stigum þar sem rifin er fyrst bökuð og síðan grilluð. Best er að láta dag líða á milli því þá nær bragðið að þroskast betur. Einnig er auðveldara að grilla rifin þegar maður leyfir þeim að kólna fyrst – að öðrum kosti er hætta á að þau detti bara í sundur á grillinu þar sem þau eru einfaldlega það djúsí!

Svínarif

Dagur 1

Byrjum á að setja kryddblöndu yfir rifin (eftirfarandi hlutföll miðað við 1,5kg af svínarifjum)

 • 1 msk. salt
 • 1/2 msk. sinnepsduft
 • 1/2 msk. paprika
 • 1/4 tsk. cayenne pipar
 • 1/4 tsk. nýmalaður svartur pipar

Hverju rifi er pakkað í álpappír og síðan bökuð við 180°c í ofni í 2 klukkustundir. Rifin eru þá u.þ.b. við það að detta í sundur! Nú þarf að opna hvern álpappírspakka með rifi og hella soðinu sem rifið liggur í í bolla (Þetta er vonandi 1 1/2 dl af soði). Geymið soðið! Rifin eru aftur pökkuð í álpappír og sett í kæli.

Dagur 2

Fyrst er undirbúa BBQ sósuna. Hitið soðið frá því í gær í litlum potti og látið 1 1/2 dl. af uppáhalds BBQ sósunni þinni út í. 2/3 af sósunni er notuð til þess að pensla rifin en 1/3 af henni er borin fram með rifjunum eftir grillun (geymið því 1/3 af sósunni).

Rifin eru grilluð á miðlungs heitu grilli, pensluð með sósunni, lítið í einu. Snúið þeim reglulega þar sem þau brenna auðveldlega út af sósunni. Það tekur u.þ.b. 10 min. að hita rifin alveg í gegn.

Rifin eru nú tilbúin og borin fram með 1/3 af sósunni og góðu meðlæti, t.d. maís og ferskt salat.

Verði ykkur að góðu!