Föstudagskvöld eru pítsukvöld hjá okkur en við förum alltaf annaðhvort í pítsu til foreldra Péturs eða búum okkur sjálf til pítsu hérna heima. Síðasta föstudag gerðum við pönnupítsur en þá eru pítsurnar settar á heita steypujárnspönnu og beint inn í sjóðheitan ofn. Pítsubotninn verður vel stökkur en pítsan er samt ótrúlega létt og ljúffeng!
Það er lykilatriði að setja ekki of mikið á pítsuna og 175 g af áleggi (sósa, álegg og ostur) er algjört hámark. Við gerðum eina margherita pítsu og eina með ananas og skinku. Þær voru báðar ótrúlega góðar.
Pönnupítsa
- 100 g pítsudeig (við gerðum deigið kvöldið áður en létum það standa við stofuhita)
- 175 g álegg (pítsusósa, rifinn mozzarella ostur og annað álegg)
- 85 ml hitaþolin olía
Hitið ofninn í 240-260°C (eins hátt og hægt er). Best er að kveikja á ofninum klukkutíma áður en það á að baka pítsurnar því ofninn þarf að vera mjög heitur. Fletjið pítsudeigið þunnt og látið deigið á pítsuspaða (við eigum ekki þannig en notuðum skurðarbretti í staðinn – þá þarf að passa að hafa hveiti á brettinu). Setjið álegg á pítsubotninn. Hellið olíu á steypujárnspönnu og hitið þar til það rýkur úr olíunni. Látið pítsuna þá renna af pítsuspaðanum á pönnuna (passið ykkur á olíunni því hún er rjúkandi heit!!) og setjið pönnuna strax inn í ofn. Bakið í u.þ.b. 5 min., eða þar til pítsan er tilbúin.
Náið pítsunni af pönnunni og komið henni fyrir á eldhúspappír á meðan hún kólnar örlítið. Skerið síðan í sneiðar og njótið.
Verði ykkur að góðu!