Hvítur aspas með sinneps- og trufflukremi

Maímánuður er mánuður aspasins og í síðustu viku fór að fást danskur hvítur aspas. Ég hef aldrei áður eldað ferkan hvítan aspas og man heldur ekki eftir því að hafa borðað hann þannig. Um síðustu helgi fórum við hins vegar út að borða á Madklubben með góðum gestum frá Íslandi og þar var þessi fíni hvítur aspas í forrétt! Ég bjó síðan til mína útgáfu af réttinum hérna heima sem tókst ansi vel.

Sinneps- og trufflekremið er í rauninni bara majónes með truffluolíu, sýrðum rjóma og dijon sinnepi. Hráefnin í kremið eru: 1 eggjarauða, 1/2 tsk. salt, 1/2 tsk. pipar, 1 1/2 dl. olía, 1 msk. hvítvínsedik, 1 msk. truffluolía (má sleppa ef maður fær hana ekki en hún gefur samt mjög gott bragð), 50 g. sýrður rjómi og u.þ.b. 1/2 tsk. dijon sinnep.

Látið eggjarauðu, salt og pipar í skál og þeytið í smá stund þar til eggjarauðan fer að þykkna. Hellið olíu í mjórri bunu, hægt og rólega, út í eggjarauðuna og þeytið vel á meðan. Þeytið þar til hræran fer að þykkna. Hrærið þá edik og truffluolíu út í, sýrður rjómi og dijon sinnep út í að lokum.

Skrælið aspasinn (5 cm frá toppinum og alveg niður). Sjóðið í vatni með 1 tsk. salti, 1/2 tsk. sykur og smá smjöri þar til aspasinn er mátulega mjúkur.

Setjið sinneps- og trufflukrem á disk, raðið aspasinum ofan á kremið. Smá pipar og steinselja yfir að lokum.

Verði ykkur að góðu!

Calzone með skinku og sveppum

Sumarið er svo sannarlega komið til Kaupmannahafnar og undanfarnir dagar hafa verið u.þ.b. 25°C og sól. Grasið á Íslandsbryggju er fullt af fólki í sólbaði og alls staðar má sjá fáklætt fólk með svalandi drykki eða ís. Í kvöld elduðum við Calzone (innbökuð pitsa) með skinku og sveppum sem var frábær kvöldverður eftir alltof heitan vinnudag.

Fyrst þarf að búa til pitsudeig en í Calzone fyrir 2 þarf: 5 g. ferkt pressuger, 1 tsk. sykur, 1 msk. ólífuolía, u.þ.b. 1 1/2 dl vatn, 200 g. tipo 00 hveiti og 50 g. gróft durum hveiti (líka hægt að nota venjulegt hveiti og durum hveiti  (eða semolina) á móti).

Setjið vatn, ger, sykur og salt í skál og hrærið saman. Hveiti út í ásamt ólífuolíu og hnoðið þar til deigið er teygjanlegt og slétt. Rakt stykki yfir og látið lyfta sér í a.m.k. klukkustund á hlýjum stað.

Í fyllinguna notaðuðum við: pitsusósu, sveppi, hvítlauk, skinku, ferkan mozzarella, basilíku, oreganó, salt og pipar – allt eftir smekk.

Skerið sveppi í þunnar sneiðar, saxið hvítlauk og steikjið í smá smjöri þar til sveppirnir eru fallega brúnir. Þannig verða þeir ekki of blautir í fyllingunni. Skerið skinkuna í bita. Skiptið deiginu í tvo jafn stóra hluta og fletjið deigið hæfilega þunnt. Smyrjið pitsusósu á deigið, dreifið sveppum og skinku jafnt yfir. Tætið mozzarella yfir, kryddið með basilíku, oreganó, salti og pipar eftir smekk.

Leggið helminginn af deiginu yfir fyllinguna og lokið þannig pitsunni. Brettið upp kantinn svo fyllinginn leki ekki út. Bakið í 220 °C ofni þar til liturinn á deiginu er fallega gylltur.

Mmmmmmmmmmm……….

Aspas, radísur og fljótandi eggjarauða

Á föstudaginn fórum við Dröfn í stelpuferð út að borða á Spiseri & enotek í Nýhöfn 14. Maturinn var virkilega góður en forrétturinn var þó alveg einstaklega fallegur og ljúffengur og kom skemmtilega á óvart!

Ég ákvað því að gera tilraun að réttinum hérna heima þar sem ég var ný búin að kaupa nýjar danskar radísur og hef lengi verið að leita að ástæðu til þess að kaupa ferskan aspas sem fæst nú í öllum búðum hér í Kaupmannahöfn.

Uppskriftin er sérlega einföld og eiginlega bara upptalning af hráefnum. Hráefnin í pasta með aspas, radísum og fljótandi eggjarauð eru: Pasta (ég bjó til pasta en það má líka alveg nota keypt/þurrkað), ferskur aspas, ferskar radísur, parmesanostur, egg, olífuolía og truffluolía, salt og pipar.

Byrjið á því að skera niður apasinn frekar gróft og radísurnar í tvennt.Sjóðið pasta í söltuðu vatni. Hitið olíu á pönnu og steikið aspas og radísur í smá stund (á að vera aðeins stökkt undir tönn). Látið pasta út á pönnuna og blandið því við grænmetið á pönnunni. Salt og pipar eftir smekk. Flögur af parmesanosti yfir og smá af truffluolíu. Hleypt egg (e. poached egg) ofan á pastaréttinn og smá pipar yfir.

Ótrúlega skemmtileg og sumarleg samsetning!

Møn ís og útilega

Um helgina fórum við í okkar fyrstu útilegu á þessu ári sem var einnig fyrsta útilegan okkar hér í Danmörku. Við tókum til tjald, svefnpoka og annan útilegubúnað og keyrðum til Møn, náttúruperlu Danmerkur. Veðrið var gott, sól og heiðskýrt en ekki of heitt – veður sem hentar okkur einstaklega vel!

Við fórum í langar göngur við Møns Klint, skoðuðum náttúruna og slökuðum á.

Á leiðinni heim aftur fengum við okkur Møn ís beint frá býli og skoðuðum beljur í leiðinni.

Alvöru rjómaís og sjúklega góður!

Panna cotta

Panna cotta er fallegur og ljúffengur ítalskur eftirréttur. Dásamlega einfaldur og í rauninni bara vanillubúðingur með sósu! Við erum búin að prófa þrjár mismunandi tegundir af sósu, allar ofboðslega góðar og fljótlegar.

Til þess að búa til panna cotta fyrir 3 þarf: 2 1/2 dl. rjómi, 1/2 dl. mjólk, 50 gr sykur, 1/2 vanillustöng, smá rifinn sítrónubörk og 2 blöð matarlím.

Panna cotta með ástaraldini

Mýkið matarlímið í köldu vatni í smá stund. Hitið rjóma, mjólk, sykur, vanillu og sítrónubörk þar til sykurinn leysist upp og rjómablandan er orðin heit. Matarlím út í og hrærið vel. Skiptið rjómablöndunni jafnt í 3 form og kælið þar til blandan hefur stífnað (tekur nokkra klukkutíma).

Það eru til ýmsar sósur fyrir panna cotta. Berjasósur eru mjög algengar en við erum búin að prófa eina berjasósu, sósu úr ástaraldini og eina karamellusósu. Uppistaða ávaxtasósanna er í rauninni bara ávextirnir og sykur eftir smekk. Í ástaraldinsósuna er gott að setja eplasafa með til þess að bæta við vökva. Ef sósan er of þunn má þykkja hana með smá maizenamjöli.

Verði ykkur að góðu!